Leikstjórn: Susanne Bier
Handrit: Susanne Bier og Anders Thomas Jensen
Leikarar: Mads Mikkelsen, Sonja Richter, Nikolaj Lie Kaas, Paprika Steen, Stine Bjerregaard, Birthe Neumann, Niels Olsen, Ulf Pilgaard, Ronnie Hiort Lorenzen, Pelle Bang Sørensen, Anders Nyborg, Ida Dwinger, Philip Zandén og Michel Castenholt
Upprunaland: Danmörk
Ár: 2002
Lengd: 113mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Cæcilie og Joachim eru yfir sig ástfangin og staðráðin í að giftast þegar kona að nafni Marie keyrir á Joachim með þeim afleiðingum að hann lamast fyrir neðan mitti. Eiginmaður Marie, Niels, býðst þá til að hugga Cæcilie í sorg hennar en endar með því að falla fyrir henni.
Almennt um myndina:
Kvikmyndin Elsker dig for evigt er dogmamynd, en svo kallast þær kvikmyndir sem fylgja ákveðnum „dogma“ reglum sem settar voru af nokkrum dönskum kvikmyndagerðarmönnum árið 1995. Reglurnar ganga m.a. út á það að það megi ekki byggja sérstakt svið; það megi aðeins nota umhverfishljóð; það megi ekki nota þrífót fyrir kvikmyndavélina; aðeins megi styðjast við náttúrulega lýsingu; ekki megi nota tæknibrellur; myndin megi ekki falla í einn kvikmyndaflokk (svo sem spennumynd, stríðsmynd…) og hlutföll myndarinnar verði að vera 1.33:1.
Þrátt fyrir að Elsker dig for evigt eigi að vera dogmamynd er myndavélin furðu lítið á hreyfingu. Þá leyfa kvikmyndagerðarmennirnir sér að nota aðra áferð á filmuna þegar myndin lýsir innri þrá, en ekki raunveruleika. Þetta heppnast mjög vel, þótt líklega sé verið að brjóta eitt af dogma-boðorðunum. Þá get ég ekki betur séð en að þetta sé hrein dramamynd, og því hægt að flokka hana undir einn kvikmyndaflokk, nokkuð sem er bannað samkvæmt dogmareglunum.
Leikstjóri myndarinnar er Susanne Bier, en hún útskrifaðist úr Danska kvikmyndaskólanum árið 1987. Susanne hefur nú leikstýrt tíu myndum en frægust þeirra er án vafa Den eneste ene (1999) sem sló öll aðsóknarmet í Danmörku. Þessi nýjasta mynd hennar hefur hlotið fjöldann allan af verðlaunum og má þar t.d. nefna Bodil Verðlaunin sem besta danska myndin en leikarar myndarinnar sópuðu einnig til sín sömu verðlaunum. Þá hlaut myndin alþjóðlegu gagnrýnendaverðlaunin (FIPRESCI) á alþjóðlegu Toronto kvikmyndahátíðinni.
Susanne Bier skrifaði handrit myndarinnar með Anders Thomas Jensen, en hann skrifaði handrit kvikmynda á borð við Mifunes sidste sang (1999); I Kina spiser de hunde (1999); Blinkende lygter (2000) og Gamle mænd i nye biler (2002)
Í það heila er hér áhrifamikil mynd á ferðinni, en styrkur hennar felst einna helst í góðu handriti og frábærum leik og leikstjórn.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni er komið inn á mörg siðfræði- og trúarstef. Eðlilegast er að byrja á nafni myndarinnar, þ.e. heitinu að elska einhvern að eilífu. Í myndinni er því velt upp hvernig nokkur geti heitið slíku. Getum við í raun lofað nokkru, þar sem við vitum ekki hvað framtíðin ber í skauti sér. Þegar Cæcilie reynir t.d. að fá Joachim ofan af því að fara í fjallaklif, vegna þess að hún vill ekki vera ekkja, aðeins 25 ára gömul svarar hann: „Það mun ekkert gerast. Ég lofa því.“ Aðeins stuttu síðar er keyrt á Joachim og framtíð parsins stefnt í óvissu. Og þetta eru ekki einu heitin í myndinni. Marie og Niels eru gift og hafa líklega þurft að fara með áþekk heit í giftingarathöfninni. Samt kulnar samband þeirra og Niels fellir hug til Cæcilie. Og meira að segja samband Niels og Cæcilie er ekki tryggt, þótt Niels yfirgefi fjölskyldu sína og flytji til hennar. Það er þessi hræðilega óvissa um framtíðina sem svífur yfir vötnunum.
Sektarkennd er annað fyrirferðamikið stef í myndinni, en allar aðalpersónurnar eru þjakaðar af henni. Marie kennir sér um að hafa keyrt á Joachim og dóttir hennar Stine (sem var einnig í bílnum) kennir sér um að hafa beðið móður sína um að keyra hraðar og fyrir að hafa rifist við hana rétt fyrir slysið. Niels grunar konu sína um að hafa borið ábyrgð á slysinu en reynir með veikum mætti að sannfæra hana og sjálfan sig um að það hafi ekki verið henni að kenna. Cæcilie kennir sjálfri sér einnig um slysið, þótt hún hafi ekki átt neinn þátt í því. Það er átakanlegt að í myndinni er lygin notuð til að fyrra sig ábyrgð og takast á við sorgina. Lygin virðist hins vegar vera lítil hjálp og aðeins draga það á langinn að allir hlutaðeigandi takist á við sorgir sínar og samviskubit.
Áhugaverðasta guðfræðivísunin í myndinni er notkun á eplum. Niels er með tvö epli í poka og gefur Cæcilie annað þeirra. Þau bíta síðan í eplin á sama tíma en strax á eftir virðist Niels fá kynferðislegar langanir aftur. (Gefið er í skyn að áhugi hans á því sviði hafi verið eitthvað takmakaður upp á síðkastið). Fljótlega eftir þetta eplaát byrjar ástarsamband Niels og Cæcilie. Þetta er sérstaklega áhugavert í ljósi þess að hefð er fyrir því að líta svo á að kynlífið sé hluti af falli mannsins. „Eplið“ í sögunni af Adam og Evu hefur því fengið kynferðislega merkingu, og er oftast notað í tenglsum við framhjáhald eða holdleg sambönd. Það er viðeigandi að framhjáhaldið rústar þeirri einingu sem til staðar er og skilur alla eftir í enn meiri sárum, n.k. smækkuð útgáfa af syndarfallinu.
Að lokum má geta þess að í myndinni er tekið á sálrænum afleiðingum þess að lamast. Eftir slysið er Joachim bitur út í lífið og svo fullur sjálfsvorkunnar að honum er lífsins ómögulegt að taka tillit til tilfinninga annarra. Í raun virðist eina lífsnautn hans felast í því að særa aðra í kringum sig, rétt eins og hann vilji tryggja að aðrir gangi í gegnum sömu þjáningar og hann sjálfur.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Guðfræðistef: örlög, sorg, samviskubit, synd
Siðfræðistef: þrá, framhjáhald, heit, lygi, samkynhneigð, heiðarleiki, biturð, heift
Trúarleg tákn: epli, jólatré, jólastjarna
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól