Kvikmyndir

Jacob’s Ladder

Leikstjórn: Adrian Lyne
Handrit: Bruce Joel Rubin
Leikarar: Tim Robbins, Elizabeth Peña, Danny Aiello og Matt Craven
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1990
Lengd: 116mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0099871
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Líf Jakobs er martröð. Eftir að hann snéri heim frá víetnam hefur líf hans verið hver hörmungin á fætur annarri. Sonarmissir og hörmuleg reynsla úr stríðinu þjaka sálu hans. Þegar Jakob fer að sjá djöfla í hverju horni heldur hann að hann hafi misst öll veruleikatengsl, en þegar vinir hans úr stríðinu játa fyrir honum að þeir hafi sömu sýnir, áttar hann sig á því að rót vandanns liggur annars staðar.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Jacob’s Ladder hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér, eða síðan ég sá hana fyrst í Bíó fyrir rúmum tíu árum. Það hafa margir sagt þessa mynd vera þá mynd sem hefur hrist hvað mest upp í þeim andlega. Það er því löngum tímabært að fjalla um Jacob’s Ladder hér á vefnum. Vandinn er hins vegar sá að það er algjörlega ómögulegt að fjalla um myndina án þess að ljóstra upp um það hvernig hún endar. Þeir sem ekki hafa séð myndina ættu því að hætta lestrinum, leigja myndina og halda síðan lestrinum áfram.

Jacob’s Ladder fjallar um dauðastríð hermans og gerist í raun nær öll inni í haus (sál?) hans. Jakob sættir sig ekki við dauðann og rígheldur í minningar sínar og hið jarðneska líf. Hann krefst þess einnig að fá vita ástæðuna fyrir andláti sínu. Jacob er því á milli himins og heljar og skilur ekki aðstæður sínar. Hann sér djöfla út um allt og finnst sem þeim gangi illt eitt til. Meira að segja sambýliskona hans Jesibel er ein af þeim púkum sem ofsækja hann.. Orð Louis lýsa ástandi Jakobs vel:

“Það eina sem brennur í helvíti er það sem bindur okkur við lífið. Minningar þínar og sambönd. Þú brennur þær allar, en það er ekki refsing heldur er verið að frelsa sál þína. Ef þú óttast dauðann og neitar að deyja þá muntu sjá djöfla tæta líf þitt í sundur. En ef þú ert sáttur við dauðann þá áttar þú þig á því að djöflarnir eru í raun englar sem eru að frelsa þig frá jörðu.”

Hér er helvíti ekki vondur staður, þótt það geti verið kvalarfullt. Helvíti er í raun tákn fyrir þjáningar þess einstaklings sem Guð reynir að leysa úr læðingi jarðneskra hluta. Hin klassíska kristna mynd hefur því fengið táknræna merkingu. Það eru margar vísanir í helvíti í myndinni, en Jakob fer í raun niður til heljar. Hann fær t.d. mjög háan hita, en hiti hefur oft verið tengdur við helvíti og í sjúkrahúsinu er farið með hann niður endalausa ganga þar sem líkamsleifar og afskræmt fólk liggur um allt eins og hráviður. Jakob segir meira segja sjálfur eftir þessa reynslu að hann hafi farið til heljar. Svo má ekki gleyma djöflunum en þeir eru að sjálfsögðu fyrst og fremst í helvíti.

Nafn myndarinnar vísar í þrjár áttir.

1) Augljósasta tilvísunin er himnastíginn sem Jakob gengur upp í lok myndarinnar, eftir að hann hefur sætt sig við dauðann.
2) Nafnið vísar einnig til eiturlyfs sem herinn þróaði í Víetnamstríðinu. Lyfið heitir Stigi (Ladder) en það dregur fram myrkustu og verstu kenndir mannsins, m.ö.o. er það stigi niður til heljar (andstæða himnastigans).
3) Mikilvægust er þó vísunin í draum Jakobs í Fyrstu Mósebók 28:10-22. Það eru þessi tengsl sem ég ætla að taka fyrir í þessari umfjöllun. Í kaflanum um draum Jakobs segir meðal annars:

“Þá dreymdi [Jakob]. Honum þótti stigi standa á jörðu og efri endi hans ná til himins, og sjá, englar Guðs fóru upp og ofan eftir stiganum.“ (12. vers).

