Leikstjórn: Paul F. Ryan
Handrit: Paul F. Ryan
Leikarar: Busy Philipps, Erika Christensen, Victor Garber, Raphael Sbarge, Ken Jenkins, Holland Taylor, Arthur Taxier, James Pickens Jr., Constance Zimmer, Richard Gilliland og Roxanne Hart
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 2002
Lengd: 133mín.
Hlutföll: Líklega 1.77:1
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Eftir fjöldamorð velgefins námsmanns í ríkisskóla í Bandaríkjunum liggja níu í valnum, þar með talinn árásamaðurinn sjálfur. Rannsóknarlögreglumaðurinn Martin Van Zandt (Victor Garber) fær það hlutverk að finna sökudólg, jafnvel búa hann til ef hann þarf þess með. Einu lifandi vitnin að atburðinum er Deanna Cartwright (Erika Christensen), sem særðist lífshættulega og man lítið sem ekkert eftir því sem gerðist og Alicia Browning (Busy Philipps), sem neitar að tjá sig um málið.
Almennt um myndina:
Helsti galli þessarar myndar er leikstjórnin og handritið en Paul F. Ryan ber ábyrgð á hvoru tveggja. Þetta er fyrsta mynd hans í fullri lengd, en hann hefur áður gert eina stuttmynd. Myndin ber þess einmitt merki að vera byrjandaverk. Augljóst er að markmið leikstjórans hefur verið að skapa drungalegt andrúmsloft og styðst hann við „David-Lynch-hljóð“ til að ná því fram. Vandinn er hins vegar sá að kvikmyndatakan er allt annað en drungaleg og því auka hljóðin ekki á dýpt myndarinnar heldur afhjúpa vanhæfni leikstjórans.
Halda mætti langa tölu um galla handritsins. Ég læt eitt atriði nægja. Alicia Browning er ein þeirra sem urðu vitni að fjöldamorðinu og reyndar eina vitnið sem man hvað raunverulega gerðist. Það er ekki að sjá að hún hafi fengið neina sálgæslu eftir áfallið. Þegar hún kemur heim spyr faðir hennar hana hvort hún hafi ekki verið í bekknum sem lenti í þessu. Hún svarar því játandi og segist hafa þekkt alla sem voru drepnir. Hann spyr hana hvort hún vilji tala um þetta en hún afþakkar og fer inn í herbergi. Hefðu flestir foreldrar ekki verið fyrir löngu mættir á staðinn og búnir að hringja til að afla upplýsinga um málið? Reyndar efast ég um að skólinn hefði ekki þegar verið búinn að hringja heim til föðurins og láta hann vita að dóttir hans væri á lífi. Og hefði nokkurt foreldri látið barnið sitt fara eitt inn í herbergi eftir svona atburð? Ekki bætir það úr skák að lögreglan reynir aðeins einu sinni að yfirheyra þetta eina raunverulega vitni, þ.e. stuttu eftir atburðinn. Þegar hún neitar að svara nokkru er henni leyft að fara og síðan ekki rætt við hana meir í heila þrjá mánuði!
Það skal þó viðurkennast að það eru nokkrar senur í myndinni sem ná ágætis flugi. Besta senan er þegar Deanna Cartwright reynir að taka hanska af hönd Alicia Browning sem hefur sofnað með höfuðið fram á rúmið hennar. Sjónvarpsdagskráin er búin og varpar því snjókornótti skjárinn svart-hvítu teppi yfir stelpurnar og rúmið. Því nú ver og miður eru senur sem þessar allt of fáar.
