4. árgangur 2004, Pistill, Vefrit

Fimm stuttmyndir á Reykjavík Shorts & Docs

Þann 10. júní byrjaði Reykjavík Shorts & Docs kvikmyndahátíðin. Á fyrsta deginum var boðið upp á sex stuttmyndir. Reyndar voru aðeins fimm myndir sýndar þar sem ekki tókst að sýna „Móðuna – ástarsögu á þvottaplani“ vegna tæknilegra erfiðleika. Hér verður stuttlega fjallað um þær fimm myndir sem sýndar voru.

Síðustu orð Hreggviðs (Grímur Hákonarson: 2004)

Myndin er 22 mín. að lengd og fjallar um Hreggvið, gamlan hægrimann og fastapenna hjá Mogganum, sem fær hjartaslag þegar hann er á leiðinni með grein til ritstjóra blaðsins. Hreggviður er óánægður með ritstjórnarstefnu blaðsins og gengur aftur til að reyna að fá greinina birta. Eins og sést á söguþræðinum sýnir myndin á skemmtilegan hátt spíritismann í íslensku samfélagi.

Helsti kostur myndarinnar er skemmtileg saga og góður leikur ritstjórans. Gallarnir eru tæknivinnsla og leikur annarra í myndinni.

Blind Date (Huldar Freyr Arnarson: 2004)

Myndin er 18 mín. að lengd og fjallar um varfærinn mann sem fer á blint stefnumót með konu sem er gangandi slysagildra.

Tæknilega best unnin af þeim myndum sem sýndar voru en það vantaði eitthvað í söguna. Þótt hún sé skemmtileg og gáskafull er hún allt of fyrirsjáanleg.

Áróður (Haukur Már Helgason: 2004)

Myndin er 12 mín. að lengd og fjallar um heimspekinga sem ræna forsætisráðherra landsins og halda konunni með nauðung í litlum árabáti þangað til hún kemur heiðarlega fram og svarar heimspekilegum spurningum þeirra um m.a. réttmæti þess að fara í stríð við Færeyjar.

Tæknilega verst unna myndin af þeim stuttmyndum sem sýndar voru (hljóðið alveg handónýtt en það gæti hafa verið tæknimistök við sýningu) og ekki er sagan betri. Í einu orði sagt, slöpp mynd og illa unnin.

Bragur (Rúnar E. Rúnarsson: 2004)

Myndin er 15 mín. að lengd og fjallar um samband ellilífeyrisþegans Bubba, sem vill fá að deyja heima hjá sér, og húshjálparinnar Arnars, sem kemur fram við hann af virðingu og ást.

Falleg og einlæg mynd með heillandi boðskap um mikilvægi þess að koma fram við aldraða af virðingu og ást. Vel gerð mynd fyrir utan það að líkið andaði allt of mikið.

Íshljómar (Páll Steingrímsson: 2004)

Myndin er 6 mín. að lengd og lýsir samspili klaka, vatns og tónlistar. Falleg mynd með hrífandi tónlist sem hefði verið enn betri ef tónlistarmennirnir hefðu ekki verið þarna.

Niðurlag

Stuttmyndasyrpan var einstaklega skemmtileg og veitti góða sýn inni í þá grósku sem er í íslenskri kvikmyndagerð í dag. Nú er bara að vona að allar stuttmyndirnar verði gefnar út á DVD disk.