Þessi texti er sérstaklega áhugaverður í ljósi þess að látinn sonur Jakobs heitir Gabríel og það er hann sem sækir Jakob í lok myndarinnar og leiðir hann upp stigann. Gabríel er að sjálfsögðu einn þekktasti engill sögunnar. Kvikmyndin er því í raun mjög áhugaverð útlegging á draumi Jakobs. Stiginn er hér sá stigi sem hinir látnu þurfa að feta og englarnir hafa fengið það hlutverk að leiða sálirnar upp stigann. Þeir sem ekki vilja hins vegar deyja sjá djöfla í stað engla og skilja ekki að englarnir eru þarna til að hjálpa þeim. Það áhugaverða við þessa kvikmynd er að stigi Jakobs er í raun og veru helvíti í jákvæðri merkingu þess orðs, eða að minnsta kosti sviðið áður en maður gengur upp stigann. Stigin er n.k. hreinsunareldur þar sem öll jarðneskt tengsl eru brennd svo hinn látni komist til himna.

Jakob er mjög merkileg biblíupersóna. Hann er t.d. sá eini sem getur státað af því að hafa glímt við Guð og haft betur (1M 32:22-32). Frásögnin af glímunni er ein furðulegasta saga Biblíunnar en þar segir meðal annars:

Jakob varð einn eftir, og maður nokkur glímdi við hann, uns dagsbrún rann upp. Og er hann sá, að hann gat ekki fellt hann, laust hann hann á mjöðmina, svo að Jakob gekk úr augnakörlunum, er hann glímdi við hann. Þá mælti hinn: „Slepptu mér, því að nú rennur upp dagsbrún.“ En hann svaraði: „Ég sleppi þér ekki, nema þú blessir mig.“ Þá sagði hann við hann: „Hvað heitir þú?“ Hann svaraði: „Jakob.“ Þá mælti hann: „Eigi skalt þú lengur Jakob heita, heldur Ísrael, því að þú hefir glímt við Guð og menn og fengið sigur.“ Og Jakob spurði hann og mælti: „Seg mér heiti þitt.“ En hann svaraði: „Hvers vegna spyr þú mig að heiti?“ Og hann blessaði hann þar. Og Jakob nefndi þennan stað Peníel, „því að ég hefi,“ kvað hann, „séð Guð augliti til auglitis og þó haldið lífi.“

Það er gaman að skoða kvikmyndina í ljósi þessarar sögu. Jakob krefst þess að frá að vita hvers vegna hann dó áður en hann heldur áfram för sinni til himnaríkja. Það er t.d. ekki fyrr en Jakob fær upplýsingar um að hersveit hans hafði verið tilraunahópur að hann er tilbúinn að deyja. Það má því í raun segja að Jakob glími við Guð og hafi betur þegar ljóstrað er upp um sannleikann því um leið öðlast Jakob sálarfrið. Ég held að það sé t.d. engin tilviljun að þegar Jakob tekur leigubíl heim til sín eftir að hafa fengið að vita um sannleikann horfir hann á kross í lyklakippu sem sveiflast fram og aftur.

Það er einnig áhugavert að himnastiginn er heima hjá Jakobi. Ég held að það sé ekki oftúlkun að líta svo á að með því sé verið að segja að himnaríki sé okkar rétta heimkynni. Fyrsta skiptið sem Jakob fer heim til sín er í lok myndarinnar, ef frá er talinn draumur og endurminning. Fram að þeirri stundu býr hann á öðru heimili eða er lokaður niðri í lestagöngum og sjúkrahúss kjöllurum.

