All posts filed under: 3. árgangur 2003

Sælureitur Bergmans

Smultronställe er á sænsku fyrirbæri sem er ekki svo gott að útskýra en ég ætla nú samt að reyna það. Smultronställe er ekki bara frjósamur og fallegur staður þar sem hægt er að týna jarðarber heldur líka staður eða stund í fortíð einhvers, notalegur og eftirminnilegur staður sem viðkomandi heimsækir þess vegna aftur og aftur í huganum, svona uppáhalds minning, sælureitur hugans. Myndin sem við ætlum að horfa á hér á eftir „Smultronstället“, eða Sælureitur, frá árinu 1957 festi Ingmar Bergman í sessi sem listamann. Hún er af mörgum talin hans besta mynd frá sjötta áratugnum. Ég ætla ekkert að fullyrða um það, á erfitt með að gera upp á milli mynda sjálf, en Sælureitur er sannarlega ein af uppáhalds Bergman myndunum mínum. Ekki síst vegna þess að hún sameinar djúpar heimspekilegar vangaveltur um mannlega tilveru annars vegar og húmor, skemmtilegheit og rómantík hins vegar. Rétt eins og lífið sjálft. Myndatakan er með því besta sem ég hef séð. Snillingurinn Gunnar Fischer tekur myndina en samvinna Bermans og Fischer var löng og farsæl. Takið eftir …

Fjölskylduferð

Ég geri ráð fyrir að flestum þyki felast bak við orðið fjölskylduferð ánægjuleg sameiginleg upplifun einnar fjölskyldu, sem er stór eða lítil eftir atvikum. Hliðstætt og þó í enn frekara mæli gildir um orðið sælureitur. Það er staður sem kallar fram sælu eða sælar minningar eru bundnar við. Það er vel til fundið að kalla myndina Smultronstället Sælureit uppá íslensku, en heitið er þó í sjálfu sér órætt. Þegar ég hugsa um þessa mynd Bergmanns sem hér er til umfjöllunar leitar frekar á hugann fyrra hugtakið. Ég leyfi mér að setja það sem yfirskrift þótt ef til vill væri kannski best að láta þetta innslag heita: Ekki er allt sem sýnist. Hér er samt hvorki um að ræða fjölskylduferð né sælureit í sinni einsleitu, jákvæðu mynd. Enda var þess vart að vænta í mynd frá hendi höfundar sem seint verður sakaður um að láta sér nægja yfirborðsveruleika. Eins og í góðri predikun, lýkst inntak og merking sögunnar sem myndin segir upp í síðustu andartökum hennar. Þess vegna tekur áhorfandinn svo miklu meira með sér heim …

Líkbíll upprisunnar

Það er svo yndislegt við Sælureitinn hvað það er mikil von í myndinni. Þetta verður kannski endanlega ljóst í lokadraumi Ísaks, drauminum þegar Sara leiðir hann til foreldranna og þau veifa honum. Sjáið svipinn sem kemur þá á Ísak. Þarna er eiginlega að finna eins konar himnaríkisminni. Í ljósi þessarar vonar er íslenskunin á titlinum svo afskaplega viðeigandi: Sælureiturinn. Ekki Við leiðarlok, ekki Villt jarðarber heldur Sælureiturinn. Dauð þrenning En Sælureiturinn geymir líka kulda og dauða. Í myndinni er að finna dauða þrenningu. Þrjá einstaklinga sem vissulega eru lifandi, en eru samt dauðir. Hér á ég við móður Ísaks, Ísak sjálfan og soninn Evald. Kuldinn og dauðinn hefur erfst frá móður til sonar til sonarsonar. Erfist hann áfram? Takið eftir því á eftir þegar Ísak og Marianne heimsækja gömlu konuna og hún talar um hvað sér sé kalt. Hvernig hún talar um börn sín og barnabörn. Og hvernig Marianne upplifir heimili hennar eiginlega sem líkhús. Takið eftir því hvernig Ísak lýsir sjálfum sér eftir þriðja drauminn: „Mig hefur dreymt undarlega upp á síðkastið … Það …

