Kvikmyndir

La double vie de Véronique

Leikstjórn: Krzysztof Kieslowski
Handrit: Krzysztof Kieslowski og Krzysztof Piesiewicz
Leikarar: Irène Jacob, Philippe Volter, Claude Duneton, Wladyslaw Kowalski, Halina Gryglaszewska, Louis Ducreux, Kalina Jedrusik, Aleksander Bardini, Jerzy Gudejko, Janusz Sterninski, Sandrine Dumas, Lorraine Evanoff, Gilles Gaston-Dreyfus og Guillaume De Tonquedec
Upprunaland: Pólland, Frakkland og Noregur
Ár: 1991
Lengd: 110mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Við fyrstu sýn virðist myndin greina frá kafla úr lífi tveggja ungra kvenna. Þær eru eins og eineggja tvíburar, eins í háttum, fæddar sama árið án þess þó að geta verið skyldar. Myndin er eins og tvær heimildamyndir skeyttar saman á þann hátt að sama leikkonan fer með aðalhlutverkið í þeim báðum. Þetta einfalda atriði sem kvikmyndin býður upp á gerir myndina sem heild dulmagnaða. Líf stúlknanna er að mörgu leyti líkt þótt þær búi við ólík þjóðfélagskerfi. Margs konar þræðir og hliðstæður tengja líf þeirra saman. Þessar heimildarmyndir geta þó ekki staðið einar og sér. Þegar betur er að gáð má greina þriðju söguna í myndinni og verður myndin í raun ekki skilin fyrr en ljóst verður hvernig sögurnar þrjár skarast.

Almennt um myndina:
Kvikmyndin Tvöfalt líf Veróniku (La double vie de Véronique) er margslungið verk og krefst mikils af áhorfandanum til þess að hann geti áttað sig á henni og notið hennar til fulls. Krzysztof Kieslowski (d. 1996) gerði þessa mynd árið 1991, en hann vann lengst af við gerð heimildarmynda í Póllandi í stjórnartíð kommúnista og fullkomnaðist þar næmi hans á kvikmyndatæknina. Eftir hrun kommúnismans 1989 fluttist hann til Frakklands þar sem hann vann að mestu síðustu myndir sínar. Að margra mati hefur stíll heimildarmyndanna sett svip sinn á leiknar kvikmyndir Kieslowskis og er Tvöfalt líf Veróniku óneitanlega nokkurs konar sambland af skáldskap, drama og heimildarmyndagerð.

Það sem gerir það að verkum að söguþráðurinn og fléttan í myndinni hefur farið fyrir ofan garð og neðan hjá mörgum er sú staðreynd að þeim tekst ekki að tengja þriðju söguna við myndina sem heild. Þriðja sagan er í raun undirtónn myndarinnar allrar og örlagaþráður hennar. Þar er rithöfundurinn og leikbrúðustjórinn Alexander leiddur fram á sjónarsviðið. Hann er á vissan hátt staðgengill guðs eða höfundarins sjálfs og það verður til þess að myndin sem heild gengur upp, en þó með ívafi óvæntra, að því er virðist yfirmannlegra atburða, sem eru forréttindi í frásagnarmöguleikum kvikmynda þar sem atburðir geta gerst óundirbúið og umsvifalaust. Kieslowski virðist hafa haft sérstakt dálæti á að brjóta form heimildarmyndarinnar upp með yfirnáttúrulegum eða því sem hann kýs heldur að kalla leyndardómsfulla atburði til þess að sýna áhorfendum fram á að ekki er allt sem sýnist og að mannlífið er margbrotið, margrætt og alls ekki á eina bókina lært. Lífsviðhorf hans er í uppreisn á móti öllum kenningakerfum sem hafa fyrirfram eina lausn, eina leið, eina skýringu.

