Leikstjórn: David Cronenberg
Handrit: David Cronenberg
Leikarar: Jennifer Jason Leigh, Jude Law, Ian Holm og Willem Dafoe
Upprunaland: Kanada, Frakkland, Bretland
Ár: 1999
Lengd: 97mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0120907
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Tölvuleikir eru ekki lengur spilaðir í tölvum. Þeir eru forritaðir inn í lífrænt hylki og síðan tengdir í mænu fólks. Þannig geta þeir sem vilja spila leikinn, upplifað hann eins og raunveruleika. En hvernig veit maður hvað er raunveruleiki og hvað er leikur þegar leikir eru orðnir eins og raunveruleiki?
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Með þessari mynd er David Cronenberg að segja að raunveruleikinn er engu minna skapaður og óraunverulegur en tölvuleikir. Umhverfi okkar og okkar daglega líf er hálfgerð leiksýning sem við tökum þátt í. Samfélagið segir okkur hvað það býst af okkur og við fylgjum í fótspor forfeðra okkar. Gerum eins og ætlast er til af okkur, eða eins og leikjapersónan á að gera. Eins og David Cronenberg segir sjálfur: „Hvern einasta morgun þurfum við að rifja upp hver við erum og hvernig við eigum að haga okkur“. Myndin hefst á því að hópur manna er fenginn til að prófa nýjan tölvuleik, en tilraunin fer fram í kirkju!!! Gyðja tölvuleikja, Allegra Geller, hefur hannað leik sem heitir eXistenZ og þarf 12 sjálfboðaliða (eins og lærisveinar Krists) til að prófa leikinn. Það er engin tilviljun að myndin byrjar í kirkju og að hinn nýi raunveruleiki (tölvuleikur) sé kynntur í kirkjunni. Allegra Geller er meira að segja sögð vera gyðja af aðdáendum hennar en hún er einnig kölluð kven-djöfull af andstæðingum. Fyrirtækið sem framleiðir leikinn heitir Pílagrímaför og leikurinn heitir raunverulega „Transcendenz“ en það þýðir yfirskilvitleg reynsla. Og trúartilvísanirnar eru fleiri. Gas segir gyðjuna Allegra Geller hafa breytt lífi sínu og frelsað sig. Áður hafi líf hans verið innantómt en nú hafi hann öðlast tilgang. Gas talar einnig um andlegan leik sem hann er mjög hrifinn af en leikurinn heitir ArtGod. Nafnið er orðaleikur og getur merkt að „þú ert Guð“ og að „Guð er listamaður, skapari“. David Cronenberg setur því hugmyndir sínar um hinn óraunverulega raunveruleika í mjög guðfræðilegt samhengi.
Persónur úr trúarritum: djöfull, Guð, gyðja, kvendjöfull, lærisveinarnir 12
Guðfræðistef: sköpun, veruleiki
Siðfræðistef: morð, kynlíf, samkynhneigð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: pílagrímaferð
Trúarleg reynsla: frelsun, yfirskilvitlegt