Kvikmyndir

Elizabeth: The Virgin Queen

Leikstjórn: Shekhar Kapur
Handrit: Michael Hirst
Leikarar: Cate Blanchett, Geoffrey Rush, Joseph Fiennes, Christopher Eccleston, Richard Attenborough, Rod Culbertson, Paul Fox, Liz Giles, Terence Rigby, James Frain, Peter Stockbridge, Fanny Ardant, Vincent Cassel, Emily Mortimer, John Gielgud, Jean-Pierre Léaud, Amanda Ryan, Kathy Burke og Shekhar Kapur
Upprunaland: Bretland
Ár: 1998
Lengd: 119mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Mótmælandinn Elísabet I. Englandsdrottning sætti margþættu mótlæti í lífinu. Faðir hennar Hinrik VIII ýmist rak eiginkonur sínar frá sér eða lét lífláta þær og meðan eldri systir hennar, sem var rómversk-kaþólsk, var drottning lét hún hneppa hana í varðhald í ótta um að mótmælendur kynnu að steypa sér af stóli og koma henni til valdar. Fljótlega eftir að Elísabet I. kemst sjálf til valda koma valdamiklir aðalsmenn við hirðina sér saman um að steypa henni af stóli með fulltingi páfans og Spánarkonungs, en valdarán þeirra mistekst. Í kjölfar þess ákveður drottningin að helga líf sitt að öllu leyti þjóð sinni og það gerist samkvæmt túlkun myndarinnar með því að hún samsamast hlutverki og persónu Maríu meyjar.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Elizabeth: The Virgin Queen er áhrifamikið listaverk sem fjallar af djúpu innsæi um ævi Elísabetar I. Englandsdrottningar og hvernig henni tókst að gera ríki sitt að stórveldi þrátt fyrir að trúarátök og stjórnmáladeilur hafi svo til sundrað því. Leikstjóranum Shekhar Kapur, sem er breskur ríkisborgari ættaður frá Pakistan, hefur tekist að skapa listaverk sem á sannarlega erindi til almennings. Handbragðið er allt fagmannlegt og leikararnir frábærir í hlutverkum sínum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í þeirri greiningu sem á eftir fer er gengið út frá því að María mey, María guðsmóðir, sé mikilvæg kvenímynd og mögnuð erkitýpa fyrir þá sem alist hafa upp í kristinni hefð, ekki síst í rómversk-kaþólsku kirkjunni, en einnig í trúarlífi og alþýðumenningu meðal mótmælenda þótt hún birtist þar stundum í ýmsum felumyndum. Hún er ímynd móðurinnar. Fyrir konur er hún ímynd kvenlegra dyggða og fyrir karla getur hún magnast sem anima, ímynd konunnar sem þeir dá og elska. Ekki er þó endilega um að ræða boðun Maríutrúar. María mey á einfaldlega hlutdeild í lífi þess fólks sem kemur við sögu, óskum þess, þrám og vonum. Sem slík getur hún birst á örlagastundum bæði með beinum og óbeinum hætti.

Hápunktur kvikmyndarinnar Meydrottningin Elísabet er þegar drottningin unga (Cate Blanchett) samsamast hlutverki Maríu guðsmóður á örlagastundu í lífi sínu og verður Maríugervingur. Um leið finnur hún sjálfa sig í augliti styttunar af Maríu á altarinu í hallarkirkjunni. Hér er því einnig um að ræða einsömun. Hún verður fyrir einhverju sem líkist einna helst trúarlegu afturhvarfi um leið og hún gengur inn í pólitískt hlutverk sitt sem þjóðhöfðingi.

Leikstjórinn gefur snemma í myndinni vísbendingar um að María guðsmóðir eigi eftir að leika lykilhlutverk í myndinni. Systir Elísabetu, María Tudor hin kaþólska, sem ríkti á undan henni, óttast að andstæðingar sínir, mótmælendurnir, ætli að steypa sér af stóli og krýna ríkisarfann Elísabeti í staðinn. Elísabet er því hneppt í varðhald og færð fyrir drottninguna sem er orðin sjúk. Dyr opnast á vegg sem er þakinn stórri mynd af Maríu með barnið. Elísabet stendur við vegginn og höfuð hennar ber við höfuð barnsins sem hvílir í örmum móður sinnar og nærist við nakið brjóst hennar. Listigarðurinn, umhverfi Maríu og barnsins, er alger andstæða hallarinnar. Fegurð náttúrunnar og litadýrð blómanna skírskotar til aldingarðsins Eden eða til Paradísar. Innileikinn í líkamlegu og andlegu sambandi móður og barns er áberandi og stingur mjög í stúf við kaldranalegt andrúmsloftið og drungann í salarkynnum hallarinnar þar sem fyrirfólk, þernur og þjónar eru öll kappklædd í einkennisbúningum sínum og hlífðarfötum.