Báðar missa stúlkurnar mæður sínar ungar og alast upp með feðrum sínum, skilningsríkum og góðum mönnum. Þær eignast elskhuga, eru ljúfar og vingjarnlegar, en það er eins og þær skorti frumkvæði sem gæti stafað af því að þeim finnst þær ekki vera einar, vita ekki alveg hvað þær vilja og það er eins og aðrir ráði hegðun þeirra, einhverjir, eða eitthvað utanaðkomandi afl grípi sífellt inn í líf þeirra. Þær finna fyrir nálægð einhvers sem þær vita ekki hvað er, sem mætti túlka þannig að þær væru á valdi einhvers sem þær hvorki skilja né samþykkja. Þegar sú pólska segir föður sínum að það sé eins og hún sé aldrei ein svarar hann: „Við erum í raun og veru aldrei ein. Það er alltaf einhver hjá okkur.“ Faðir þeirrar frönsku, sem trúir honum fyrir því sama, spyr hana hvort þetta sé eins og einhver sé farinn úr lífi hennar. Þegar hún svarar nefnir hún framliðna móður sína. Aftur kemur Véronique til föður síns og segir glöð í bragði að nú sé hún viss um að hún sé ástfangin. Og hann spyr: „Þekki ég hann?“ Hún svarar: „Nei, og ég þekki hann ekki heldur.“ Þetta virðist ekki angra hana neitt, en faðirinn verður undrandi.

Saga Weroniku í Póllandi er fyrst sögð og hún kemur eins og áður segir einu sinni í sjónmál „tvífara“ síns þegar hún er að flýta sér heim af æfingu, en það er á torgi í Krakov þar sem allt er í uppnámi. Lögreglan á þar í höggi við verkamenn og annað fólk í uppreisnarham. Tvífarinn Véronique er þar á meðal franskra ferðamanna sem hraða sér upp í langferðabíl til að lenda ekki í átökunum. Hún tekur hverja myndina á fætur annarri af fólkinu á torginu, þar á meðal Weroniku, sem verður agndofa þegar hún sér tvífara sinn og hleypur á eftir rútunni meðan fært er. En sú franska tók myndir af pólska tvífara sínum án þess að veita henni eftirtekt. Myndavélin var milli þeirra. Myndin af dökkhærðu stúlkunni í dökku kápunni á torginu í Krakov er þó á sínum stað og það er ekki fyrr en seinna að sú franska tekur eftir henni. Kannski tók hún jafnvel eitthvað með sér af sál Weroniku í myndinni því það er greinilegt að það myndast þarna einhver tengsl á milli þeirra.

Weroniku er boðið á æfingu með vinkonu sinni sem er píanóleikari. Sjálf er Weronika með lokapróf í píanóleik sem hún hefur ekki getað stundað frá prófdegi vegna þess að faðir vinkonunnar skellti bílhurð á hönd hennar þegar þær komu úr prófinu á sínum tíma. Síðan þá virðist eins og Weroniku sé fróun í því að vefja svartri reim um fingur sködduðu handarinnar. Vinkonan er undirleikari og konan sem æfir kórinn tekur eftir sönghæfileikum Weroniku þegar hún tekur ósjálfrátt að syngja með kórnum. Leiðbeinandinn atyrðir vinkonuna fyrir slæman píanóleik og hún tekur það greinilega nærri sér. Ekki er ósennilegt að Weronika hafi verið betri píanóleikari en vinkonan, a.m.k. hefur hún frábært söngeyra og fallega rödd sem fellur vel inn í kórverkið. Kórstjórinn býður henni á æfingu og hún er valin til að syngja á tónleikum. Þá finnur hún fyrir óþægindum í brjósti og grípur í reimina en riðar og fellur örend á sviðið. Þessi saga, eða kafli myndarinnar, endar svo á jarðarför hennar og áhorfandinn sér rekunum kastað eins og hann væri sjálfur í kistunni.

