Handrit: Chris Columbus
Leikarar: Steven Cloves (handrit), J. K. Rowling (skáldsaga)
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 161mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0295297
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Harry Potter og félagar glíma við gátuna um leyniklefann. Hvar er leyniklefinn? Hver opnaði hann síðast? Hver er arftaki Slytherins? Hvaða skrímsli er að finna í leyniklefanum?
Almennt um myndina:
Myndin er góð og spennandi. Hún er ágætlega leikin þótt sumir standi sig betur en aðrir. Emma Watson og Rupert Grint leika prýðilega, sem og Kenneth Branagh og fleiri. Daniel Radcliffe þótti sumum ekki leika eins vel.
Handrit og leikstjórn voru ágæt, en nokkru var breytt frá bókinni um Harry Potter og leyniklefann. Sumum þótti sem stytta hefði mátt nokkur atriði, t.d. atriði með basilíusnáknum í lokin og quidditch-atriðið.
Tæknibrellur voru flestar góðar, en á stöku stað voru þær ekki nógu vel unnar. Dæmi um það er sverðið sem Harry Potter notaði til að farga basilíusnáknum, einnig atriðið í Whomping-Willow trénu þar sem afar augljóst er að bíllinn er módel. Dobby og huliðsskikkjan eru dæmi um afar vel unnar tæknibrellur.
Tónlistin var góð, en mikið til sama tónlist og í fyrri myndinni. Áhugavert var hvernig hver aðalpersóna hafði sitt tónlistarstef og er það dæmi um góða notkun á tónlist í myndinni.
Klipping og kvikmyndataka var almennt góð, en þó hefði mátt gera betur í quidditch-atriðinu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Persónur í myndinni
Harry Potter er hugrakkur, útsjónarsamur, góður og tryggur. Hann er í hlutverki frelsara í myndinni. Hann er jafnframt ákveðinn. Hann hefur a.m.k. þrjá eiginleika sem hann á sameiginlega með Voldermort: 1) Hann er útsjónarsamur, 2) hann er staðfastur og 3) hann ber „hæfilega“ virðingu fyrir reglum (þ.e. hikar ekki við að brjóta þær ef svo ber við). Annað sem hann á sameiginlegt með Voldermort er að hann er slönguhvíslari, þ.e. hann talar snákamál.
Ron Weasely er einlægur og traustur, vinur vina sinna sem kemur fram í því að hann fer með Harry inn í skóginn að hitta Aragog köngulóaföður þótt hann sé afar hræddur við köngurvofur. Hann er óhlýðinn eins og Harry, en vel meinandi.
Hermione er gáfuð (bráðgert barn í öðru veldi) og hæfileikarík norn. Hún er útsjónarsöm og örugg með sig (öruggari en í fyrstu myndinni).
Draco Malfoy er helsti andstæðingur þeirra þriggja, ekki síst Potter. Hann er illgjarn og meinfýsinn, hann er hrokafullur og gerir upp á milli fólks út frá uppruna þeirra (kynþáttamisrétti). Þetta má sennilega að mestu rekja til uppeldis hans, en foreldrar hans voru fylgismenn Voldermorts.
Gilderoy Lockhart er ný persóna í þessari mynd. Hann kennir varnir gegn svartagaldri (defence against the dark arts) en er í raun hálfgerður loddari og hismið eitt. Hann er afar hégómagjarn og mjög upptekinn af sjálfum sér. Hann er jafnframt gefinn fyrir það að láta aðra vinna verkin, en eigna sér heiðurinn af öllu. Það er í samræmi við þetta að hans helstu hæfileikar á galdrasviðinu eru minnisgaldrar sem hann beitir óspart til að láta aðra gleyma því hvað þeir hafa gert þannig að hann geti sjálfur eignað sér heiðurinn.
Snákur og ljón
Það eru nokkrar vísanir í Biblíuna í myndinni, t.a.m. vísar nafn Lucius Malfoy, föður Draco til Lúsifers auk þess sem hann er með staf með snákshöfði sem vísar til sögunnar af Adam og Evu. Snákurinn er jafnframt tákn Slytherin heimavistarinnar. Þá er skrímslið í Leyniklefanum jafnframt snákur sem býr yfir ógnareyðingarmætti. Harry Potter er í Gryffindor heimavistinni. Tákn hennar er ljón sem stendur fyrir hugrekki en er jafnframt þekkt Kriststákn. Þetta tvennt eru skírar vísanir í kristna hefð.
Fönix, dauði, upprisa
Fawkes heitir Fönixfugl Dumbledore. Það er vísun í grískar goðsagnir um þennan sérstaka fugl. Þá hefur fönixinn þann eiginleika að tár hans lækna og að hann gengur í gegnum feril dauða og upprisu reglulega. Hvort tveggja eru að minnsta kosti hliðstæður við kristni og líf og starf Jesú Krists, sem læknaði, dó og reis upp.
