- Inngangur
Ég var oft spurður að því í sumar hvað ég væri að fást við í sumarfríinu. Flestir bjuggust líklega við því að heyra að ég væri að rannsaka eitthvert hebreskt hugtak eða ritskýra einhvern kafla Biblíunnar. Flestum var því nokkuð brugðið er ég svaraði því til að ég væri að rannsaka stríðsmyndir. Næsta spurning var oftast á eftirfarandi leið: ,,Ertu þá bara að horfa á vídeó?“ Fólki finnst oft að biblíufræði eigi að takmarkast við Biblíuna sjálfa, enda varla við öðru að búast því að það er aðeins á síðustu árum sem biblíufræðingar hafa í einhverjum mæli farið að rannsaka áhrif Biblíunnar á menninguna. En það er ekki eina ástæðan fyrir þessum viðbrögðum. Hefði ég sagt að ég væri að rannsaka biblíustef í verkum Halldórs Laxness hefði það líklega vakið meiri hrifningu. Fordómar gagnvart kvikmyndamiðlinum eru nefnilega miklir. Bókin er göfug en kvikmyndir ómerkilegur popp-kúltúr. Sá sem grúfir sig yfir bækur er að rannsaka en sá sem horfir á kvikmyndir er að leika sér.
Eftirfarandi umfjöllun er hluti af rannsókn minni á stríðsmyndum en hægt er að fá rannsóknina í heild sinni hjá höfundi með því að senda bréf á thao@hi.is. Hér er að finna fjórar myndir þar sem kristsgervingar koma fyrir. Fyrsta myndin er hin vinsæla mynd Saving Private Ryan og þá The Thin Red Line, Platoon og The Dirty Dozen.
Á síðustu árum hefur ný fræðigrein rutt sér rúms innan biblíufræðanna, þar sem samspil Biblíunnar og menningarinnar eru rannsökuð. Dr. Gunnlaugur A. Jónsson prófessor var frumkvöðull í þessum efnum á Íslandi, en hann gaf fræðigreininni íslenska heitið áhrifasaga. Í stuttu máli snýst áhrifasagan um rannsóknir á áhrifum Biblíunnar á menninguna, túlkun manna á textum Biblíunnar og hvernig textar Biblíunnar hafa verið notaðir í menningunni, en allt er þetta að sjálfsögðu nátengt, eins og fram kemur í viðaukanum. Hugtakið ,,menning“ ber að skilja í sinni víðustu merkingu. Ekki er aðeins átt við list heldur einnig tungumál, siði, hjátrú o.s.frv. Hugtakið ,,menning“ hefur því sömu merkingu og félagsfræðingar gefa því.
Ég lagði upp með eftirfarandi spurningar: Hvernig eru textar Biblíunnar túlkaðir í stríðsmyndum? Í hvaða tilgangi er vísað í Biblíuna og undir hvaða kringumstæðum? Hvaða áhrif hefur tilvísunin á heildarboðskap kvikmyndarinnar? Og hvaða áhrif hefur kvikmyndin á texta Biblíunnar?
- Saving Private Ryan
Kvikmyndin Saving Private Ryan (1998) er án vafa ein vinsælasta og áhrifamesta stríðsmynd síðari tíma. Myndin fékk t.d. fimm óskarsverðlaun, þar á meðal fyrir bestu leikstjórn. Myndin þótti raunsærri en venja er með slíkar myndir, bæði hvað varðar lýsingar á limlestingum og dauðsföllum sem og andlegum áföllum hermanna. Fyrir þetta fékk myndin verðskuldaða athygli og lof.
Myndin fjallar um John H. Miller höfuðsmann og hersveit hans í síðari heimsstyrjöldinni. Hún hefst með innrásinni í Normandí þar sem meirihluti hermanna í hersveit Miller særist eða fellur í valinn. Þremur dögum síðar fær Miller þau fyrirmæli að fara inn á óvinasvæði með átta manna hersveit og finna þar óbreyttan hermann, Ryan að nafni. Ástæðan er sú að þrír bræður Ryans höfðu fallið í bardaga og þótti Marshall hershöfðingja að móðir þeirra hafi nú fært nægar fórnir. „líkt innrásinni í Normandí er markmið þeirra ekki að drepa óvininn heldur að bjarga lífi eins manns, ekki hershöfðingja eða ættgöfugs manns heldur óbreytts hermanns. En hvaða vit var í því að fórna lífi átta manna til að bjarga einum manni?
Nauðsynlegt er að kynna einn hermann hersveitarinnar til sögunnar en það er hinn trúaði Jackson, sem kyssir stöðugt kross sem hann hefur um hálsinn og þylur upp vers úr Saltaranum á raunastundu. Jackson er færasta skyttan í hersveitinni og trúir því sjálfur að hæfileikar hans séu gjöf Guðs: ,,Guð gaf mér einstaka gjöf; hann gerði mig að öflugu stríðstóli.“ Í augum Jackson er stríðið og trúin eitt og það sama. Í hvert skipti sem hann miðar á óvini sína þylur hann upp vers úr Saltaranum til að tryggja aðstoð Guðs, og það bregst ekki að Jackson hæfir óvininn í fyrsta eða öðru skoti. Hendur Guðs virðast berjast með Jackson, rétta af mið hans og styrkja fingur hans.
