Leikstjórn: Roberto Benigni
Handrit: Vincenzo Cerami og Roberto Benigni
Leikarar: Roberto Benigni, Nicoletta Brasci, Giorgio Cantarini, Giustino Durano, Sergio Bustric, Horst Bucholz, Marisa Parades, Lydial Alfonis, Giuliana Ljodice, Giorgio Cantarini.
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1997
Lengd: 118mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Title?0118799
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Ástin og lífið á stríðstíma. Guido, ungur Gyðingur heillast af kennslukonunni, Dóru, í ítölsku þorpi. En hún er af öðru sauðahúsi en hann og flest verður til að hindra samskipti þeirra og tilhugalíf. Með hugviti og uppátækjum tekst söguhetjunni þó að bræða hjarta konunnar og sprengja þau félagslegu höft sem meina þeim að eigast. Þetta er fyrri hluti myndarinnar, sem einkennist af farsakenndri og allt að því súrrealískri atburðarás. Síðan er skipt um gír og ný saga hefst. Guido og Jósúa, fimm ára afkvæmi ástar hans og Dóru, eru sendir í fangabúðir fyrir gyðinga. Dóra heimtar að fara með þeim. Þar reynir faðirinn að fela drenginn svo honum verði ekki fargað. Til þess að gera vistina bærilegri fyrir drenginn breytir Guido fangavist þeirra í leik. Hann lýgur því að honum að þetta sé ekki fangelsi heldur keppni og að sá sem sigrar keppnina fái alvöru skriðdreka að launum. Þannig má á vissan hátt segja að Guido ljúgi til lífs.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Trotsky á að hafa sagt, þegar hann beið eftir aftökusveitinni, að lífið væri samt dásamlegt. Þaðan kemur heiti myndarinnar. Í samræmi við heitið er boðskapur myndarinnar, að gáskinn sé sterkari en drunginn, lífið sterkara en dauðinn og vonin máttugri en svartnættið. Hið persónulega í myndinni er ávirkt og hvíslar að áhorfandanum þeim boðskap að hamingjan sé heimafengin, hvernig sem aðstæður fólks séu.
Guido í myndinni er kristsgerfingur. Lokaorð drengsins í myndinni vísa til fórnar föður hans svo hann mætti lifa. Þar með er ákveðin túlkun gefin um, að sagan sé saga um fórn. En faðir hans dó ekki fyrir syndir annarra eða í stað annarra. Guido er fyrst og fremst lausnari í því, að hann var farvegur lífs, gáska, gleði og hamingju. Alls staðar þar sem Guido fer er líf og fjör. Hann er samkvæmur sjálfum sér og tekur ekki þátt í þrönghyggju dauðans eða stjórnmálum húmorslausra fasista. Aldrei tekst honum betur upp í gríninu, en þegar það beinist að fasistunum. Hann er farvegur viskunnar, líka í samskiptum við lækninn Leibnitz, sem er blanda af formhyggju og flótta frá lífinu (Silenzio). Lögð er áhersla á í myndinni, að Guð þjóni mönnum en sé ekki þjónn þeirra. Góður þjónn eigi að vera sjálf sín en ekki þræll manna, þó hann þjóni þeim vel. Það má skoða þjónsorðræðu myndarinnar sem vísun í þjónsmynd spádómsbókar Jesaja.
Þá er í myndinni vísað til Exodusstefja, þó þau séu ekki unnin mjög ítarlega. Sonurinn ber nafnið Jósúa, sem var nafn leiðtoga Ísraelsþjóðarinnar á leið til landsins fyrirheitna. Móse leiddi hina fornu Hebrea út af þrælahúsi Egypta og að landmærum Palestínu, en dó áður en hann komst alla leið (lokakaflar 5. Mósebókar og Jósúabók). Guidó er að sínu leyti í hlutverki Móse, en sonurinn kemst alla leið, sbr. síðustu myndskeið myndarinnar. Starfi Guidó er þá í anda lögmáls gleðinnar og skapandi elsku. Nafnið gæti verið túlkun á Guðsheitinu (sbr. Godot hjá Beckett).
