Kvikmyndir

Hot Stuff

Leikstjórn: Giuseppe Rosati [undir nafninu Joe Ross]
Handrit: Giuseppe Pulieri og Giuseppe Rosati
Leikarar: Maurizio Merli, James Mason, Raymond Pellegrin, Silvia Dionisio, Cyril Cusack, Fausto Tozzi, Franco Ressel og Gianfilippo Carcano
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1976
Lengd: 92mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0075045

Ágrip af söguþræði:
Þegar glæpaforinginn Letteri flýr úr fangelsi ásamt nokkrum félögum sínum, er rannsóknarlögreglumaðurinn Murri kallaður aftur til starfa vegna þrýstings frá stjórnvöldum, en yfirmenn hans höfðu rekið hann fyrir misþyrmingar á ýmsum misindismönnum. Murri, sem drekkur vískíið sitt jafnan óblandað og skýtur jafnt vopnaða sem óvopnaða glæpamenn umsvifalaust til bana, kemst brátt á spor strokufanganna og sannfærist um að þeir séu að skipuleggja stórtækt póstflutningarán.

Almennt um myndina:
Verulega slæm ítölsk harðhausamynd með illa skrifuðum samtölum, vondri enskri talsetningu, metnaðarlausri myndatöku og fáránlegum klippingum. Meira að segja eðalleikarinn James Mason er slæmur í sínu hlutverki, en hann fær svo sem heldur ekki að segja neitt að viti.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Strax í upphafi kvikmyndarinnar, sem nefnd er Hættuleg iðja á íslensku, er hvert trúartáknið sýnt á fætur öðru í nærmynd þegar glæpamennirnir eru að flýja úr fangelsinu, en ósennilegt er að einhver djúp trúarleg speki liggi þar að baki. Yfirmenn lögreglunnar skella þó fljótlega skuldinni á frjálslynda presta, sem hafi viljað gera fangelsin að einhvers konar skemmtistöðum.

Síðar í myndinni taka nokkrir glæpamenn rómversk-kaþólskan prest í gíslingu þegar þeir leggja á flótta undan lögreglunni eftir bankarán. Þegar presturinn leggst á bæn um hjálp, birtist rannsóknarlögreglumaðurinn Murri og fellir ræningjana einn af öðrum í miklum skotbardaga, en þann síðasta skýtur hann til bana þó svo að hann hafi gefist upp. Engu að síður fagnar presturinn þessum málalokum og segir við Murri: „Guð fyrirgefi þér, sonur minn, og megi þú lifa í friði við samvisku þína.“ Murri svarar honum hins vegar kuldalega: „Ég er ósáttur við hana. En ég er ekki jafn viss um hina látnu. Þeir þurfa á fyrirgefningu að halda. Biddu eins og tvær maríubænir fyrir þeim.“

Yfirmenn Murris reynast hins vegar ekki jafn skilningsríkir og presturinn og ávíta þeir hann fyrir að hafa tekið lögin í sínar eigin hendur og fellt síðasta ræningjann að óþörfu. Murri svarar þó ávallt fyrir sig fullum hálsi og segir m.a. við saksóknarann: „Engum er borgið með því að rétta hina kinnina.“ (Sbr. Mt. 5:39.) Hefndarhyggjan og afneitunin á kærleiksboðskap kristninnar er í raun sláandi í kvikmyndinni, en framsetningin er þó svo vitlaus, að enginn getur tekið það alvarlega.

Besta atriðið er í lok kvikmyndarinnar þegar Murri ætlar að halda burt með næsta flugi, en vinkona hans leitar hann uppi á flugvellinum og segist ekki vilja missa hann frá sér, enda hafi hann bjargað sér þegar skúrkurinn Letteri sendi hana í vændi eins og sauð meðal úlfa (Mt. 10:16). Murri spyr hana þá hvort hún kunni nokkuð að elda silung, en þegar hún neitar því, snýr hann strax áhugalaus við henni baki og heldur í átt að flugvélinni. Vinkonan reddar sér hins vegar strax farmiða og hleypur hann uppi til að segja honum að hún sé svo sannarlega tilbúin til að læra að elda, en við það brosir hann á nýjan leik og tekur stúlkuna í sátt. Þó svo að hér sé um einstaklega illa leikið og heimskulegt atriði að ræða, dugði það til að hækka myndina upp í hálfa stjörnu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 5:39, Mt 10:16
Guðfræðistef: frjálslynd guðfræði, fyrirgefning
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, vændi, mannrán
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kapella, klaustur
Trúarleg tákn: kross, róðukross, maríustytta, maríumynd, altari, dýrlingamynd
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, maríubæn