Uppbygging myndarinnar er einstaklega vönduð og trúarstefin fjölmörg. Ég hef ákveðið að fjalla um þessa þætti samtímis, enda eru þeir samofnir. Myndin byrjar á því að sýna Ryan í nútímanum (aldraður maður) er hann vitjar grafa þeirra hermanna sem fórnuðu lífi sínu til að bjarga honum. Því næst er áhorfandanum sögð sagan að baki björguninni, hrikalegu mannfalli við innrásina á Normandí og hættulegri leit lítillar herdeildar um stríðssvæðin í Frakklandi. Ef senur myndarinnar eru flokkaðar gróflega sést að um fornt stílbragð er að ræða í uppbyggingu myndarinnar, stílbragð sem á erlendum málum er oftast kallað inclusio en mætti vel nefna innrömmun eða speglun á íslensku:
a1) Bandaríski fáninn. b1) Ryan aldraður í grafreit hermanna (nútíminn). c1) Bardagi: Innrásin í Normandí. Miller missir heyrn. d1) Bréfið til móður Ryan bræðranna og bréf Lincolns. e1) Undirbúningur og hvíld. Omahafjaran eftir bardaga. f1) Á akri á leið á áfangastað. g1) Inni í byggð. Átök. h) Hvíld og hugrenningar í kirkju. g2) Í sjúkraskýli. Afleiðingar átaka f2) Á akri á leið á áfangastað. e2) Undirbúningur og hvíld. Í þorpi fyrir bardaga. d2) Bréfið til móður Ryanbræðranna og bréf Lincolns. c2) Bardagi: Í þorpinu. Miller missir heyrn. b2) Ryan aldraður í grafreit hermanna (nútíminn). a2) Bandaríski fáninn.
Kvikmyndin byrjar á því að sýna bandaríska fánann blakta við hún (a1) og hún endar á sama hátt (a2). Þá er Ryan sýndur aldraður er hann nálgast grafreit fallinna hermanna (b1) en næstsíðasta atriði myndarinnar gerist einmitt á sama stað og á sama tíma (b2). Glöggur lesandi tekur væntanlega eftir að ,,speglunin“ ruglast eilítið í því sem á eftir fylgir, en fyrir því eru fullkomlega eðlilegar skýringar. Strax eftir senuna í grafreitnum er farið aftur til 6. júní 1944 þegar bandamenn réðust inn í Normandí (c1). Að þeim bardaga loknum er vikið að föllnum bræðrum Ryans og bréfinu sem móður þeirra er sent vegna þessa hörmulega missis (d1). Myndin gat hins vegar ekki endað fyrr en síðasti bardaginn væri yfirstaðinn því örlög Ryans voru ekki ráðin fyrr en eftir hann.
Öll hverfist myndin um einn atburð, er hermennirnir hvílast í kirkju í niðurníddu þorpi (h). Í kirkjunni fáum við að heyra efasemdir Millers höfuðsmanns um réttmæti þessarar herfarar. Hingað til hafði Miller alltaf getað réttlætt dauða hermannanna í hersveit sinni með því að benda á að hver og einn þeirra björguðu lífi tíu til tuttugu annarra. En nú þurfa jafnvel nokkrir hermenn að láta lífið fyrir aðeins einn mann. Öll minnir sagan á dæmisögu Krists um týnda sauðinn:
Ef einhver á hundrað sauði og einn þeirra villist frá, skilur hann ekki þá níutíu og níu eftir í fjallinu og fer að leita þess, sem villtur er? Og auðnist honum að finna hann, þá segi ég yður með sanni, að hann fagnar meir yfir honum en þeim níutíu og níu, sem villtust ekki frá. Þannig er það eigi vilji yðar himneska föður, að nokkur þessara smælingja glatist. (Mt 18:12-14).
Einn munur er þó á kvikmyndinni og dæmisögu Krists. För hermannanna er mun meiri hættuför en bóndans sem leitar týnda sauðsins. Sá munur er þó minni ef maður skoðar dæmisöguna í samhengi guðspjallsins. Hirðirinn í dæmisögunni er að sjálfsögðu Kristur sem er kominn til að leita hinna týndu sauða en sú ferð var þyrnum stráð og endaði á krossinum á Golgata. För Millers höfuðsmanns endar einnig með því að hann lætur lífið, en síðustu orð hans (sem hann mælir til Ryans) eru bón um að hann sé verðugur þessarar fórnar. Miller er nokkurs konar kristsgervingur sem fórnar lífi sínu fyrir mannkynið. Ryan er hins vegar í hlutverki mannkynsins sem hefur þá skyldu að taka við fórninni með þakklæti og vera hennar verðugur.
Í raun má segja að Miller sé tákn allra þeirra bandamanna sem létu lífið á vígvellinum í anda Krists til þess að íbúar hins frjálsa vestræna heims gætu haldið áfram að lifa í frelsi, lausir undan áþján ofríkis og kúgunar. Þetta viðhorf endurspeglast vel í bréfi Marshalls hershöfðingja til móður Ryans sem og bréfi Lincolns sem hann vitnar í. Þar talar Marshall um að móðir Ryans hafi fórnað sonum sínum á altari frelsis og þannig lagt sitt af mörkum til að losa heiminn undan oki ofríkis og kúgunar.
Senan í kirkjunni er ekki eina innrömmunin í myndinni. Árásin í Normandí er dæmi um aðra innrömmun (senan tekur tæp 30 mín.) en hún er byggð upp á eftirfarandi hátt:
a1) Hönd Miller höfuðsmanns skelfur. Hann opnar vatnsflösku sína b1) Angist hermannanna fyrir bardagann c1) Bandamenn falla í valinn d) Jackson fellir hættulegustu menn Þjóðverja eftir að fara með vers úr Saltaranum c2) Þjóðverjar falla í valinn b2) Angist hermannanna eftir bardagann a2) Hönd Miller höfuðsmanns skelfur. Hann opnar vatnsflösku sína
Öll þessi sena hverfist um atriðið þar sem bandamenn hafa loksins komist í skjól og leita leiða til að ná höggstað á Þjóðverjum (d). Svo það megi takast þarf að þagga niður í stórum vélbyssum sem vonlaust er að komast fram hjá. Skyttan Jackson fær það hlutverk að drepa þá sem beita vélbyssunum. Áður en hann hefst handa kyssir hann kross sem hann hefur um hálsinn og um leið og hann miðar á þýskan hermann fer hann með fyrri hluta úr versi 20 úr 22. sálmi; ,,En þú Drottinn, ver eigi fjarri!“ Í því skýtur hann og hæfir skotmark sitt í fyrsta skoti. Eftir þetta er klippt á herprest sem er að leiða deyjandi mann í gegnum syndarjátningu og þar næst er klippt á hermann sem hefur misst alla von og situr hálfdofinn í miðri fjörunni með talnaband í hendi og þylur í sífellu bænir á latínu. Þá er aftur klippt á Jackson sem nú lýkur 20. versinu ,,þú styrkur minn, skunda mér til hjálpar.“ Hann skýtur á annan þýskan hermann og hæfir aftur í fyrsta skoti. Nú er leið bandamanna greið og sigur þeirra yfir ströndinni í raun tryggður.
