Inngangur
Túlkun vitnisburðar Nýja testamentisins um Jesú Krist hefur ekki svo sjaldan verið til umfjöllunar á hvíta tjaldinu. Auk hefðbundinna mynda um ævi og starf Krists, hafa persónur með sterka tilvísun til orða hans og athafna verið vinsælt viðfangsefni í kvikmyndum. Slíkar persónur hafa stundum verið kallaðar kristsgervingar. Hér er ætlunin að fjalla um kvenpersónur sem af mörgum hafa verið flokkaðar sem kristsgervingar og þær skoðaðar út frá forsendum kristsfræði og femínisma.
Kven-kristsgervingar vekja upp margar spennandi guðfræðilegar spurningar um merkingu karlmennsku Krists, sem og túlkun holdtekjunnar á okkar tímum. Ég hef valið að fjalla sérstaklega um tvær kvenpersónur í nýlegum myndum: Bess í Breaking the Waves frá 1996 og Systur Helen í Dead Man Walking frá 1995. Báðar hafa þær tíðum verið flokkaðar sem kristsgervingar. Á grundvelli umfjöllunarinnar um sögur þessara tveggja kvenna, verður spurt um eðli og eiginleika kven-kristsgervinga í kvikmyndum, út frá guðfræðilegum og femínískum forsendum.
Þegar ólíkar túlkanir á persónu og hlutverki Jesú Krists eru skoðaðar og metnar vaknar spurningin um viðmið, eða norm. Á síðustu áratugum hefur komið fram hörð gagnrýni kvenna á einokun karla á mótun kristinnar hefðar og framsetningu kristins boðskapar. Konur hafa spurt siðferðilegra spurninga um ábyrgð kristinnar trúar á aldalangri undirokun kvenna í „kristnum“ samfélögum. Til þess að svara slíkum spurningum hafa verið sett fram margvísleg viðmið, eða norm, sem ganga annað hvort alfarið út frá reynslu kvenna eða samspili milli reynslunnar og vitnisburðar ritningarinnar. Eitt slíkt „túlkunarmódel“ er módel Rosemary Radford Ruether er byggir á samvirkni milli „spámannlegrar-frelsunarhefðar“ Biblíunnar og femínískrar áherslu á „fulla mennsku“ kvenna. Ruether gengur út frá því að hvað sem meinar konum að njóta mennsku sinnar til jafns við karla sé í andstöðu við þann frelsunarboðskap sem bæði er að finna hjá spámönnum Gamla testamentisins og í vitnisburði Nýja testamentisins um jafna stöðu kvenna og karla í Kristi. Grunnforsendan er sú að allar persónur, konur og karlar, séu skapaðar í mynd Guðs, eins og staðfest er í lífi og starfi Jesú Krists og myndar kjarna kristinnar trúar. Við þá greiningu sem hér fer á eftir er tekið mið af þessu femíníska og biblíulega túlkunarmódeli. Markmiðið er að svara því hvort að Bess og Systir Helen standa undir nafni sem kven-kristsgervingar, sem holdgervingar persónu og starfs Krists í kvikmyndum.
Kristsgervingar
Því hefur verið haldið fram að það sé tímanna tákn að umfjöllun um persónu og starf Jesú Krists fari ekki lengur fram í svokölluðum Jesú-myndum, enda hafi þær flestar verið bæði umdeildar og misheppnaðar. Nú fari umfjöllunin hins vegar fram í myndum sem fjalli um persónur með „messíönsk“ einkenni, þar sem aðalpersóna myndarinnar sker sig úr fjöldanum á einhvern hátt, eða tekur að sér hlutverk frelsarans, umbreytir lífi fólks og deyr að lokum píslarvættisdauða. Slíka persónu hafa margir kallað kristsgerving. Að mörgu leyti eru myndir um kristsgervinga betur fallnar til að túka sögu Jesú Krists en hefðbundnar Jesú-myndir. Myndir um kristsgervinga gefa mun meira frelsi til túlkunar á hinu sögulega samhengi, þar sem fókusinn er á merkingu ævi og starfs Jesú Krists, í stað útlits þess sem fer með hlutverk Jesú (hversu vel eða illa hann passar í það hlutverk), landslagið sem myndin er tekin í, eða annað í þeim dúr.
Ekki er almenn samstaða um það hvaða eiginleikum kristsgervingur þurfi að vera gæddur. Flestir eru sammála um að persóna kristsgervingsins þurfi að vera nógu sterk til þess að geta staðið ein og sér, án þess að skírskotunin til Krists komi upp á yfirborðið. Undir yfirborðinu búi hins vegar dýpri merking, það er tilvísun til persónu Jesú Krists. Hér er því um að ræða tvö merkingarsvið, annars vegar hina bókstaflegu merkingu og hins vegar „analógíska“ eða „figuratíva“ merkingu, þar sem hin síðarnefnda hefur tilvísun í fagnaðarerindið um Krist. Sumir hafa gengið svo langt að segja að það sé nóg að um sé að ræða einhverja tilvísun í vitnisburð guðspjallanna um Krist, burtséð frá tilgangi höfundar myndarinnar og þeim boðskap sem hún flytur. Ég tel að setja verði spurningarmerki við svo víða skilgreiningu. Það hlýtur að skipta máli hver boðskapur myndarinnar er. Hins vegar er ekki æskilegt að skilgreiningin sé svo þröng að kristsgervingur verði að líkjast Kristi í öllum meginatriðum, verði til dæmis að deyja píslarvættisdauða.
