Leikstjórn: Enzo G. Castellari
Handrit: Enzo G. Castellari, Nico Ducci, Mino Roli og George Eastman [undir nafninu Luigi Montefiori]
Leikarar: Franco Nero, William Berger, Woody Strode, Donald O’Brien, Olga Karlatos, Giovanni Cianfriglia [undir nafninu Ken Wood], Orso Maria Guerrini, Gabriella Giacobbe, Antonio Marsina, Joshua Sinclair, Leon Lenor, Wolfgango Soldati og Riccardo Pizzuti
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1976
Lengd: 96mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0074740
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Að borgarastyrjöldinni lokinni heldur kynblendingurinn Keoma aftur á heimaslóðir sínar eftir margra ára fjarveru, en fósturbræður hans höfðu hrakið hann á brott, þar sem þeir sættu sig ekki við, að faðir þeirra skyldi hafa gengið honum í föðurstað, enda hálfur Indíáni að uppruna. Í ljós kemur að fósturbræðurnir hafa allir gengið til liðs við suðurríkjaherforingjann Caldwell, sem sölsað hefur undir sig flestar landareignirnar á svæðinu og stjórnar bænum sem einræðisherra.
Plága herjar ennfremur á íbúana og eru hinir sjúku umsvifalaust einangraðir í gömlum námum til að deyja þar Drottni sínum, en engin læknisþjónusta er leyfð og öll lyf bönnuð. Strax við heimkomuna bjargar Keoma óléttri konu úr höndum manna Caldwells á leiðinni til námanna og skýtur hvern þann sem reynir að gera henni mein.
Fyrr en varir er Keoma orðinn einlægur baráttumaður gegn hvers kyns þjóðfélagslegu misrétti og slæst fósturfaðir hans meira að segja í lið með honum ásamt drykkfelldum en góðhjörtuðum blökkumanni. Þeir mega sín samt lítils gegn ofurvaldi Caldwells, sem leggur þá að velli og krossfestir Keoma í augsýn allra, en fósturbræðurnir nýta sér þá tækifærið til að sölsa undir sig völdin og losa sig endanlega við kynblendinginn.
Almennt um myndina:
Margir kvikmyndagagnrýnendur telja kvikmyndina Keoma … The Violent Breed til bestu spaghettí-vestranna, enda kvikmyndatakan stórglæsileg, klippingarnar flottar og handritið frumlegt.
Sem dæmi um frábært myndskot mætti nefna atriðið þar sem Keoma segist ætla að borga fimm af andstæðingum sínum með fimm byssukúlum, en til marks um það heldur hann á lofti fimm fingrum sem hann síðan kreppir einn af öðrum um leið og hann telur upp á fimm, en andstæðingarnir birtast þannig hver á fætur öðrum á bak við fingurna.
Auk þess er fortíð og nútíð blandað saman víða með viðeigandi hætti, en Keoma endurupplifir t.d. æskuraunir sínar reglulega með því að horfa á sjálfan sig sem barn, sem lagt er í einelti af fósturbræðrum sínum á bóndabænum. Í rauninni minnir handbragðið nokkuð á kvikmyndir Sams Peckinpah, ekki síst í átakaatriðunum þar sem áhrif ofbeldisins eru aukin með því að sýna það á hálfum hraða, en glæsileg úrvinnslan er engu að síður nokkuð fersk.
Þrátt fyrir þetta lýður kvikmyndin mjög fyrir ömurlega tónlist. Banjó- og munnhörputónlistin er hreint út sagt óþolandi og ballöðurnar í anda Leonards Coen og Bobs Dylan hroðalega væmnar, en textarnir eiga að varpa ljósi á sálarástand sögupersónanna hverju sinni og lýsa því sem fyrir augu ber. Fyrir vikið drepur tónlistin niður alla spennu og dregur myndina verulega niður í gæðum. Aðeins í einu atriði getur tónlistin þó talist viðeigandi, en það er þegar menn Caldwells leita að Keoma og óléttu konunni hús úr húsi í bænum að næturlagi.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ekki kemur á óvart að margir skuli hafa skilgreint kvikmyndina sem trúarlega og jafnvel mystíska, enda má finna þar margar slíkar vísanir.
Þannig er ein sögupersónan t.d. öldruð spákona (eða norn eins og sumar handbækurnar kalla hana), sem birtist jafnan á mikilvægustu andartökum myndarinnar og upplýsir Keoma um hvað verða muni. Spákonan er þó aldrei útskýrð neitt frekar og virðist allt eins geta verið yfirnáttúruleg, en Keoma tekur henni ávallt sem sjálfsögðum hlut þó svo að hann nenni sjaldnast að umgangast hana. Í rauninni er spákonan ávallt fyrirboði manndrápa og dauða en líta má á óléttu konuna sem fyrirboða nýs lífs.
Sjálfur er Keoma ekki aðeins síðhærður og skeggjaður eins og Jesús Kristur á svo mörgum sígildum biblíumyndum, heldur berst hann gegn þjóðfélagslegu misrétti, líknar lítilmagnanum og gagnrýnir valdhafana harðlega fyrir hræsni þeirra og grimmd. Honum er hins vegar afneitað af flestu sínu fólki, enda sjaldnast nokkur spámaður í eigin föðurlandi, og er loks handsamaður af fjandmönnum sínum og krossfestur fyrir allra augum. Jafnvel fósturbræður hans hæðast þar að honum en konurnar gráta. Að lokum myrkvast himininn og það skellur á hellirigning, en samtímis er sungið með mikilli angurværð: „Þú veist að þjáningin er kærleikur.“ Flest vísar þetta beint í frásagnir guðspjallanna af krossfestingu Krists.
Konurnar bjarga þó Keoma í burt þegar enginn sér til og hjúkra honum, en segja má, að með því rísi hann á táknrænan hátt upp frá dauðum. Fósturbræðurnir leita hann samt fljótlega uppi og freista þess að ráða hann af dögum. Það eina sem heyrist meðan á skotbardaga þeirra stendur eru fæðingarhríðir óléttu konunnar, sem er að verða léttari. Þegar síðustu illmennin hafa loks verið felld, neitar Keoma spákonunni um að verða eftir til að gæta barnsins með þeim orðum, að það geti hvort sem er ekki dáið því að það sé nú orðið frjálst. Sá sem sé frjáls, deyi nefnilega ekki, en að þeim orðum sögðum ríður Keoma umsvifalaust á brott.
Persóna Keoma vísar augljóslega til Jesú Krists, en áherslan er fyrst og fremst á hann sem frelsishetju sem berst gegn þjóðfélagslegu misrétti og frelsar mennina undan kúgun, jafnvel þótt andstæðingar hans nái að krossfesta hann. Framsetningin er þó auðvitað að hætti spaghettí-vestranna, enda er Keoma ótvíræð stórskytta, sem fellir umsvifalaust hvern þann, sem stendur í vegi fyrir honum, svo lengi sem hann hefur afsagaða haglabyssuna sína og næg skotfæri.
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 27:35-56, Mk 15:22-41, Lk 23:33-49, Jh 19:25
Guðfræðistef: örlög, kristilegur kærleikur, réttlæti, frelsi, dauðinn, kristsvísun, spádómur, fyrirboði, upprisa, eilíft líf
Siðfræðistef: stríð, manndráp, kynþáttahatur, öfund, félagslegt misrétti
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarlegt atferli og siðir: krossfesting