Kvikmyndir

Don’t Torture a Duckling

Leikstjórn: Lucio Fulci
Handrit: Gianfranco Clerici, Lucio Fulci og Roberto Gianviti
Leikarar: Florinda Bolkan, Thomas Milian, Barbara Bouchet, Irene Papas, Marc Porel og Georges Wilson
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1972
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0069019
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þegar nokkrir unglingspiltar finnast myrtir hver á fætur öðrum í ítölskum smábæ, tryllast íbúarnir og leita hefnda á hverjum þeim, sem fellur undir grun. Meðal hinna grunuðu er ung auðmannsdóttir, sem slæst í lið með samviskusömum blaðamanni á staðnum í von um að geta sannað sakleysi sitt.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Síðan 1963 hafa Ítalir gert fjölda spennumynda, sem í daglegu tali eru jafnan nefndar gular (giallo á ítölsku). Nafngiftin er dregin af gulleitum kápumyndum á ódýrum en vinsælum ítölskum morðgátum í anda Agötu Christie og Edgars Wallace, þar sem ungar og fagrar konur voru yfirleitt sýndar í neyð. Gulu kvikmyndirnar reyndust mjög umdeildar, enda gengu þær yfirleitt mun lengra í ofbeldisatriðunum en tíðkast hafði í Bandaríkjunum og Bretlandi. Fyrir vikið voru sumar þeirra bannaðar víða um heim og má jafnvel finna nokkrar slíkar á bannlista íslenska kvikmyndaeftirlitsins. Enda þótt Don’t Torture a Duckling sé ekki á þeim lista, er óhætt að segja, að hún sé ekki fyrir viðkvæma.

Atriðið, þar sem ættingjar unglingspiltanna gera upp sakirnar við einn hinna grunuðu, er sérstaklega hrottafengið, en viðkomandi er barinn með keðjum og kylfum og síðan skilinn eftir í blóði sínu í kirkjugarði. Fórnarlambið nær samt að skríða upp á þjóðveginn en enginn miskunsamur Samverji kemur til hjálpar heldur líta allir í burt og keyra fram hjá. Hefndaratriðið sýnir glögglega alvarleika þess, þegar almenningur tekur lögin í sínar hendur, því að jafnt lögreglan sem áhorfendur höfðu skömmu áður sannfærst um sakleysi viðkomandi. Skiptir engu máli þótt samviska fórnarlambsins hafi ekki verið með öllu flekklaus, ljótleiki ofbeldisins áréttar aðeins alvarleika þess og tilgangsleysi.

Í rauninni er persónusköpunin heilt yfir bölsýn. Það er enga hetju að finna í anda Hollywood og flestir eru breyskir og hafa ýmislegt misjafnt að fela. Á það ekki síst við um þann, sem nær loks að fletta ofan af morðingjanum, en það gerir hann fyrst og fremst til að dylja eigin misgjörðir.

Samkvæmt myndinni er dreifbýlissamfélagið bæði frumstætt og hjátrúarfullt. Rómversk-kaþólska kirkjan nær til alls samfélagsins en til hliðar við hana lifa galdrar og önnur hjátrú góðu lífi. Bölvun fellur sannarlega á alla þá, sem galdrinum er beint að í myndinni, en segja má, að hann komi ekki síður niður á þeim, sem honum beitir.

Ástæða morðanna reynist loks vera trúarlegs eðlis, en morðinginn vildi bjarga piltunum frá glötun áður en kynhvötin leiddi þá til falls. Syndafallið er því eins og svo oft áður tengt kynlífinu og það sagt óhreint. Auðvitað ristir guðfræðin grunnt en myndin er glæsilega gerð og ánægjuleg tilbreyting frá Hollywood.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Hliðstæður við texta trúarrits: Lk 10:30-32
Guðfræðistef: náð Guðs
Siðfræðistef: misnotkun, hefnd, helgun
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan, galdrar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: dýrlingur, jesúmynd, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: jarðarför, bæn, signing