Hér verður ekki reynt að setja fram fullkomna og skothelda skilgreiningu á kristsgervingum heldur aðeins tvö grundvallarviðmið, sem síðan kalla á nánari útfærslu þegar lagt er mat á einstök dæmi. Í fyrsta lagi þarf kristsgervingur ekki að líkjast Kristi í öllum meginatriðum, þó að ekki sé nóg að um sé að ræða aðeins lauslega skírskotun. Í öðru lagi þarf kristsgervingur að hafa trúverðuga skírskotun til persónu Krists, eða boðskapar hans. Með öðrum orðum þarf sú tilvísun sem á sér stað að vera í samræmi við líf og starf Krists og ekki á skjön við frelsunar- og kærleiksboðskap hans.
Áður en lengra er haldið skal það tekið fram að kristsgervingamyndir eru ekki einskorðaðar við einhverja eina tegund mynda, heldur er hér um að ræða ákveðið einkenni á ýmsum flokkum kvikmynda. Að sama skapi geta kristsgervingar verið margvíslegir, bæði hvað varðar aldur, kyn, kynþátt og þjóðfélagslegan bakgrunn.
Female Christ-figures
Allt frá því að fyrst var farið að búa til kvikmyndir um Krist hefur þótt sjálfgefið að laga útlit og umhverfi hans að sögulegu samhengi áhorfendanna. Enska orðið inculturation er það guðfræðilega hugtak sem notað er til að tjá það sem í listasögunni kemur fram í hinu margbreytilega útliti Krists, allt eftir sögulegu og menningarlegu samhengi túlkandans. Þannig minnir útlit Jesú Krists í svokölluðum Jesú-myndum, oft lítið á gyðinglegan bakgrunn hans. Spyrja má: Af hverju gilda, eða öllu heldur hafa gilt ólík rök þegar um er að ræða kyn Krists heldur en önnur söguleg einkenni hans, eins og þjóðerni og stétt. Það er eitt að viðurkenna karlmennsku hins sögulega Jesú, annað að halda því fram að karlmennskan hafi hjálpræðislegt gildi og sé lykilatriði í holdtekju Guðs. Sé því hafnað að karlmennska Krists hafi hjálpræðislega merkingu, án þess að söguleg staðreynd karlmennskunnar sé á nokkurn hátt dregin í efa, þá hlýtur það að leiða af sér samskonar frelsi í túlkun á kyni Krists eins og önnur söguleg einkenni hans. Niðurstaðan er því sú að eins og Kristur hefur verið túlkaður með blá augu, skolleitt hár og ljóst hörund, þá hljóta að gilda sömu rök um túlkun Krists í kvenlíkama.
Í þeim tilgangi að opna nýjar víddir í umræðunni um persónu og starf Jesú Krists, með sérstöku tilliti til merkingu kynferðis hans, þá hefur bandaríski guðfræðingurinn Eleanor McLaughlin lagt til líkinguna af klæðskiptingi. Hún notar hugtökin transvestite, cross-dresser, og gender-bender í þessu samhengi. Tilganginn segir McLaughlin vera að fást við mikilvægasta kristsfræðilega vandamál samtímans, sem er spurningin um túlkun og merkingu kyns Krists. Hún segist með þessu alls ekki vera að gefa í skyn að Jesús hafi verið kvenlegur eða tvíkynja. Að mati McLaughlin er Jesús, sem er bæði söguleg persóna og tákn, karlmaður sem megi líkja við klæðskipting, vegna þess hversu erfitt sé að mæla hann á viðteknum mælikvörðum, eða nota um hann hefðbundin hugtök. Ástæðan sé sú að líf hans, sem einkenndist af kærleika og fórn, hafi að mörgu leyti átt meira sameiginlegt með lífi kvenna en karla. Þannig er Kristur, að mati McLauglin, alls ekki hinn dæmigerði karlmaður, þó að það sé ekki dregið í efa að hann hafi verið karlkyns. Kristur hafi í raun brotið niður hina hefðbundnu karlmennsku ímynd og gefið okkur tilefni til að endurskoða hugmyndir okkar um mennskuna, karlmennsku og kvenleika. Því feli það í sér mikla mistúlkun á boðskapnum um Krist, að gera karlmennskuna að forsendu þess hver geti orðið staðgengill Krists á meðal okkar.