Jackson kemur aftur við sögu í þorpinu um miðbik myndarinnar (rétt á undan senunni í kirkjunni). Hersveit Millers gengur fram á franska fjölskyldu en hús hennar er í rústum. Heimilisfaðirinn biður hersveit Millers um að taka (um tíu ára gamla) dóttur sína með sér og fara með á öruggan stað í borginni. Miller harðneitar en óbreytti hermaðurinn Caparzo neitar að hlýða og finnst ekkert sjálfsagðara en að taka barnið með sér. Hann tekur því stúlkuna í fang sér en hún sturlast og öskrar hástöfum. Caparzo gefur henni þá kross sinn og lætur um háls hennar til að róa hana en í sömu mund er hann felldur af leyniskyttu Þjóðverja. Táknræn merking þess að tengja dauða Caparzo við krossinn sem hann gefur komandi kynslóð er augljós. Nú kemur það í hlut Jacksons að finna leyniskyttuna og drepa hana svo hún felli ekki fleiri menn. Jackson kemur sér fyrir á bak við rústir og þylur upp upphafsvers 25. sálms (reyndar vantar fyrstu orðin): ,,Guð minn, þér treysti ég. Lát mig eigi verða til skammar, lát eigi óvini mína hlakka yfir mér.“ Að því loknu hæfir Jackson þýsku skyttuna rétt í því sem hún ætlar að skjóta á hann. „vinurinn fékk ekki að ,,hlakka yfir“ honum.
Og enn kemur hinn trúaði Jackson við sögu í lok myndarinnar þar sem hann felur sig upp í turni og fellir hvern þýska hermanninn á fætur öðrum um leið og hann þylur upp fyrstu tvö vers 144. sálms. Jackson byrjar sálmaflutning sinn með því að ákalla Guð með orðunum ,,Guð, veit mér styrk“ og að því loknu kemur sálmurinn:
Lofaður sé Drottinn, bjarg mitt, sem æfir hendur mínar til bardaga, fingur mína til orustu. [hittir í hverju skoti] Miskunn mín og vígi, háborg mín og hjálpari [skýtur mann] skjöldur minn og athvarf, [skýtur menn]
En sálmarnir eru ekki örugg töfraþula því rétt í því sem Jackson lýkur við annað vers sálmsins verður hann fyrir fallbyssuskoti. Þessi mikla sálmanotkun í miðjum drápum kann að hljóma sem guðlast en við megum ekki gleyma því að Gamla testamentið er raunsæ bók, sem snertir alla þætti mannlegs lífs. Jahve sjálfur var stríðsguð sem barðist með þjóð sinni á vígvellinum . Því er slík notkun í raun mjög í anda Gamla testamentisins. Guð mætir manninum þar sem hans er þörf og hans er sjaldan meiri þörf en í stríði, þar sem um líf og dauða er að tefla.
En þetta eru ekki einu biblíutilvísanirnar í myndinni. Í senunni í kirkjunni segir Reiben sem er grófur og beinskeyttur óbreyttur hermaður: ,,Hvernig er aftur orðatiltækið? ,,Ef Guð er okkar megin, hver í andskotanum gæti þá verið þeirra megin?““ Upham undirliðþjálfi, sem er vel menntaður, leiðréttir hann þá með því að vitna rétt í Rómverjabréf 8:31: ,,Ef Guð er með oss, hver er þá á móti oss?“ Reiben sér engan mun á því sem hann sagði og orðum Upham og svarar hissa að bragði: ,,Var það ekki það sem ég sagði?“ Að lokum má benda á að Upham vitnar á einum stað í Tennyson ,,Theirs not to reason why, theirs but to do and die“ en er stöðvaður af Reiben áður en hann heldur áfram. Þetta ljóð virðist vera mjög vinsælt á meðal hermanna en það er ort út frá 23. sálmi.
Það er réttlætanlegt að fara í stríð og drepa annan mann ef það er í þeim tilgangi að bjarga mannslífum og tryggja frelsi og lýðræði. Ekki er þó verið að lofa drápin eða fegra þau á neinn hátt, heldur er markmiðið það eitt að sýna að undir vissum kringumstæðum eru stríð nauðsynleg og í slíkum tilvikum eru dráp ekki syndsamleg heldur ill nauðsyn sem er Guði þóknanleg. Meira að segja þegar hermaðurinn mundar riffil sinn til að drepa er viðeigandi að ákalla Guð og biðja hann um að leiða fingurinn sem tekur um gikkinn.
Í Saving Private Ryan eru hermennirnir (og þá sérstaklega Miller) kristsgervingar í leiðangri til að bjarga týnda sauðinum. Og rétt eins og Kristur neyðast þeir til að fórna lífi sínu fyrir fjöldann svo honum hlotnist hjálpræðið, þ.e. frelsi og lýðræði. Lokaorð Millers eru þrungin merkingu og skírskotun til fórnarinnar: ,,Vertu þess verðugur, vertu þess verðugur.“ Orðunum er að sjálfsögðu ekki aðeins beint til Ryans heldur einnig til hins ,,frjálsa“ vestræna heims sem þarf að vera þess minnugur hvaðan hjálpræðið er komið og hvað það kostaði. Að öðrum kosti gætum við sofnað á verðinum og rambað í blindni út í enn eina heimsstyrjöldina.