Leikarar standa sig misvel í myndinni en flesta galla má reyndar skrifa á lélega leikstjórn og illa hugsaða framvindu.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það er skiljanlegt að fjöldamorð í skóla sé Bandaríkjamönnum hugleikið viðfangsefni, enda ófá þar í landi. Eitt megið viðfangsefni myndarinnar er einmitt að leita svara við því hvers vegna einhver fremur slíkan glæp. Það er ekki beint hægt að segja að myndin lumi á djúpum svörum því að niðurstaðan virðist vera: „Af því bara.“ Reyndar eru ýmsar ástæður tíndar til en staðreyndin er hins vegar sú að við munum líklega aldrei vita hvers vegna nokkrum dettur í hug að framkvæma svona voðaverk. Kannski bara vegna þess að það er hægt.
Þessu tengdu veltir myndin einnig upp spurningunni um illskuna. Einn lögreglumaðurinn segir t.d. í myndinni að það sé til raunveruleg illska í heiminum og því miður vinni hún oft. En meðan við horfum upp á hörmulegar afleiðingar fjöldamorðsins verðum við þess áskynja að lögregluforinginn vill fá syndaharf til að svala hefndarþorsta foreldranna. Myndin veltur því upp þeirri áhugaverðu spurningu hvort það felist meiri illska í fjöldamorðinu sjálfu en nornaveiðum lögreglunnar.
Megið viðfangsefni myndarinnar er þó fyrst og fremst missir og sorgarviðbrögð. Tvær aðalpersónur myndarinnar verða fyrir miklu áfalli í lífi sínu. Alicia Browning missti kornungt barn fyrir um ári. Eftir það fór hún að ganga í svörtu, mála sig svarta og hlaða á sig allskonar andlitsskrauti. Hún var efnilegur nemandi en er nú allt í einu farin að dragast aftur úr. Áfall hennar leiðir til þess að hún deyr að innan. Fjöldamorðið virðist t.d. ekki hafa haft mikil áhrif á hana. Það er því viðeigandi að Deanna Cartwright segir hana minna sig á lík.
Deanna hefur hins vegar alist upp í mjög vernduðu umhverfi og á því eðlilega erfitt með að takast á við áfallið. Hún getur ekki sofið um nætur og á það til að vera gripin ofsafengnum ótta við minnsta tilefni. Þótt Alicia virðist fyrirlíta Deanna þá viðurkennir hún þó í myndinni að hún vildi óska þess að hún gæti upplifað helminginn af þeim sársauka sem Deanna upplifir, því það sé ekki heilbrigt að vera svo tilfinningalega dofinn að atburður sem þessi hreyfi ekki við manni.
Í myndinni er einmitt velt upp þeirri spurningu hvernig hægt sé að vinna úr áföllum sem þessum. Ýmis viðhorf eru kynnt til sögunnar, eins og að tíminn lækni öll sár, þetta hafi verið fyrirfram ákveðið eða að maður eigi að gera það besta úr því sem kemur fyrir mann, með orðunum: „Ef lífið gefur þér sítrónur skaltu búa til sítrónudjús.“ Öll eru þessi viðhorf skotin í kaf og er niðurstaðan sú að tíminn lækni engin sár. Hins vegar getur vinátta gert sársaukann bærilegri.
Að lokum er áhugaverð vangavelta um dauðann í myndinni, þ.e.a.s. ekki um lífið eftir dauðann heldur um hina dauðu. Alicia fer með Deanna inn í líkhús til að sanna fyrir Alicia að óþarfi sé að óttast hina dauðu. Þegar Alicia neitar að horfa á líkin segir Deanna: „Komdu og sjáðu. Það er ekkert hér! Ekkert hatur í þessu herbergi, engin reiði. Hér er minna að óttast en nokkurs staðar annars staðar í heiminum.“
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Guðfræðistef: forákvörðun, sorg, sorgarferli, illska, guðlast, skírlífi, kærleikur, dauðinn
Siðfræðistef: morð, fjöldamorð, þjófnaður, tillitsleysi, hroki, sjálfumgleði, sjálfsvíg, samkynhneigð
Trúarbrögð: kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, sjúkrahúskapella
Trúarleg tákn: kirkjuklukka, kross, altari
Trúarleg embætti: prestur