Kvikmyndir

Friday the 13th: The Series – Faith Healer

Leikstjórn: David Cronenberg
Handrit: Christine Cornish
Leikarar: Miguel Fernandes, Robert Silverman, John D. LeMay, Louise Robey, Steve Monarque og Chris Wiggins
Upprunaland: Kanada
Ár: 1988
Lengd: 45mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Komið er upp um svik prédikari sem segist geta læknað fólk og tekur góða greiðslu fyrir. Á flótta sínum finnur hann hvítan hanska sem gerir honum kleift að lækna hvaða sjúkdóm sem er. Sá galli er hins vegar á gjöf Njarðar að sjúkdómurinn færist yfir á hanskann og verður sá sem klæðist honum hverju sinni að koma sjúkdómnum yfir á annan, ella deyr hann sjálfur. Sjúkdómurinn magnast reyndar svo mikið um leið og hann er kominn yfir í hanskann að hver sá sem snertir viðkomandi lætur lífið samstundis.

Almennt um myndina:
Þátturinn ber þess merki að vera unninn á 5 dögum fyrir litla peninga. Reyndar hef ég ekki séð aðra þætti í þessari sjónvarpsmyndaþáttaröð en Faith Healer og The Baron’s Bride unnu silfrið á International Film and TV Festival í New York á sínum tíma.

Þarna er David Cronenberg að vinna með kunnugleg þemu, þ.e. líkamann og umbreytingar á honum. Að þessu sinni eru breytingarnar þó af yfirnáttúrulegum toga en ekki sálfræðilegum eða vísindalegum eins og vanalega hjá Cronenberg. Tæknibrellurnar eru nokkuð góðar en það sama er ekki hægt að segja um leikinn. Þátturinn er líklega aðeins eftirsóknarverður fyrir aðdáendur sjónvarpsþáttanna eða til að fylla Cronenberg safnið. Svo sem ágætis skemmtun þótt þátturinn jafnist á við fæstar kvikmyndir Cronenbergs að gæðum. Þess má geta að David Cronenberg hefur sjálfur sagt að hann gerði þáttinn fyrst og fremst sem upphitun fyrir hrollvekjuna Dead Ringers (1988).

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það mætti vel líta á þáttinn sem ádeilu á trúarofstæki, eða að minnsta kosti sem ádeilu á falska kraftaverkalækningarmenn og sjónvarpsprédikara sem féflétta fólk. En í raun fjallar þátturinn mun frekar um eigingirni. Kraftaverkalækningarmaðurinn er nefnilega ekki sá eini sem hugsar fyrst og fremst um eigin hag. Einstaklingur sem hefur eitt ævi sinni í að flétta ofan af fölskum kraftaverkalækningarmönnum öðrum til heilla, verður að lokum svo sjálfumhverfur að hann reynist tilbúinn til að drepa hvern sem er til þess eins að getað læknað sjálfan sig. Báðir hljóta þó makleg málagjöld að lokum og því má segja að boðskapurinn sé sá að eigingirni borgi sig ekki þegar til lengri tíma er litið.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 18-19
Persónur úr trúarritum: djöfullinn
Sögulegar persónur: Da Vinci
Guðfræðistef: trú, skynsemi, hjálpræði, kraftaverk, vilji Guðs, iðrun, blessun, bölvun, yfirnáttúra
Siðfræðistef: blekking, svik, þolinmæði, umburðarlyndi, morð, græðgi, hræsni, eigingirni
Trúarbrögð: Kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross, vígt vatn
Trúarleg embætti: prédikari, gullgerðamaður
Trúarlegt atferli og siðir: kraftaverkalækningar, bæn, heilun, fjárframlög
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: endurreisnin
Trúarleg reynsla: lækning, kraftaverk