Nánari upplýsingar um myndina:
Vefsíða myndarinnar
Upplýsingar um myndina á IMdb.
The Thin Red Line
Mikilvægasta myndin í þessum flokki er The Thin Red Line (1998). Myndin fékk fjölda verðlauna á kvikmyndahátíðum, þ.á.m. friðarverðlaun Political Film Society. Hún var tilnefnd til sjö óskarsverðlauna, þ.m.t. fyrir bestu kvikmyndatökuna, bestu leikstjórn og besta handritið. Myndin kom út sama ár og Saving Private Ryan og keppti við hana um óskarinn sem besta mynd ársins. Þótt báðar myndirnar séu stríðsmyndir og fjalli um síðari heimsstyrjöldina eru þær algjörar andstæður. Saving Private Ryan er hávær, hröð og átakamikil á meðan The Thin Red Line er hæg, ljóðræn og guðfræðileg.
Það er erfitt að lýsa söguþræði The Thin Red Line því að myndin segir vart nokkra sögu, heldur er hún nokkurs konar íhugun. Í raun má segja að The Thin Red Line ,,sé“ ekki stríðsmynd heldur ,,fjallar“ hún um stríð í sinni víðustu merkingu. Stríð í náttúrunni, stríð innra með okkur öllum, stríð manna á milli og stríð mannkynsins við náttúruna. Myndin byrjar á því að sýna krókódíl skríða út í kyrrt vatn og hverfa undir yfirborð þess. Á sama tíma er spiluð mjög dramatísk tónlist sem gefur til kynna að eitthvað hættulegt hafi gerst, eða muni gerast. Eftir þetta tekur sögumaður myndarinnar til máls og spyr: ,,Hvers eðli er stríðið í hjarta náttúrunnar? Hví berst náttúran innbyrðis. Landið tekst á við hafið. Er hefndarmáttur í náttúrunni? Ekki einn máttur heldur tveir.“ Söguþráður myndarinnar birtist á þessum fyrstu mínútum. Það sem á eftir kemur er aðeins útlegging á myndinni af krókódílnum í vatninu og hugleiðingar um uppruna illskunnar. Það er hægt að túlka krókódílinn á mismunandi hátt. Hann gæti táknað hið illa í mannssálinni sem bíður eftir tækifæri til að ráðast á sakleysið og rífa það á hol. Aðeins hárfín lína (thin red line) er á milli sakleysisins og illskunnar. Í stríði er yfirleitt farið yfir hina hárfínu línu og um leið leikur krókódíllinn lausum hala. Síðar í myndinni er sagt: ,,Stríðið göfgar ekki manninn, heldur breytir honum í hunda, eitrar sálina.“ Hermennirnir missa Eden sálar sinnar og eiga ekki afturkvæmt.
En aftur að upphafi myndarinnar. Þegar hér er komið sögu sér áhorfandinn fallega og óspillta náttúru, nánar tiltekið friðsælt þorp á eyju í Kyrrahafinu. Upphafið er endurtekið, þ.e. friðsæla þorpið er áþekkt vatninu kyrra áður en krókódíllinn skreið út í það. Tónlistin hefur einnig breyst. Í stað drungalegrar tónlistar er In Paradisum eftir Fauré spilað. Tónlistin og fegurðin gefa til kynna að við erum stödd í Eden (1M 2-3), óspilltum heimi sem þekkir ekki illsku. Á strönd Eden stendur Witt, hermaður sem hefur flúið herinn (ekki í fyrsta skiptið) og fundið draumastað sinn. Witt er kristsgervingur. Honum býður við ofbeldinu og illskunni í stríðinu og neitar að trúa því að heimurinn þurfi að vera svona. Hann leitar að ljósi, fegurð og skipan í öllu saman, að betri og fullkomnari heimi. Þar sem Witt stendur á ströndinni fáum við að heyra hugrenningar hans: ,,Ég man eftir banalegu móður minnar. Hún var svo krumpuð og grá. Ég spurði hana hvort hún væri hrædd. Hún hristi bara höfuðið. Ég þorði ekki að snerta dauðann sem ég sá í henni. Ég sá ekkert fallegt eða upplífgandi við að hún myndi hverfa aftur til Guðs. Ég hafði heyrt minnst á ódauðleika en ég hafði ekki séð hann. Ég velti því fyrir mér hvernig ég myndi taka dauða mínum. Hvernig mér myndi líða er ég vissi að andadrátturinn sem ég dró væri sá síðasti. Ég vona bara að ég eigi eftir að mæta dauða mínum með sömu stillingu og móðir mín, því að þar er hann falinn, ódauðleikinn sem ég hafði ekki séð.“ Þessar hugrenningar skipta miklu máli í lok myndarinnar, því Witt á eftir að verða að ósk sinni og mæta dauða sínum með sömu stillingu og gleði og móðir hans.