Reimin getur verið tákn um margt. Hún tengir „Verónikurnar“ tvær því sú franska fær hana senda í pósti og skilur ekkert í því og hendir henni í ruslið, en sækir hana þangað aftur síðar. Þráðurinn getur verið tákn fyrir leiðarhnoðann sem Véronique fylgir. Hún heldur áfram að rekja sig eftir þræðinum, segulbandi, sem vísar henni leiðina til rithöfundarins og elskhugans sem hún vissi ekki hver var. Á leiðinni mætir hún einum þöglu englanna sem koma svo oft fyrir í myndum Kieslowskis og starir sá birtur á Véronique. Þar var pólska vinkonan komin, píanóleikarinn niðurlægði. Véronique sér hana, en ber ekki kennsl á hana. Þær eiga ekki orðastað, enda er píanóleikarinn úr annarri sögu og birtist því sem engill. Mögnuð nærvera þessara engla Kieslowskis leiða hugan að frummyndum eða erketýpum eins og þær eru kallaðar í sálarfræði Jungs. Tvær aldraðar konur birtast sem frummyndir og englar án þess að áhorfandinn fái að sjá framan í þær. Yfirleitt eru það þögul andlit englanna sem eru svo mögnuð. Kraftur þeirra kemur úr uppsafnaðri reynslu kynslóðanna allt frá upphafi mannsins á jörðinni og þær birtast oft þegar þeirra er síst von, stundum sem fyrirboðar einhvers óvænts atburðar eða sem tákn um að ekki sé allt sem sýnist. Auðvitað geta englar gert kraftaverk, enda er lífið sjálft kraftaverk. Í þriðju sögunni var það gamla nornin ­ brúðan – sem lífgaði dánu brúðuna.

Upphaf annars hluta myndarinnar hefst á því að Véronique hin franska heldur í flýti til söngkennarans síns og segist hætt í námi. Hún veit ekki af hverju hún vill hætta, en hún er engu að síður harðákveðin. Hann verður agndofa af undrun og reiði, grátbænir hana um að halda áfram og hótar henni jafnvel, en ekkert stoðar. Hún er tónlistarkennari og einn daginn er nemendum boðið að sjá brúðuleikhús. Véronique situr meðal áhorfenda. Á sviðinu eru þrjár brúður, tvær dansmeyjar sem líta eins út og þar er líka gömul kona. Þarna er þráðurinn tekinn upp á ný ­ þráðurinn sem Véronique fetar sig eftir í leit sinni að upptökum hinnar óræðu tilfinningar. Véronique laðast bæði að verkinu og brúðustjóranum sem stjórnar brúðunum berhentur, en hylur sig ekki með svörtum hönskum eins og venja er meðal brúðuleikara. Hér fer Véronique vitandi eða óafvitandi að feta sig leiðina til einsömunar. Hún fer að vinna úr þeirri vissu að hún sé ástfangin af einhverjum sem hún veit ekki hver er en finnur fyrir. Sagan á sviðinu heillar hana og vísar henni áfram í leitinni að sjálfri sér.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Ballettdansmærin stígur upp úr skrautboxi og stígur dans þar til hún hnígur niður örend eða brotin á sviðinu. Gamla konan, sem skírskotar til gömlu kvennanna sem áður eru nefndar, breiðir yfir hana ábreiðu. Dansmærin liggur á sviðinu undir ábreiðunni um stund en rís upp og er þá með vængi sem fagurt fiðrildi eða engill. Í fornu kristnu táknmáli var fiðrildið tákn um hið nýja líf. Sjálft atriðið skapar hugrenningatengsl við upprisu eða að minnsta kosti endurfæðingu. Dauðinn umbreytist í nýtt líf, þ.e. annað líf og hér er komin skírskotun til titils myndarinnar „tvöfalt líf“. Á meðan brúðurnar eru á sviðinu getur Véronique fylgst bæði með andliti brúðumeistarans í spegli til hliðar við sviðið og framvindu leiksins á sjálfu sviðinu.

Í lok myndarinnar, þegar þriðja sagan er komin fram, sést loks að hverju Véronique var að leita. Þræðirnir sem hún fékk upp í hendurnar leiða hana að borði brúðumeistarans sem er höfundur barnabókarinnar sem brúðuleikritið byggðist á. Hann er með tvær brúður eins á vinnuborði sínu, en sýnir henni þá sem „lifði“ og Véronique samsamast henni og þar með sjálfri sér er þær horfast í augu. Véronique verður heil og það hvílir helgi yfir þessum atburði sem er hátindur myndarinnar. Þangað er löng og ævintýraleg leið sem Kieslowksi gæðir bæði óvæntum uppákomum og listrænni fegurð sem ekki verða gerð ítarlegri skil hér.