Jacob’s Ladder er hörð ádeila á stríð en í myndinni lætur herinn framleiða efni sem dregur fram myrkustu og verstu sálarkima mannkynsins. Ég held að það sé varla hægt að lýsa stríði betur. Mannkynsagan hefur margsinnis sannað að í hernaði brýst fram versta eðli mannkynsins. Efnafræðingurinn sem framleiddi efnið segir Jakobi að eftir að hersveitinn tók lyfið inn hafi hún barist innbyrðis: “Þið drápuð hvern annan, það var bróðir gegn bróður.“ Þetta er nákvæmlega það sem gerist í hernaði. Mannkynið er í raun ein fjölskylda, við erum öll bræður og systur. Í hernaði erum við hvött til að gleyma þessu og líta á óvininn sem óskyldan aðila og um leið snýst bróðir gegn bróður. Lítið bara á Bosníustríðið. Fyrir stríðið bjuggu þjóðarbrotin í sátt og samlindi en í stríðinu voru fjölskyldur splundraðar og vinir snérust gegn hvor öðrum.

Það má einnig líta á kvikmyndina sem útleggingu á þeim erfiðleikum sem við verðum fyrir í lífinu. Jakob finnst sem djöflar elti sig og líður í raun vítiskvalir, en sannleikurinn er sá að þetta eru englar sem eru að reyna að hjálpa honum. Eru erfiðleikar okkar ekki einnig oft af þessum toga? Við göngum í gegnum eldskírn, þar sem okkur finnst himnarnir og jörðin hafi snúist gegn okkur en að lokum erum við þakklát fyrir prófraunina vegna þess að við lærðum af henni. Sjálfur hef ég margsinnis lent í slíkum aðstæðum. Ef ekki væri fyrir erfiðleika myndi maðurinn ekki þroskast. Með þessu er ég ekki að segja að allir erfiðleikar í lífinu séu frá Guði. Ég er heldur ekki að segja að allir erfiðleikar séu til góðs. Hins vegar held ég að daglegt andstreymi sé aðeins til að brýna okkur. Ég held meira að segja að hörmungar geti orðið til góðs, ekki vegna þess að Guð kallaði þær yfir okkur heldur vegna þess að Guð getur snúið harmeik í eitthvað betra. Síðari heimstyrjöldin er gott dæmi. Ég efast um að hún hafi verið Guðs vilji en ég held að hún hafi þroskað mannkynið heilmikið. Í dag erum við t.d. staðráðin í því að láta helförina ekki endurtaka sig, sama í hvaða mynd hún er.

Að lokum langar mig að fara nokkrum orðum um nöfn persóna í kvikmyndinni. Nær allir í myndinni bera biblíunöfn, en Jakob leggur áherslu á þessa staðreynd í samtali við Jesibel. Þar segir hann að nöfn sona hans, Elía og Jed séu úr Biblíunni, en að þeir hafi báðir verið spámenn. Þegar Jesibel segist ekkert gefin fyrir biblíunöfn bendir hann henni á að nafn hennar sé einnig úr Biblíunni. Við þetta bætist að eiginkona Jakobs heitir Sara og þriðji sonurinn Gabríel (kallaður Gabe). Önnur gyðing-kristin nöfn sem koma fyrir eru Páll, Mikael og Georg. Svo má að sjálfsögðu ekki gleyma Jakobi sjálfum. Það er í raun grein útaf fyrir sig að rannsaka myndina í ljósi nafna persóna hennar, en það verður að bíða betri tíma.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 1M 28:10-22
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 32:22-32
Persónur úr trúarritum: Elía, Engill, Gabríel, Georg, Jakob, Jed, Jesibel, Jólasveinn, Kerúbi, Lúsifer, Mikael, Páll, Sara, Satan,
Guðfræðistef: dauði, framhaldslíf, illska
Siðfræðistef: eiturlyfjanotkun, morð, stríð
Trúarbrögð: djöfladýrkun, kristni
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: lófalestur, jarðarför