Leikstjórn: Mikhail Kalatozov
Handrit: Viktor Rozov
Leikarar: Tatyana Samojlova, Aleksei Batalov, Vasili Merkuryev, Aleksandr Shvorin, Svetlana Kharitonova, Konstantin Nikitin, Valentin Zubkov, Antonina Bogdanova, Boris Kokovkin og Yekaterina Kupriyanova
Upprunaland: Sovétríkin (Rússland)
Ár: 1957
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0050634
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Þegar þýzki herinn ræðst inn í Sovétríkin, gerist verkamaðurinn og læknasonurinn Bóris sjálfboðaliði í rauða hernum og skilur unnustu sína Veróníku eftir í Moskvu. Bróðir hans nýtir sér hins vegar sambönd sín í kommúnistaflokknum til að forðast herþjónustu og þröngvar Veróníku í óþökk fjölskyldu sinnar til að giftast sér eftir að foreldrar hennar höfðu farist í loftárás og unnustinn er talinn af. Veróníka fær þó nóg af sviksemi eiginmannsins og vonar innst inni að hún eigi eftir að sjá ástina sína á nýjan leik.
Almennt um myndina:
Mikið hataði ég sovésku kvikmyndirnar sem sýndar voru öðru hverju í Ríkissjónvarpinu þegar ég var unglingur á níunda áratugnum, en í þá daga horfði ég á svo til allar kvikmyndir, sem þar var boðið upp á. Það lá meira að segja við, að ég sleppti þessari kvikmynd, þegar hún var tekin til sýningar undir nafninu ‚Trönurnar fljúga‘ (The Cranes are Flying á ensku og Letjat zhuravli eins og frumtitillinn er umritaður á www.imdb.com) en ákvað samt að gefa henni tækifæri. Eftir því hef ég ekki séð, enda var hún stutt komin þegar ég sannfærðist um að hér væri um snilldarverk að ræða, einstaklega vel skrifað drama með góðum leikurum og hreint út sagt frábærri svart-hvítri expressjónískri kvikmyndatöku Sergeis Urusevsky.
Myndin fór fyrir vikið rakleiðis á topp tíu listann yfir bestu kvikmyndirnar sem ég hafði séð og var þar í rúman áratug áður en ég ákvað að fjarlæga hana burt af listanum enda aðeins séð hana einu sinni og því farinn að gleyma of miklu úr henni. Ég dauðsá eftir því að hafa ekki tekið hana upp á myndband á sínum tíma enda ófáanleg hér á landi og víðast hvar erlendis. Það var því ekki fyrr en sumarið 2001 að ég fékk tækifæri að sjá myndina aftur, þegar hún kom út á DVD hjá Ruscico fyrirtækinu (www.ruscico.com). Myndin reyndist þá sem betur fer jafn góð og í minningunni og er hún því enn á ný komin inn á topplistann yfir bestu kvikmyndirnar, sem ég hef séð.
Ástæða er til að hrósa Ruscico fyrir DVD útgáfuna sem er óvenju skemmtileg. Myndgæði kvikmyndarinnar eru ekki aðeins með besta móti miðað við aldur hennar heldur er aukaefnið allt líka einstaklega fjölbreytt og áhugavert, ekki síst ítarlegu viðtölin við aðalleikarana Tatyönu Samojlova og Aleksei Batalov. Enda þótt kápumyndin á DVD disknum sé öll á rússnesku, er gefinn kostur á rússneskri, enskri og franskri ‚skjámynd‘ strax fremst á disknum. Sömuleiðis er hægt að velja texta á ótal tungumálum fyrir kvikmyndina sjálfa og allt aukaefnið, svo sem á ensku, þýzku, frönsku, sænsku og hebresku.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin ‚Trönurnar fljúga‘ fjallar um þjáningar og sorg unnustu heiðvirðs rússnesks verkamanns sem gerist umsvifalaust sjálfboðaliði í rauða hernum þegar þýzki herinn ræðst inn í Sovétríkin 22. júní 1941. Ef til vill má líta á Tatyönu Samojlova í hlutverki unnustunnar Veroníku sem persónugerving þjóðarinnar, sem glatar sakleysi sínu, er svikin og missir það sem henni er kærast á þeim hörmungartímum, er riðu yfir með tilkomu síðari heimsstyrjaldarinnar (eða föðurlandsstríðsins mikla eins og Rússar hafa lengi kallað það).
Kvikmyndin ber þess merki að vera gerð á valdatíma Níkita Khrúshchevs þegar nokkurrar stjórnmálalegrar ‚þýðu‘ tók að gæta um stundarsakir frá því sem verið hafði á valdaskeiði Stalíns. Þannig eru fimm ára áætlanir Stalíns gagnrýndar í myndinni og alvarleg spilling sögð þrífast í skjóli kommúnistaflokksins. Fátt er þó um beinar trúarlegar vísanir, en athygli vekur að góðhjörtuð amma rússneska hermannsins signir hann alvarleg í bragði áður en hann heldur út á vígstöðvarnar.
Engu að síður má geta þess að lokum að í einni heimildamyndinni á DVD disknum verður Tatyönu Samojlova, aðalleikkona kvikmyndarinnar, tíðrætt um mikilvægi kristinnar trúar og gerir hún hiklaust grein fyrir henni. Einnig er sýnt hvar aðalleikarinn Aleksei Batalov heldur ræður um merkingu jólanna, en þar talar hann um komu frelsarans í heiminn og lýsir Guði sem kærleika, ljósi og frelsara.
Siðfræðistef: föðurlandsást, lygi, svik, traust, fyrirgefning
Trúarlegt atferli og siðir: signing