Barnabókahöfundurinn Alexander vill gera ástarsögu sem rennur saman við þriðju sögu myndarinnar sem áður er minnst á. Í ástinni eru allir að leita að sjálfum sér. Liður í þessari sögu er að laða Véronique til sín og hann gerir það með því að tengja hana tilveru Weroniku og hann hefur á leyndardómsfullan hátt tök á vísbendingum sem duga í því sambandi. Alexander fær tækifæri til að nálgast Véronique sem ástkonu sína, innsta líf hennar sem hún jafnvel skilur ekki sjálf. Sem brúðuleikstjóri hefur hann þræðina um stund í sinni alvitru hendi en hann stjórnar þó ekki niðurstöðunni. Þegar Véronique kemst til sjálfrar sín á sér stað „avmytologisering“, hið dularfulla er ekki lengur dularfullt og Alexander missir þræðina úr höndum sér.

Véronique er virk í einsömunarferlinu. Hún var það sem Kieslowski kallar „ófullgerð stúlka“ (unfinished girl) og hlaut að leita að því sem hana vantaði. Tilraunin hlaut því að ganga upp hjá hinum upprennandi skáldsöguhöfundi nema að því leyti að Véronique er ekki háð ástinni á honum. Hún er orðin sjálfstæð. Hún hverfur til föður síns og hér getum við séð hliðstæðu þess sem Kieslowski segir sjálfur um afstöðuna til föður síns og vitnað var til hér að ofan. Fyrir hann var það of seint, en ekki fyrir Véronique. Lykillinn að skilningi á myndinni er sem sagt atriðið þegar Véronique rankar við sér og fer sjálf að leita. Sérstaklega er það atriði mikilvægt þar sem hún kemur að brúðumeistaranum við vinnu sína, horfir á brúðuna sem hann heldur á og spyr: „Er þetta ég.“ „Auðvitað“, svarar brúðumeistarinn brosandi og mildur. Hin sem var til vara er úr sögunni, enda liggur hún líflaus á vinnuborðinu. Þegar Véronique horfir á brúðuna og heldur um pinnana sem stjórna hreyfingum hennar, er það tákn um það sem Jung nefnir Self-representation. Hún sér sjálfa sig og öðlast stjórn á sjálfri sér um leið. Kieslowski skýrir þetta með nokkuð öðrum hætti.

Þegar hér er komið sögu er guð óþarfur a.m.k. þangað til maðurinn þarf næst á honum að halda. Hann er e.t.v. aðeins vinnutilgáta Kieslowskis í þessari mynd. Véronique er laus úr strengjum hans. Óljósa tilfinningin um einhvern annan sem tilheyrði henni svo náið og persónulega er nú orðinn hluti af hinu skiljanlega og skilgreinanlega. Það sem áður var einkamál er nú orðið opinbert leyndarmál. Sjálfið getur því brotist í gegnum grímuna sem snýr að áhorfendum.

En það er líka hægt að túlka guð öðruvísi út frá þessari mynd. Guð tilheyrir lífinu í gleði og þraut og hann er á bak við það hvort sem það gengur upp eða ekki. Afstaðan til hans er persónuleg eins og Kieslowski segir, guðstrúin er því aldrei tekin til endanlegrar afgreiðslu í myndum Kieslowskis. Hún er til staðar innra með manninum – þ.e. Kieslowski – og virk svo lengi sem hún verður ekki opinber stofnun. Hún er hluti af hinu óræða sem er óaðskiljanlegur þáttur lífsins. Þess vegna segir Kieslowski alltaf að þótt hann gefi mikið af sér í myndum sínum og þótt þær fjalli að einhverju leyti um hann sjálfan og hans innra líf þá er hann þar aldrei allur. Verk hans eru ekki játningar, þær á hann fyrir sig einan og guð sinn.

Sólin er mild og sest yfir Véronique og föður hennar sem halda utan um hvort annað. Tréð er lífið og rök þess standa djúpum rótum í moldinni sem er tákn um samvitund mannsins frá örófi alda, en á yfirborðinu hrærist mannlífið í öllum sínum myndum. Við sjáum þau, föður og dóttur, í gegnum tvo glugga, enda er myndin „tvöföld“ þótt hún gangi upp í einsömun á endanum. Boðskapur Kieslowskis til áhorfandans er sennilega þegar upp er staðið þessi: Þú skalt fikra þig eftir þræði lífsins til sjálfs þín.

