Leikstjórn: Barry Levinson
Handrit: Barry Levinson
Leikarar: Adrien Brody, Ben Foster, Rebekah Johnson, Carolyn Murphy, Joe Mantegna, Orlando Jones, Bebe Neuwirth, David Krumholtz, Richard Kline, Vincent Guastaferro, Justin Chambers og Frania Rubinek
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 122mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3
Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin gerist einkum haustið 1954 í gyðingaúthverfinu Liberty Heights í Baltimore og lýsir antí-semítisma og fordómum í garð blökkumanna sem birtist skýrast á skilti við sundlaug snemma í myndinni: „Gyðingum, hundum og blökkumönnum bannaður aðgangur.“ Aðalpersónur myndarinnar eru bekkjarsystkini á unglingsaldri sem verða ástfangin, en þar sem pilturinn er gyðingur og stúlkan er blökkukona hafa þau ekki aðgang að baðstaðnum.
Almennt um myndina:
Hér er á ferðinni enn ein myndin sem kvikmyndagerðarmaðurinn Barry Levinson gerir um æskuslóðir sínar í Baltimore, en áður gerði hann t.d. Diner (1982), Tin Men (1987) og Avalon (1990).
Segja mætti að meginefni myndarinnar sé samspil ólíkra kynþátta og tilraunir til að brjóta niður múra og fordóma þeirra á milli. Þannig rífa þrír Gyðingapiltar niður áðurnefnt skilti í lok myndarinnar og koma sér fyrir á sólbekkjum við sundlaugina með bókstafina JEW (þ.e. Gyðingur) málaða framan á sig og komast upp með það. Myndin er að vissu leyti þrískipt, ýmist sögð af sjónarhóli tveggja bræða eða föður þeirra. Því hefur verið haldið fram að persóna yngri bróðursins, Bens, sé byggð á æskuminningum Levinsons sjálfs. Eldri bróðirinn er leikinn af Adrien Brody og þó að leikur hans sé skammlaus hefði maður seint ímyndað sér að hann ætti eftir að hljóta Óskarsverðlaun nokkrum árum síðar, en þau fékk hann sem kunnugt er fyrir frábæran leik í hinni frábæru kvikmynd Romans Polanskis The Pianist (2002). Tilhugalíf bræðranna er snar þáttur í myndinni en einnig veitir hún nokkra innsýn í undirheima Baltimore á sjötta áratugnum og er ekki annað að sjá en vel hafi tekist að endurspegla tíðarandann.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni er mjög skemmtileg notkun Sl 23 og er myndin góður vitnisburður um hina sterku stöðu sálmsins í bandarísku samfélagi. Myndin fjallar ekki síst um tilhugalíf gyðingadrengs og blökkustúlku á sjötta áratugnum í Baltimore og margvíslega erfiðleika sem þau mæta. Farið er með Sl 23 þrisvar sinnum í myndinni, fyrst þó í skólastofunni, enda hefur sálmurinn löngum verið hluti af morgunbænum bandarískra skóla. Það er einmitt við þær aðstæður sem gyðingadrengurinn Ben Kurtzman fer að gjóta augunum að blökkustúlkuninni Sylviu. Hann veitir því athygli hversu hún biður af mikilli lotningu, sbr. orð hans: „Ég hef aldrei séð neinn svo lotningarfullan“ og eitt sinn eiga þau samræður um sálminn í strætisvagni. Þar spyr Sylvia þennan aðdáanda sinn hvaða augum hann líti sálminn, hvaða þýðingu sálmurinn hafi fyrir hann sem Gyðing, og hann svarar því að fyrir sér sé Sl 23 nánast eins og þjóðsöngurinn eða eitthvað sem flutt er fyrir kappleik. Það er athyglisvert að það er eins og Sylvia reikni með því að þessi texti úr Gamla testamentinu hafi ekki eins mikið vægi fyrir Gyðing og hana sjálfa. Samtal þeirra um sálminn er áhugavert og ljóst verður af því samtali að þau skilja sálminn. Til gamans má bæta því við að faðir drengsins rekur búllu þar sem nektardans á sér stað og tæplega er það tilviljun að hann hefur orð á því að þegar ein nektardansmærin sýnir óvenju mikil tilþrif að hún hafi þar dansað fyrir 23 menn. Í ljósi þess hversu stóru hlutverki Sl 23 gegnir í myndinni má halda því fram að talan 23 sé ekki tilviljun þarna. Kannski mætti ganga enn lengra og halda því fram að verið sé að veita okkur innsýn í dimma dalinn sem getið er um í Sl 23 þegar við fáum að skyggnast um í undirheimum Baltomore-borgar, m.a. í gegnum nektarbúlluna og þá spillingu sem þrífst í kringum hana.
Fleiri biblíutextar úr G.t. koma raunar fyrir í myndinni, bæði sagan af Samson („Ég er að láta hárið vaxa eins og Samson“) og ánauð hinna hebresku þræla í Egyptalandi. Liberty Heights er að mörgu leyti mjög áhugaverð mynd. Fyrst og fremst er hún vitnisburður um hina gríðarlega sterku stöðu Sl 23 í bandarísku þjóðlífi. Það er því engin tilviljun að sálminum skuli líkt við þjóðsönginn. Minnir það á umfjöllun hins kunna bandaríska biblíufræðings Williams L. Holladays um sálminn í bandarískri menningu þar sem hann líkti honum við „a secular icon“.
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23, Dm 15, Dm 15:16
Hliðstæður við texta trúarrits: 2M 1
Persónur úr trúarritum: Samson
Sögulegar persónur: Hitler
Siðfræðistef: vændi, nektardans, kynþáttafordómar, gyðingahatur, aðskilnaður kynþátta
Trúarbrögð: Gyðingdómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: sýnagóga
Trúarleg tákn: Biblía, kross, bænasjal, kollhúfa (kippa), mesúsaj, Davíðsstjarna
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, umskurn, að sverja til Guðs, þjóðsöngur
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Rosh hashanah (nýárshátíð Gyðinga), halloween (hrekkjavaka)