Kven-kristsgervingar í kvikmyndum eru sérstaklega áhugaverðir af því að þeir knýja fram mikilvægar spurningar um persónu Krists og möguleika kvenna til þess að gerast staðgenglar hans, hvort sem það er í kvikmyndum eða fyrir altarinu. Kven-kristsgervingar geta þannig hjálpað okkur við að fást við hina klassísku kristsfræðilegu spurningu um mennsku og guðdóm Krists, sem og guðfræðilega merkingu hins sögulega samhengis frásögu guðspjallanna um Krist, sér í lagi kyns hans. Danski leikstjórinn Carl Theodor Dreyer, setur fram augljósan kven-kristsgerving í mynd sinni um þjáningu og dauða Jóhönnu af Örk (Jeanne d’Arcs Lidelse og Død) frá árinu 1928. Í þessari mynd er sögð píslarsaga frægasta klæðskiptings vestrænnar sögu. Það sem gerir hana áhugaverða hér er sá samanburður sem Dreyer gerir á píslarsögum Jóhönnu og Krists, þar sem Jóhanna er túlkuð sem kristsgervingur og þjáning hennar og dauði endurspegla þjáningu og dauða Krists. Í myndinni er ekki að finna lífssögu Jóhönnu heldur eingöngu yfirheyrslurnar yfir henni og aftöku hennar (þ.e. píslarsögu hennar). Aðaláherslan er á spurninguna um sannleiksgildi opinberana hennar, og hvort hún sé raunverulega dóttir Guðs, eins og hún segist vera. Þrátt fyrir ungan aldur (en hún er aðeins 19 ára þegar réttarhöldin fara fram) kemur það skýrt fram hversu mikil ógnun hún er andlegum sem veraldlegum yfirvöldum. Ógnun hennar við hina andlegu valdhafa felst í efasemdum hennar um réttmæti valds þeirra, því hún efast um rétt þeirra til einokunar á hjálpræðinu. Þegar hún neitar að viðurkenna að hafa á röngu að standa og hætta að klæðast karlmannsfötum (sem hún segist gera af hlýðni við boð Guðs), eru örlög hennar ráðin. Hermennirnir hæðast að henni og setja jafnvel kórónu (í hennar tilfelli úr stráum) á höfuð hennar áður en þeir færa hana á bálið. Hún lætur líf sitt á bálinu, með kross með líkama Krists á í fanginu og með skilti yfir höfði sér þar sem á er letrað: skurðgoðadýrkandi, trúvillingur og trúníðingur.
Breaking the Waves: kærleiksfórn eða fórnarlamb?
Kvikmynd danska leikstjórans Lars von Trier, Brimbrot, eða Breaking the Waves, frá árinu 1996 er augljóslega undir sterkum áhrifum frá mynd Dreyers um Jóhönnu af Örk. Aðalpersóna myndarinnar, Bess, minnir um margt á túlkun Dreyers á Jóhönnu. Bess er ung og saklaus stúlka sem hefur orð á sér fyrir að vera einfeldningsleg, jafnvel á mörkum þess að vera „eðlileg“. Hún elst upp í strangtrúuðu kalvínsku sjávarþorpi í Skotlandi og gegnir öldungaráð kirkjunnar lykilhlutverki í myndinni. Þetta er hið fullkomna karlasamfélag. Karlarnir í öldungaráðinu gefa tóninn. Þeirra er að túlka orð Guðs og ákveða hverjir eru í náðinni og takmarkast valdsvið þeirra ekki við gröf og dauða þar sem þeir kveða einnig á um örlög fólks eftir dauðann. Konurnar sinna hinum „kvenlegu“ störfum, þeirra er að hlýða, að hafa stjórn á tilfinningum sínum og bera harm sinn í hljóði.
Frá byrjun er ljóst að Bess á erfitt með að uppfylla væntingar samfélagsins. Andstætt vilja öldungaráðsins og þrátt fyrir efasemdir fjölskyldunnar giftist hún aðkomumanninum Jan, sem starfar á olíuborpalli í Norðursjónum. Bess hefur beðið eftir hinum eina sanna og hans eins er að njóta hennar. Ást hennar er einlæg og hún gefur sig honum á vald. Því verður söknuðurinn óbærilegur þegar Jan þarf aftur að hverfa til vinnu sinnar á borpallinum. Konurnar sem standa henni næstar, móðir hennar og mágkona, óttast um hana. Bess leitar til Guðs í örvæntingu sinni og biður Guð að senda Jan heim aftur. Jan kemur fyrr til baka en ráðgert hafði verið, illa slasaður. Bess er þakklát fyrir að fá Jan aftur heim. Hún þakkar Guði fyrir að hann skuli enn vera á lífi, en „veit“ að það er henni að kenna hvernig er komið fyrir honum. Guð svaraði bænum hennar. Slysið er verk Guðs, prófsteinn á ást Bess til Jans. Og Bess er staðráðin í að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að sanna ást sína og sjá til þess að Jan batni á ný.
