Kvikmyndir

Jungfrukällan

Leikstjórn: Ingmar Bergman
Handrit: Ulla Isaksson
Leikarar: Max von Sydow, Birgitta Valberg, Gunnel Lindblom, Birgitta Pettersson, Axel Düberg, Tor Isedal, Allan Edwall, Ove Porath, Axel Slangus, Gudrun Brost og Oscar Ljung
Upprunaland: Svíþjóð
Ár: 1960
Lengd: 86mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Ungri stúlku á leið til kirkju er nauðgað af tveimur geitahirðum í skógarrjóðri og lík hennar skilið þar eftir. Morðingjarnir leita síðan skjóls á bóndabýli foreldra hennar og reyna að selja þar klæði hennar án þess að gera sér grein fyrir hvar þeir eru staddir. Heimilisfólkið áttar sig hins vegar á því hvað gerst hefur og hefnir faðirinn sín grimmilega á morðingjum dóttur sinnar.

Almennt um myndina:
Eftir áratuga langt starf við kvikmyndagerð í Svíþjóð hafði hróður Ingmars Bergmans sem kvikmyndaleikstjóra borist út fyrir landsteinanna og hver alþjóðlega útnefningin og viðurkenningin rekið aðra. Ekkert lát var á nýjum kvikmyndum frá honum þó svo að hann væri einnig mjög virkur í leikhúsinu. Kringum hann myndaðist brátt þrautþjálfaður hópur frábærra leikara sem unnu með honum bæði á leiksviðinu og í kvikmyndaverinu. Þar á meðal má nefna leikara eins og Max von Sydow, Bibi Anderson, Harriet Anderson, Ingrid Thulin og Gunnar Björnstrand. Með dyggum stuðningi þessa samstarfsfólks réðst Bergman nú til atlögu við hinar stóru spurningar um lífið og tilveruna og rak hvert trúarlega listaverkið eftir annað. Árið 1957 var myndin Sjöunda innsiglið frumsýnd. Tveimur árum seinna kom myndin Andlitið og árið þar á eftir Meyjarlindin. Í þessum kvikmyndum og reyndar einnig í mörgum af þeim myndum sem á eftir fylgdu eru megin viðfangsefnin trúarlegs eðlis.

Kvikmyndin Meyjarlindin er tvímælalaust ein af bestu myndum Bergmans, frábærlega vel gerð og leikin. Hún var síðar endurgerð í Bandaríkjunum undir nafninu Endahúsið til vinstri (The Last House on the Left) og heimfærð til samtímans, en frumgerðin gerist á 13. öld í Svíþjóð. Endurgerðin, sem er alræmd hryllingsmynd og hefur m.a. verið bönnuð hér á landi, fylgir atburðarrás frumgerðarinnar eftir í aðalatriðum en sleppir samt trúarstefunum að mestu. Enda þótt Endahúsið til vinstri sé ekki alslæm kvikmynd er hún samt mun síðri en frumgerð Bergmans.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Meyjarlindin fjallar um sjúklega öfund, afbrýðisemi, hefnigirni, sjálfsdýrkun og bældar og sjúkar tilfinningar í samfélagi sem er á mörkum heiðni og kristni, en þar kemur fram hvernig Guð opinberar sig fyrir mönnunum þegar mennskan er í hvað mestri hættu og grimmd mannanna og ódæðisverk þeirra ógna samfélaginu. Náð Guðs birtist þar sem kraftaverk þar sem mannleg eymd og örvinlan eru í algleymingi.

Myndin byggir á gömlu þjóðkvæði frá 13.öld um kraftaverk í tengslum við hrottafengna nauðgun og morð á ungri stúlku og hefnd föður hennar. Ung stúlka, Karin að nafni, er send með kerti til kirkju til að tendra á því Maríu mey til dýrðar. Hún er fögur og á falleg föt en mesta skart hennar er meydómurinn. Hún er björt yfirlitum og augasteinn foreldra sinna og tákn hennar er sólin. Það er komið fram við hana eins og prinsessu og hún lítur á sig sem hátt upp hafna yfir aðra, þar á meðal Inger fóstursystur sína, sem einnig er kölluð hálfsystir hennar. Faðir hennar lætur allt eftir henni og hún skyggir jafnvel á móður sína, sem þó ann henni engu síður en faðirinn. Móðirinn, sem er heittrúuð og stundar meinlæti í laumi, fyllist vanmætti og er tilfinningalega köld gagnvart manni sínum sem bætir sér það upp með því að láta vel að dóttur sinni.

Inger er andstæða systur sinnar að öllu leyti. Hún er öskubuskan á heimilinu, skítug, lævís og ófrísk í þokkabót. Karin er þó ekki saklausari en það að hún daðrar á dansleik við manninn sem barnaði systur hennar og stráir þannig salti í sár hennar. Inger hatar systur sína í laumi og óskar þess að eitthvað hræðilegt komi fyrir hana. Hún leitar þess vegna fulltingis hjá Óðni og illum vættum í því skyni að fá hjálp til að ná sér niðri á systur sinni. Leiðin til kirkjunnar liggur í gegnum skóginn og mætir Karin þar þremur geitahirðum, sem allir eru bræður. Dekurbarnið á sér einskis ills von og býður þeim að borða með sér nesti sitt, en þeir nauðga henni og myrða.

