Leikstjórn: Sergio Grieco
Handrit: Sergio Grieco
Leikarar: Helmut Berger, Marisa Mell, Richard Harrison, Marina Giordana, Luigi Bonos, Vittorio Duse, Ezio Marano, Claudio Gora, Alberto Squillante, Maria Pascucci og Nello Pazzafini
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1977
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0075740
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Þegar afbrotamanninum Nanni Vitali tekst að flýja úr fangelsi ásamt nokkrum félögum sínum, pyntar hann sögusmettuna til dauða, sem svikið hafði hann í hendur lögreglunnar, og skipuleggur síðan vopnað rán í launadeild stórfyrirtækis. Lögregluforinginn Giulio Santini er þó jafnan á hælum hans og bregður Vitali að lokum á það ráð að taka systur hans og föður í gíslingu til að ná sínu fram.
Almennt um myndina:
Evrópskar kvikmyndir hafa margar verið markaðssettar undir ótal titlum í gegnum árin og gildir það alveg sérstaklega um þær ítölsku. Sú kvikmynd sem er hér til umfjöllunar er sennilega þekktust undir heitinu Mad Dog Murderer en Anchor Bay fyrirtækið í Bandaríkjunum gaf hana nýlega út á DVD með kápuheitinu Beast with a Gun þrátt fyrir að hún sé nefnd stórum stöfum strax í sjálfu byrjunaratriðinu Ferocious Beast with a Gun.
Helsti kostur kvikmyndarinnar er þýzki eðalleikarinn Helmut Berger, sem er hreint út sagt magnaður í hlutkverki skúrksins Nannis Vitali. Richard Harrison er einnig alveg viðunandi sem lögregluforinginn Giulio Santini og Marisa Mell er afar sæt sem eitt af fórnarlömbum Vitalis. Að öðru leyti er kvikmyndin frekar illa leikin og munu samtölin t.d. seint teljast til snilldarverka, en ensku talsetningunni er svo sem líka verulega ábótavant.
Þess má svo geta að þetta er spennumyndin, sem Bridget Fonda og Robert De Nero eru að horfa á í sjónvarpinu í kvikmyndinni Jackie Brown, sem Quentin Tarantino gerði árið 1997.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Framsetning helstu siðfræðistefa kvikmyndarinnar eru í anda hefðbundinna harðhausamynda, þar sem enginn skortur er á obeldisatriðum á borð við manndráp og nauðganir. Eina trúarlega vísunin, sem finna má í myndinni, varðar vegi Guðs, sem sagðir eru órannsakanlegir, en ekki er hægt að segja að það hafi neitt efnislegt vægi í þessu tilfelli.