Kvikmyndir

Forrest Gump

Leikstjórn: Robert Zemeckis
Handrit: Handrit byggt á sögu Winston Groom: Eric Roth
Leikarar: Tom Hanks, Robin Wright, Gary Sinise, Mykelti Williamsson, Hanna R. Hall, Sally Field Harold G. Herthum, Hanna R. Hall
Upprunaland: BNA
Ár: 1994
Lengd: 136mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0109830
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin er viðburðasaga Forrest Gump, fremur en þroskasaga. Forrest litli tekur út lítinn vitsmunaþroska, en rambar í hvert stórævintýrið á fætur öðru, slampast í gegnum allt og uppsker sem snillingur.

Gæskuríkur Forrest Gump nýtur elskusemi flestra, enda stefnt út í veröldina af miklum kvenskörungi, mömmunni. Æskuástin, sem hann elskar frá skóladögum verður þó ekki hans nema stuttan tíma áður en hún deyr. Varla er nokkuð stórmál í bandarískri sögu, sem Gump tengist ekki með einum eða öðrum hætti.

Forrest Gump verður stjarna í amerískum fótbolta, hetja í Víetnam, borðtennisjöfur, vellauðugur útgerðarmaður, hlaupastjarna og nokkurs konar spámaður, áður en hann nær ást lífsins og eignast afkomanda, sem heldur sögunni áfram. Sagan heldur því áfram og maður veit ekki hvaða konfektmoli kemur næst fré Zemeckis of félögum.

Almennt um myndina:
Þrjú meginmáttarvöld eru í þessari mynd: Mamma Forrest Gump (Salli Field); bernskuvinkonan Jenny (Robin Wright) og Guð. Þessi eru burðarstoðirnar eða þrenning myndarinnar. Og mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er kvenleg þrenning sem Forrest lifir af og í. Frá þeim er hann kominn og til þeirra hverfur hann.

Saman eru Jenny og móðirin guðsímyndir. Myndin snertir því kvenímynd Guðs og kvenútgáfu guðdómsins. Hins vegar verður þessi mynd aldrei kennd við rótttæka kvennaguðfræði, því hún á lítið af byltingarboðskap eða breytingatillögum.

Myndin kann engan feminisma af nútímatagi og predikar ekki góð kvennatíðindi. Er engu að síður innlegg í kvennaumræðu, þar sem konurnar eru styrkar og stórar. Við kíkjum í ákveðin túlkunarheim í Bandaríkjunum og fáum innsýn í þá kvenímynd, sem kallast „Southern Belle“ sem ræður mörgu og notar sínar eigin aðferðir í samræmi við þá gömlu og tvíbentu kenningu, að tilgangurinn helgi meðalið. Móðir Forrest Gump er bellukona!

Meginstef myndarinnar, sem unnið er með ýmsu móti, er sátt og sáttargerð. Þrátt fyrir fákænsku verður Forrest Gump hvarvetna farvegur sátta og lífs. Hann hjálpar Jenný til flýja alkóhólíseraðan og misnotandi föður og styður hana til uppgjörs í lok myndarinnar. Hann styður vin sinn, Dan liðþjálfa, til að gera upp reiðina frá Víetnam.

Þótt hann beri nafn stofnanda Ku Kux Klan! byggir hann brýr milli hvítra og svartra og gerir ekki upp á milli fólks eftir litarhætti (sbr. Bubba rækjujarl). Konur metur hann jafn mikils og karla og skilur ekki skiptingar samfélagsins og baráttu hópa, kynþátta og kynja.

Forrest Gump tengist flestum stóratburðum Bandaríkjanna frá frumbernsku. Hann kennir Elvis að rokka, er fastur gestur í Hvíta húsinu og hittir alla forseta amerísku þjóðarinnar frá og með Kennedy til Nixon; er við hliðina á George Wallace (síðar forsetaframbjóðanda) í frægu uppgjöri um skólagöngu blökkumanna í Alabama; verður allt í einu ræðumaður á mótmælafundi gegn Víetnamstríðinu í Washington, kemur við í sellu Black Panthers, fjárfestir í ávaxtakompaníinu Apple! o.s.frv.

Myndin er því útgáfa trúðsins eða sakleysingjans af bandarískri sögu. Í því er hún mikilvæg andsaga stórveldis og hjálp bæði kananum og okkur hinum að sjá söguna í dempaðra samhengi en bandarískir haukar vildu sjá. Að sínu leyti er Forrest Gump barnaútgáfa Bandaríkjamanna, hið titrandi sjálf á bak við grímur, ímyndir og blekkingar. Með hjálp fíflsins og skopsins er sagan umturnuð og túlkuð.

