Kvikmyndir

Golden Girl: Karate Girl

Leikstjórn: Orhan Aksoy
Handrit: Fuat Ozluer og Erdogan Tünas
Leikarar: Filiz Akin, Ediz Hun, Bülent Kayabas, Hayati Hamzaoglu, Nubar Terziyan, Borgut Borali, Yesim Yükselen, Kudret Karadag og Oktay Yavuz
Upprunaland: Tyrkland
Ár: 1974
Lengd: 85mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0278527

Ágrip af söguþræði:
Þegar fimm kynferðisafbrotamenn strjúka úr fangelsi í Istanbúl í Tyrklandi, myrða þeir góðhjartaðan aldraðan garðyrkjumann og freista þess að nauðga Zeyju dóttur hans, fagurri mállausri blómasölustúlku, en neyðast til að flýja af hólmi í snarheitum undan lögreglunni áður en þeim tekst að fá vilja sínum framgengt. Áfallið verður þó til þess að Zeyja fær málið á nýjan leik og sver hún þess dýran eið að hefna sín.

Brátt vingast óeinkennisklæddi rannsóknarlögreglumaðurinn Murat við hana án þess þó að ljóstra upp um starf sitt þar sem honum grunar að hún ætli að taka lögin í sínar eigin hendur. Engu að síður kennir hann henni að fara með skotvopn og uppfræðir hana um helstu bardagalistirnar, en fyrir vikið verður hún sér óðara úti um svarta beltið í karate. Murat tekst þó að lokum að sannfæra Zeyju um að eina raunhæfa hefndin sé að koma hinum seku í hendur lögreglunnar og megi óbreyttir borgarar ekki taka fram fyrir hendurnar á henni. Þegar einn kynferðisafbrotamannanna myrðir svo Murat, innritast Zeyja sjálf í lögregluskólann og afkastar þar náminu í snarheitum til þess að fá umsjón rannsóknarinnar í sínar hendur og geta leitað þrjótana sem fyrst uppi, en skotfimi hennar og karateþjálfun kemur þar að góðum notum.

Almennt um myndina:
Þessi nautheimska en stórskemmtilega harðhausamynd, sem nefnd er Stúlkan með stálhnefana á íslensku, er einna helst áhugaverð fyrir það að vera komin frá Tyrklandi, en kvikmyndir frá því landi hafa verið heldur sjaldséðar hérlendis. Því miður er myndbandsspólan samt ekki með tyrknesku tali heldur talsett með hörmulegum hætti á ensku, en það þýðir meðal annars að þegar tyrknesku leikararnir segja augljóslega ekkert geta sögupersónur þeirra engu að síður reynst ansi málglaðar. Auk þess eru leikararnir margir afskaplega slakir, sérstaklega þó þeir sem fara með hlutverk kynferðisafbrotamannanna en tilþrif þeirra verða að teljast víða ævintýraleg. Má þar sérstaklega tilgreina þann, sem Zeyja skýtur til bana í hótelherbergi, en í andarslitrunum þeytist hann þar fram og aftur í óratíma baðandi út höndum og með uppglennt augu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Löghlýðnin verður að teljast óvenju mikil í þessari harðhausamynd, en hefðin hefur verið sú að söguhetjurnar hefni sín sjálfar án þess að hirða mikið um réttarkerfið. Hér reynast lögin hins vegar besta refsingin og er áhersla lögð á að ekki megi drepa neinn nema af algjörri nauðsyn. Blómasölustúlkan getur þó ekki setið aðgerðarlaus og gengur sjálf til liðs við lögregluna til að hafa hendur í hári strokufanganna hættulegu.

Lítið er um trúarstef þó svo að myndin sé ættuð úr menningarsamfélagi múslima, en þó er þess getið að ástin nái út fyrir mörk dauðans, auk þess sem bæn kemur aðeins við sögu.

Guðfræðistef: dauðinn
Siðfræðistef: morð, nauðgunartilraun, framhjáhald, hefnd, mútur, ást
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, útför