Þegar Jan biður hana að fara og vera með öðrum karlmönnum og koma síðan og segja sér frá reynslu sinni, til þess að hann geti haldið áfram að lifa, gerir hún það. Þrátt fyrir aðvaranir, bæði fjölskyldu sinnar, læknisins og öldungaráðsins, gengur Bess sífellt lengra í hlýðni sinni við Jan, sannfærð um að bati hans sé á hennar valdi. Hennar hlutverk er að þóknast honum og hlýða vilja hans. Að lokum gengur Bess í dauðann. Hún deyr af völdum áverka sem hún hlýtur um borð í togara, en þangað fer hún þrátt fyrir að henni sé fullkunnugt um að áhöfnin er alræmd fyrir illa meðferð á konum sem þangað hafa farið í sömu erindagjörðum. Myndin endar á því að Jan, sem nú er upprisinn (þó ekki meira en svo að hann þarf að styðjast við hækjur!), stelur líki hennar og með hjálp vina sinna rennir því í sjóinn og hljómur kirkjuklukkna af himni gefur vísbendingu um yfirnáttúrulegar ástæður þess að jarðneskar leifar Bess sjást ekki á ratsjá skipsins.
Það er margt sem kallar á viðbrögð í þessari mynd. Fyrst má nefna samtöl Bess við Guð, sem flest fara fram í kirkjunni, gjarnan þegar Bess er þar ein að þrífa. Í þessum samtölum (þar sem aðalleikkonan, Emily Watson, fer á kostum) talar Bess við Guð og Guð svarar henni, í gegnum hana sjálfa. Þó að rödd Bess og Guðs sé hin sama, breytist tónninn í röddinni. Hún verður bæði dýpri og strangari þegar Guð talar. Tónninn í röddinni er í samræmi við innihaldið. Sá Guð sem talar er hinn harði og óvægni Guð sem samfélagið óttast og öldungarnir boða trú á. Þessi Guð vill að Bess sé „góð stúlka“ og tilbúin að standast þau próf sem Guð leggur fyrir hana. En af því að Bess er „lítil og heimsk stelpa“ hefur Guð ákeðið að prófa ást hennar á Jan. Standist Bess prófið mun Guð láta Jan lifa. Vilji Bess til þess að uppfylla óskir Jans jafngildir með öðrum orðum hlýðni við Guð.
Það er táknrænt að Bess tapar sambandinu við Guð þegar hún guggnar og flýr úr togaranum í fyrri ferð sinni þangað, en kemst síðan aftur í samband í síðari ferðinni, sem verður jafnframt hennar hinsta för. Þegar hún nær aftur sambandi fær hún að vita að Guð er með henni í þessari ferð!
Sú Guðsmynd sem kemur fram í samtölum Bess við Guð er í fullkomnu samræmi við boðskap kirkjunnar í myndinni og þeirra sem þar eru við völd. Það er hinn reiði og refsandi Guð sem stjórnar í gegnum „sína menn“. Aðeins þau sem lúta boðskap kirkjunnar og haga sér í samræmi við hann, eiga sér framtíðarvon, þau ein eru velkomin í kirkjuna og í himnaríki að þessu lífi loknu. Kirkjan er fullkomlega ófær um að losa Bess undan ógnarvaldi Jans. Bess er útskúfuð, dæmd til þess að lifa utan samfélagsins og fara að lokum til helvítis. Jafnvel móðir Bess treystir sér ekki til þess að opna fyrir henni þegar hún leitar á náðir hennar. Einungis þeir sem eru utanaðkomandi, mágkonan og læknirinn, reyna að bjarga henni, en án árangurs. Hér er dregin upp mynd af samfélagi sem hefur gleymt uppruna sínum og misst sjónar á köllun sinni til þess að raungera áframhaldandi nærveru hins upprisna, þess sem safnaði í kringum sig hinum útskúfuðu, konum jafnt sem útlendingum, og sat til borðs með tollheimtumönnum og syndurum.
Femínísk greining á Breaking the Waves
Frá því á sjötta áratug 20. aldarinnar hafa femínískir guðfræðingar spurt gagnrýninna spurninga um hina kristnu fyrirmynd að hinum fullkomna kærleika, sem sjálfs-fórn og áhrif hennar á konur. Bók sænska guðfræðingsins Anders Nygrens, Agape och Eros, frá 3. áratug tuttugustu aldar, hefur haft mótandi áhrif á umræðuna um kærleikshugtakið allar götur síðan. Í bók sinni stillir Nygren agape, sem er óeigingjörn elska, upp sem andstæðu við eros, sem lætur stjórnast af eiginhagsmunum. Agape er kærleikur sem fórnar sér fyrir aðra, en fyrirmyndina er að finna hjá Kristi á krossinum, nánar tiltekið í túlkun á krossdauða Krists í friðþægingarkenningum kristinnar hefðar. Eros er andstæðan, sjálfselsk ást, sem lætur stjórnast af eiginhagsmunum og er því í eðli sínu ókristin.