Þvert á það sem margir halda, sem ekki þekkja til í bandarísku þjóðfélagi, er hér komin ein sögutúlkun og slíkar þjóna mikilvægu hlutverki fyrir landsmenn stórveldis, sem ekki eru sáttir við allt sem gert er og samasama sig ekki sögutúlkun og gildum allra fulltrúa og landa.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Myndin er æfing í viðsnúningi gilda. Að vera efstur í píramída stjórnmála eða samfélags er ekki aðalatriði. Skilaboðin eru einföld. Allt, sem fólk sækist eftir á opinberum vettvangi, er allt eftirsókn eftir vindi, ef heilindi og sannleika skortir. Greind er engin trygging fyrir hamingju – sælir eru fátækir í anda. Stríð mannanna eru hrein eyðilegging. Baráttuhópar af hvaða tagi sem þeir eru, þjóna eigin hag fremur en umbjóðenda sinna. Gildir einu hvort það er fólk sem berst fyrir friði eða réttindum blökkumanna. Að benda á þessi erfðasyndaratriði í öllum hreyfingum og mönnum er ofurlítið framlag til félagsgagnrýni. Myndin er sem sé ekki alveg laus við raunsæji.

Nettar myndlíkingar ramma inn þessa mynd, sem er afar snyrtilega klippt og meðvituð í myndmáli sínu. Gump situr á bekk í byrjun og er eiginlega að segja sögu sína á þessum bekk myndina út. Fiðrildi flögrar inn í myndina í upphafi og út í lokin og gefur tilfinningu fyrir hinu óræða. Ekki ljóst hvort verið að tjá vernd og nálægð.

Í seinni hluta myndarinnar verður rækjubáturinn að tákni um björgun sem kemur Dan eiginlega á lappirnar að nýju. Og á bátnum er uppgjör Dans og Guðs og þeir Forrest lifa af óveður mikið, þegar allur rækjuflotinn ferst. Svo spyr maður hvort skipið vísi í skipstákn kristninnar? Rútur koma oft við sögu og eru eiginlega tákn um firringu, því þar er Forrest yfirleitt hafnað og hann niðurlægður.

Í myndlok hættir hann við að fara í strætó og hleypur til konunnar sem hann elskar og í ljós kemur að hann hefur eignast barn með, án þess að vita af. Mikið er af alls konar tilfærslutáknum í myndinni, brúm, ökrum, götum, rennandi vatni og öðrum slíkum, til að leggja áherslu á hrynjandi og ferli lífsins, að manneskjan er ekki stöðnuð heldur á ferð eftir lífsgötunni. Svo má heldur ekki gleyma konfektkassanum, sem Forrest skilur sem tákn um lífið. „Lífið er eins og súkkulaðikassi. Maður veit aldrei hvernig mola maður fær.“

Myndin er m.a. um tengsl fólks og leit að hamingju og merkingu. Samband móður og sonar er nærfærið og vel túlkað, ennfremur tilraunir Forrest til að nálgast aðra og vera öllum góður og gjöfull, þrátt fyrir andlega fötlun sína. Þá er lyft þeirri stöðu að Forrest verður einstæður faðir og forsjáraðili þrátt fyrir að vera vitgrannur.

Það er ofurlítill siðaboðskapur í myndinni sem kemur m.a. fram í þeirri setningu sem Forrest fær sem veganesti frá mömmunni: „Heimskur er maður aðeins í verkum sínum.“ Það merkir að maður er ekki heimskur í sér heldur fyrst og fremst ef maður hegðar sér heimskulega. Hinn gáfaði getur verið hreinn og klár heimskingi í lífi sínu, en hinn vitgranni verið hinn mesti gæfumaður og hegðað sér dásamlega.

Af þessu mætti smartdýrkandi kynslóð nokkuð læra, fólk, sem m.a. vill spotta hina vitgrönnu áður en þeir fæðast og sjá til að þeir verði aldrei að mönnum. Þau sem eru álitin lítilmótleg og lítilssilgd eru kanski þau sem gefa mest, bjarga flestu og eru stórmennin. Kanski má kreista svolítið líkinguna af konfektkassanum. Maður veit aldrei hvað verður úr fólki, hæfileikarnir sem fólk fær í vöggugjöf eru engar tryggingar um hamingjuna.

Forrest Gump er góð mynd og gleður flesta. En auðvitað munu þau sem vilja að tilveran sé túlkuð algerlega út frá þeirra vitsmunalega sjónarhól verða fyrir vonbrigðum og þykja myndin ekki rísa undir nafni og vera jafnvel á mörkum hins væmna.

Myndin er notkunarvæn fyrir hópa, sem vilja ræða um hamingjuna, tilgang lífsins, klisjur í menningunni, söguskoðanir, blekkingar, siðferði, ástina og Guð. Leikurinn er loflegur, Tom Hanks og Sallie Field eiga góðan leik og það er meistarataktar á öllum póstum. Mæli með henni og meistari Óskar og Akademían eru mér sammála.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sálmur 1; sæluboðanir Fjallræðunnar í Mt 5:3-9.
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús Kristur
Sögulegar persónur: Jesús Kristur, forsetar BNA
Guðfræðistef: sáttargerð, að tengja fólk, að fara að heiman til að koma heim; sbr. hringferðin exitus a deo – exitus in deum.
Siðfræðistef: mannkærleikur; manngildi allra óháð gáfum, að þjóna fólki en þræla ekki.
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: amerísk sveitakirkja; kirkjugarður, tréð sem lífsins tré
Trúarleg tákn: konfektkassi, skip; rúta, tré sem lífstákn, samhengi og skjól kynslóða; akur
Trúarlegt atferli og siðir: hlaup sem pílagrísferð
Trúarleg reynsla: barátta við Guð