Ég sagði áður að þorpið væri eins og vatnið, áður en krókódíllinn skreið út í það. Ef þorpið er vatnið þá er herskipið sem kemur að sækja Witt krókódíllinn. Í nokkurn tíma hefur áhorfandinn séð kærleika, sterka og fallega liti og óspillta náttúru. Herskipið er í algjörri andstæðu við þessa mýkt og fegurð. Skipið er litlaust, hart og kalt. Það ræðst inn í náttúruna eins og snákurinn réðist inn í Eden (samkvæmt hefðbundinni túlkun kristninnar á sögunni af Adam og Evu). Á eyjunni voru Witt og félagi hans, sem hafði strokið með honum, frjálsir í gagntekinni fegurð náttúrunnar. Í skipinu eru þeir fangar, lokaðir í lítilli fangageymslu með grátt stálið allt í kring. Í skipinu er andstæða Witts kynnt til sögunnar, liðþjálfinn Edward Welsh. Welsh er svartsýnn og þreyttur á lífinu. Hann hefur glatað öllum hugsjónum sínum og trú á eitthvað göfugra eða æðra. Samtal Witts og Welsh er áhugavert og skiptir einnig miklu máli fyrir lok myndarinnar. Welsh segir föðurlega við Witt: ,,Í þessum heimi er einstaklingurinn ekkert. Og það er ekki til neinn annar heimur.“ Witt er ósammála og svarar: ,,Það er ekki rétt hjá þér. Ég hef séð annan heim. Stundum fannst mér eins og þetta væri bara ímyndun.“ Welsh svarar honum vantrúaður: ,,Þá hefur þú séð hluti sem ég mun aldrei sjá.“
Skipinu er stefnt til Guadalcanal. Er þeir sigla í land heyrist óttasleginn hermaður fara með Faðirvorið (Mt 6:9-13 og Lk 11:2-4). Þegar hermennirnir stíga á land eru þeir eins og krókódíllinn í upphafi myndarinnar. Hið friðsama og fallega umhverfi er algjör andstæða hinna velvopnuðu hermanna sem hafa ekki komið til að njóta heldur deyða. Hér tekur sögumaður aftur til máls og ávarpar náttúruna og Guð á sama tíma: ,,Hver ert þú sem lifir í svo mörgum formum. Dauði þinn fangar allt. En þú ert einnig uppspretta alls hins ófædda. Dýrð þín, miskunn, friður, sannleikur. Þú friðar andann, veitir skyn, hugrekki og fullnægt hjarta.“ Margt í þessu ávarpi sögumanns minnir á Saltarann, t.d. sl. 104:29-30 og 119:34, 73, 125, 130, 144, 169).
Rétt eins og Witt og Welsh eru andstæður eru James Staros höfuðsmaður og Gordon Tall ofursti andstæður. Staros er trúaður eins og Witt og óttast það mest að einhver úr hersveit hans láti lífið. Tvisvar sjáum við hann á bæn: ,,Ertu hér? Lát mig ekki svíkja þig. Lát mig ekki svíkja menn mína. Á þig treysti ég.“ og síðar: ,,Þú ert ljós mitt og leiðsögn.“ Tall er hins vegar nokkuð sama um líf hermannanna. Eina markmið hans er að klifra upp metorðastigann innan hersins, hvað sem það kostar. Staros lítur á stríð sem illa nauðsyn og fánýta fórn. Tall telur stríð hins vegar hluta af náttúrunni og að hlutverk mannsins sé að taka heilshugar þátt í því. Maðurinn á að fórna sjálfum sér eða óvininum, hvort heldur sem verða vill. Þegar Tall gefst upp á Staros og sendir hann heim spyr Staros um ástæðuna. Tall segir Staros ekki nógu harðgerðan, ekki nógu mikið í takt við náttúruna: ,,Líttu á frumskóginn. Líttu á klifurjurtirnar, hvernig þær vefjast um trén og gleypa allt. Náttúran er grimm, Staros.“
Í miðjum bardaganum heyrum við hugsanir eins hermannsins sem skýtur hermann út liði óvinanna: ,,Ég drap mann! Versti glæpur mannsins! Verri en nauðgun! Ég drap mann og enginn getur refsað mér fyrir það.“ Hér sjáum við krókódílinn skjóta hausnum upp úr vatninu því að hermaðurinn er ekki aðeins ringlaður heldur einnig stoltur og fagnandi. Annar hermaður, McCron, tekur morðunum á mjög ólíkan hátt. McCron, liðþjálfi, fagnar ekki heldur brotnar hann niður og öskrar til Guðs: ,,Kenndu mér að sjá með þínum augum. Við erum aðeins mold. Við erum aðeins mold!“ (sbr. 1M 3:19). Síðar heyrum við aftur í McCron er hann horfir á hunda éta lík fallina hermanna: ,,Hver ákveður hver muni lifa? Hver ákveður hver muni falla? Þetta er hégómi! Hér stend ég og ekki ein einasta kúla. Ekki eitt einasta skot. Hvers vegna þurftu þeir allir að deyja? Ég get staðið hér uppréttur og ekkert hendir mig!“ Þessi orð minna mjög á sálm 89:46-48 en þar segir: ,,Þú hefur stytt æskudaga hans og hulið hann skömm. […] Minnst þú, Drottinn, hvað ævin er, til hvílíks hégóma þú hefur skapað öll mannanna börn.“ Og að sjálfsögðu má ekki gleyma Prédikaranum en þar er hégóminn í öllu saman gegnum gangandi stef.
Jafnvel hinir dauðu fá að tjá hug sinn í myndinni. Við fáum að heyra þegar látinn japanskur hermaður ávarpar morðingja sinn: ,,Ertu réttlátur? Góðhjartaður? Felst sjálfstraust þitt í þessu? Ertu elskaður af fjöldanum? Það var ég einnig! Heldurðu að þjáning þín verði eitthvað minni vegna þess að þú elskaðir kærleikann? Sannleikann?“ Sögumaðurinn er álíka bitur og hinn fallni hermaður og spyr í undran um leið og við sjáum japanska hermenn kveljast og fella tár: ,,Þessi mikla illska. Hvaðan kemur hún? Hvernig komst hún inn í heiminn? Af hvaða fræi, af hvaða rót er hún runnin? Hver gerir þetta? Hver er að myrða okkur? Hver rænir okkur lífi og ljósi? Hæðist að okkur með tálsýnum um betri heim? Gagnast hörmungar okkar jörðinni? Viðhalda þær grassprettunni eða skini sólar? Er þetta myrkur einnig í þér? Hefur þú einnig farið um þessa nótt?“ Margt hér minnir á Prédikarann og Jobsbók. Þessi sena endar síðan á því að bandarískur hermaður kemur að særðum Japana með töng í hönd til að draga tennurnar úr honum. Bandaríski hermaðurinn ávarpar hinn síðar nefnda og segir: ,,Ég ætla að sökkva tönnum mínum í lifur þína.“
Sögumaðurinn er álíka áttavilltur og aðrir í myndinni. Er illskan hluti af mannlegri tilvist, eins og Tall heldur fram, eða er hún aðskotahlutur, veira sem hefur tekið sér bólfestu í mannssálinni, eins og Witt vill meina? Eða eigum við kannski ekki að leiða hugann að þessum málum og reyna bara að komast af? ,,Þetta er bara svona og því verður ekki breytt“, eins og Welsh heldur fram.
