Kvikmyndir

Man, Pride and Vengeance

Leikstjórn: Luigi Bazzoni
Handrit: Suso Cecchi d’Amico, byggt á skáldsögunni Carmen eftir Prosper Mérimée
Leikarar: Franco Nero, Tina Aumont, Klaus Kinski, Guido Lollobrigida [undir nafninu Lee Burton], Franco Ressel, Karl Schönböck, Alberto Dell’Acqua, Maria Mizar og Marcella Valeri
Upprunaland: Ítalía og Þýzkaland
Ár: 1967
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 1.66:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
José er góðhjartaður spánskur liðsforingi sem verður yfir sig ástfanginn af Carmen, ungri, fallegri og blóðheitri tatarastúlku sem framfleytir sér með vændi. Hann lendir hins vegar ítrekað í vandræðum vegna greiðvikni sinnar í garð hennar og drepur loks yfirmann sinn í afbrýðikasti þegar hann finnur hann fáklæddan hjá henni. Þau leggja því á flótta út í óbyggðir og slást þar í hóp með ræningjum, sem Carmen þekkir til, en leiðtogi þeirra reynist vera eiginmaður hennar. José reynir samt að afla nægra peninga til að geta tekið Carmen með sér til Bandaríkjanna, en áttar sig smám saman á því að hún elskar í raun engan og verður ávallt óháð öllum.

Almennt um myndina:
Mjög góð útfærsla á skáldsögunni Carmen eftir Prosper Mérimée (1803-1870) sem Georges Bizet (1838-1875) gerði ódauðlega með samnefndri óperu og kvikmynduð hefur verið ótal sinnum. Myndin er að mörgu leyti afar vel gerð og sérstaklega fallega tekin. Franco Nero hefur sjaldan ef nokkurn tímann verið betri en í hlutverki liðsforingjans ógæfusama og Tina Aumont hefur þann þokka til að bera, sem nauðsynlegur er fyrir hlutverk Carmenar. Og Klaus Kinski er eins og búast má við mátulega klikkaður sem varhugaverður eiginmaður hennar, en José lendir að sjálfsögðu upp á kannt við hann. Eins og svo oft með ítalskar kvikmyndir er versti galli myndarinnar hins vegar enska talsetningin, sérstaklega í tilfelli Carmenar, en það má þó alveg umbera það í þessu tilfelli.

Um það má deila hvort flokka beri myndina sem spaghettí-vestra þar sem hún gerist á Spáni en ekki í Bandaríkjunum. Hún er hins vegar skilgreind sem spaghettí-vestri í helstu handbókunum um slíkar myndir, enda mjög í anda þeirra bæði í efnistökum og útliti, ekki síst hvað varðar klæðaburð sögupersónanna, auk þess sem draumur aðalsöguhetjunnar Josés er að komast vestur til Bandaríkjanna. Myndin er ennfremur tekin á sömu slóðum og stór hluti þeirra spaghettí-vestra, sem gerðir voru á Spáni, og er landslagið því kunnuglegt öllum áhugamönnum um þá. Ef ekki væri minnst á Spán í myndinni, gæti hún allt eins gerst í Mexíkó.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sagan af José og Carmen er hreinræktaður harmleikur þar sem allt fer á hinn versta veg. Sögusviðið er menningarsamfélag mótað af rómversk-kaþólsku kirkjunni, en þangað leita sögupersónurnar jafnan eftir styrk á örlagastundu.

Carmen spáir bæði í spil og lófa og bregður henni mjög þegar hún lítur í lófa Josés. Hún ákveður engu að síður að notfæra sér örlög hans án þess að gera sér grein fyrir hvaða áhrif það kunni að hafa á hennar eigin framtíð. Carmen er í raun nokkurs konar Eva sem táldregur góðhjartaðan og heiðarlegan mann sem fyrir vikið endar sem margfaldur morðingi og ræningi. José þráir það eitt að fá að búa með Carmen sem heiðarlegur þjóðfélagsþegn og andmælir hiklaust siðleysi og ofbeldi ræningjanna, sem þau slást í för með, en uppsker háðsglósur einar frá eiginmanni hennar sem uppnefnir hann predikara fyrir vikið. Þrátt fyrir gæsku sína og ást er José lánlaus syndari sem fær ekki örlögum sínum ráðið, ekki síst vegna stoltsins sem villir honum sýn.

Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: Vegferð með Maríu mey, örlög
Siðfræðistef: manndráp, vændi, afbrýði, lygi, þjófnaður, heiðarleiki, traust, ást, siðferði, stolt
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: altari, róðukross, maríulíkneski
Trúarleg embætti: nunna, predikari, spákona
Trúarlegt atferli og siðir: signun, spálestur í lófa, spálestur í spil, predikun, kirkjuklukknahringing