Allt frá því að bandaríski guðfræðingurinn Valerie Saiving birti grein sína „The Human Situation: A Feminine View“ árið 1960 hefur hefðbundinn skilningur á guðlegum kærleika og mannlegum breyskleika, verið ofarlega á baugi hjá femínískum guðfræðingum. Í grein sinni fjallar Saiving um kenningar guðfræðinganna Anders Nygrens og Reinholds Niebuhrs um mannlegt eðli. Í stuttu máli má segja að Saiving telji helsta galla kenninga Nygrens og Niebuhrs felast í því að taka eingöngu mið af reynslu karla, þar sem syndin er skilgreind sem hroki, eigingirni og sjálfselska, en andstæða syndarinnar er þá fórnandi kærleikur. Saiving spyr hvernig slíkar kenningar komi heim og saman við reynsluheim kvenna, þar sem konur hafi jafnan hugsað of mikið um aðra en of lítið um sig. Að mati Saivings hefur lágt sjálfsmat og skortur á sjálfstrausti oft háð konum og því sé vafasamt að halda því fram að það sem konur þurfi að öðlast, nefnilega sjálfstraust og sterka sjálfsmynd, sé talið neikvætt og jafnvel syndsamlegt.
Femínísk gagnrýni Saivings á sjálfs-fórnandi kærleika og synd sem hroka leggur til mikilvæg hjálpartæki við greiningu á mynd von Triers. Í fyrsta lagi þá má sjá í Bess holdgervingu á hefðbundnum skilningi á guðlegum kærleika, eða agape, og af þeim sökum hefur Bess oft verið túlkuð sem kristsgervingur. Bess hefur þótt trúverðug ímynd Krists í nútíma túlkun á píslarsögunni. Í Bess má sjá holdgervingu hins óeigingjarna kærleika, sem leitar ekki síns eigin. Kærleikur hennar þekkir engin mörk, heldur fórnar hún sér fyrir aðra, já allt til dauða. Eins og Kristur, brýtur Bess gegn gildum og viðmiðum samfélagsins, og verður þess vegna utangarðs bæði í fjölskyldu sinni og hinu trúarlega samhengi. En skaðleg áhrif fórnarkærleikans koma líka snemma í ljós í myndinni. Jan telur Bess trú um að það sem hann biður hana að gera sé prófsteinn á ást hennar á honum, sem er í fullu samræmi við það sem Guð segir við hana. Bess er fullkomlega á valdi Jans (og Guðs) og neitar að hlýða á viðvaranir þeirra sem óttast um líf hennar og heilsu. Hún er staðráðin í að gera það sem í hennar valdi stendur til þess að bjarga Jan, en samkvæmt orðum hans (og Guðs) er það fullkomlega undir Bess og fórnarlund hennar komið hvort hann kemst aftur á fætur. Bess er allsendis ófær um að verjast þess að bíða tjóns og loks dauða af völdum eigingjarnra, eða væri réttara að segja illskeyttra, jafnvel djöfullegra, óska Jans.
En var það ætlun von Triers að túlka Bess sem Kristsgerving? Tilvísanir til upprisunnar í lok myndarinnar, með „upprisu“ Jans úr rúminu og „upprisu“ Bess, sem gefin er í skyn með „tómri gröf“ og hringingu himneskra kirkjuklukkna, gefa tilefni til þess að það skoða myndina út frá sögu Krists. Í þessari senu er það staðfest að fórn Bess beri tilætlaðan árangur, að niðulæging hennar og dauði hafi ekki verið til einskis. Það er óljósara hvort að leikstjórinn líti á mynd sína sem gagnrýni á kirkjuna og viðhorf hennar til kvenna, eða gangi einfaldlega út frá hinum hefðbundna skilningi á þjáningu og dauða Jesú Krists, sem og vilja kvenna til þess að fórna sér fyrir aðra. Áhugavert er að skoða myndina um Bess í ljósi nýjustu myndar Lars von Trier, Dancer in the Dark, sem einnig fjallar um ofur-góða og „einfalda“ kvenpersónu sem fórnar lífi sínu fyrir þann sem henni þykir vænst um.Vissulega er það mögulegt að leikstjórinn hugsi myndir sínar fyrst og fremst sem boðbera þjóðfélagslegrar gagnrýni. En það má einnig skilja báðar myndirnar sem áréttingu á fórnareðli kvenna, fremur en gagnrýni á það, með því að setja aðal kvenpersónurnar í hlutverk fórnarlambsins.