Enn hefur mikilvæg persóna myndarinnar ekki verið kynnt til sögunnar, en það er hinn ástfangni Jack Bell. Bell reynir að halda mennskunni (sinni innri Eden) óspilltri með því að hugsa til eiginkonu sinnar. Í hvert skipti sem ótti steðjar að flýr Bell á vit minninga sinna um konu sína. Hann telur sér jafnvel trú um að dauði hans skipti engu því hann muni samt hitta hana ,,handan við hin dimmu vötn.“ Hann upplifir sambandið eins og samband Adam og Evu fyrir fallið: ,,Við. Við saman. Ein vera. Flæðum saman eins og vatn, þar til ég er óaðskiljanlegur frá þér“ (1M 2:24). Bell tekst að halda mennskunni með því að upphefja konu sína. Eftir átökin spyr hann því ekki um uppruna illskunnar heldur hvaðan ástin sem bjargaði sakleysi hans kemur: ,,Hvaðan kemur hún? Hver tendraði þennan loga innra með okkur? Ekkert stríð getur slökkt hann, sigrað hann. Ég var fangi, þú frelsaðir mig.“ Er ástin þá kannski svarið? Kannski, en samt ekki sú ,,líkamlega“ ást sem Bell trúði á því stuttu síðar fær hann bréf frá konu sinni þar sem hún biður um skilnað því hún sé ástfangin af öðrum manni. Þar með hrynur heimur Bells.
En snúum okkur aftur að sambandi Welsh og Witts. Eftir átökin segir Welsh: ,,Ég vorkenni þér strákur.“ Witt spyr á móti: ,,Er það?“ og Welsh svarar: ,,Já pínu lítið. Herinn mun ganga af þér dauðum. Ef þú værir kænn myndir þú aðeins hugsa um sjálfan þig. Þú getur ekki hjálpað öðrum. Þú hleypur bara inn í brennandi hús, þar sem engum verður bjargað. Hverju heldurðu að þú getir breytt? Aðeins einn maður í allri þessari geðveiki. Ef þú deyrð mun dauði þinn verða til einskis. Það er enginn annar heimur þarna fyrir utan, þar sem allt verður klappað og klárt. Það er aðeins þessi heimur, aðeins þessi steinn.“ Witt svarar Welsh með því að horfa upp til himins, í átt frá ,,steininum“.
Þegar Witt kemur aftur til þorpsins sem hann var í í upphafi myndarinnar hefur það gjörbreyst. Eden hefur spillst. Einingin er horfin, í stað hláturs er grátur, í stað leikja liggja börnin fárveik og deyjandi. Í stað litríkra dýra er þorpið skreytt hauskúpum. Þá tekur sögumaðurinn aftur til máls: ,,Við vorum fjölskylda. Hvernig tvístraðist hún og flosnaði upp? Hví höfum við snúist gegn hvort öðru? Byrgjum ljós hvors annars. Hvernig glötuðum við því góða sem okkur var falið? Leyfðum því að sleppa? Tvístruðum því kæruleysislega? Hvers vegna reynum við ekki að snerta dýrðina?“ Þegar Witt snýr aftur frá þorpinu spyr Welsh hann hvort hann trúi enn á hið fagra ljós. En þegar hann sér að trú Witt hefur ekki verið haggað segir hann í undrun: ,,Hvernig ferðu að þessu? Þú ert sannkallaður töframaður.“
Í lok myndarinnar er bandaríska hersveitin að fikra sig upp á og stefnir í fang japanskrar hersveitar sem gengur niður ána. Witt áttar sig á aðsteðjandi hættu og biður um leyfi til að fara upp ána á undan hersveitinni. Þegar hann sér japönsku hermennina nær hann athygli þeirra og hleypur í átt frá hersveit sinni. Japönsku hermennirnir láta blekkjast og elta Witt. Þegar þeir finna hann að lokum er hersveit Witts óhult. Á þessari stundu finnur Witt ódauðleikann sem hann hafði fundið hjá móður sinni og hann deyr með sömu stillingu og hún. Nú fyrst fær áhorfandinn svar við öllum þeim spurningum sem sögumaður og aðrar persónur báru fram. Leyndardómur ódauðleikans, leyndardómur lífsins fólst ekki í því að hugsa fyrst og fremst um eigin hag, heldur í því að fórna sér fyrir náungann. Dauði Witts var ekki til einskis eins og Welsh hélt fram, heldur hið gagnstæða. Witt breytti öllu. Honum tókst að bjarga lífi hersveitar sinnar sem og lífi óvinahersveitarinnar. „líkt öðrum hermönnum tók hann ekki líf heldur gaf hann líf. Þar með er einnig búið að sanna að illskan er ekki nauðsynlegur þáttur tilverunnar. Við getum valið aðra leið ef við leggjum okkur bara fram um það.
Myndin breytist við fórn Witts. Nú fáum við aftur að sjá senur úr upphafi myndarinnar, áður en Eden spilltist. Myndirnar tákna ekki að Eden sé aftur til staðar, heldur eru þær eins og minning og loforð um það sem koma skal. Myndin endar síðan á því að sýna kókóshnetu í gróðurlausu fjöruborði. Kókóshnetan hefur skotið rótum og upp úr henni er þegar farið að vaxa tré, vísir að nýrri Paradís.
