Kvikmyndir

Le frisson des vampires

Leikstjórn: Jean Rollin
Handrit: Jean Rollin og Monique Natan
Leikarar: Sandra Julien, Nicole Nancel, Michel Delahaye, Jaques Robiolles, Marie-Pierre Tricot, Jean-Marie Durand og Dominique
Upprunaland: Frakkland
Ár: 1970
Lengd: 90mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0065744
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Nýgift hjón hefðu betur látið ógert að koma við í stórum hrörlegum kastala í brúðkaupsferð sinni því að hann reynist bæli samkynhneigðra egypskra blóðsuga í alvarlegri tilvistarkreppu.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þó svo að Le frisson des vampires (stundum kölluð á ensku The Shiver of the Vampires) sé með skárri myndum franska ruslmyndagerðarmannsins Jeans Rollin, er ekki þar með sagt, að hún sé góð. Kvikmyndir Rollins snúast nær eingöngu um lesbískar blóðsugur í tilvistarkreppu og einkennist kvikmyndastíllinn jafnan af löturhægri atburðarrás, tilgerðarlegum leik og langdregnum kyrrmyndum, sem sennilega eiga að vekja dulúð. Einstök myndskot eru þó nokkuð vel heppnuð í þessu tilfelli, t.d. af blóðsugunni í gömlu skápsklukkunni, auk þess sem tónlistin er óvenju fersk.

Ekki er hægt að dæma um framsögn leikaranna, þar sem myndbandsútgáfan frá Redemption, sem hér er til umfjöllunar, er talsett á ensku, en af svipbrigðum þeirra að dæma og framkomu verður frammistaðan samt að teljast heldur slök. (Reyndar er nú loksins hægt að fá myndina á DVD á svæði 1 með frönsku tali og í réttum breiðtjaldshlutföllum, en sennilega myndu aðeins hörðustu aðdáendur Rollins og aðrir ruslmyndaáhugamenn tíma að fjárfesta í disknum.)

Eins og svo oft með blóðsugumyndir er Le frisson des vampires stútfull af trúartáknum, einkum þó krossum, altarisbikurum og stjökum. Auk þess er blóðsugunum að þessu sinni tíðrætt um egypska fortíð sína og myrkratilveru, en þær þola að sjálfsögðu hvorki róðukrossa né dagsbirtu.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Ef 6:12
Persónur úr trúarritum: Isis, heimsdrottnari myrkursins, blóðsuga
Guðfræðistef: glötun, eilíft myrkur, guðlast
Siðfræðistef: krossferðirnar, samkynhneigð, sjálfsvíg (blóðsugu)
Trúarbrögð: fornegypsk trúarbrögð
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kapella
Trúarleg tákn: altari, altarisbikar, kross, róðukross, hauskúpa, geitarhöfuð, helgar minjar, stjaki
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, sverja, krossnotkun, stjaksetning