6. árgangur 2006, Pistill, Vefrit

Kvikmyndirnar, kirkjan og bíóhátíðin í Gautaborg

Drömmen eftir Niels Arden Oplev

Himnaríki og helvíti, Guð, þroski, trú og efi eru meðal umfjöllunarefna í myndunum sem keppa um aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg í ár. Myndirnar átta sem keppa um verðlaunin eru:

  • Beowulf & Grendel, leikstjóri Sturla Gunnarsson
  • Wellkåmm to Verona, leikstjóri Suzanne Osten
  • Voksne mennesker, leikstjóri Dagur Kári
  • Om Gud vill, leikstjóri Amir Chamdin
  • Matti – Hell is for Heroes, leikstjóri Aleksi Mäkelä
  • Izzat, leikstjóri Ulrik Imtiaz Rolfsen
  • Drømmen, leikstjóri Niels Arden Oplev (Denmark)
  • A Little Trip to Heaven, leikstjóri Baltasar Kormákur

Margir hafa eflaust heyrt af Gautaborgarhátíðinni og þekkja til aðalverðlaunanna þar – þetta er jú ein þekktasta kvikmyndahátíði Norðurlanda. Þau hafa meðal annars komið í skaut íslenskra kvikmynda, til að mynda Nóa Albinóa um árið.

Færri vita hinsvegar af því að myndirnar átta keppa einnig um önnur verðlaun, kirkjuleg kvikmyndaverðlaun. Sænska kirkjan veitir nefnilega árlega kvikmyndaverðlaun á Gautaborgarhátíðinni. Um þau verðlaun keppa sömu myndir og eru í aðalkeppninni og þau falla í skaut þeirri mynd sem þykir áhugaverðust sem glíma við trúar- og tilgangsspurningar.

Slík mynd þarf ekki að vera lögð upp eða skilgreind sem trúarmynd og trúarstefin þurfa ekki einu sinni að vera kristin. Það sem mestu máli skiptir er að myndin varpi áhugaverðu ljósi á þær spurningar sem glímt er við í kirkjunni. Ekki spillir svo fyrir ef hægt er að nota myndina í kirkjustarfi, sem innlegg í fræðslu, samtal og/eða prédikun.

Á undanförnum árum hafa þessi verðlaun fallið í skaut afar áhugaverðra mynda eins og Nóa Albinóa, Fyra nyanser av brunt og Paha Maa. Þessar þrjár myndir eru áhugaverð dæmi um myndir sem glíma við tilvistarspurningar án þess að gefa sig út fyrir að vera sérstaklega trúarlegar eða kristnar. Ef ég man rétt þá kom það aðstandendum þeirra allra meira að segja á óvart að fá kirkjuverðlaunin sænsku. Þegar Dagur Kári, leikstjóri Nóa Albinóa, tók við verðlaununum sagði hann að þetta væri sér hvatning, m.a. til að sækja kirkju reglulegar en hann hafði gert. Killinga-hópurinn sænski, sem fékk verðlaunin fyrir Fjögur tilbrigði við brúnt, var svo stoltur af sínum verðlaunum að þeirra var getið sérstaklega á veggspjaldi sem var dreift til kynningar myndinni – efst á spjaldinu!

Verðlaun af þessu tagi hafa a.m.k. þrennt í för með sér: Þau geta verið kvikmyndagerðarmönnum hvatning til að huga sérstaklega að tilvistar- og trúarstefjum í kvikmyndum auk þess sem þau geta verið hrós til þeirra sem gera slíkt vel, þau vekja athygli almennings á þessum víddum kvikmyndanna og þau eru starfsfólki kirkjunnar hvatning til að skoða nánar með hvaða hætti megi nota kvikmyndir í kirkjustarfi.

Undirritaður situr í dómnefnd vegna kvikmyndaverðlauna sænsku kirkjunnar þetta árið. Framundan er áhorf á átta áhugaverðar kvikmyndir. Verðlaunin verða svo afhent ásamt öðrum verðlaunum laugardaginn 4. febrúar næstkomandi. Í framhaldi af því munum við fjalla um nokkrar myndanna hér á vefnum og ræða um guðfræði, kvikmyndir og kirkjustarf.