4. árgangur 2004, Innlýsing, Vefrit

Fáein orð um pínu Krists

Góðir hlustendur!

Sem kaþólskur prestur var ég beðinn um að flytja ykkur örstutt erindi um viðhorf kaþólsku kirkjunnar til píslargöngu Jesú Krists, um hlutverk þessara atburða í trúarlífi kaþólskra manna, en eins og flestir vita er Mel Gibson kaþólskur maður, og trúarsannfæring hans kemur sterkt fram í þessari mynd hans um þjáningar Krists.

María móðir Jesú og María MagdalenaJesús bendir réttilega á að enginn hefur meiri kærleika en sá sem gefur líf sitt fyrir þá sem hann elskar. Þetta voru ekki tóm orð hjá honum, þvert á móti. Um leið og Jesús, sonur Guðs, kom inn í þennan heim og gerðist maður, ákvað hann að gefa líf sitt, að fórna sér, að taka á sig allar syndir mannkynsins og friðþægja fyrir hönd okkar allra. Þess vegna kynnti Jóhannes skírari hann á þessa leið: Sjáið Guðs lamb, sem ber burt syndir heimsins.

Með því að elska Föður sinn og hlýða honum í einu og öllu, allt til dauðans, bætir hann fyllilega fyrir óhlýðni okkar allra. Fórn Jesú Krists er sterkari en synd og dauði og gefur okkur mönnum von um sættir við Guð og um eilíft líf. En Jesús gaf kirkju sinni þessa fórn. Í heilagri messu, þar sem sakramenti líkama og blóðs Krists er haft um hönd, er fórn Krists til staðar, sú sama og fórnin eina, sem fram fór fyrir 2000 árum og náði hámarki sínu á krossinum.

Jesús benti sterkt á gjöf þessarar fórnar í síðustu kvöldmáltíðinni þegar hann sagði: Takið og etið, þetta er líkami minn, sem verður ofurseldur fyrir yður. Takið og drekkið, þetta er kaleikur blóðs míns. Þess vegna minnir Páll postuli á það, að messan, heilög messufórn, er samfélag um blóð Krists, er sem sagt hin eina og eilífa fórn Krists, sem kirkjan fer með um aldir fram, allt til endurkomu Krists.

Með öðrum orðum, kaþólskur maður fær að upplifa kærleika Frelsarans í fórn hans, sem kemur best fram í þjáningum hans og dauða og er áfram til staðar nú á okkar dögum í heilögu sakramenti líkama hans og blóðs. Heilög messan, messufórnin, er því miðdepill og markmið í trúariðkun kaþólskra manna, þar sem þeir sameinast Jesú Kristi krossfestum og upprisnum á leyndardómsfullan hátt, en á raunverulegan hátt. Allt sem minnir á þjáningar Krists á að hjálpa okkur að nálgast hann enn betur í auðmýkt og kærleika í heilögu sakramenti.

Samfélag við Jesú Krist er um leið samfélag við alla þá sem tilheyra honum, sem eru bræður hans og systur, sem eru einn líkami í honum, og það eru allir skírðir, allir heilagir, bæði hér á jörðu og á himni, og fremst meðal þeirra er heilög María mey. Áður en hann andaðist gaf Jesús okkur móður sína að móður: „Sjá, nú er hún móðir þín.“ Þar með er hún móðir okkar í trúnni og kaþólskir menn hika ekki við að leita til hennar í bænum sínum og í viðleitni sinni til að breyta eftir Kristi.

Ég vona að þessi mynd, sem við sjáum á eftir, megi teljast í röð þeirra listaverka sem hvetja okkur til að hugleiða kærleika Frelsarans, iðrast synda okkar og hefja betra líf í návist hans. Þesum orðum vil ég ljúka með broti úr kvæði Jóns Arasonar Hólabiskups:

Yfir voldugri allri mildi
er skínandi Jesú pína.
Hún gefur þeim best er henni treysta
himneskt ráð til guðdóms náða.

Jakob Rolland er prestur í kaþólsku kirkjunni á Íslandi.