Kvikmyndir

Lilja 4-ever

Leikstjórn: Lukas Moodysson
Handrit: Lukas Moodysson
Leikarar: Oksana Akinshina, Artyom Bogucharsky, Lyubov Agapova, Liliya Shinkaryova, Elina Benenson, Pavel Ponomaryov og Tomas Neumann
Upprunaland: Svíþjóð og Danmörk
Ár: 2002
Lengd: 109mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Hin 16 ára Lilja er alin upp í fyrrverandi Sovétríkjunum. Móðir hennar skilur hana eftir þegar hún flytur til Bandaríkjanna og neyðist hún að lokum að selja sig til að sjá sér farborða. Gæfan virðist þó ætla að brosa við henni þegar ungur maður segist elska hana og býður henni gull og græna skóga í Svíþjóð …

Almennt um myndina:
Myndin er með afbrigðum vel leikin af þessum ungu, reynslulitlu, rússnesku börnum, Oksana Akinshina og Artiom Bogucharskij. Einlægni þeirra og að því er virðist áreynslulaus tjáning vekur undrun, ekki síst þar sem hlutverk þeirra eru verulega krefjandi. Moodysson hefur áður sýnt að hann hefur einstakt lag á að leikstýra börnum, bæði í Fucking Åmål (Árans Åmål) og Tillsammans (Saman).

Myndatakan eykur á áhrifin. Mikið um nærmyndir… hreyfanleg myndavél er notuð víða og á stundum er myndin í hægagangi (slowmotion) og jafnvel úr fókus. Oft minnir myndin á heimildamynd. Þessi stílbrigði eru aldrei notuð af handahófi eða í óhófi í Lilju 4-ever heldur speglar myndatakan ætíð hvernig sögupersónum er innanbrjósts. Sama má segja um tónlistina. Hún speglar hvernig Lilju er innanbrjósts hverju sinni. Myndin hefst t.d. á lagi með Rammstein, Mein Herz brennt, og á sama hátt og hjarta Lilju brennur, brennir myndin líka hjarta áhorfandans.

Myndin er geysileg áhrifarík og er maður lengi að jafna sig, ef maður gerir það nokkurn tímann fullkomlega. Myndin hefur haft mikil áhrif í Svíþjóð. Sumir voru ævareiðir yfir þeirri mynd sem dregin er upp af sænskum karlmönnum. Almennt var fólk slegið yfir efni myndarinnar og mikil umræða skapaðist um hana. Lukas Moodysson lýsti því yfir að frétt um stúlku í Malmö væri kveikjan að myndinni. Stúlkan hét Dangoule Rasalaite og bjó í Malmö. Örlög Lilju eru svipuð örlögum Dangoule þó ekki sé um sömu sögu að ræða. Moodysson býr í Malmö og þar er seinni hluti myndarinnar tekinn. Hann segir að heimildamyndin „Buy bye beauty“ eftir Pål Hollender hafi líka haft mikil áhrif á sig.

Umræður um Lilju 4-ever hafa borist inn á sænska þingið hvað eftir annað undanfarna mánuði. Þar hefur t.d. verið fjallað um hvað verður um Liljur veruleikans ef þeim er bjargað úr klóm mannanna sem selja þær… er eitthvað sem bíður þeirra? Þann 28. janúar lofuðu fjórir ráðherrar, Thomas Bodström, innflytjendaráðherra, Anna Lindh, utanríkisráðherra, Jan O. Karlsson, dómsmálaráðherra og Margareta Winberg aðstoðar forsetisráðherra, harðri baráttu gegn mannsali. Margareta Winberg hélt fyrir nokkrum dögum ræðu í Washington þar sem hún tók málið upp og sagði frá áhrifunum sem Lilja 4-ever hefur haft. Sagðist hún vona að Svíþjóð yrði í fararbroddi í baráttunni gegn vændi og mannsali.

En málið er ekki einfalt. Margir halda því fram að stúlkurnar vilji þetta sjálfar og því sé lítið hægt að gera. Meðal þeirra eru framámenn í lögreglunni eins og yfirlögregluþjónninn í Norrbotten, Karl-Bertil Arosenius, sem lét hafa slíkt eftir sér í síðustu viku. Viðbrögðin voru mikil reiði almennings, ekki síst vegna þess að fólk sér ungar stúlkur sem selja sig með öðrum augum eftir að hafa séð Lilju 4-ever.

Deilan stendur um hverra er ábyrgðin. Hver á að borga fyrir endurhæfingu stúlknanna og rannsóknir á mannsalsmálum. Eins og er er það á ábyrgð bæjar- og sveitarfélaga og lögreglan er víða ekki tilbúin að eyða peningum í þessi mál.

