Kvikmyndir

Futurama 4:7 Crimes of the Hot

Futurama

Leikstjórn: Matt Groening
Handrit: Matt Groening og David X. Cohen
Leikarar: Billy West, Katey Sagal, John DiMaggio
Upprunaland: Bandaríkin
Tungumál: Enska
Ár: 2003
Lengd: 20mín.
Hlutföll: 1.33:1
Útgáfa: R2 dvd diskur
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Hnattræn hlýnun ógnar jörðinni og er ráðstefna því haldin í Kyoto þar sem fjallað er um vandamálið undir forystu höfuðs Als Gores. Vandinn er að hluta til rakinn til útblásturs frá vélmennum og vill höfuð Richards Nixons losna við þau af jörðinni fyrir fullt og allt.

Almennt um myndina:
Futurama kemur úr smiðju Matts Groenings sem er maðurinn á bak við Simpsons þættina vinsælu. Þættirnir eru gerðir í svipuðum stíl og Simpsons, en gerast í framtíðinni. Nánar tiltekið gerast þættirnir í upphafi 31. aldarinnar. Sögusviðið er jörðin og himingeimurinn. Söguhetjur Futurama starfa allar hjá flutningsfyrirtækinu Planet Express sem er í eigu hins aldna prófessors Hubert J. Farnsworth.

Aðalsöguhetjurnar þrjár eru Philip J. Fry, pizzusendill frá 20. öld sem var frystur af slysni og lá í dvala í 1000 ár; hin eineygða Turanga Leela, sem er skipstjóri hjá Planet Express; og vélmennið úrilla Bender. Einnig koma við sögu dr. John A. Zoidberg, geimvera frá plánetunni Decapod 10; hin unga Amy Wong sem er frá Mars og skrifstofumaðurinn Hermes Conrad.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þátturinn fjallar um hlýnun jarðar sem er vandamál sem ýmsir telja núna á síðari árum ekki aðeins orðið aðkallandi heldur eitt alvarlegasta umhverfisvandamál sem mannkynið hefur þurft að glíma við. Í þeirri fjarlægu framtíð sem þátturinn á að gerast hefur hlýnuninni verið haldið í skefjum um árabil með því að sækja stærðar ísklumpa út í himingeiminn og setja þá í úthöfin til kælingar. Nú ber hins vegar svo við að engan ís er lengur að fá og því eykst hitinn jafnt og þétt.

Snemma í þættinum (nánar til tekið á 5. mínútu) er vísað til bráðnunar heimskautaíssins sem hefur leitt til „flóða á biblíulegum skala“ og er um leið sýnd örk á siglingu sem er full af dýrum (tvennt af hverri tegund). Þar eiga eftirfarandi orðaskipti sér stað sem augljóslega sækja innblástur í flóðsögu Fyrstu Mósebókar þótt með harla skondnum og ekki síður kaldhæðnum hætti sé:

A: They called me crazy for building this ark.
B: You are crazy. You’ve filled with same-sex animal couples.
A: Hey! There are parts of the Bible I like and parts I don’t like.

Sjá einnig þáttinn Love’s Labour Lost þar sem sömuleiðis er vísað til arkarinnar hans Nóa.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 1M 6.14-21
Siðfræðistef: hlýnun jarðar, umhverfisvernd, samkynhneigð
Trúarleg tákn: Örkin hans Nóa