Í raun má segja að The Thin Red Line sé endursögn á Biblíunni. Hún byrjar í Eden og segir frá því hvernig maðurinn glataði einingu sinni og kærleika. Þá er komið við í spekiritum Gamla testamentisins og mikilvægar guðfræðilegar spurningar dregnar fram, eins og þær hví vondir hlutir gerist og hver sé uppruni þeirra. Þá er stokkið yfir í Nýja testamentið og fjallað um hvernig Kristur hóf að færa allt til betri vegar með fórn sinni. Síðasta bók Biblíunnar, Opinberunarbók Jóhannesar fjallar um það hvernig maðurinn muni hljóta Eden að nýju (22:1-5). Rétt eins og kókóshnetan í lok myndarinnar gefur Opinberunarbókin loforð um það sem koma skal, þegar Eden verður endurheimt og krókódílinn (drekinn í Opinberunarbókinni, sbr. 12:9) er yfirbugaður.
Nánari upplýsingar um myndina:
Vefsíða myndarinnar
Upplýsingar um myndina á IMdb.
Platoon
Kvikmyndin Platoon sló í gegn árið 1986. Hún var tilnefnd til sjö óskarsverðlauna og hlaut fjögur, þ.á.m. fyrir bestu leikstjórn og bestu mynd ársins. Platoon fékk fjöldan allan af verðlaunum og viðurkenningum, þ.á.m. friðarverðlaun Political Film Society. Myndin er á margan hátt áþekk The Thin Red Line. Söguþráðurinn er vanræktur í þeim báðum og báðar fjalla þær fyrst og fremst um baráttu góðs og ills. Í The Thin Red Line fengum við að heyra hugsanir fjölda persóna en í Platoon heyrum við aðeins hugsanir einnar persónu, Chris Taylor, er hann skrifar bréf til ömmu sinnar.
Myndin gerist á tveim sviðum. Hún fjallar annars vegar almennt um stríð og þá Víetnamstríðið sérstaklega, og hins vegar fjallar hún um hið innra stríð, Taylors í þessu tilfelli. Fyrst verður fjallað um sýn myndarinnar á Víetnam stríðið og þá um hið innra stríð.
Þótt myndin snúist að mestu leyti um Chris Taylor, reynslu hans og upplifun, þá fjallar hún fyrst og fremst um liðþjálfana tvo Barnes og Elias. Barnes er illskan holdi klædd. Honum stendur á sama um örlög nýliðanna og hann berst án siðferðis og sýnir ekki einu sinni konum og börnum samúð. Barnes hefur verið skotinn sjö sinnum og er því í hugum óbreyttu hermannanna yfirnáttúrulegur og ódrepandi. Hann er í stuttu máli í hlutverki Satans í myndinni. Elias er andstæða Barnes. Hann elskar náttúruna, passar upp á nýliðana og reynir að gæta þess að saklausir íbúar landsins þjáist ekki að ósekju. Elias er kristsgervingur. Hann er meira að segja kallaður vatnagangari (Mt 14:25-31; Mk 6:48-50 og Jh 6:19-20) og er sagður trúa því að hann sé Jesús Kristur.
Það segir heilmikið um afstöðu leikstjórans og handritshöfundarins, Olivers Stone, til stríðsins í Víetnam að Barnes skýtur Elias og skilur hann eftir særðan, þar sem hann fellur fyrir skotum víetnamskra hermanna. Kærleikurinn og réttlætið var yfirbugað og hið illa náði yfirhöndinni. Þar með breyttist Víetnam í helvíti og hermennirnir í óargadýr. Senan þegar Elias deyr er mjög táknræn. Hann sést flýja víetnömsku hermennina en þegar hann deyr réttir hann hendurnar út og til himins. Það er eins og hann sé að biðja um leið og hann er krossfestur. Á meðan svífur herdeildin fyrir ofan í þyrlu, í ,,öruggri“ umsjá Barnes (Satans).
Það er oft gefið til kynna í myndinni að Barnes og Elias tákni innri baráttu mannsins. Chris segir t.d: ,,Hvern einasta dag reyni ég ekki aðeins að halda þreki, heldur einnig að glata ekki geðheilsunni. […] Ég greini ekki lengur rétt frá röngu. […] Helmingur mannanna fylgja Elias að máli en hinn helmingurinn Barnes.“ Chris á lokaorð myndarinnar en þar segir hann: ,,Þegar ég lít til baka held ég að við höfum ekki barist við óvininn heldur við okkur sjálfa. „vinurinn var innra með okkur. Ég er nú á leiðinni heim úr stríðinu en stríðið heldur samt áfram, það sem eftir er lífdaga mína. Elias mun halda áfram að berjast við Barnes […] um sál mína. Á stundum líður mér eins og barni, fæddur af þessum tveim feðrum.“ Í ljósi þessara ummæla er ljóst að Elias táknar hið góða innra með manninum á meðan Barnes táknar hið illa. Chris táknar síðan sál mannsins þar sem þessir tveir andstæðir pólar takast á. Chris hefur um tvær leiðir að velja, hatursleið Barnes eða kærleiksleið Eliasar.
Í myndinni eru tvær upprisur, önnur sönn en hin fölsk. Sú fyrri er þegar hersveitin svífur með Barnes í þyrlunni á meðan verið er að ,,krossfesta“ Elias. Í lok myndarinnar drepur Chris Barnes (Satan) og svífur síðan upp í loft í þyrlu. Það er á þeirri stundu sem lokaorð Chris heyrast. Hér er sönn upprisa, þar sem illskan hefur verið yfirbuguð.
Myndin hefst á því að vitnað er í Prédikarann 11:9: ,,Gleð þig, ungi maður, í æsku þinni.“ Prédikarinn 11:7-12:8 fjallar um mikilvægi þess að njóta lífsins meðan maður er ungur því að brátt muni erfiðleikar lífsins dynja yfir og gleðidögum fækka. Unglingarnir sem sendir voru til Víetnam voru rændir æsku sinni og fengu að reyna hina bitru og gleðisnauðu daga of snemma. Ástæðan fyrir því að þeir fengu ekki að gleðjast í æskunni var ekki aðeins vegna þess að þeir upplifðu of miklar hörmungar heldur einnig vegna þess að oftast náði Satan (Barnes) völdum yfir sálum þeirra, eða eins og The Thin Red Line orðar það: Krókódíllinn skreið uppúr vatninu.