Faðir stúlkunnar er ráðríkur héraðshöfðingi, sem umturnast við tíðindin af morðinu og grípur til heiðins rituals sem felst m.a. í því að hann baðar sig, þ.e.a.s. hreinsar sig fyrir aftöku morðingjanna. Þegar hinir seku leita skjóls á heimili hans og bjóða þar skartklæði fórnarlambsins fram sem borgun fyrir næturgreiðan, þekkir móðir Karinar strax kjólinn og segir bónda sínum. Hann drepur, eða slátrar, hinum seku og hlífir ekki einu sinni barnungum saklausum bróður þeirra. Þegar hann finnur svo dóttur sína látna og áttar sig á öllu því sem gerst hefur, hrópar hann til Guðs, sem horfði á þetta allt saman án þess að koma í veg fyrir nauðgunina, morðið eða hefnd hans. Bugaður biður hann Guð um fyrirgefningu og virðist Guð svara honum með því að láta vatn streyma fram og mynda lind þar sem lík stúlkunnar hafði verið. Inger fær síðan fyrirgefningu með því að drekka vatn úr lindinni og þvo sér upp úr henni. Friður færist yfir söfnuðinn sem leitaði stúlkunnar og höfðinginn heitir því að byggja kirkju úr steini þar sem lindin spratt fram. Þessi heitstrenging gefur til kynna að þrátt fyrir að maðurinn sé gjörspilltur og á valdi hins illa er kirkjan sú stofnun sem samfélag manna er grundvallað á.

Í mörgum mynda Bergmans má greina tvær persónur, oft tvær konur, sem tákna andstæða eiginleika og hvatir. Þær reyna að tengjast og mynda þannig eina hamingjusama manneskju en oftast án árangurs eins og sjá má í myndunum Þögninni og Persónu. Sálgreinirinn Frank Gado hefur skilgreint samband systranna Karinar og Ingerar þannig að um sé að ræða klofinn persónuleika höfundarins, þ.e. leikstjórans, sem hafi ekki beðið bætur frá því stranga uppeldi sem hann segist hafa hlotið í æsku. Ingmar Bergman, sem var mjög viðkvæmur að eðlisfari og í mikilli þörf fyrir ástúð og umhyggju, hefur við mörg tækifæri lýst föður sínum sem mislyndum og skapbráðum föður sem greip til líkamlegra refsinga sem hann tók mjög nærri sér. Hann hefur sagt að hann hafi aldrei alveg getað vitað á hverju hann mætti eiga von frá föður sínum sem hann þó vildi þóknast. Af ævisögu Bergmans má ráða að sködduð sjálfsmynd í æsku leiddi til þess að hann hörfaði inn í heim ímyndana og dagdrauma. Hann fékk útrás með því að formæla bæði föður sínum og Guði en þjáðist um leið vegna innibirgðar reiði og samviskubits. Karin, sem ber nafn móður Ingmars Bergmans, vísar til þess hluta persónu hans, sem var í uppáhaldi hjá foreldrum hans og naut athygli þeirra og umhyggju. Inger, sem ber í raun sama nafn og Ingmar sjálfur, er aftur á móti sá hluti persónu hans, sem sektarkenndin þjakar og foreldrar hans niðurlægja og hafna. Þessi persóna býr meðal djöfla og samsamast illum öflum til þess að ná fram vilja sínum og hefna sín. Það er því um þessa hreldu sál sem læknandi og fyrirgefandi máttur meyjarlindarinnar streymir í lok myndarinnar.

Vatnið táknar hér náð Guðs og nýjan sáttmála við lífið, en það er eitt af mörgum birtingarformum náðar hans í myndum Bergmans. Hann hefur í raun beitt mörgum athyglisverðum aðferðum í listsköpun sinni til að sýna snertingu mannsins við guðdóminn. Halldór Hauksson hefur t.d. bent á það í fyrirlestri, sem hann hélt í Hallgrímskirkju sumarið 2003, að í kvikmyndinni Þögninni notar Bergman tónlist Bachs sem tákn um náð Guðs og staðfestingu á nærveru hans. Bergman er hrifinn af sígildri tónlist, ekki síst Mozart og Bach, og notar hann hana oft til að tengja andstæð öfl þannig að samhljómurinn læknar og frelsar klofna sál og veitir henni hvíld. Í kvikmyndinni Eins og í skuggsjá notar hann milda ljósbirtu umhverfis sögupersónuna sem merki um náð Guðs og endurnýjaða sátt við lífið og tilveruna. Óhætt er því að fullyrða að í kvikmyndinni Meyjarlindin sé náð Guðs til staðar.

Nánari umfjöllun um Ingmar Bergman og trúarstef í kvikmyndum hans má finna í ritinu Kónguló eða kærleiksguð: Um áhrif kristindómsins á Ingmar Bergman og listsköpun hans eftir Pétur Pétursson.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían
Persónur úr trúarritum: Óðinn, María mey, Kristur, Guð, seiðmaður
Guðfræðistef: kærleiki Guðs, almætti Guðs, fjarlægð Guðs, návist Guðs, náð Guðs, meydómur, kristin kirkja, synd, blessun, illur andi
Siðfræðistef: nauðgun, morð, þjófnaður, hefnd, heift, grimmd, hatur, öfund, sjálfsdýrkun, afbrýði, samviskubit
Trúarbrögð: kristindómur, ásatrú, galdrar
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: lind, kirkja
Trúarleg tákn: kerti, öndvegissúlur, róðurkross
Trúarlegt atferli og siðir: bölvun, bæn, kirkjubygging, heitstrenging, særingar
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, fyrirgefning, lækning