Kvikmyndir

Ken Park

Leikstjórn: Larry Clark og Edward Lachman
Handrit: Larry Clark og Harmony Korine
Leikarar: Tiffany Limos, James Ransone, Stephen Jasso, James Bullard, Mike Apaletegui, Adam Chubbuck, Wade Williams, Amanda Plummer, Julio Oscar Mechoso, Maeve Quinlan, Bill Fagerbakke, Harrison Young, Patricia Place, Richard Riehle, Seth Gray og Eddie Daniels
Upprunaland: Bandaríkin, Holland og Frakkland
Ár: 2002
Lengd: 96mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Ken Park fjallar um fimm vini og ömurlegar heimilisaðstæður þeirra. Öll eiga þau það sameiginlegt að koma frá brotnum fjölskyldum og misheppnuðu uppeldi.

Foreldrar Shawn eru skilin en hann eyðir deginum mest upp í rúmi hjá stjúpmóður sinni á meðan faðir hans er í vinnunni, þar sem hún kennir honum hinar ýmsu listir ástarlífsins. Við fáum aldrei að vita hvar foreldrar Tate eru en hann býr hjá ömmu sinni og afa. Tate er verulega truflaður á geði og hefði þurft mun strangara uppeldi og meðferð hjá geðlæknum. Afi hans og amma setja honum hins vegar engin mörk. Claude á drykkfelldan föður sem fyrirlítur hann og lætur hann heyra það reglulega.

Peaches er eina stúlkan í vinahópnum en hún hefur nánast þurft að sjá um föður sinn sem hefur ekki náð sér eftir að eiginkona hans (og móðir hennar) lést. Hann hefur flúið á náðir trúarinnar og lokað sig þannig út frá umheiminum. Loks er það Ken Park, sem myndin er kennd við, en allt hefst þetta á því að hann sest niður á miðju hjólabrettasvæði, kveikir á stafrænni kvikmyndavél og snýr henni að sér, tekur svo upp skammbyssu og skýtur sig í hausinn. Þótt við fáum aldrei að vita um heimilisaðstæður hans er gefið í skyn að þær hafi verið litlu betri.

Almennt um myndina:
Það var furðuleg upplifun að mæta 15 mín. fyrir sýningu á kvikmyndahátíð á virkum degi og fá þær fréttir að það sé uppselt á myndina. Margir þurftu frá að hverfa og salurinn var pakkaður af unglingum. Ég spurði ungan dreng sem sat við hlið mér hvers vegna hann teldi að það væri uppselt á myndina. Hann svaraði því til að Skonrokk hafi verið að gefa miða á hana. „Það útskýrir varla allan fjöldann“ sagði ég og sagði hann þá að málið væri að það væri nóg að segja að myndin væri eftir leikstjóra Kids. „Það elska allir Kids. Svo er meira kynlíf í þessari mynd en í Kids. Það fara því allir á hana!“

Ég held að þessi drengur hafi hitt naglann á höfuðið. Fólk er forvitið í eðli sínu og þá sérstaklega unglingar þegar kemur að kynlífi. Ken Park er auglýst og seld út á kynlífið. Veggspjaldið er t.d. af ungum drengi með höfuðið á milli kvenmannslæra (reyndar læra stjúpmóður sinnar). Veggspjaldið er hins vegar nokkuð saklaust miðað við innihaldið. Í myndinni er allt sýnt. T.d. sjálfsfróun drengs, allt frá því að honum rís hold til sáðláts og þegar ég segi að allt sé sýnt þá meina ég allt.

Fjaðrafokið í kringum myndina hefur einnig verið út af kynlífinu. Það tók Larry Clark um átta ár að fá myndina gerða, en handritið var tilbúið áður en hann gerði Kids. Þá hefur myndin verið bönnuð í Ástralíu. Reynt var að sýna DVD eintak af henni þar en lögreglan réðist inn í sýningarsalinn og var sú sýning því aldrei kláruð. Mér sýnist myndin ekki enn hafa fengist sýnd í Bretlandi en Larry Clark, annar leikstjóra myndarinnar, neitar að klippa ramma úr henni og þar við situr. Allt vekur þetta að sjálfsögðu enn meiri áhuga hjá unglingum og hefur því þveröfug áhrif.

Ken Park hefur verið bönnuð innan 18 ára í flestum löndum. Hún er hins vegar aðeins bönnuð innan 16 á Íslandi enda nær skalinn ekki hærra. Ég tel hins vegar fulla ástæðu til að hafa einnig möguleika á að banna myndir innan 18 aldurs og jafnvel 21. árs ef því er að skipta. Það er að minnsta kosti skynsamlegra en að banna myndir alfarið.

