Kvikmyndir

Fistful of Lead

Leikstjórn: Giuliano Carnimeo [undir nafninu Anthony Ascott]
Handrit: Tito Carpi
Leikarar: George Hilton, Charles Southwood, Erika Blanc, Piero Lulli [undir nafninu Peter Carter], Rick Boyd, Carlo Gaddi, Nello Pazzafini, Aldo Barberito, Lou Kamante og Linda Sini
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1970
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0065509
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Mannaveiðararnir Sartana og Sabbath gera gullræningjum í villta vestrinu lífið leitt.

Almennt um myndina:
Spaghettí-vestrinn Fistful of Lead er sennilega betur þekktur undir titlinum Sartana’s Here! Trade Your Pistol for a Coffin (C’è Sartana… vendi la pistola e comprati la bara á frummálinu), en titlar ítalskra kvikmynda geta svo sem reynst jafn margir og markaðssetningar þeirra hafa verið í gegnum árin.

Í heildina er hér um að ræða mistækan spaghettí-vestra, sem sleppur naumlega fyrir horn þrátt fyrir nokkur mjög vond atriði. Dæmi um eitt slíkt er þegar Sartana, sem staddur er uppi í fjallshlíð, fylgist með í sjónauka hvar gullrán er sviðsett á sléttunni fyrir neðan. Um leið og þrjótarnir halda á brott, hendir Sartana litlum vatnsbelg langar leiðir upp í loft og skýtur á hann þannig að vatnið skvettist niður á hestvagn, sem flytja átti gullfarminn, og slekkur þannig á kveiknum á sprengjuefni, sem þeir höfðu skilið þar eftir. Sartana og Sabbath eru reyndar báðir fáránlega góðar skyttur og hittir sá síðast nefndi t.d. alltaf í mark með því einu að toga í spotta, sem festur er við gikkinn á nokkrum rifflum, er hanga utan á hesti hans.

Myndgæðin á DVD disknum eru slök enda myndin augljóslega færð beint af slitinni NTSC myndbandsspólu. Auk þess er hér um að ræða ömurlega pan and scan útgáfu þar sem u.þ.b. helmingurinn af myndfletinum er skorinn í burt, en fyrir vikið er vart horfandi á myndina.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sartana var ein af fjölmörgum hetjum spaghettí-vestranna, sem birtist í hverri kvikmyndinni á fætur annarri, en sem dæmi um aðrar slíkar hetjur mætti nefna þá Django, Sabata og Trinity. Stundum lágu leiðir þessara hetja saman og hittir Sartana í þessu tilfelli Sabbath, sem sumar kvikmyndahandbækur nefna reyndar Sabata. Þrátt fyrir nafnið virðist Sabbath engin tengsl hafa við gyðinga, enda hreinræktaður ljóshærður aríi sem einhverja hluta vegna heldur fimmtudaginn heilagan, allavega segist hann aldrei skjóta neinn á þeim degi.

Aðalskúrkur myndarinnar er Samuel Spencer, sem hefur allt byggðarlagið í hendi sinni, stjórnar námugreftrinum og er í senn löggjafinn, dómsvaldið og framkvæmdarvaldið. Sartana segir því háðslega við hann að væri kirkja til staðar í byggðinni, ætti hann hana sennilega líka og væri þar predikarinn. Spencer svarar þá á móti: „Ég hefði haldið að manni trúarinnar yrði sýnd meiri virðing en þetta.“ Sartana segir þá umsvifalaust við hann: „Sannur predikari felur ekki byssu í skrifborðsskúffunni sinni.“ Þetta er þó ekki eina dæmið um trúarlegar vísanir í myndinni því að við annað tækifæri segist Sartana ætla að umbreyta einum bófanum í raunverulegan engil með litla vængi.

Persónur úr trúarritum: engill
Siðfræðistef: manndráp, svik, þjófnaður, vinátta