Kvikmyndir

Face to Face

Leikstjórn: Sergio Sollima
Handrit: Sergio Sollima og Sergio Donati
Leikarar: Tomas Milian, Gian Maria Volonté, William Berger, Jolanda Modio, Carole André, Gianni Rizzo, José Torres, Angel del Pozo, Frank Brana, Aldo Sambrell og Linda Veras
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Lengd: 91mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0061636
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Þegar borgarastyrjöldin brýst út í Bandaríkjunum árið 1861 lætur sagnfræðiprófessorinn Brad Fletcher af störfum í Háskólanum í Massachusetts vegna berklaveikinda og heldur suðvestur á bóginn í von um að geta náð sér þar á nýjan leik. Hann er þó vart kominn á leiðarenda þegar hann er tekinn í gíslingu af útlagaleiðtoganum Solomon Beauregard Bennet, alræmdum bófa sem tekist hafði með naumindum að yfirbuga lögreglumennina sem flytja áttu hann í járnum í næsta fangelsi. Á flóttanum yfir óbyggðirnar missir Bennet meðvitund enda helsár, en í stað þess að nota tækifærið og stinga af, ákveður Fletcher að bjarga lífi hans og býr því um sárin. Manngæska prófessorsins hefur smám saman áhrif á útlagaleiðtogann sem tekur að breyta lífsháttum sínum til betri vegar, en hrottaskapur og siðleysi útlaganna heillar Fletcher sem verður með öllu samviskulaus og sölsar að lokum undir sig völdin meðal þeirra með hörmulegum afleiðingum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Af pólitísku spaghetti-vestrunum þykir Face to Face (eða Faccia a Faccia eins og hann nefnist á ítölsku) einn sá besti. Margir hafa skilgreint hann sem líkingasögu um fasismann á Ítalíu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og segja Fletcher vera persónugerving Mussolínis. Þessu hefur leikstjórinn Sergio Sollima hins vegar neitað og segist einungis hafa ætlað sér að sýna hversu mjög umhverfið geti mótað einstaklinginn. Þannig geti hinn siðaði hæglega orðið siðlaus meðal siðlausra og hinn siðlausi orðið siðaður meðal siðaðra, Enda þótt hér sé óneitanlega um töluverða einföldun að ræða, er persónusköpunin í myndinni engu að síður einkar trúverðug, enda Gian Maria Volonté í hlutverki Fletchers og Tomas Milian í hlutverki Bennets báðir öndvegis skapgerðarleikarar. Reyndar festist Milian í hlutverki mexíkanskra bófa í ótal spaghetti-vestrum en Volonté lék í nokkrum af bestu kvikmyndum Ítala, m.a. í óskarsverðlaunamyndinni An Investigation of a Citizen Above Suspicion.

Athyglisverðustu þemu myndarinnar eru fyrst og fremst siðfræðileg. Lykilspurningin er að hvaða marki umhverfið móti einstaklinginn og hvernig beri að greina rétt frá röngu. Í upphafi myndarinnar segir Fletcher í síðustu kennslustundinni að framtíðin sé í raun val hvers og eins, enda geti einstaklingurinn einn dæmt um hvað sé rétt og hvað sé rangt. Sjálfur þráir Fletcher að taka þjóðfélagsmálin í eigin hendur og koma nafni sínu á spjöld sögunnar og nýtir hann sér það þegar hann kynnist samfélagi útlaganna enda telur hann þekkingu sína og vitsmuni koma þeim til góða. Hégómagirnd Fletchers reynist hins vegar helsti veikleiki hans og verður hann með öllu siðlaus í hugsjónabaráttu sinni. Hann lokkar útlagana til byggða til að fremja þar misheppnað bankarán, en fyrir vikið er liði safnað til höfuðs þeim, sem hrekur þá út í eyðimörk, sem fáir hafa komist lífs frá.

Fátt er um trúarleg stef í myndinni. Þó má geta þess að bærinn nefnist Hreinsunareldurinn, þar sem misheppnaða bankaránið er framið og útlagaleiðtoginn Bennet tekur endanlega sinnaskiptum til hins betra. Christopher Frayling nefnir það auk þess í Biblíu allra spaghettí-vestra áhugamanna, Spaghetti Westerns: Cowboys and Europeans from Karl May to Sergio Leone, að tónlist Morricones með eyðimerkurgöngu útlaganna sé einstaklega ‚biblíuleg‘.

Eins og með svo margar ítalskar kvikmyndir eru til a.m.k. tvær útgáfur af Face to Face, önnur 91 mín. á pal-kerfinu en hin um korteri lengri. Þó svo að flestar kvikmyndahandbækur vari við styttri útgáfunni, er það hún sem er tekin hér til umfjöllunar, enda myndin ófáanleg sem stendur öðruvísi.

Sergio Sollima var tvímælalaust besti spaghettí-vestra kvikmyndagerðarmaðurinn á eftir Sergio Leone. Tónlist Ennios Morricone er sömuleiðis snilld.

Guðfræðistef: hreinsunareldur, eyðimerkurganga
Siðfræðistef: manndráp, þjófnaður, þrælahald, nauðgun, völd, fyrirgefning