Kieslowski áleit það engan veginn vera sitt hlutverk að predika fyrir öðrum eða leysa lífsgátuna fyrir aðra. Það má því segja að hann hafi að sumu leyti verið ópólitískur en því fer fjarri að hann hafi í einkalífi sínu og starfi hugsað eins og stjórnmálamaður. Samt sem áður ræðir hann um stjórnmál í þeim viðtölum sem tekin voru við hann. Þar segir hann að list sín komi stjórnmálum við. Stjórnmál komu honum sjálfum við að svo miklu leyti sem þau voru hluti af lífi fólks, liður í hversdagslífinu. Hann vissi manna best að stjórnmálin setja vissan ramma um daglegt líf fólks, hvort sem um verkafólk er að ræða eða skapandi listamenn. Það þarf því ekki að koma á óvart að finna megi í verkum hans skírskotun til stjórnmála, bæði þjóðlegra og alþjóðlegra. Tvöfalt líf Veróniku gæti þýtt tvöfalt líf Evrópu eins og hún var áður en kommúnisminn féll. Sá múr sem Sovétkerfið reisti og klauf Evrópu í tvær „grímur“ hrundi í lok níunda áratugarins. Múrinn er tákn um bælingu, þröskuldinn milli meðvitundar sjálfsins og dulvitundarinnar. Evrópa ­ Véronique – þroskast. Við tekur hið græðandi ferli ensömunarinnar. „Hún tekur að vaxa og þroskast“ – finna sjálfa sig á ný og það var og er ekki sársaukalaust ferli. Pólska stúlkan deyr, þ.e. kommúnisminn, en sú franska lifir – það er lýðræðið sigrar. Hún finnur að hún verður heil, múrinn fellur, gríman fellur og hún stendur sterkari eftir. Hún snertir lífsins tré, og höndin er heil.

Líklega hefur Kieslowski ekki ætlað sér að skýra fléttuna á augljósan hátt í atburðarásinni og greina má marga þræði sem við fyrstu sýn virðast sjálfstæðir atburðir. Dæmi um þetta er atriðið þar sem Véronique hin franska tekur mynd af tvífara sínum án þess að taka eftir því, en Weronika hin pólska verður þess vör enda þótt hún sé óvirk. Þá má nefna atriði þar sem Véronique fær óvænt símtal frá einhverjum sem ekki kynnir sig en um leið og hún snertir tólið, tákn sambandins við hið óþekkta, birtist henni mynd af Weroniku eins og í draumsýn.

Við fyrstu sýn er ekki alveg ljóst hvort það er leikbrúðustjórinn eða hún sjálf sem stjórnar atburðarásinni, einsömunarferlinu. Til að hafa vaðið fyrir neðan sig er best að gera ráð fyrir því að söguþráðurinn sé eins konar samspil þeirra, en leiðarvísirinn sé mótaður af æðri mætti sem bæði leikbrúðustjórinn og Kieslowski sjálfur gætu verið fulltrúar fyrir. Það má kalla þennan mátt lífið sjálft eða jafnvel guð í leit að betra orði. Sá guð sem stjórnar baksviðinu í Tvöföldu lífi Veróniku er ekki harðstjóri sem setur börn sín á beinar brautir. Hann er eins og brúðusmiðurinn sem gerir eina brúðu til vara af sömu persónunni ef eitthvað skyldi koma fyrir hina.

Sjá nánar grein Péturs Péturssonar um myndina í ritinu Guð á hvíta tjaldinu.

Persónur úr trúarritum: Guð, engar, erkitýpur, brúðuleikhússtjóri, brúðugerðarmaður, rithöfundur
Guðfræðistef: upprisa, endurfæðing, tvífari, Skuggi, lífsgleði, dauðinn, tilviljun, sálin, Guð, ást, hliðstæða, fyrirgefning
Siðfræðistef: ábyrgð, traust, skylda, vinátta, kvíði, bera ljúgvitni, framhjáhald
Trúarbrögð: Forlagatrú, einkatrú, hjátrú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, kirkjugarður
Trúarleg tákn: Verónikkudúkurinn, stjarna, brúðumeistari, fiðrildi, sími, kross, jólastjarnan, tré
Trúarlegt atferli og siðir: spálestur í spil, kirkjuklukknahringing
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Aðfangadagskvöld
Trúarleg reynsla: endurtekning, fyrirgefning, draumur