Þær systur hafa báðar fulla ástæðu til blendinnar afstöðu til föður síns Hinriks VIII sem ýmist rak eiginkonur sínar frá sér eða lét aflífa þær. Uppeldisaðstæður þeirra hafa vafalaust skilið eftir djúp spor í sálarlífi þeirra og persónuleika. Hvorug þeirra varð þeirrar hamingju aðnjótandi að eignast barn. Mótlæti í einkalífinu, uppreisnir andstæðinganna og launráð ýmsra ráðgjafa hafa án efa aukið á öryggisleysi þeirra og þrá eftir trúnaði og vernd. Báðar þurftu þær að endurnærast og styrkjast í því trúartrausti sem vaknar í sambandinu við móðurina. Fyrir Maríu Tudor var það sjálfsagt mál að beina bænum sínum til Maríu guðsmóður vegna opinberar trúarafstöðu sinnar, en fyrir Elísabeti var það allt annað en sjálfsagt mál.

María Tudor reynir sáttaleiðina og lætur sækja systur sína í svartholið. Sú leið gengur út á að Elísabet lofi að banna ekki þegnunum að tigna Maríu mey og beina bænum sínum til hennar ef hún kemst til valda. Á þetta getur Elísabet ekki sæst og verðirnir fylgja henni aftur í varðhaldið. Elísabet var mótmælandi og þegar hún komst til valda tryggði hún sjálfstæði ensku biskupakirkjunnar gagnvart páfanum í Róm sem lét bannfæra hana sem trúvilling og hvatti þegnana til að steypa henni af stóli.

Í lok myndarinnar reiðir leikstjórinn fram lykilinn að skilningi á þeirri einstöku valdastöðu sem Elísabet ávann sér meðal þegnanna sem þjóðhöfðingi og verndari. Hún kom í staðin fyrir Maríu mey. Þar með varð staða hennar sem þjóðhöfðingi trúverðug. Henni tókst að ná til fólksins og sameina ólíka hagsmuni með það fyrir augum að styrkja þjóðríkið. Krýningardagur hennar 17. nóvember varð eins konar þjóðhátíðardagur Englendinga.

Aðdragandinn að samsömuninni við Maríu mey er samsæri rómversk-kaþólskra gegn Elísabetu á fyrstu valdaárum hennar. Valdamiklir aðalsmenn við hirð hennar koma sér saman um að steypa henni af stóli með fulltingi páfans og góðum stuðningi Spánarkonungs. Það kemst upp um samsærið og hinir seku eru miskunnarlaust teknir af lífi. Elskhugi drottningarinnar, Dudley hertogi, er meðal samsærismannanna en drottningin þyrmir lífi hans til þess eins, eins og hún segir Walsingham ráðgjafa sínum, sem vill höggva hann, að minna sig á hversu hætt hún var komin.

Drottningin unga er örmagna og hugsjúk eftir þessa hryllilegu atburði og leitar skjóls í hallarkirkjunni þar sem stytta af Maríu mey er á altarinu. Hún er ein. Elskhuginn reyndist kvæntur og landráðamaður í þokkabót og ráðgjafar hennar eru miskunnarlausir og kaldlyndir. Hvar getur hún fengið hlýju, uppörvun, leiðbeiningu og styrk? Hvaða fyrirmynd hefur hún til að líta upp til? Faðir hennar hafði látið taka móður hennar af lífi. Hún hafði naumlega sloppið undan exi systur sinnar og frænka hennar, María Stúart Skotadrottning, hafði setið á svikráðum við hana tilbúin að hrifsa til sín drottningartignina. Ímynd sína verður hún því að sækja út fyrir ramma fjölskyldu sinnar.

Eins og áður segir samsamast Elísabet Maríu guðsmóður og gengur inn í drottningarhlutverkið sem hin upphafna meyja, sameiningartákn sem Englendingar eiga að trúa á og lúta ­ sameiningartákn sem gerir þjóðina að einni heild, sterkri heild. Og það tókst. England varð að einu fremsta ríki Evrópu á 45 ára valdaferli Elísabetar. Samsömunin við Maríu mey gæti virst út í hött að því leyti að Elísabet var bæði leiðtogi og tákn mótmælenda í andstöðunni við rómversku kirkjuna og þess vegna hlaut hún að hafna Maríudýrkun og dýrlingatrú kirkjunnar. En þetta verður einmitt kjarni málsins, eins og sir Francis Walshingham ráðjafi hennar, í frábærri túlkun Geofreys Ruch, er látinn segja. „Fólkið þarf eitthvað að trúa á þegar Maríu himnadrottningu hefur verið steypt af stalli.“ Elísabet kemur í staðinn fyrir Maríu mey, tekur við valdahlutverki hennar. Fórnin sem hún verður að færa er ástin.