Sjöunda innsiglið

Ég hef velt því fyrir mér, hvort persónulegar ástæður eða almennt listrænt mat liggur að baki því að ég hef ævinlega flokkað Sjöunda innsiglið eftir Ingmar Bergman meðal þeirra tíu kvikmynda sem ég myndi velja öðrum fremur í úrvalsflokk allra tíma. Jafnvel í hóp þeirra fimm bestu. Sennilega hvort tveggja. Ég skal gefa skýringu á því hvað ég á við með persónulegar ástæður. Áður en ég kom til náms í Svíþjóð haustið 1954 hygg ég að ég hafi ekki heyrt Ingmar Bergman nefndan. Ég var með blaðamannapassa og sendi stundum hugleiðingar eða pistla um menninguna heim. Ein mín fyrsta grein fjallaði um þrjár norrænar myndir sem ég sá einmitt þennan vetur. Ein þeirra nefndist Kennslustund í ást (En lektion i kärlek) og var eftir upprennandi leikstjóra, Ingmar Bergman, og ég er ekki viss nema þetta sé kannski í fyrsta sinn sem hans var getið í íslenskri menningarumræðu. Næstu árin fylgdist ég síðan hvernig stjarna hans reis með leifturhraða, bæði heima og erlendis, með myndum eins og Jarðarberjalandið (Smultronstället), Sommarnattens leende (Bros sumarnæturinnar) og Sjöunda innsiglinu …

Trú eða vissa – Sjöunda innsiglið

Í Opinberunarbók Jóhannesar stendur skrifað: „Þegar lambið lauk upp sjöunda innsiglinu, varð þögn á himni hér um bil hálfa stund.“ (Opb 8.1-2) Opinberunarbók Jóhannesar myndar ákveðinn ramma utan um mynd Bergmans Sjöunda innsiglið. Í upphafi myndarinnar er lesið úr fyrsta versi áttunda kafla Opinberunarbókarinnar þar sem greint er frá því þegar sjöunda innsiglið er rofið. Þegar innsiglið er brotið þá verður þögn. Á sama hátt verður algjör þögn í mynd Bergmans þegar Dauðinn birtist í gervi náhvíts karlmanns sem er klæddur eins og munkur. Alger þögn ríkir í sálum margra, þessa þögn upplifir aðalpersóna myndarinnar, riddarinn Antóníus Block í sálu sinni. Hann er staddur í myrku djúpi og ákallar Drottinn: ,,Heyr þú raust mína.” Antóníus á erfitt með að lifa í trú og vill í staðinn lifa í vissu. Hann vill fá staðfestingu!! Staðfestingu á tilvist Guðs. Ef hann ekki fær staðfestingu eða þekkingu á Guði, vill hann losna við Guð og trúna á hann úr hjarta sínu. Antóníus telur að ef ekkert bíði mannsins hinu megin við móðuna miklu þá sé lífið tilgangslaust. Dauðinn holdi klæddur …

Sjöunda innlýsingin

Riddarinn Stundum kemur það fyrir að maður tekur eftir hlutum, sem eru fyrir augunum á manni alla daga, og finnst samt eins og maður hafi aldrei séð þá áður. Eins og mannshönd, til dæmis. Hugsið ykkur hvað það er í rauninni magnað fyrirbæri! Þegar hulu hversdagsleikans er svipt af hlutum, oftast á alveg tilviljanakenndan hátt, gerir maður sér kannski fyrst grein fyrir því að maður er lifandi, og ekki bara á lífi. Ég veit enga betri túlkun á þessu en lítið atriði, sem þið munið sjá hér á eftir. Riddarinn Antonius Block er fastur í hringiðu tímans, eins og við öll. Og tíminn sem hann lifir er harður og miskunnarlaus, eins og alltaf. Plágan mikla geysist um landið og skilur eftir sig sviðna jörð. Riddarinn leitar Guðs, en finnur Dauðann, og það í eigin persónu. Hann veit að hans síðasta skák er hafin, hann teflir um lífið við Dauðann. Dauðinn er snjall fléttumeistari og hefur líka rangt við, þegar honum svo sýnist. Hann villir á sér heimildir, þykist vera prestur í skriftastól og platar riddarann …