Í besta falli má sjá myndina Brimbrot sem gagnrýni á hina hefðbundnu túlkun á krossdauða Krists, þar sem faðirinn leiðir son sinn í dauðann. Síðustu áratugina hafa margir guðfræðingar gagnrýnt hugmyndir af þessum toga og vilja þess í stað leggja áherslu á dauða Krists sem afleiðingu af því lífi sem hann lifði. Kristur kaus sjálfviljugur að rísa upp gegn viðteknum venjum og gildismati samfélagsins, hann valdi að lifa og starfa á jaðrinum og ögra þannig þeim sem fóru með völdin, bæði hin veraldlegu og andlegu. Þess vegna er erfitt að sjá Bess í hlutverki Krists. Eðli málsins samkvæmt er hún úti á jaðrinum frá upphafi. Hún er ekki fær um að eiga frumkvæðið, heldur er eins og hvert annað peð á talfborði þeirra sem með völdin fara. Bess er barnaleg og allsendis ófær um að bera skynbragð á það sem er að gerast í kringum hana. Aftur og aftur kemur fram að bæði hún og aðrir líta á hana sem „stupid“ og á mörkum þess að vera færa um að sjá um sig sjálf (sem hún í raun er ekki talin geta gert og því taka aðrir ákvarðanir fyrir hana). Til þess að geta gert það sem hún gerir, flýr hún inn í sinn eigin heim, þar sem hún telur sér trú um að hún sé ekki að gera það sem hún er raunverulega að gera; í stað þess að eiga mök við ókunnuga karlmenn, sé hún í raun að njóta ásta með Jan.
Þegar öllu er á botninn hvolft, er Breaking the Waves dæmi um það sem femínískir guðfræðingar hafa réttilega kallað misnotkun krossins, þegar kross Krists hefur verið notaður til þess að réttlæta þjáningu hinna valdalausu, sem í svo mörgum tilfellum eru, og hafa verið konur. Myndin er með öðrum orðum dæmi um afbökun á kærleikshugtakinu og rangtúlkun á krossi Krists. Þetta er mynd um misnotkun og valdbeitingu, sem sýnir áhrif skaðlegrar mistúlkunar á krossi Krists. Bess er leiksoppur þeirra sem með völdin fara, þeirra sem taka sér vald yfir henni. Hún er valdalaus kona í samfélagi sem byggir á gildismati karlaveldisins, þar sem frelsun karlsins kostar hina fullkomnu fórn konunnar. Í þessari mynd tekur Guð afstöðu með hinum sterku, gegn þeim sem minna mega sín, í strerki mótsögn við þann Guð sem í guðspjöllunum opinberast í persónu og starfi Jesú Krists.
Dead Man Walking: hvað felst í því að feta í fótspor Krist?
Aðalpersóna myndarinnar Dead Man Walking eftir bandaríska leikstjórann og handritshöfundinn Tim Robbins frá árinu 1995, býr yfir mörgum einkennum kristsgervingsins. Það er margt sem greinir Systur Helen frá Bess. Helen er rómversk-kaþólsk nunna, sem kynnist fanga er bíður þess að verða tekinn af lífi fyrir hrottalegan glæp. Kvikmyndin byggir á sannsögulegum atburðum sem lýst er í samnefndri bók eftir systur Helen Prejean. Í bókinni segir frá tveimur föngum sem Tim Robbins hefur í myndinni brætt saman í einn. Myndin fjallar um samskipti Helenar og fangans, Matthews Poncelet, vikuna fyrir aftökuna.
Systir Helen kemur úr vel stæðri fjölskyldu, en ákveður ung að gerast nunna. Í myndinni starfar hún á meðal íbúa fátækrahverfis í New Orleans af afrískum uppruna, þar sem hún kennir fullorðnu fólki að lesa. Það verða straumhvörf í lífi Helenar þegar henni berst bréf frá fanga sem biður hana að hjálpa sér við að fá áfrýjað dauðadómi sem hann á yfir höfði sér innan örfárra daga. Dóminn fékk hann fyrir að nauðga og myrða tvö ungmenni. Matthew Poncelet er ungur maður um tvítugt, hvítur á hörund og alinn upp í sárri fátækt. Hatur hans og kynþáttafordómar, sem koma meðal annars fram í aðdáun hans á Hitler, torveldar áhorfendum að finna til samúðar með honum. Sama hlutverki gegna innskot af hrottafengnum glæp hans og félaga hans. Innskotin birtast öðru hverju eins og til þess að koma í veg fyrir að áhorfendur fái samúð með Matthew og gleymi alvöru glæpsins, en það er ekki fyrr en í lokin, þegar hann liggur á aftökubekknum, að glæpurinn er sýndur til enda. Í upphafi myndarinnar heldur Matthew því fram að hann sé saklaus, en í lokin viðurkennir hann sekt sína og á aftökubekknum biður hann fjölskyldur fórnarlambanna fyrirgefningar á því sem hann hefur gert.