Lukas Moodysson hefur alltaf haldið því fram að ástæðan fyrir því að hann geri kvikmyndir sé sú að hann vilji vekja fólk til umhugsunar og breyta heiminum. Það má með sanni segja að með Lilju 4-ever hafi honum tekist að hrista duglega upp í mönnum. Að þingið fjalli um efni kvikmyndar hvað eftir annað er vægast sagt óvenjulegt.

Lilja 4-ever fékk 5 Gullbjöllur (Guldbaggen, sænsku kvikmyndaverðlaunin) af 6 mögulegum og sló þá Moodysson met Bergmans. Lilja fékk bjöllur fyrir besta leik leikkonu í aðalhlutverki, bestu kvikmyndatöku, bestu leikstjórn, bestu mynd og besta handrit. Í hvert sinn sem Moodysson hefur tekið á móti verðlaunum hefur hann komið með ögrandi eða sláandi yfirlýsingar. Í þetta skipti sagði hann eina setningu sem fékk fólk til að hugsa; „Á hverjum degi deyja þrefalt fleiri úr hungri en þeir sem létust 11. september 2001 í Bandaríkjunum.“

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Eitt megið trúarstef myndarinnar er vernd Guðs. Þessi vernd sést hvað best í því að mynd af engli sem verndar lítið barn er leiðarstef í gegnum alla kvikmyndina. Þessi mynd er það fyrsta sem við sjáum heima hjá Lilju í byrjun myndarinnar og fyllir hún út í tjaldið í smástund. Lilju þykir greinilega mjög vænt um hana en myndin er það eina sem hún tekur með sér hvert sem hún fer. Þá krýpur Lilja við myndina og fer með Faðir vorið fyrir framan hana.

En þetta er ekki það eina sem sýnir fram á vernd Guðs. Þegar Lilja eygir enga von lengur, grýtir hún myndinni af englinum eftir að hafa farið með orðin úr Faðir vorinu: „… eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu.“ Einmitt þá birtist Volodja, látinn vinur hennar, sem engill.

Volodja reynir að frelsa Lilju frá illu. Hann leggur sig fram við að veita henni von með því að benda henni á að það sé tilgangur með lífinu. Að allur heimurinn sé okkar ef við viljum það og að þótt lífið eftir dauðann sé gott þá beri okkur ekki að flýta okkur þangað því að við höfum aðeins eitt líf og eigum að njóta þess. En hjálp Volodja er ekki aðeins í orði heldur einnig á borði. Hann lætur hana vita þegar þrælahaldari hennar gleymir að læsa hurðinni og reynir síðan að stöðva hana þegar hún sviptir sig lífi.

Fordómar og dómharka er einnig viðfangsefni myndarinnar. Lilja er dæmd ranglega sem hóra vegna þess að vinkona hennar eignar henni sínar eigin syndir. Að lokum fer þó svo að Lilja neyðist í vændi vegna fátæktar og grimmdar samfélagsins. Þeir sem gagnrýna hana hvað harðast fyrir vændið eru þeir sömu sem síðar meir nauðga henni og fremja þar með enn verri glæp. Allt minnir þetta á orð Jesú Krists: „Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“

Myndin sýnir einkar vel að vændi er ofbeldi en hér á kvikmyndatakan að stórum hluta heiðurinn. Í stað þess að sýna áhorfandanum sjónarhorn gerandans (þess sem kaupir þjónustuna) er honum sýnt sjónarhorn þolandans (Lilju). Myndin svarar einnig á áhrifaríkan hátt þeim sem halda því fram að vændi snúist um frelsi einkalífsins. Þótt e.t.v. megi finna einhverja sem kjósa vændi af fúsum og frjálsum vilja er staðreyndin engu að síður sú að flestir sem leiðast út í það gera það í neyð eða eru neyddir til þess. Þeir sem vilja réttlæta vændi með slíkum rökum verða því að svara því hvort fórnarkostnaðurinn sé þess virði.

Að lokum hefur því verið fleygt fram að þrælahald hafi aldrei verið meira en einmitt í dag. Hvort sem það er rétt eða ekki þá er það sár staðreynd að á okkar upplýstu og frjálsu tímum skuli mannsal og kúgun ekki aðeins líðast heldur aukast dag frá degi. Lilja 4-ever er því þörf áminning.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13; Lk 11:2-4
Hliðstæður við texta trúarrits: Jh 8:7
Persónur úr trúarritum: engill
Sögulegar persónur: Guð, Jesús
Guðfræðistef: sjálfsvirðing, dauðinn, líf eftir dauðann, illska, sálin, heit
Siðfræðistef: lygi, blekking, eiturlyfjaneysla, fátækt, vændi, eigingirni, þrældómur, mannsal, nauðgun, sjálfsvíg, fordómar, sifjaspell, ofbeldi
Trúarbrögð: kommúnismi
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: helvíti, himnaríki, paradís
Trúarleg tákn: engill
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: jól
Trúarleg reynsla: opinberun, draumur, sýn