Viðtal við nokkra af forsvarsmönnum Bíó Reykjavíkur

Um helgina sótti ég hrollvekjuhátíð Bíós Reykjavíkur. Eitthvað hafði dagskránni seinkað og þurfti ég því að bíða í um hálftíma áður en Repulsion (1965) eftir Roman Polanski byrjaði. Mig hafði lengi langað að vita eitthvað um þann hóp sem stóð að Bíói Reykjavíkur og ákvað því að nýta tímann og taka stofnmeðlimina tali. Vildu skapa vettvang fyrir óhefðbundna kvikmyndagerð Til svars voru þrír stofnendur hópsins, þeir Gio, Jakob og Örn. Gio var mestan tímann í forsvari fyrir hópinn en aðspurður sagði hann að þeir félagar hefðu stofnað félagið þegar þeir voru á fylliríi. Þeir hefðu viljað skapa vettvang fyrir óhefðbundna kvikmyndagerð og ákváðu því að bjóða kvikmyndagerðamönnum að koma með myndir sínar, fyrsta þriðjudag hvers mánaðar og sýna þeim hana. Það eina sem þeir þyrftu að gera væri að halda stutta kynningu og svara spurningum að sýningu lokinni. Þeir neituðu að trúa því að það væri ekki verið að gera góðar tilraunakenndar myndir hér á landi og svo virðist sem þeir hafi haft rétt fyrir sér. Frá stofnun hópsins 21. febrúar 2002 hefur þeim borist hafsjór …

Viðtal við Róbert Douglas

Róbert I. Douglas sló eftirminnilega í gegn með fyrstu mynd sinni í fullri lengd, Íslenski Draumurinn. Margir sögðu myndina marka tímamót í íslenskri kvikmyndagerð, þar sem loksins hafi verið gerð kvikmynd sem var laus við bókmennta og leikhúsáhrifin. Sumir gengu svo langt að segja að Íslenski draumurinn hafi verið fyrsta íslenska kvikmyndin. Þótt næsta mynd Róberts, Maður eins og ég, hafi ekki slegið eins vel í gegn og Íslenski draumurinn fékk hún engu að síður mjög góðar viðtökur. Undirritaður mælti sér mót við Róbert á Hótel Borg og tók hann tali. Þegar ég mætti á staðinn var Róbert þegar kominn. Hann sat við borðið með kaffibollan í annarri hendi og sígarettu í hinni. Allt í fasi hans ber þess merki að kaffistaðir og bóhemlíf á vel við hann. Mynd 1: Leikstjórinn Robert Douglas ásamt leikara í einni af myndum sínum. Nokkrum dögum áður hafði Sjálfstæðisflokkurinn boðið fólki á íslenskar kvikmyndir í bíó og tók ég eftir því að báðar myndir Róberts í fullri lengd voru sýndar á hátíðinni. Því var ég forvitinn um hvernig þetta …

Dómsdagskvikmyndir – Þrjár tegundir heimsslitamynda

Í þessum fyrirlestri mun ég leitast við að flokka kvikmyndir, sem fjalla á einn eða annan hátt um heimsendi. Mun ég sérstaklega fjalla um þá þrjá undirflokka, sem eiga rætur að rekja í kristna hefð og leitast við að skilgreina helstu einkenni þeirra. Mér er ekki kunnugt um að þessi kvikmyndaflokkur hafi verið rannsakaður áður, en ég hef stuðst við þá skilgreiningu að heimsslit, heimsendir eða dómsdagur sé yfirvofandi atvik, sem ógni mannlegri tilvist eins og við þekkjum hana, hvort sem það sé vegna utan að komandi afla eins og djöfulsins og geimvera eða vegna synda mannsins, óábyrgrar þekkingarleitar hans og vísindastarfa. Hér er engin skylda að myndirnar endi með heimsslitum, enda er mannkyninu oft bjargað á síðustu stundu. Nú kann einhver að segja að heimsslitahugmyndir heyri fortíðinni til og eigi lítið erindi við nútíma samfélag, en svo er hins vegar ekki. Á kaldastríðsárunum var það t.d. algengt viðhorf að mannkynið ætti eftir að eyða sjálfu sér í kjarnorkustríði og margir töldu að um áramótin 2000 myndi efnahagskerfi heimsins hrynja, með tilheyrandi afleiðingum, vegna þess …