Nánari upplýsingar um myndina:
Upplýsingar um myndina á IMdb.
The Dirty Dozen
Hingað til hafa kristsgervingar endurspeglað viðhorf eða hátterni Jesú Krists en kristsgervingurinn í spennumyndinni The Dirty Dozen (1967) er meira í átt við andkrist en Jesú Guðspjallanna. The Dirty Dozen er ein vinsælasta stríðsmynd allra tíma, þá sérstaklega hjá karlmönnum. Í myndinni Sleepless in Seattle (1993) segir Sam Baldwin (leikinn af Tom Hanks) The Dirty Dozen vera mestu karlamynd allra tíma. Myndin var tilnefnd til fjögurra óskarsverðlauna og hlaut ein. Það er þekkt aðferð í stríði að bjóða föngum sakaruppgjöf með þeim skilyrðum að þeir gangi í herinn eða framkvæmi einhvern ákveðinn verknað. Þótt The Dirty Dozen sé skáldsaga byggir hún á þessari hefð.
Myndin gerist nokkrum dögum fyrir innrásina í Normandí en bandamenn þurftu að draga athygli Þjóðverja frá árásinni. Þeir ákveða því að senda þrettán manna hersveit til glæsihallar í Frakklandi, en háttsettir yfirmenn þýska hersins nota höllina sem heilsuhæli og koma þar reglulega með eiginkonur sínar og ástmeyjar. Markmið hersveitarinnar er að sprengja höllina og drepa alla yfirmennina sem þar eru. Þetta er slík glæfraför að nær víst er að margir ef ekki allir sem taka þátt í henni munu láta lífið. Til þess að fangarnir fallist á að taka þátt í áætluninni verða þeir að hafa engu að tapa. Fangarnir tólf, sem boðin eru sakaruppgjöf, eru því allir stórhættulegir glæpamenn (þjófar, morðingjar, nauðgarar og geðsjúklingar) sem bíða dauðadóms eða hafa verið dæmdir í lífstíðarfangelsi. Majórinn sem fær þann vafasama heiður að þjálfa hersveitina og leiða hana er heldur enginn kórdrengur. John Reisman hefur verið til stöðugra vandræða innan hersins. Hann ber enga virðingu fyrir yfirmönnum sínum og lætur illa að stjórn. Þar sem leiðangurinn mun líklega misheppnast finnst yfirmönnum Reismans þetta tilvalið tækifæri til að losna við hann fyrir fullt og allt.
Reisman er nokkurs konar Kristur með tólf lærisveina. Hjálpræðið sem hann boðar er ekki kærleikur eða göfug fórn eins og í The Thin Red Line heldur kaldrifjuð morð. Lærisveinarnir eru ekki fórnfúsir hugsjónamenn heldur geðveikir og hættulegir afbrotamenn sem hugsa fyrst og fremst um eigin hag. Á meðal þeirra er svikari, Archer Maggott að nafni, en hann er ofsatrúarmaður og kvenhatari. Þegar Reisman hittir Maggott í fyrsta skiptið kemur í ljós að hann kann Biblíuna sína vel, en iðrast samt ekki verka sinna, eða eins og Maggott segir: ,,Hefndin er mín segir Drottinn“ (5M 32:35 og Rm 12:19). Maggott fyrirlítur félaga sína, skemmtanir þeirra og kynlífsþörf og endar með því að snúast gegn þeim og drepa einn þeirra. Ef Reisman er Kristur og glæpamennirnir lærisveinarnir þá er Maggott vafalaust Júdas.
Myndin er furðuleg blanda af spennu og áróðri, þótt meira fari reyndar fyrir því fyrrnefnda. Áróðurinn nær hámarki í lokaatriði myndarinnar þegar ,,Kristur“ og ,,lærisveinar“ hans smala saman yfirmönnum þýska hersins ásamt fjölda annarra saklausra borgara. Eftir að hafa lokað fólkið niðri í neðanjarðabyrgi opna þeir loftlúgurnar, fylla þær af handsprengjum, hella bensíni yfir allt saman (þ.á.m. yfir fangana) og kveikja svo í. Þessi fjöldamorð minna mjög á gasklefana sem Nasistar notuðu. Í stað þess að fylla klefana af gasi flæðir bensín að ofan. Fjöldamorðin minna einnig á Víetnamstríðið en Bandaríkjamenn hentu gjarnan handsprengjum í neðanjarðarbyrgi víetnömsku hermannanna. Myndin er einmitt gerð 1967, þegar andstæðan við Víetnamstríðið var að byrja meðal almennings.
Slík fjöldamorð væru við venjulegar aðstæður fordæmd en í stríði eru þau lofsömuð og glæpamennirnir hylltir sem hetjur. Þannig sýnir myndin dökkar hliðar stríðsins þar sem bilið á milli góðu og vondu karlanna hverfur. Þjóðverjarnir, sem eru myrtir svo hrottalega, eru mun siðaðri og líklega betri manneskjur en ,,Kristur“ og ,,lærisveinar“ hans. Það má vel vera að markmið stríðsins sé göfugt en oftar en ekki er framkvæmdin allt annað en göfug. Þar breytist frelsarinn og lærisveinar hans í trúlausa morðingja og sá eini sem er trúaður er geðveikur ofsatrúarmaður sem snýst gegn sínum eigin mönnum. Öllu hefur verið snúið á hvolf. Aðeins þrír hermenn lifa herferðina af, þar á meðal Reisman, en e.t.v. má einnig sjá hér tilvísun í kristna hefð, þ.e. þrenninguna, eða réttara sagt vanhelga þrenningu.
Nánari upplýsingar um myndina:
Vefsíða myndarinnar
Upplýsingar um myndina á IMdb.