Leikstjórn: Giuseppe Colizzi
Handrit: Giuseppe Colizzi og Gumersindo Mollo
Leikarar: Terence Hill, Bud Spencer, Frank Wolff, Gina Rovere, José Manuel Martín, Luis Barboo, Joaquín Blanco, Tito Gracía og Antonietta Fiorito
Upprunaland: Ítalía og Spánn
Ár: 1967
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0061576
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Bófaforinginn Bill St. Antonio sviðsetur dauða sinn í einvígi inni í logandi húsi og stingur síðan af með góssið, en fyrir vikið er mótherji hans eltur á röndum af glæpagenginu, sem telur hann ábyrgan fyrir hvarfinu. Mótherjinn áttar sig þó brátt á svikunum og ákveður að láta bófaforingjann iðrast þess að hafa ekki fallið fyrir hendi hans í einvíginu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Óhætt er að segja, að titill kvikmyndarinnar ‚Guð fyrirgefur, ekki ég!‘ (eða Dio perdona … Io no! eins og hún nefnist á ítölsku) nái að lýsa boðskap flestra spaghettí-vestranna á kjarnyrtan hátt. Svo svívirðilega hefur verið komið fram við aðalsöguhetjuna að aðeins byssukúlan getur rétt hlut hennar. Hinum brotlegu er því sjaldnast fyrirgefið, enda of siðlausir til að eiga rétt á slíkum kristilegum forréttindum. Aðalskúrkurinn, sem að þessu sinni er leikinn af öndvegisleikaranum Frank Wolff, lítur til dæmis svo stórt á sjálfan sig, að hann lætur búa sér grafskrift þess efnis, að hann hafi ekki látist af mannavöldum heldur fyrir tilstuðlan launráðs Guðs. Það er alveg ljóst, að titill myndarinnar er á skjön við boðskap kristinnar trúar, enda gengur Faðirvor bænin út á það að biðja Guð um að fyrirgefa manni á sama hátt og maður fyrirgefur öðrum. Það þýðir með öðrum orðum, að fyrirgefi maður ekki náunga sínum, fyrirgefi Guð manni ekki heldur.
Þetta var fyrsti spaghettí-vestrinn, sem þeir Terence Hill og Bud Spencer léku saman í, en þeir áttu eftir að leiða saman hesta sína í ótal myndum til viðbótar næstu árin og áratugina. Enda þótt flestar myndir þeirra væru ódýrar slagsmálamyndir fyrir yngstu kynslóðirnar, er ‚Guð fyrirgefur, ekki ég!‘ blessunarlega háalvarlegur spaghettí-vestri af gamla skólanum. Og ótrúlega en satt þá standa þeir Hill og Spencer sig bara nokkuð vel í þessari mynd.
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20
Guðfræðistef: fyrirgefning
Siðfræðistef: svik, manndráp
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: útför