Kvikmyndir

Magnolia

Leikstjórn: Paul Thomas Anderson
Handrit: Paul Thomas Anderson
Leikarar: John C. Reilly, Tom Cruise, Julianne More, Philip Baker Hall, Jeremy Blackman, Philip Seymor Hoffman, William H. Macy, Melora Walters, Jason Robards, Melinda Dillon, Michael Bowen, Felicity Huffman, April Grace, Rick Jay, Pat Healy
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1999
Lengd: 188mín.
Hlutföll: us.imdb.com/Details?0175880
Einkunn: 4

Ágrip af söguþræði:
Kvikmyndin Magnolia er í raun margslungið púsluspil. Hún lýsir einum sólarhring í lífi nokkurra ólíkra einstaklinga í Los Angeles. Þeir eru allir að kljást við líf sitt og aðstæður í sundurlausum veruleika firringarinnar í hinu svonefnda postmodern-samfélagi. Hér raðast saman níu svipmyndir eða sögur af þessu fólki sem gengur misvel – eða illa að fóta sig í óreiðunni og smám saman sést hvernig það tengist innbyrðis í öllu sambandsleysinu.

Myndin hefst á eins konar formála sem hefur að geyma þrjár stuttar sögur af furðulegum atvikum. Þær varpa fram spurningunni um hvort ótrúlegir atburðir hafi í raun gerst og þá hvort um tilviljun hafi verið að ræða eða ekki. Þeirri hugsun er síðan fylgt eftir í Magnoliu.Einstaklingarnir sem Magnolia greinir frá tengjast í raun beint eða óbeint í gegnum sjónvarpsþátt sem kallast „What Do Kids Know?“. Þar er um að ræða spurningaleik milli barna og fullorðinna. Framleiðandi þáttanna er Earl Partridge en hann liggur fyrir dauðanum af völdum krabbameins. Hann er þjáist einnig vegna framkomu sinnar gagnvart fyrri konu sinni og syni. Seinni kona Earls, Linda, er töluvert yngri en hann og hafði upphaflega gifst honum til fjár. Hún hafði haldið framhjá honum en á nú erfitt með að horfast í augu við dauða hans vegna þess að hún er farin að elska hann. Sá sem annast Earl á banalegunni er hjúkrunarfræðingur að nafni Phil Parma. Earl biður hann að koma sér í samband við son sinn, Frank T.J. Mackey, sem hann hafði hvorki séð né heyrt í mörg ár. Frank heldur námskeið og framleiðir myndbönd handa karlmönnum um það hvernig þeir geti komist yfir konur og gert þær sér undirgefnar. Stjórnandi spurningaleiksins „What Do Kids Know?“ til margra ára er Jimmy Gator. Hann er einnig að deyja úr krabbameini en er ekki eins langt leiddur og Earl. Samband hans við dóttur hans, Claudiu, er í molum og hún vill ekkert af honum vita vegna þess að hann hafði misnotað hana kynferðislega þegar hún var yngri. Claudia er eiturlyfjasjúklingur með ónýta sjálfsmynd og ræður engan vegin við líf sitt. Lögreglumaður að nafni Jim Kurring kemur í íbúð hennar vegna kvörtunar um hávaða frá nágrönnum og endar með því að bjóða henni út að borða. Hann er einlæglega trúaður og leitast við að framganga samkvæmt því. Tveir þátttakenda í „What Do Kids Know?“ koma einnig við sögu. Annars vegar Stanley Spector, ungur drengur sem er afburða gáfaður, en er fyrst og fremst notaður af föður sínum til að græða peninga með þátttökunni í spurningaleiknum. Hins vegar er það Donnie Smith sem hafði unnið í spurningaleiknum þrjátíu árum fyrr en foreldrar hans höfðu notað hann á svipaðan hátt og stolið af honum allri vinningsupphæðinni. Honum gengur illa að fóta sig í tilverunni og missir m.a. vinnuna. Allt er þetta fólk á einhvern hátt þjakað af aðstæðum sínum og fortíð og því gengur illa að fást við líf sitt og tilgang þess og samskipti við samferðafólk. Afleiðingarnar eru ýmist flótti frá raunveruleikanum eða örvænting og vonleysi.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Þótt mikið hafi verið ritað um Magnoliu vekur það athygli að það eru ekki mörg dæmi þess að fjallað hafi verið um hana út frá guðfræðilegum sjónarhóli þrátt fyrir að myndin vísi bæði til Biblíunnar og glími við hugtök eins og synd, frelsun og fyrirgefningu. Þá fæst myndin einnig við spurningar um tilgang og merkingu lífsins, hvað geti gerst og hvað ekki, og hvort atburðir séu einskær tilviljun eða um sé að ræða forlög eða jafnvel guðlega tilstilli og inngrip.