Eiginleikar – frelsi
Orð Dumbledore til Potter í lokin eru merkileg: Það eru ekki hæfileikar okkar sem skera úr um það hver við erum heldur það hvernig við förum með þá. Þetta er sagt í samhengi þess að Potter hefur áhyggjur af því að eiga svo margt sameiginlegt með Voldermort. Kjarni málsins er þessi: Þú ert ekki dæmdur á grundvelli þess hvað þú getur heldur hvað þú gerir!
Viðhorf til dauðans
Í myndinni birtist áhugaverð mynd af dauðanum og tilvist eftir dauðann. Það er töluvert af draugum í þessum heimi, sem gæti bent til áhrifa frá spíritisma. Ein spurning sem gæti verið áhugavert að ræða í því sambandi er hverjir ganga aftur og hverjir ekki. Til dæmis gengur Vala væluskjóða aftur en ekki foreldrar Harrys! Því er ósvarað í myndinni hvers vegna þetta er. Ein hugsanleg skýring er sú að þeir gangi aftur sem eru ósáttir við dauða sinn eða deyja óvænt. Í öllu falli er ljóst að það er til e.k. framhaldslíf og það er reyndar undirstrikað þegar Lucius Malfoy segir Harry að hann muni skjótt hitta móður sína aftur.
Eltu köngulærnar
Ákveðna hliðstæðu er að finna við íslenska hefð í myndinni en rétt eins og að maður eltir könguló til að finna ber eiga Harry og Ron að elta köngulær til að fá lausn á gátunni.
Að brjóta reglur
Krakkarnir í Harry Potter eru alltaf að brjóta skólareglurnar. Það er greinilegt í þessari mynd að þeir hika ekki við að brjóta reglur þegar það er í þágu góðs málstaðar. Til dæmis brjóta reglurnar til að hjálpa skólanum, Ginny og fleirum. Fyrir þetta eru þeir meira að segja verðlaunaðir, en ekki fyrir að brjóta reglurnar sem slíkar! Það er semsagt í lagi að brjóta reglurnar þegar mikið liggur við, enda er maður þá að brjóta þær úr neyð en ekki að brjóta þær sem slíkar. Þetta minnir á hið kaþólska lögmál um tvennar afleiðingar. Hér er hugsanlega einnig á ferðinni óbein vísun í frásögur af Jesú Kristi og viðhorfi hans til lögmálsins, en hann lagði til dæmis á það áherslu að hvíldardagurinn væri orðinn til vegna mannsins en ekki öfugt.
Siðferðisstef
Myndin geymir fjölda siðferðisstefja. Eitt þeirra er einelti, en Vala væluskjóða er gott dæmi um fórnarlamb þess. Þá er Harry Potter í raun dæmi um það líka því hann er lagður í einelti af fósturfjölskyldu sinni og beittur margskonar harðræði þar. Malfoy gerir einnig sitt besta til að leggja Harry í einelti.
Annað siðferðisstef eru fordómar og kynþáttahyggja. Þetta kemur skýrt fram í viðhorfi Malfoy fjölskyldunnar til þeirra nemenda Hogwarts sem ekki hafa „hreint“ blóð í æðum. Þeir eru kallaðir „mudbloods“ sem eiga foreldra sem ekki eru galdrakarlar eða nornir (annað eða bæði). Að mati Malfoy og reyndar líka Voldermorts og Salazar Slytherin á undan þeim er þetta óæðra fólk og ekki þess vert að nema galdramennsku við Hogwarts. Af þeim sökum á að útrýma þeim! Hér er því á ferðinni tilbrigði við þjóðarmorð.
Þriðja stóra siðferðisstefið í myndinni er þrælahald og ofbeldi því tengt. Húsálfurinn Dobby er í raun þræll Malfoy fjölskyldunnar og illa er farið með hann. Og það er ljóst að „eigendum“ hans finnst ekkert óeðlilegt við það. Harry Potter ver Dobby, sýnir honum virðingu og tekst undir lokin með lagni að fá hann lausan úr ánauðinni. Annars á þrælahald væntanlega eftir að spila stærri rullu í síðari myndum og þá fáum við vonandi aftur að sjá Dobby.
Kristin eða and-kristin?
Galdrar gætu farið fyrir brjóstið á sumum, en þetta er fyrst og fremst ævintýramynd og hana ber að skilja sem slíka. Myndin er kristileg af því að Harry Potter er kristsgervingur.
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3
Persónur úr trúarritum: snákur, Lúsifer, fönix, galdramaður, nornir, húsálfar, smáálfar, draugur, ljón, frelsari, djöfull
Guðfræðistef: upprisa, dauði, endurfæðing, gott, illt, frelsari, fórn
Siðfræðistef: morð, sjálfsfórn, lygi, traust, vinátta, hatur, heimilisofbeldi, einelti, fordómar, þrælahald, reiði, frelsi, hroki, stéttaskipting, kynþáttahyggja, sjálfselska, hugleysi, loddari, hugrekki, tryggð, útsjónarsemi, einurð, ákveðni, refsing
Trúarbrögð: grísk goðafræði, kristni, gyðingdómur
Trúarleg tákn: jól
Trúarlegt atferli og siðir: dýrlingur, galdramaður, norn, spámaður
Trúarleg reynsla: dáleiðsla, galdrar