Kvikmyndir

Hrútar

Hrútar

Leikstjórn: Grímur Hákonarson
Handrit: Grímur Hákonarson
Leikarar: Sigurður Sigurjónsson, Theodór Júlíusson, Charlotte Bøving
Upprunaland: Ísland
Ár: 2015
Lengd: 93
Hlutföll:
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði

Bræður í Bárðardal hafa ekki talast við í fjörutíu ár. Þeir mætast í umhyggju sinni fyrir sauðkindinni, takast á í hrútakeppni og þurfa á endanum að taka höndum saman til að bjarga því sem þeim er kærast.

Um kvikmyndina

Hrútar er önnur kvikmynd Gríms Hákonarsonar í fullri lengd. Hann leikstýrir myndinni og skrifar handritið. Áður hefur Grímur gert kvikmyndina Sumarlandið (2010), heimildarmyndirnar Hreint hjarta (2012) og Varði Goes Europe (2002) og stuttmyndirnar Bræðrabylta (2007) og Slavek the Shit (2004). Þetta eru fjölbreyttar myndir sem margar hverjar hafa að geyma eftirminnilegar mannlýsingar. Grímur hefur gott vald á kvikmyndamiðlinum og með Hrútum markar hann sér sess sem einn af okkar fremstu kvikmyndagerðarmönnum.

Aðalhlutverkin í Hrútum eru í höndum Sigurðar Sigurjónssonar og Theodórs Júlíussonar. Þeir sýna góðan leik í myndinni og enginn þarf að velkjast í vafa um að tvímenningarnir eru í hópi okkar bestu leikara.

Handrit Hrúta er vel skrifað, framvindan er þétt og hæfilega mikið er skilið eftir handa ímyndarafli áhorfandans. Þannig er þetta ekki ein af myndunum þar sem efniviðurinn er tugginn fyrir áhorfandann og jafnvel meltur líka. Til að mynda er fortíð bræðranna óræð og áhorfandinn í óvissu um hvað það var sem stíaði þeim í sundur fyrir fjórum áratugum.

Samtöl eru vel skrifuð og sannfærandi. Kvikmyndatakan er látlaus og til fyrirmyndar. Tónlistin er mögnuð og seiðandi. Þetta er kvikmynd sem birtir Ísland eins og það er í raun og veru en ekki Ísland glansbæklinga fyrir ferðamenn.

Hrútar hefur vakið verðskuldaða athygli. Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í maí 2015 og þar vann hún til Un certain regard verðlaunananna sem eru í hópi virtari verðlaun sem veitt eru kvikmyndum. Kannski er þetta til marks um að upp sé runnið íslenskt kvikmyndavor sem byggir á fagmennsku öflugra kvikmyndagerðarmanna með skarpa listræna sýn og getu til að segja magnaðar sögur.

Annar bræðranna horfir inn í fjárhús.

Annar bræðranna horfir inn í fjárhús.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:

Á yfirborðinu virðast Hrútar ekki fjalla mikið um hið trúarlega en þegar skyggnst er undir yfirborðið leynast hliðstæður við trúar- og Biblíustef sem vert er að gefa gaum. Að auki kvikna við áhorfið hugrenningatengsl við listaverk eins og Aðventu Gunnars Gunnarssonar sem geymir fjölda trúarlegra vísana.

Hér verður staldrað við þrjú meginstef í myndinni: (1) köllun sem er lykilhugtak í guðfræðinni, hliðstæður við nokkra texta í Biblíunni sem fjalla um (2) tengsl bræðra og (3) hirði og sauði. Rétt er að taka fram að í myndinni eru ekki beinar vísanir til þessara texta en sjá má hliðstæðu eða samsvörun milli ritningartextanna og myndarinnar.

1. Köllun

Bræðurnir eru kallaðir til að vera bændur, þeir eru hirðar sauðanna og og yrkja jörðina. Hvorugur á fjölskyldu nema þá sem felst í dýrunum á bænum. Þeir finna kærleika sínum farveg í umgengninni við dýrin sem þeir annast af natni og mikilli umhyggju. Þetta er ljóst strax frá upphafi myndarinnar þegar við sjáum Gumma sem leikinn er af Sigurði Sigurjónssyni tala til dýranna sinna með mikilli hlýju. Þegar sjúkdómur ógnar dýrunum á bænum komast bræðurnir í uppnám sem undirstrikar með enn skýrari hætti hversu veigamikill hluti af lífi þeirra þetta er.

2. Á ég að gæta bróður míns?

