Kvikmyndir

Futurama 4:5 A Taste of Freedom

Futurama

Leikstjórn: Matt Groening
Handrit: Matt Groening og David X. Cohen
Leikarar: Billy West, Katey Sagal og John Di Maggio
Upprunaland: Bandaríkin
Tungumál: Enska
Ár: 2003
Lengd: 20mín.
Hlutföll: 1.33:1
Útgáfa: R2 dvd diskur
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Á degi frelsisins etur dr. Zoidberg fána jarðar. Hann er dæmdur til dauða fyrir verknaðinn og leitar skjóls í sendiráði heimaplánetu sinnar. Hermenn ráðast á sendiráðið til að fullnægja dóminum og það er skilið sem stríðsyfirlýsing. Jörðin fellur og jarðarbúar eru hnepptir í ánauð. Fry, Leela og Bender ná þó að lokum að bjarga málunum með hjálp Zoidbergs sem verður eftir það hetja jarðarbúa.

Almennt um myndina:
Futurama kemur úr smiðju Matts Groenings sem er maðurinn á bak við Simpsons þættina vinsælu. Þættirnir eru gerðir í svipuðum stíl og Simpsons, en gerast í framtíðinni. Nánar tiltekið gerast þættirnir í upphafi 31. aldarinnar. Sögusviðið er jörðin og himingeimurinn. Söguhetjur Futurama starfa allar hjá flutningsfyrirtækinu Planet Express sem er í eigu hins aldna prófessors Hubert J. Farnsworth.

Aðalsöguhetjurnar þrjár eru Philip J. Fry, pizzusendill frá 20. öld sem var frystur af slysni og lá í dvala í 1000 ár; hin eineygða Turanga Leela, sem er skipstjóri hjá Planet Express; og vélmennið úrilla Bender. Einnig koma við sögu dr. John A. Zoidberg, geimvera frá plánetunni Decapod 10; hin unga Amy Wong sem er frá Mars og skrifstofumaðurinn Hermes Conrad.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þátturinn fjallar almennt um frelsi mannsins og ýmsar spurningar og ýmis ágreiningsefni sem tengjast frelsishugmyndum samtímans. Þar má nefna spurningar eins og hvers eðlis frelsi mannsins sé, hvað sé tjáningarfrelsi, hversu langt einstaklingsfrelsið nái og fyrir hvaða grunngildi við stöndum?

„Glæpur“ dr. Zoidbergs í upphafi þáttarins felst í því að nota fánann máli sínu til stuðnings en fyrir það er hann fordæmdur af m.a. forseta jarðar og dæmdur til dauða af hæstarétti. Í lok þáttarins er honum hins vegar boðið að beita þessum sama fána af forseta jarðar þar sem staða hans gagnvart yfirvöldum hefur gjörbreyst og hann er orðin frelsishetja, en í raun er enginn munur þar á notkun fánans önnur en sá að nú hafa yfirvöld lagt blessun sína yfir hana. Í framsetningunni sem slíkri felst því gagnrýni á tvískinnungshátt og hræsni og má í raun ekki síður greina þar gagnrýni á dauðarefsingar.

Spurningin um frelsi er meginsiðferðisstefið sem þátturinn fæst við, en vísað er til fjölda annarra sambærilegra stefja bæði beint og óbeint, svo sem varðandi fjölkvæni og hjónaband samkynhneigðra.

Undir lok þáttarins kemur Turin klæðið svonefnda lítillega við sögu, umdeilt líklæði sem ýmsir telja að sé frá Jesú Kristi, en Zoidberg veltir því fyrir sér hvernig það sé á bragðið.

Loks er helgi fánans og dauðarefsingin sem liggur við óviðeigandi notkun hans ágætt dæmi um hvernig tákn sem þjóðfélagið sameinast um og endurspeglar sig í öðlast helgi þegar þau eru aðgreind frá hinu veraldlega. Að mati margra trúarbragðafræðinga einkum úr trúarlífsfélagsfræðinni einkennast öll þjóðfélög af slíkri bannhelgi að einhverju leyti en refsingar við brotum á henni geta engu að síður verið mismunandi eftir aðstæðum og um hvaða þjóðfélög er að ræða. Kenningar trúarlífsfélagsfræðinga um svonefnda þjóðríkistrú sem sameini einstök þjóðfélög sem í ýmsum tilfellum geta verið mynduð að harla ólíkum þjóðfélagshópum eru ekki síst áhugaverðar í þessu samhengi.

Guðfræðistef: heilagleiki
Siðfræðistef: frelsi, fjölkvæni, hjónaband samkynhneigðra, dauðarefsing
Trúarbrögð: þjóðríkistrú
Trúarleg tákn: Turin klæðið, fáni
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Dagur frelsis