Leikstjórn: Omiros Efstratiadis
Handrit: John Pardos og John Sklavos
Leikarar: Jennifer Mason, Kostas Prekas [undir nafninu Dean Byron], Chris Nomicos, Giannis Zavradinos [undir nafninu John Vradinos], Dimitris Tsaftaridis [undir nafninu James Chaft] og Evelin Rouge
Upprunaland: Grikkland
Ár: 1979
Lengd: 85mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 1
Ágrip af söguþræði:
Skartgripaþjófur myrðir húsvörð sem stóð hann að verki við innbrot í villu ríkrar konu. Þar sem þjófurinn kunni talnaröðina á öryggisskápnum í svefnherbergi konunnar, þrýstir rannsóknarlögreglan á hana að upplýsa hverjir hafi haft þar aðgang.
Almennt um myndina:
Frekar illa gerð grísk sakamálamynd þar sem aðalleikkonan fær ótal tækifæri til að fækka klæðum. Grátköst hennar við tíðindin af morðinu eru vægast sagt ósannfærandi (jafnvel þótt hún eigi mögulega að hafa gert sér þau upp) en enska talsetningin er svo sem líka slæm. Efnistökin minna nokkuð á ítölsku gulmyndamorðgáturnar sem lengi voru vinsælar í Grikklandi og gætu því eflaust margir áhugamenn um evrópskar ruslmyndir haft gaman af henni.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ríka konan er sögð hafa fengið strangt uppeldi en við dauða stjúpföður hennar hafi hún ákveðið að prófa hvað eina sem henni hafði áður verið bannað. Einn af vinum hennar er listmálari, sem málar af henni málverk, sem hann kallar ‚Konan með epli‘, enda situr hún fyrir nakin með epli. Engin tilviljun er að þar skuli epli koma við sögu enda er konan bæði lauslát og svikul og táldregur hvern þann sem hún girnist. Gömul hefð er fyrir því að líta á ávöxtinn sem epli, sem Eva borðaði af skilningstrénu og gaf manni sínum með sér þrátt fyrir bann Guðs (sbr. 1M 3:6).
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 3:6
Siðfræðistef: lauslæti, morð, skaðræðiskvendi, fjárhættuspil, lygi, eiturlyf, samkynhneigð, svik
Trúarleg tákn: kross á legstað, veggkross, epli