Eftirsjá og sektarkennd þjakar margar persónur myndarinnar og óuppgerð fortíðin hvílir á þeim eins og mara. Þar er Earl Partridge í þungamiðju og er syndajátning hans um miðbik myndarinnar bæði áhrifarík og mikilvægur þáttur í atburðarásinni. „Við teljum okkur hafa afgreitt fortíðina en hún hefur síður en svo afgreitt okkur“ („We may be through with the past, but the past is not through with us“), er setning sem oftar en einu sinni er vitnað til í myndinni, og áréttar hún vel hvernig óuppgerðir atburðir fortíðarinnar gefa engin grið. Jimmy Gator er meðal þeirra sem hafa hana yfir enda greinilegt að bæði framkoman við dótturina og framhjáhald gagnvart eiginkonunni þjaka hann. Aðrir þjást vegna þess að syndir feðranna koma niður á börnunum. Donnie Smith vitnar á einum stað í myndinni til 2. Mósebókar 20:5, þar sem segir að Guð vitji „misgjörða feðranna á börnunum, já í þriðja og fjórða lið“. Þessi orð eiga við um hann sjálfan og það stefnir að því sama með hinn unga Stanley Spector. En þau eiga ekki síður við bæði Frank og Claudiu, börn Earls og Jimmys. Syndir feðra þeirra hafa svo sannarlega komið niður á þeim og eyðilagt líf þeirra.

Vonin um frelsun eða endurlausn er tvímælalaust rauður þráður í Magnoliu. Það er eins og eitthvað liggi í loftinu stóran hluta myndarinnar. Það rignir stöðugt lengst af og hugurinn hvarflar að syndaflóðinu í 1. Mósebók (6-9). Í því sambandi má benda á rapp svarts drengs að nafni Dixon. Hann flytur það fyrir Jim Kurring snemma í myndinni þegar hann hefur tekið þátt í handtöku konu eftir að lík mannsins hennar fannst í íbúðinni. Dixon heldur því fram að textinn sem hann fer með geti hjálpað Kurring að leysa morðmálið. Hann tekur hins vegar varla eftir því sem Dixon segir nema þá helst blótsyrðunum sem hann skammar hann fyrir. Rapp Dixons er á vissan hátt spámannleg predikun sem vísar til syndafallsins (1M 3) og lýkur síðan með vísun til syndaflóðsins (1M 6-9) í orðunum: „When the sunshine don’t work, the Good Lord bring the rain in.“ Skömmu síðar fer að rigna í myndinni. Syndaflóðið er að bresta á í lífi persónanna, óreiðan að verða alls ráðandi. Eftir einræðu Earls þar sem hann játar afglöp sín og lag Aimee Mann, „Wise up“, hefur verið sungið styttir skyndilega upp. Það boðar þáttaskil líkt og í syndaflóðssögu 1. Mósebókar (8.1-2). Syndaflóðinu er að ljúka, lausnin er í nánd. Aðstæður og samband persónanna í myndinni er að breytast, uppgjör er í aðsigi.

