Kvikmyndir

El crimen del padre Amaro

Leikstjórn: Carlos Carrera
Handrit: Vicente Leñero, byggt á skáldsögu eftir Eça de Queirós
Leikarar: Gael García Bernal, Sancho Gracia, Ana Claudia Talancón, Damián Alcázar, Angélica Aragón, Luisa Huertas, Ernesto Gómez Cruz, Gastón Melo, Andrés Montiel, Gerardo Moscoso, Alfredo Gonzáles, Pedro Armendáriz Jr., Verónica Langer og Lorenzo de Rodas
Upprunaland: Mexikó, Spánn, Argentína og Frakkland
Ár: 2002
Lengd: 118mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Einlægur og trúaður 24 ára gamall rómverk-kaþólskur prestur, Amaro að nafni, kemur til lítillar sóknar í Los Reyes í Mexíkó. Þar kynnist hann 16 ára gamalli þokkadís, Amelíu að nafni og takast með þeim ástir. Smátt og smátt dregst Amaro inn í spillingarvef kirkjunnar en á sama tíma glatar hann sakleysi sínu, hugsjónum og sveindómi.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Glæpir föður Amaros (El crimen del padre Amaro) var strax umdeild, meira að segja áður en hún fór í kvikmyndahús. Rómversk-kaþólska kirkjan barðasti hatramlega gegn myndinni en eins og ávallt varð gagnrýnin aðeins til þess að vekja athygli á henni og auka aðsókn á hana. Það var t.d. uppselt á allar sýningar á opnunarhelgi myndarinnar.

Leikstjórinn Carlos Carrera hefur fengist við kvikmyndagerð frá 12 ára aldri, en hann hóf feril sinn í teiknimyndagerð. Eftir kvikmyndanám í Mexíkó gerði hann fyrstu leiknu mynd sína í fullri lengd, La Mujer de Benjamín (1991), en fyrir hana fékk hann the Mexican Academy Award fyrir handritið sem og fjöldann allan af verðlaunum á öðrum hátíðum. Eftir aðra mynd sína, La vida conyugal (1993), gerði hann stuttu teiknimyndina El Carrera made Héroe (1994) en hún fékk Gullna pálmann á Cannes. Glæpir föður Amaros var tilnefnd sem besta erlenda myndin á Golden Globe og Óskarinum. Þá var hún tilnefnd til 12 mexíkanskra Ariel verðlauna.

Myndin verður seint talin til stórverka þegar kemur að klippingu, en hún er vægast sagt pirrandi. Klippingar eru grófar og yfirleitt rangt staðsettar. Hins vegar á Ana Claudia Talancón mikið hrós fyrir leik sinn sem Amelia, auk þess sem skemmir ekki fyrir að hún er einstaklega fögur í þokkabót. Að öðru leyti skil ég ekki hvers vegna myndin hafi verið tilnefnd til allra þessara verðlauna. Persónusköpunin er í flestum tilfellum ótrúverðug sem og mikið af því sem aðalpersóna myndarinnar gerir.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eitt af megin þemum kvikmyndarinnar er skírlífsheit presta rómversk-kaþólsku kirkjunnar. Afstaða myndarinnar er augljós hvað þetta varðar, þ.e. að manninum sé eðlislægt að elska og því sé það hreint og beint hættulegt að meina prestum að kvænast. Það er ekki aðeins hættulegt prestunum sjálfum og trú þeirra heldur einnig safnaðarmeðlimunum. Leikstjórinn áréttar þetta á vef myndarinnar en þar segir hann meðal annars:
„Skírlífi er ein elsta og umdeildasta kenning prestdómsins. Þetta er þung lífsregla því að prestsembættið leysir mann ekki undan náttúrulegum hvötum. Prestar eru menn, óendanlega breyskir, með þrár eins og allir aðrir. Þessi persónulega barátta og átök innan kirkjunnar þegar hún reynir að uppfylla skyldur sínar er að mínu mati meginboðskapur Glæps föður Amaros.“

Hræsnin sést ekki aðeins í því að prestarnir eru með hjákonur, kallaðar hórur kirkjunnar, heldur einnig í því að þeir skuli predika að andi og hold séu eitt þrátt fyrir að þeir verði að meina sér um holdið. Það er áhugavert að Ljóðaljóðin skuli koma nokkuð við sögu í þessari trúarbaráttu Amaros, en þegar hann og Amelía elskast í fyrsta skiptið þylur hann upp vers úr þeim til að réttlæta gjörðir sínar. Þar sem ég sá myndina í bíó gat ég ekki gengið úr skugga um hvaða kafla úr Ljóðaljóðunum hann fór með en mér heyrðist það vera þessi (4:1-11):
„Já, fögur ertu, vina mín, já, fögur ertu. Augu þín eru dúfuaugu fyrir innan skýluraufina. Hár þitt er eins og geitahjörð, sem rennur niður Gíleaðfjall. Tennur þínar eru eins og hópur af nýklipptum ám, sem koma af sundi, sem allar eru tvílembdar og engin lamblaus meðal þeirra. Varir þínar eru eins og skarlatsband og munnur þinn yndislegur. Vangi þinn er eins og kinn á granatepli út um skýluraufina. Háls þinn er eins og Davíðsturn, reistur fyrir hernumin vopn. Þúsund skildir hanga á honum, allar törgur kappanna. Brjóst þín eru eins og tveir rádýrskálfar, skóggeitar-tvíburar, sem eru á beit meðal liljanna. Þar til kular af degi og skuggarnir flýja, vil ég ganga til myrruhólsins og til reykelsishæðarinnar. Öll ertu fögur, vina mín, og á þér eru engin lýti. Með mér frá Líbanon, brúður, með mér skaltu koma frá Líbanon! Lít niður frá Amanatindi, frá Senír- og Hermontindi, frá bælum ljónanna, frá fjöllum pardusdýranna. Þú hefir rænt hjarta mínu, systir mín, brúður, þú hefir rænt hjarta mínu með einu augnatilliti þínu, með einni festi af hálsskarti þínu. Hversu ljúf er ást þín, systir mín, brúður, hversu miklu dýrmætari er ást þín en vín og angan smyrsla þinna heldur en öll ilmföng. Hunangsseimur drýpur af vörum þínum, brúður, hunang og mjólk er undir tungu þinni, og ilmur klæða þinna er eins og Líbanonsilmur.“