Í 1. Mósebók segir af bræðunum Kain og Abel, sonum Adams og Evu. Þar segir frá því hvernig fórn yngri sonarins Abels var Guði meira þóknanleg en fórn Kains. Við því brást Kain með því að myrða bróður sinn. Þegar hann var svo inntur eftir því af Guði hvar bróðirinn væri svaraði hann:

„Á ég að gæta bróður míns?“ (1Mós 4.9)

Þetta svar kemur upp í hugann í myndinni, ekki síst þegar einn af fulltrúum hins opinbera tjáir Gumma að hann sé í raun ábyrgur fyrir bróður sínum. Orðalagið sem hann notar er keimlíkt og hugrenningatengsl óhjákvæmileg. Munurinn er þó sá að svar Kains tjáir ábyrgðarleysi á meðan yfirlýsing hins opinbera embættismanns tjáir ábyrgð. Um leið sýnir Gummi sig sem andstæðu Kains því hann bjargar lífi Kidda ítrekað.

Annar ritningarstaður sem varðar samskipti bræðra kemur líka upp í hugann við áhorfið. Það er Sálm 133.1 þar sem segir:

„Sjá, hversu fagurt og yndislegt það er
þegar bræður búa saman.“

Árin fjörutíu sem bræðurnir hafa ekki talast við eru eins konar andstæða við yfirlýsinguna í þessu versi. Þeir búa hlið við hlið en hafa einungis yfirborðskennd og formleg samskipti. Sá tími er þannig allt annað en vitnisburður um fegurðina í samskiptum bræðra.

Að síðustu má nefna árin fjörutíu, sem kallast á við árin sem Ísraelsmenn voru í eyðimörkinni áður en þeir gengu inn til landsins fyrirheitna, sbr.

Í fjörutíu ár gengu Ísraelsmenn um eyðimörkina (Jós 5.6).

Bræðurnir mætast í hrútakeppninni.

Bræðurnir mætast í hrútakeppninni.

3. Hirðar og sauðir

Meginstefið í myndinni varðar þó hirði og sauði. Í Biblíunni er fjöldi frásagna, kafla og versa sem fjalla um hirði, sauði og samband þeirra. Guði er oftar en ekki líkt við hirði, t.d. í Sálm 23 sem er einn þekktasti texti Biblíunnar og hefst á orðunum:

Drottinn er minn hirðir,
mig mun ekkert bresta.
Á grænum grundum lætur hann mig hvílast,
leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta.

Þá lýsir Jesús sjálfum sér sem góða hirðinum sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina (Jóh 10.11-15). Jesús sagði líka dæmisögur af samskiptum hirða og sauða, til að mynda þá um manninn sem á hundrað sauði og leggur mikið í sölurnar til að leita að einum sem villist. (Matt 18.12-14). Þegar leiðtogar í kristnum söfnuði eru hvattir í 1. Pétursbréfi er notað líkingamálið hirðir og hjörð (1Pét 5.2).

Loks líkir Jesús fylgjendum sínum við lömb þegar hann á orðaskipti við Símon Pétur:

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“
Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“
Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“
Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. (Jóh 21.15-17)

Sjá má hliðstæðu milli þeirrar hugsunar sem er tjáð í þessum ritnignarstöðum og hlutverks bræðranna sem hirða og þeirrar miklu umhyggju sem þeir bera fyrir kindum sínum og hrútum. Þótt vísanirnar séu ekki beinar nýtist myndin til að skilja hvernig þetta samband hirðis og hjarðar getur birst og getur þannig virkað sem eins konar útlagning á hirðshugsuninni í Biblíunni.

Hér mætti jafnvel sjá fyrir sér hliðstæðu milli sýnarinnar á samskipti Guðs og manneskju, þar sem hirðirinn er fulltrúi Guðs en sauðirnir fulltrúar manneskjunnar. Svo mætti líka hugsa sér að sjá bræðurna tvo sem fulltrúa fyrir þá lífsafstöðu sem kristnir einstaklingar eiga að hafa og felst í því að sýna náunganum umhyggju og annast um jörðina.

Hliðstæður við texta trúarrits: 1Mós 4.9, Sálm 133.1, Jóh 21.15-17, Jós 5.6, Sálm 23, Jóh 10.11-15, Matt 18.12-14, 1Pét 5.2
Persónur úr trúarritum: Kaín, Abel, Jesús, Símon Pétur
Guðfræðistef: köllun
Trúarbrögð: kristni
Trúarlegar hátíðir: jól
Trúarlegt atferli og siðir: útvarpsmessa, aftansöngur á aðfangadagskvöldi

Vefur myndarinnar
Síða myndarinnar á Facebook
IMDb síða myndarinnar