En nóg um kynlífið. Það sem fór í taugarnar á mér var í raun ekki kynlífið, þótt ég telji að það hafi gengið allt of langt, heldur sú dökka mannsmyndin sem dregin er upp í myndinni og svo boðskapurinn í lokin. Bill Chambers hjá Film Freak Central orðar það vel þegar hann segir í umfjöllun sinni um Ken Park að “Happiness [Todd Solondz: 1998] líti út eins og Dumbo [Ben Sharpsteen: 1941]” í samanburði við hana. Þótti nú mörgum nóg um viðbjóðinn í Happiness.

Það er í raun erfitt að gefa mynd sem þessari stjörnur. Ef ég á að miða við boðskap myndarinnar fengi hún falleinkunn. Mér leið eins og ég hafi dottið í rotþró þegar ég gekk út úr salnum. Ef ég miða hins vegar við handbragð kvikmyndagerðamannanna myndi ég gefa henni 3 stjörnur. Myndin er einfaldlega mjög vel gerð. Leikurinn er flottur, samtölin vel skrifuð og kvikmyndatakan áferðafalleg en hún er í raunsæisstíl sem gerir áhrifin enn sterkari. En er það nóg? Skiptir ekki einnig máli hvert markmiðið með öllu þessu er? Hér er Irreversible (Gaspar Noe: 2003) gott dæmi. Mannskilningurinn þar er litlu skárri en markmið myndarinnar er hins vegar ekki að æla viðbjóði yfir fólk heldur að sýna fram á skaðsemi ofbeldis og hefndar. Markmiðið með Ken Park virðist hins vegar vera það að velta sér upp úr mannsora og viðbjóði og sýna fram á að sjálfsvíg sé eina leiðin. Niðurstaða mín er því að fara bil beggja og gefa myndinni 2 stjörnur.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eins og áður sagði byrjar myndin á því að Ken Park sviptir sig lífi. Eftir það kynnumst við vinahópnum. Reyndar sjást þessir svokölluðu vinir sjaldan saman og virðast í raun vita sáralítið um hagi hvors annars. Það eru allir einangraðir í eigin heimi, uppteknir af sjálfum sér og nokkuð sama um aðra. Mannsmyndin sem dregin er upp er hræðilega svört. Hér eru nokkur dæmi. Rétt er að geta þess að ég mun ljóstra upp um flest sem gerist í myndinni.

Shawn virðist hafa mestan áhuga á að sænga hjá hugsanlega tilvonandi tengdamömmu sinni, en hún sinnir lítið um þriggja ára dóttur sína á meðan á ástarleikjunum stendur og skilur hana eftir fyrir framan sjónvarpið allan daginn þar sem barnið horfir á nærmyndir af afturendum ofurfyrirsæta í sundskýlum. Shawn er haldinn ödupusarduld af háu stigi og á erfitt með að sætta sig við það að stjúpmóðir hans hafi mök við föður hans. Öfundsýkin í garð hans birtist t.d. í því að hann spyr stjúpmóður sína hvort hann eða pabbi hans hafi stærra typpi. Shawn á reyndar kærustu en það hindrar hann ekki í því að sænga með tilvonandi tengdamömmu sinni eða Peaches, vinkonu sinni.

Claude er fíngerður strákur, nánast kvenlegur í útliti. Faðir hans er hins vegar mikið vöðvabúnt og að eigin mati hinn mesti karlmaður. Einhvern tíman reynir hann að fá Claude til að lyfta lóðum en þegar honum mistekst ætlunarverk sitt segir hann: „Veistu ekki hvers vegna móðir þín giftist mér? Ég er með vöðva! Ég skammast mín fyrir þig. Þú eyðileggur fyrir mér daginn þegar ég sé þig á morgnanna.“ Faðir Claude er sannfærður um hann sé hommi og fullkominn aumingi. Stuttu síðar segir hann vonsvikinn við eiginkonu sína (móður Claude): „Maður velur vini sína en maður getur ekki valið fjölskyldu sína.“ Í ljós kemur hins vegar að faðir Claude er ekki eins mikið gagnkynhneigt karlmenni og hann vildi vera láta. Um miðja nótt skríður hann upp í rúm sonar síns og leitar á hann.

