Leikstjórn: Robert J. Flaherty
Handrit: Robert J. Flaherty
Leikarar: Colman ‘Tiger’ King, Maggie Dirrane, Michael Dillane, Pat Mullin, Patch ‘Red Beard’ Ruadh, Patcheen Faherty, Tommy O’Rourke, Stephen Dirrane og Pat McDonough
Upprunaland: Bretland
Ár: 1934
Lengd: 73mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 4
Ágrip af söguþræði:
Þessi víðfræga og íkoníska heimildarmynd Bandaríkjamannsins Robert J. Flaherty er tekin upp á eyjunni Inishmore, sem er hluti af Aran-eyjum undan vesturströnd Írlands. Myndin lýsir harðri lífsbaráttu eyjaskeggja sem á hverjum degi slást við náttúruöfl lands og láðs til að komast af á þessari harðbýlu eyju.
Almennt um myndina:
Flaherty sagði einhverntíma að kvikmyndagerð væri útilokun hins ónauðsynlega. Þessi ummæli er vert að hafa í huga þegar verk hans eru vegin og metin. Hann hefur verið kallaður faðir heimildarmyndarinnar og vissulega var hann einna fyrstur til að byggja myndir sínar á raunverulegu fólki. En upphafsmaður heimildarmyndarinnar í nútímaskilningi er Skotinn John Grierson sem lagði mesta áherslu á hið félagslega og menntunarlega hlutverk slíkra mynda. Myndir Flahertys snúast hinsvegar um manninn í sköpunarverkinu og eru oftast einhverskonar hylling á viðfangsefninu. Áherslur Flahertys eru ekki á samtíðinni heldur miklu frekar eilífðinni. Fyrir þetta hefur hann auðvitað verið óspart skammaður.
Man of Aran er sviðsett mynd að öllu leyti, fólk á eyjunni var ráðið í sín hlutverk og myndin var í raun unnin samkvæmt forskrift leikinna mynda. Þungamiðja myndarinnar, veiðar á risavöxnum hákarli, hafði t.d. verið aflagður siður á eyjunni í tæpa öld. Í gamla daga þurfti fólkið á Aran eyjum á lýsinu úr hákörlum að halda sem ljósmeti, en rafmagn var löngu komið til eyjanna þegar Flaherty gerði myndina. Hann lét hinsvegar „leikarana“ læra sérstaklega hin gömlu vinnubrögð. Þessi rómantíska sýn hans á líf fólksins á eyjunni var síðan kynnt sem svipmynd af nútímalífi eyjaskeggja þegar myndin fór í kvikmyndahúsin. Það hleypti illu blóði í marga Íra, sem nýverið höfðu losnað frá aldalangri nýlendukúgun og því afar viðkvæmir fyrir hverskonar afbökun á brothættri sjálfsmynd í mótun.
Áherslur Flahertys snerust um hina hetjulegu baráttu mannsins við náttúruöflin. Áhugi hans á hinum félagslegu aðstæðum fólksins var afar takmarkaður. Fyrir þetta hlaut myndin einnig gagnrýni þeirra sem söknuðu umfjöllunar um ástæður fátæktar eyjabúa. Myndin hlaut góða aðsókn þrátt fyrir harða gagnrýni og vann til verðlauna á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 1935.
Flaherty svaraði gagnrýninni með því að segjast hafa „myndað það sem myndavélin vildi sjá“. Eftir því sem frá líður öðlast staðreyndirnar um lífið á Aran-eyjum á fjórða áratugnum sífellt minna vægi en kjarni myndarinnar stendur ávallt fyrir sínu. Myndin er trú bæði fólkinu og staðnum. Með því að sýna styrk og þrautseigju eyjaskeggja undirstrikar hún hin lífseigu gildi sem þeir hefðu aldrei komist af án. Vitneskjan um hvunndagslegar staðreyndir lífs á Aran eyjum ná engan veginn að koma í veg fyrir að sýnir þessarar myndar lifi í huganum.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Það eru engar beinar trúarlegar vísanir í kristindóminn eða önnur trúarbrögð í þessari mynd enda snýst hún fyrst og fremst um harða lífsbaráttu eyjarskeggjanna á Aran.
Engu að síður má finna í myndinni hliðstæður við ýmis biblíuleg stef sem varða sambúð manns og náttúru. Hafið er þannig tákn eyðingaraflanna í Gamla testamentinu en Guð er sagður setja því skorður (sbr. t.d. ‚djúpið‘ í 1M 1: 2, 10) og gera það loks að engu (Op 21:1). Í myndinni er ógnarmáttur hafsins gagnvart smæð mannsins yfirþyrmandi. Sömuleiðis má finna samsvörun með hákarlinum risastóra, sem sjómennirnir þurfa að veiða, og sæskrímslinu Levjatan, en í fornu myndmáli Gamla testamentisins er lýst hvernig Guð vann sigur á því við sköpun heimsins. (Jb 7:12, Sl 74:13-14, Jes 27:1.) Áhugaverðasta samsvörunin er þó eflaust við Sálm 104, en þar er hafinu lýst sem gjöfulu og náttúran í allri sinni mynd tekur á sig ásjónu Guðs, ekki ósvipað því og birtist í kvikmyndinni. Í sálminum segir meðal annars:
Hafflóðið huldi [jörðina] sem klæði,
vötnin náðu upp yfir fjöllin,
en fyrir þinni ógnun flýðu þau,
fyrir þrumurödd þinni hörfuðu þau undan með skelfingu.
Hversu mörg eru verk þín, Drottinn,
þú gjörðir þau öll með speki,
jörðin er full af því, er þú hefur skapað.
Þar er hafið, mikið og vítt á alla vegu,
þar er óteljandi grúi,
smá dýr og stór.
Þar fara skipin um
og Levjatan, er þú hefir skapað til þess að leika sér þar.
Öll vona þau á þig,
að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma.
Þú gefur þeim, og þau tína,
þú lýkur upp hendi þinni, og þau mettast gæðum.
Þú byrgir auglit þitt, þá skelfast þau,
þú tekur aftur anda þeirra, þá andast þau
og hverfa aftur til moldarinnar.
Þú sendir út anda þinn, þá verða þau til,
og þú endurnýjar ásjónu jarðar.
(Sl 104: 6-7, 24-30)
Hliðstæður við texta trúarrits: 1M 1: 2, 10, Jb 7:12, Sl 74:13-14, Sl 104, Jes 27:1
Guðfræðistef: sambúð manns og náttúru, hafið, lífsbaráttan