3. árgangur 2003, Innlýsing, Vefrit

Líkbíll upprisunnar

Það er svo yndislegt við Sælureitinn hvað það er mikil von í myndinni. Þetta verður kannski endanlega ljóst í lokadraumi Ísaks, drauminum þegar Sara leiðir hann til foreldranna og þau veifa honum. Sjáið svipinn sem kemur þá á Ísak. Þarna er eiginlega að finna eins konar himnaríkisminni. Í ljósi þessarar vonar er íslenskunin á titlinum svo afskaplega viðeigandi: Sælureiturinn. Ekki Við leiðarlok, ekki Villt jarðarber heldur Sælureiturinn.

Dauð þrenning

En Sælureiturinn geymir líka kulda og dauða. Í myndinni er að finna dauða þrenningu. Þrjá einstaklinga sem vissulega eru lifandi, en eru samt dauðir. Hér á ég við móður Ísaks, Ísak sjálfan og soninn Evald. Kuldinn og dauðinn hefur erfst frá móður til sonar til sonarsonar. Erfist hann áfram?

Takið eftir því á eftir þegar Ísak og Marianne heimsækja gömlu konuna og hún talar um hvað sér sé kalt. Hvernig hún talar um börn sín og barnabörn. Og hvernig Marianne upplifir heimili hennar eiginlega sem líkhús. Takið eftir því hvernig Ísak lýsir sjálfum sér eftir þriðja drauminn:

„Mig hefur dreymt undarlega upp á síðkastið … Það er sem ég væri að segja mér eitthvað í draumum sem ég vil ekki heyra meðan ég vaki.“ „Og hvað er það,“ spyr Marianne. „Að ég sé dauður, þótt ég lifi.“

Einmitt þetta er undirstrikað svo kröftuglega í allri myndinni, allt frá fyrsta draumi Ísaks (sem geymir hvert dauðaminnið á fætur öðru). Ísak lifir vissulega, en er samt dauður. Það sama gildir um Evald. Takið eftir því hvernig hann lýsir sjálfum sér í bílnum þegar þau sitja þar saman: „Ég hef þörf fyrir að vera dauður, steindauður.“

Líkbíll

Í ljósi þessa er líka áhugavert að skoða bílinn sem þau ferðast um í. Gamall Packard frá árunum eftir 1930. Langur. Svartur. Virðulegur. Eiginlega minnir hann helst á líkbíl. Og í honum ferðast líkið Ísak Borg – ísvirkið sjálft – frá Stokkhólmi til Lundar. En þetta er enginn venjulegur líkbíll vegna þess á þessu ferðalagi á sér í raun stað upprisa. Hinn dauði lifnar við. Og þannig verður Packardinn í raun að líkbíl upprisunnar. Hinn gamli Ísak er grafinn og sá nýi rís upp til betra lífs. Þannig er stigið skrefið frá vonleysi til vonar, frá dauða til lífs, frá gröf til upprisu.

Góða skemmtun.

Flutt sem innlýsing á undan sýningu á Sælureitnum, í Bæjarbíói þann 3. júní 2003. Birtist einnig í Kviku Sigríðar Pétursdóttur.