Kvikmyndir

Et Dieu… créa la femme (…And God Created Woman)

Leikstjórn: Roger Vadim
Handrit: Roger Vadim og Raoul Lévy
Leikarar: Brigitte Bardot, Curd Jürgens, Jean-Louis Trintignant, Jane Marken og Jean Tissier
Upprunaland: Frakkland
Ár: 1956
Lengd: 95mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0049189
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Brigitte Bardot leikur Juliete Hardy, 18 ára taumlausa þokkadís. Fósturforeldrar hennar hafa gefist upp á stjórnleysi hennar og hóta að senda hana aftur á munaðarleysingjahæli (en það heitir St. Mary!). Ungur drengur býðst þá til að giftast henni til að bjarga málunum. Hún fellst á það en vandinn er bara sá að hún er hrifin af eldri bróður hans.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
And God Created Woman er skólabókadæmi um Evu í kvikmyndum. Eins og nafn myndarinnar gefur til kynna fjallar myndin fyrst og fremst um kvenmanninn með tilvísun til Evu. Myndin byrjar á því að Juliete er boðið epli þegar hún liggur nakin út í garði. Juliete segist sjálf vera drifin áfram af innri (holdlegum) krafti og einn maðurinn segir hana hafa verið skapaða til að rústa kalmönnum (Adömum). Juliete er engin húsmóðir. Hún er of upptekin af sjálfri sér til að hafa tíma til að vinna, nennir ekki að standa upp til að ná sér í matarbita og ber enga virðingu fyrir tengdamóður sinni. Hún er heldur ekki góð eiginkona því hið villta eðli hennar gerir henni nær ómögulegt að vera eiginmanninum trú. Juliete lætur að lokum undan óstjórnlegum löngunum sínum á paradísarströnd og leiðir mág sinn að föllnu tré. Þar leggst hún undir tréð (eins og snákur) og dregur hann á tálar. Þau syndga því undir tré, og það föllnu tré! Juliete er dæmigerð Eva í kvikmyndum, óstýrilát, kynóð og vonlaus húsmóðir. Hún er stöðug ógn við karlaveldið, enda neitar hún að lúta lögmáli þess og gerast prúð eiginkona. Juliete þvertekur fyrir það að fara á St. Mary munaðarleysingjahælið, þ.e að gerast undirgefin og dyggðug María mey.

Framhald umræðunnar á umræðutorginu

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 2-3
Persónur úr trúarritum: Eva, djöfull, María mey
Guðfræðistef: kynlíf
Siðfræðistef: jafnrétti kynjanna
Trúarbrögð: rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Eden, kirkja, kirkjugarður
Trúarleg tákn: epli, kross, tré, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: brúðkaup