Vegna bjartsýni og gleðisóknar eru upprisutákn skýr í myndinni. Þrátt fyrir ferð um dal dauðans í búðunum komast drengurinn og móðir hans af. Drengurinn bíður þess í ruslatunnu, að hörmungar gangi yfir. Hermennirnir, með hund sinn rétt við tunnuna, minna á hermennina við gröf Jesú. Þegar þeir eru flúnir kemur litli maðurinn fram úr „gröf“ sinni, upprisinn þvert á allar aðstæður. Í samræmi við orð föðurins hlýtur hann skriðdreka að sigurlaunum, enda náði hann 1000 stigum (kallast á við 1000 ára ríki Hitlers). Mórallinn er einfaldur: Lífið býður upp á mun stórkostlegri kraftaverk og undur, en hinir lítilþægu gera sér grein fyrir.
Vegir, götur og leiðir eru mikilvæg tákn í myndinni um mannlífið og hvernig manneskjan þeytist áfram og verður fyrir óvæntum viðburðum. Hvaða leið ferðu og hvernig? spyr hið grínaktuga myndmál. Allir fara eitthvað og orð Jesú koma í hug: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið“ sem gæti verið hin trúarlega baksýn myndarinnar. Myndin byrjar á bílferð tveggja félaga um unaðslega sveit í Toscana. Bremsurnar bila og þeir félagar geysast niður krókótta brekkuvegi og hendast inn í bílalest höfðingja í opinberri heimsókn. Benigni í hlutverki Guido hamast við að benda fólki að víkja frá. Það misskilur og heldur að hann sé að veifa þeim og fagnar mjög. Atriðið vísar í Einræðisherra Chaplin. Skömmu síðar er hann svo á fleygiferð á hjólinu sínu og lendir ofan á draumadísinni. Hjólreiðar á Formúluhraða eru algengar og enda í upphöfnu sprelli. Lestin liggur til dauðans og síðasta ferðin er með skriðdreka.
Gluggar og rýmisop þjóna mikilvægu hlutverki í myndinni og eru tákn breytinga. Dóra kom fljúgandi út um gluggaop á hlöðu í upphafi myndarinnar. Lykill Maríu flýgur stöðugt út um glugga. Guidó flúði út um skólaglugga þegar rómarsendiboðann kom á hælum hans, eftir að hafa dansað borðfyrirlestur fyrir skólakrakka. Gluggi heimilis hjónanna spannar fimm ára tímabreytingu. Gluggi tónlistar er opnaður í fangabúðum til að miðla vitnisburði um lífið. Söguhetjan er nöppuð við glugga og aflífuð í kjölfarið. Drengurinn horfir á föður sinn stíga gæsagang á leið til aftöku um ruslatunnuglugga. Gluggarnir eru gjarnan uppmúraðir í fangabúðunum. En gluggar eru einnig leið fyrir ljós, því það sem mönnum virðist óyfirstíganlegt er oft lítið annað en tilbúin skilrúm. Möguleikarnir eru oft fleiri en fólk vill skilja.
Að lokum er borðhald mikilvægt í myndinni og má skoða það sem vísun í borðhald Biblíunnar, bæði í túlkun Gt og Nt. Þá er tónlistin Piovani ekki margflókin, en afar vel útsett og með kostulega hljómáferð. Að sjálfsögðu stendur Offenbach fyrir sínu. Í það heila er þetta góð mynd, fyrir þá sem hafa gaman af meðvituðu sprelli og löngun til að elska lífið.
Hliðstæður við texta trúarrits: Jósúabók, Sl 37:12-19, Sl 23, Jesaja, Jh 14:6
Persónur úr trúarritum: Jesús; Jósúa
Guðfræðistef: exodus, krossfesting, upprisa, borðahald, vegur, lífgjöf
Siðfræðistef: mannkærleikur, maðurinn sem markmið en ekki meðal, þjónusta
Trúarbrögð: gyðingdómur, rómversk kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: dauðadyngja
Trúarleg tákn: Hestur, egg, hattur
Trúarlegt atferli og siðir: Reið hests (asna)