Tate sýnir afa sínum og ömmu megnustu fyrirlitningu. Þegar amma hans kemur inn í herbergi hans með ávexti á disk rekur hann hana út með orðunum: „Ég er ekki svangur. Ég er að vinna! Þú hagar þér eins og einhver helvítis tík þegar þú kemur hingað inn án þess að banka. Kynferðislegur áhugi Tate er í samræmi við geð hans. Hann æsist kynferðislega við það að horfa á konur keppa í tennis í sjónvarpinu. Hann nær sér því í belti af baðslopp, bindur það við hurðahúninn í herberginu og vefur svo um háls sér. Síðan sest hann á gólfið þannig að beltið herðir að hálsinum og runkar sér yfir tennisleiknum, froðufellandi vegna súrefnisskorts. Tate er sannfærður um að afi hans sé alltaf að svindla í spilum og til að ná fram hefndum myrðir hann afa sinn og ömmu með búrhníf. Síðar réttlætir hann verknaðinn með eftirfarandi orðum: „Ég drap afa minn vegna þess að hann var svindlari sem naut þess að segja stríðssögur og ég drap ömmu vegna þess að hún var afskiptalaus stuðandi tík sem virti ekki einkalíf mitt.“ Þá greinir hann einnig frá því að sér hafi risið hold þegar hann sá afa sinn og ömmu liggja í blóði sínu.

Faðir Peaches er sjúklega heltekinn af Biblíunni og þá sérstaklega lögmálshluta hennar. Hann les í henni öllum stundum og virðist Opinberunarbókin í uppáhaldi, þá sérstaklega frásögnin af Babýlon, skækjunni miklu. Hann reiðir sig alfarið á túna þegar kemur að uppeldi Peaches en er hins vegar ekki nógu andlega sterkur í foreldrahlutverkið. Andlát eiginkonu hans virðist hafa tekið allan vind úr seglum hans, en hann fer reglulega í kirkjugarðinn til að flytja henni fréttir af fjölskyldunni. Fortíð hans virðist einnig vera vafasöm. Hann segist hafa ofnæmi fyrir dópi, orðalag sem gefur til kynna að hann hafi verið fíkill og segist hafa haft klofna tungu eins og snákur árum áður. Hann hafi hins vegar fengið lækni til að skera klofna hlutann í burtu og það án deyfilyfja. Biblíuuppeldið virðist ekki rista djúpt hjá Peaches sem er gefin fyrir BDSM og hópkynlíf. Þegar faðir hennar kemur einu sinni að henni í ástarleik trompast hann og neyðir dóttur sína til að giftast sér frammi fyrir! Guði og lofa því að hún muni aldrei vera við annan mann kenndan, ekki einu sinni eftir dauða sinn. Síðan kyssir hann dóttur sína ástríðufullum kossi, rétt eins og brúðgumi við lok hjónavígslu. Loforðið er Peaches fljót að svíkja en það næsta sem við sjáum til hennar er maraþon þríkantur með Claude og Shawn þar sem nánast allar stellingar eru prófaðar.

En að lokum aftur að Ken Park og boðskap myndarinnar. Ken Park hafði barnar kærustu sína. Hún ákveður að eiga barnið vegna þess að hún vill ekki vera barnamorðingi. „Ertu ekki fegin að móðir þín eyddi þér ekki?“ spyr hún sakleysislega og er ljóst að hún taldi spurninguna vera tetoríska. Svar Ken Park er hins vegar sjálfsvíg. Þar sem nafn myndarinnar vísar til Ken Park og þar sem hann rammar inn myndina má túlka það svo að gjörð hans sé yfirskrift myndarinnar. Hann og vinir hans eru börn sem hefðu betur ekki fæðst í þennan heim. Tilvist þeirra er svo ómerkileg og aumkunarverð að meira að segja vinir Ken Park muna ekki eftir honum í lok myndarinnar. En er þá boðskapurinn að sjálfsvíg sé lausnin? Það er erfitt að segja hvort það hafi verið markmið höfundar en sá túlkunarmöguleiki er vissulega til staðar og þar sem myndin virðast höfða mest til unglinga er framsetningin vægast sagt vafasöm.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, 3M 11, Opb 12, Opb 17
Persónur úr trúarritum: þrenningin, Jesús, óhreinir andar, falsspámenn, engill, Guð, snákurinn
Guðfræðistef: sorg, sorgarviðbrögð, uppeldi
Siðfræðistef: einelti, sjálfsvíg, klám, sifjaspell, samkynhneigð, karlmennska, heimilisofbeldi, eiturlyfjanotkun, framhjáhald, áfengissýki, grafreitur, BDSM, vændi, kynferðisleg misnotkun, synd, skýrlífi, hópkynlíf, fóstureyðing, uppeldi, morð
Trúarbrögð: kristin trú
Trúarleg tákn: kross, róðukross
Trúarlegt atferli og siðir: biblíunám, borðbæn