Þrátt fyrir viðvaranir úr ýmsum áttum ákveður Helen að gera sitt til þess að bjarga þessum ókunnuga manni frá dauða. Hún er bæði hrædd og hikandi þegar hún kemur inn í fangelsið í fyrsta skipti, enda hefur hún aldrei í fangelsi komið. Allar tilraunir til þess að fá dauðarefsingunni aflétt mistakast, en systir Helen sættist á bón Mattews að verða trúarlegur ráðgjafi hans og búa hann undir dauðann. Það er ljóst frá byrjun að hún efast um sakleysi hans, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hans til þess að sannfæra hana um að hann hafi aðeins verið áhorfandi að glæp sem vinur hans framdi. Markmið hennar er að fá Matthew til þess að horfast í augu við líf sitt og ábyrgð sína á dauða ungmennanna tveggja. Þegar Helen fer að segja Matthew frá Jesú, grípur hann tækifærið og gerir samanburð á aftöku sinni og krossfestingu Jesú. Hún hafnar þeirri samlíkingu afdráttarlaust og bætir síðan við: „Jesús breytti heiminum með kærleika sínum, þú horfðir á þegar þessi ungmenni voru drepin.“
Helen er einnig ósammála fangelsisprestinum sem telur Matthew vera borgið fái hann að neyta altarissakramentisins rétt fyrir aftökuna og því sé til einskis fyrir hana að eyða tíma sínum með honum. Þvert á móti telur Helen afstöðu Matthews lykilatriði, að hann horfist í augu við sannleikann og finni þar frelsi og fyrirgefningu Guðs. Orðum sínum til áréttingar vitnar hún í 8. kafla Jóhannesarguðspjalls og hvetur Matthew til þess að skoða eftirfarandi boðskap um sannleikann og frelsunarmátt hans. Þar segir: „Þá sagði Jesús við Gyðingana, sem tekið höfðu trú á hann: „Ef þér eruð stöðugir í orði mínu, eruð þér sannir lærisveinar mínir og munuð þekkja sannleikann, og sannleikurinn mun gjöra yður frjálsa.“ (Jh 8.31-32). Helen vill ekki leyfa Matthew að fara undan í flæmingi, að afsaka sig og kenna öðrum um. Að lokum kemur sannleikurinn í ljós. Matthew viðurkennir sekt sína og finnur frelsið í sannleikanum. Helen kallar hann son Guðs og skelin brotnar. Enginn hefur nokkurn tíma sagt annað eins við hann og sjálfur hefur hann verið jafn ófær um að elska bæði sjálfan sig og aðra og að meðtaka ást annarra.
Það er í því nána sambandi sem skapast á milli systur Helenar og Matthews Poncelets dagana fyrir aftöku hans, sem ég greini sterka tilvísun í líf Jesú Krists. Ólíkt Bess er Helen ekki valdalaust fórnarlamb, eða leiksoppur, því hún velur sér hlutverk. Kærleikur hennar, sem þekkir sín takmörk, er sá umbreytingarkraftur sem breytir að lokum forhertum glæpamanni í „son Guðs“. Hún færir vissulega fórnir, en það gerir hún á eigin forsendum, af fúsum og frjálsum vilja. Þó að starf systur Helenar sé unnið innan stofnunnar sem stjórnað er af körlum hefur hún ákveðið frelsi til þess að velja og hafna, m.a. þeim takmörkunum sem fangelsispresturinn vill setja henni. Það kemur skýrt fram að hún er að fara inn í karlmannshlutverk sem fangelsispresturinn og fleiri hafa ekki trú á að hún ráði við. Samt sem áður eru forsendur þess að hún geri það sem hún er að gera að hún hafi stuðning frá körlum, þ.á m. biskupnum sínum.
Í samtali við foreldra stúlkunnar sem Matthew nauðgaði og myrti, kemur skýrt fram að með starfi sínu með Matthew sé hún einfaldlega að leitast við „að feta í fótspor Krists“. Þegar hún er krafin um réttlætingu fyrir starfi sínu segist hún aðeins vera að „reyna að fylgja fordæmi Krists“. Þegar dauðastundin nálgast gengur hún enn lengra þegar hún beinlínis tekur að sér að vera rödd og ásýnd Guðs, „andlit kærleikans“, holdgerving Krists, í samskiptum sínum við glæpamanninn sem bíður þess að vera tekinn af lífi fyrir glæp sinn. Þetta „krists-hlutverk“ hennar nær hámarki sínu í lok myndarinnar. Helen verður við ósk Matthew um að syngja fyrir hann sálm sem byggir á upphafsversunum úr 43. kafla Jesaja: „Óttast þú eigi. Ég fer ætíð á undan þér. Fylgdu mér, og ég mun gefa þér hvíld.“ Þrátt fyrir mjög veika rödd veldur söngur hennar straumhvörfum í lífi Matthews. Lloyd Baugh tekur svo til orða í umfjöllun sinni um þessa mynd: „Á meðan hún syngur, verður Helen rödd Guðs inn í líf Mattews Poncelet, og kjarkur hennar verður um leið kjarkur hans.“ (Baugh, 153).