Þá tekur skyndilega að rigna froskum af himni á Magnoliustræti. Út frá því samhengi sem froskaregnið dynur á má gjarnan líta á það sem yfirnáttúrulegt tákn eða guðlegt inngrip. Hér má hafa í huga hvernig froskar hafa í tímans rás verið notaðir sem tákn. Þó skal fyrst og fremst bent á hliðstæðuna við froskapláguna í 2. Mósebók 8.1-15. Í rauninni gegnir textinn 2M 8.2 (Exodus 8.2), þar sem Móse boðar Faraó pláguna, athyglisverðu hlutverki í myndinni. Það er áréttað með því að tilvísuninni í hann er komið fyrir, svo lítið beri á, á nokkrum stöðum í henni. Auk þess koma tölurnar 8 og 2 fyrir allvíða. Því má segja að búið sé að boða komu froskaregnsins þegar það dynur á (sbr. orð Móse við Faraó). Jafnframt má færa sterk rök fyrir því að það sé þar með orðið lykilatriði í myndinni. Það dynur einmitt yfir þegar allt er í upplausn hjá persónum myndarinnar, þær ráða ekki neitt við neitt og eru knúnar til uppgjörs. Það er athyglisvert að sjá að í myndinni boðar froskaregnið ýmist dóm eða lausn líkt og plágurnar í Egyptalandi forðum. Þær voru tákn þess að frelsunarverk Guðs var í vændum en um leið urðu þær til dóms yfir Faraó og Egyptum. Sama á sér stað í Magnoliu.

Ef litið er á froskaregnið í Magnoliu með þessum augum má segja að það sé nokkurs konar guðlegt inngrip. Það boðar frelsun úr ánauð eða eins konar exodus. Frelsunin felur í sér lausn undan ánauð fortíðar og sýkts samfélags en um leið endurlausn í persónulegu lífi þar sem boðskapur kristninnar um synd, náð, kærleika og frelsun endurómar. Eftir froskaregnið fellur allt í ljúfa löð hjá þeim sem eftir lifa. Frank (týndi sonurinn) nær að hitta föður sinn og horfist í augu við hann á dauðastundinni og hann er tilbúinn að fara og vitja um Lindu, síðari konu hans, á sjúkrahúsinu. Henni er aftur á móti bjargað eftir sjálfsvígstilraun á síðustu stundu og öðlast því nýtt líf. Báðir þátttakendurnir í spurningakeppninni í sjónvarpinu öðlast nýjan kjark og síðast en ekki síst upplifir Claudia það að vera elskuð og geta elskað. Kærleikur og umhyggja Jims Kurring verður henni til lausnar og hann verður því nokkurs konar táknmynd hins endurleysandi kærleika (sbr. lokaatriðið). Hins vegar deyja bæði Earl Partridge og Jimmy Gator í miðju froskaregninu og hljóta þannig sinn dóm.

Paul Thomas Anderson tekst í Magnoliu á frábæran hátt að fjalla um líf fólks og vanda í vestrænu nútímasamfélagi og tengja þá umfjöllun áleitnum heimspekilegum og trúarlegum spurningum. Ánauð í fjötrum sjónvarpsiðnaðar og misheppnaðra sambanda og samskipta fólks birtist vel í ringulreið og sundrung í lífi þess. Uppbygging myndarinnar og klippingar milli atriða árétta vel þessa óreiðu. Persónusköpunin er sterk og leikur aðalleikara góður þannig að sektarkennd, örvænting og niðurbrotin sjálfsmynd persónanna skilar sér vel. Lög og textar Aimee Mann setja sterkan svip á myndina og árétta umfjöllunarefni hennar, enda hefur leikstjórinn lýst því yfir að hann hafi sótt hugmyndina að myndinni til þeirra. Froskaregnið kemur skemmtilega á óvart og skapar áhugaverða tengingu við froskapláguna í 2. Mósebók. Það gefur jafnframt tilefni til að skoða umfjöllunarefni myndarinnar út frá guðfræðilegum sjónarhóli eins og hér hefur verið gerð tilraun til.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: 2M 8.2, 2M 20.5
Hliðstæður við texta trúarrits: 1 M 3, 1M 6-9, 2M 8.1-15, Lk 15.11-32
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús
Guðfræðistef: ánauð, endurlausn, exodus, fyrirgefning, kærleikur, iðrun, synd, trú
Siðfræðistef: fíkniefnaneysla, framhjáhald, hjálpsemi, kynferðisleg misnotkun, lyfjamisnotkun, morð, sifjaspell, sjálfsvíg, þjófnaður
Trúarbrögð: kristni
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn
Trúarleg reynsla: bænheyrsla, froskaplága