Bretar hafa æ síðan velt fyrir sér sögulegum heimildum og rökum fullyrðinga um meydóm Elísabetar drottningar. Það gerir einnig höfundur myndarinnar og sitt sýnist hverjum um það hvernig hann lítur á málið, en staðreyndin er sú að Elísabet fórnar jarðneskum ástum fyrir hlutverkið sem sameiningartákn. Það er henni samt ekki þrautalaust. Þegar hún hefur tekið á sig gervi meydrottningarinnar gengur hún á dreglinum upp að hásætinu, sorgmædd í einstæðingsskap sínum og elskhugi hennar fyrrverandi er aðeins einn í hópi aðdáenda hennar. Sagnfræðingar segja að hún hafi aldrei talað við hann í einrúmi eftir valdaránstilraunina, en hún var sífellt með hugann við hann og hvíslaði nafn hans á dánarbeði sínu rétt fyrir andlátið.

Opinber málverk af Elísabetu eru eins og íkonamyndir. Hún er ein á toppnum, hvorki eiginmaður eða börn skyggja á hana eða draga athyglina frá henni. Meydrottningin er ein í allri sinni dýrð og kjóllinn hennar vísar til möttulsins sem María ber og breiðir yfir þegna sína. Allir þræðir liggja til hennar og hún sér allt því að kjóllinn er, eins og sést á samtímamálverkum af henni, alsettur augum.

Meydrottningarhlutverkið sló fæturna undan öllum áformum um að England gengi inn í ríkjasamsteypu vegna hugsanlegs hjónabands hennar. Barnleysi hennar kom í veg fyrir samsærisáform andstæðinganna sem hefðu viljað gera bandalag við afkomanda hennar um krúnuna. Meydrottningarembættið styrkti einingu ríkisins og stöðu Elísabetar sem þjóðhöfðingja. Hún var hvorki bundin aðstæðum eða hagsmunum fjölskyldu eða venslafólks. Meydrottningarhlutverkið styrkti myndugleika hennar sem þjóðhöfðingja og hliðstæðan við Maríu mey renndi trúarlegum stoðum undir stjórn hennar. Hún var, eins og hún sagði sjálf, gift og gefin ensku þjóðinni og þegnarnir urðu börnin hennar. Þessi nýji stíll sló í gegn. Friður, velmegun, listir og vísindi efldust undir verndandi og alsjáandi mötli Elísabetar I. Hún sameinaði ríki og kirkju og festi umburðarlyndi á þeirra tíma mælikvarða í sessi og meðalhóf (via media) varð aðalsmerki enskra stjórnmála og forsenda nútímalegrar framfarahyggju. Í nýja heiminum var stofnað fylki sem við hana er kennt og kallað Virginía. Grunnur var lagður að breska heimsveldinu sem hélt velli allt fram á 20. öld og enn sér þau spor sem það hefur sett í alþjóðastjórnmálum og menningu þjóða.

Nánari umfjöllun um myndina og aðrar sambærilegar myndir þar sem finna má maríugervinga er að finna í greininniMaría mey í þremur kvikmyndum – greining í ljósi djúpsálarfræðinnar.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 37:11, Mt 5:5, Mt 6:24, Mt 7:15, Lk 16:13, 1Kor 3:16-19
Hliðstæður við texta trúarrits: 1Kon 21:23
Persónur úr trúarritum: María mey, Elísabet I. páfi, Guð faðir, Jesús Kristur, dýrlingur, heilagur andi, djöfullinn
Guðfræðistef: meydómur, guðsmóðir, maríugervingur, paradís, trúvilla, bannfæring, samband ríkis og kirkju, dýrlingatrú, leiðsögn Guðs, réttlæti, samviska, synd, almætti, glötun, sakramenti, kraftaverk, barnsburður, frelsun, guðstrú, hjónaband, trúareining, fyrirætlun Guðs, helvíti, þrenging, líkaminn sem musteri Guðs, efi um tilvist Guðs, þjóðkirkja, ríkiskirkja
Siðfræðistef: samsæri, morð, launráð, dauðarefsing, aftaka, kvenímynd, ást, hatur, miskunnarleysi, kaldlyndi, meðalhóf, friður, tortryggni, ótti, valdarán, varðhald, trúnaður, vernd, landráð, pyntingar, lauslæti, hefnd, þjáning, stríð, ráðgjöf, hjónaskilnaður, fjölkvæni, óskilgetinn
Trúarbrögð: kristindómur, rómversk-kaþólska kirkjan, anglíkanska kirkjan, mótmælendur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: hallarkirkja, kapella
Trúarleg tákn: kross, róðukross, maríumynd, jesúmynd, maríustytta, altari, íkoni, skriftarstóll, bænabók
Trúarleg embætti: prestur, biskup, páfi
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, bannfæring, maríudýrkun, dýrlingadýrkun, fórn, kirkjuklukknahringing, þakkargjörð, grátbeiðni, krýning, skriftir, signun, síðasta smurninginn, meinlæti, svipuhögg, tilbeiðsla
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: krýningarhátíð, messa
Trúarleg reynsla: afturhvarf, krýning, samsömun, einsömun, píslarvætti