Helen segir Matthew að hún muni fylgja honum alla leið og hún biður hann að horfa á sig þegar hann deyr, því að það sé mikilvægt að það síðasta sem hann sjái sé „andlit kærleikans“. Þegar Matthew er leiddur til aftökunnar fær systir Helen að fylgja honum. Á þeirri stundu eru rimlarnir sem hafa aðskilið þau loks fjarlægðir og henni er leyft að snerta hann í fyrsta skipti. Það er áhrifamikil sena, þegar hún fylgir honum og vörðunum í aftökuherbergið, með Biblíuna opna í annarri hendinni, hvíslandi huggunarorð úr spádómsbók Jesaja í eyra hans, og með hina höndina á öxl hans, táknrænt fyrir það að ekkert fær lengur aðskilið hann frá kærleika Guðs. „Kristur er hér,“ segir systir Helen hughreystandi við Matthew, Þannig áréttar hún sannfæringu sína um að hún sjálf sé holdtekning kærleika Guðs. Hún er hirðirinn sem fann týnda sauðinn. Hún er farvegur kærleika og fyrirgefningar Guðs, sem gerir hinum nýfundna sauði kleift að biðjast fyrirgefningar og horfast í augu við dauðann, í trausti á náð Guðs og kærleika.
Kven-kristsgervingar í kvikmyndum og kristsfræðileg umræða samtímans
Með bókstaflegri og yfirfærðri túlkun sögunnar um Jesú Krist, hafa kvikmyndir á 20. öldinni leikið stórt hlutverk í því að flytja hefðina um Krist áfram (traditio). Það er mat mitt á mynd Tim Robbins, að Systir Helen sé trúverðugt dæmi um síka endursögn á vitnisburði guðspjallanna í gegnum kven-kristsgerving. Í myndinni verður Helen ímynd Krists er hún notar hæfileika sína og aðstöðu til þess að leiða fram hið besta í öðrum, án þess að gera út af við sig sjálfa. Með því að þjóna sem meðalgangari fyrir hinn umbreytandi kærleika Guðs, þá verður Helen, með orðum Marteins Lúthers, Kristur náunga sínum.
Bess í mynd Von Triers mætti á hinn bóginn hugsanlega flokka sem neikvæðan kristsgerving, þar sem hún gerir ákveðið tilkall til samanburðar við frásögn guðspjallanna, en felur í sér anhverfu við frelsunar- og kærleiksboðskap Krists. Bess táknar og áréttar hinn stereotypiska skilning á konum, sem öðlast tilgang í lífinu með því að uppfylla þarfir og þrár annarra, óháð því hvaða afleiðingar það hefur í för með sér fyrir hana sjálfa. Auk þess virðist von Trier stilla fórn Bess fram sem ideali, eða fyrirmynd, frekar heldur en að varpa hulunni af synd þeirra sem annað hvort íta undir eða einfaldlega látast ekki sjá hörmulegar afleiðingar ofbeldisins sem hún er beitt.
Saga Bess áréttar þörfina fyrir að gagnrýna, og vinna gegn áframhaldandi misnotkunar krossins. Frelsunarboðskapur Krists, sem gagnrýnir hverskonar misnotkun valds og boðar frelsi hinna kúguðu hafnar allri idealiseringu hins valdalausa fórnarlambs. Eins og sagan af Systur Helen sýnir ljóslega, þá er ekki nauðsynlegt að hver sá sem vill feta í fótspor Krists og endurspegla mynd hans, endurtaki fórn Krists á krossi. Fyrst og síðast er hinn kristni einstklingur kallaður til að holdiklæða kærleikann og vera Kristur náunga sínum. Lykillinn að fórn Helenar er því frelsi hennar til að velja að gera það sem hún gerði. Það er vissulega tvennt ólíkt að prédika eða setja fram módel af fórnarkærleika fyrir frjálsan einstakling, eins og Helen, eða valdalaust fórnarlamb, eins og Bess.
Í ljósi þeirra skaðlegu áhrifa sem boðskapur kristinnar hefðar um fórnarkærleikann hefur oft haft á konur, er mikilvægt að þær í dag sjái trúverðuga kven-kristsgervinga, eins og Systur Helen, til þess að sjá möguleika sína til þess að flytja áfram boðskapin um Guð sem tók á sig hold og bjó á meðal okkar. Helen er trúverðug fyrirmynd fyrir konur í dag, vegna þess að við sjáum í henni konu sem er fær um að setja mörk, að velja, og einnig að yfirstíga hindranir hins kyngreinda valds í samfélaginu. Kven-kristsgervingar í kvikmyndum eru holdgervingar ímyndar Guðs, sem konum, eins og körlum, er gefin hlutdeild í, skv. Fyrri sköpunarsögunni. Vegna þess að konur eiga möguleika á fullri mennsku geta þær orðið fulltrúar þess sem kom til þess að sýna hvað í sannri mennsku felst.