Ljóðaljóðin eru ein merkasta bók Biblíunnar. Margir hafa furðað sig á því að bókin skuli vera hluti af Biblíunni, en á miðöldum var tilvist hennar réttlæt með því að halda því fram að þau væru í raun allegóría um Jesúm Krist. Margir guðfræðingar líta hins vegar svo á að hér sé enginn táknræn merking á ferð heldur ósköp venjuleg ástarljóð og það í holdlegri kantinum.

Tilvist Ljóðaljóðanna og sú staðreynd að þau séu hluti af Biblíunni verður hluti af sjálfsréttlætingu Amaros en hann skýtur inn á milli versanna að þetta sé úr Ljóðaljóðunum og að hún sé heilög bók. Amelía tekur síðan þátt í réttlætingunni og bendir á að ástin sé gjöf frá Guði. Þessi notkun á Ljóðaljóðunum er reyndar nokkuð hefðbundin í kvikmyndum en þau eru nánast undantekningarlaust notuð í ástarsenum. Síðari notkun Ljóðaljóðanna er hins vegar allt annað en hefðbundin en þá er þessi sami texti tengdur dauða Amelíu en Amaro hefur hann aftur yfir þegar hún deyr í fangi hans.

Það er mjög skiljanlegt að rómversk-kaþólska kirkjan skuli hafa mótmælt þessari mynd, enda er boðskapur hennar sá að kirkjan sé grundvölluð á lygum og hræsni. Eini geðþekki presturinn í myndinni er bannfærður vegna þess að hann aðhyllist frelsunarguðfræði og neitar að yfirgefa þjáða bændur sem eiturlyfjabarónar hafa hrekið á brott. Til að bæta gráu ofan á svart er ástæða bannfæringarinnar sögð vera sú að kirkjan eigi á hættu að verða af tekjum frá eiturlyfjasölunum ef prestar hennar hætta ekki að styðja bændurna.

Myndin fjallar einnig um það hvort hollusta hinna trúuðu eigi að vera við kirkjuna eða Guð. Samkvæmt myndinni hefur kirkjan yfirgefið veg Drottins og því getur þetta tvennt ekki farið saman.

Þótt tekið sé á þörfum hlutum í myndinni er gagnrýnin svo yfirdrifin að hún missir marks. Það er t.d. hæpið að nokkur prestur, sem tekur trúna alvarlega þótt hann eigi í baráttu við eigin kenndir, myndi kyssa stelpu fyrir framan altarið í kirkjunni og hvað þá sveipa hana klæðum Maríu meyjar þegar þau elskast. Þá er persónusköpun Amaros víða ótrúverðug. Myndin byrjar t.d. á því að sýna hann sem góða og gegnumheila sál, sem hjálpar öllum þurfandi. En á undraskömmum tíma er hann farinn að ljúga og syndga án trúverðugra skýringa.

Leikstjórinn segir á opinberri síðu myndarinnar að myndin fjalli ekki um illar gjörðir einstaklinganna heldur miklu frekar hversu flóknar hvatir mannsins séu. Það er einmitt hér sem myndin bregst. Það skortir alla dýpt. Ég mæli því frekar með eðalmyndinniPriest (1994) fyrir þá sem vilja kynna sér vanda rómversk-kaþólsku kirkjunnar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 2M 20:1-17; 3M 56-21; Ll 4:1-11; Mt 3:17; Mt 17:5; Mk 1:11; Mk 9:7; Lk 3:22; Jh 1:29; 1Kor 13; Tim 2:16-19
Persónur úr trúarritum: Heródes, Antóníus, Jósef, María mey, Guð, heilagur andi, Jesús Kristur, Satan
Guðfræðistef: þrenningin, kraftaverk, iðrun, kirkjan, guðlast, syndin, kynlíf, meinlæti, ást, frelsunarguðfræði, skírlífi, trú
Siðfræðistef: kynlíf, stolt, girnd, ofbeldi, fyrirgefning, fóstureyðing, útför, lygi, kúgun, mútur, hollusta, hræsni, morð, eiturlyfjasala, rán, hjálpsemi, sjálfsfróun
Trúarbrögð: Rómversk-kaþólska kirkjan, frelsunarguðfræði
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, kirkja, kapella
Trúarleg tákn: dúfa, kross, róðukross, altari
Trúarleg embætti: nunna, biskup, prestur
Trúarlegt atferli og siðir: skírn, fyrsta altarisgangan, bæn, signing, fjárframlög, særingar
Trúarleg reynsla: köllun