Kvikmyndir

Maria, llena eres de gracia

Leikstjórn: Joshua Marston
Handrit: Joshua Marston
Leikarar: Catalina Sandino Moreno, Yenny Paola Vega, Virgina Ariza, Johanna Andrea Mora, Wilson Guerrero, John Álex Toro, Guilied Lopez, Patricia Rae, Orlando Tobon, Fernando Velasquez og Jaime Osorio Gómez
Upprunaland: Kolumbía og Bandaríkin
Ár: 2004
Lengd: 101mín.
Hlutföll: 1.88:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
María er ósköp venjuleg 17 ára stúlka sem býr í sveitarþorpi í Kólumbíu með móður sinni, ömmu og systur, sem á einn son í lausaleik en hann er lasinn og þarf meðöl sem kosta sitt. Hún vinnur eins og flestir í þorpinu í rósaræktinni sem er aðalvinnustaðurinn í plássinu. Þar ríkir harður vinnuagi og stúlkurnar sem hreinsa blómin og pakka þeim eru reknar áfram af hörku af verkstjóranum. María er kannski sjálfstæðari og með meiri réttlætiskennd en vant er um stallsystur hennar í svipuðum aðstæðum og henni mislíkar að fá ekki að fara á salernið þegar henni er mál og sættir sig ekki við dónaskap verkstjórans. Hún er ekki vel fyrirkölluð og gubbar yfir blómin og það kemur á daginn að hún er ófrísk.

Fjöskyldan þarf á launum Maríu að halda, en hún er of stolt til að fara aftur í vinnuna og biðjast afsökunar. Hún á kærasta sem ekki er mikill dugur í og ástin hefur dofnað þegar hér er komið sögu. Hann vill þó gera sitt og býðst til að kvænast Maríu en viðurkennir, þegar hún gengur á hann, að hann elski hana ekki og hún vísar honum stolt frá sér. En hún vill heldur ekki lenda í sömu sporum og systir hennar, leggjast upp á heimilið og vera álitin annars flokks manneskja, einstæð móðirin.

Á dansleik hittir hún fyrir góðlegan náunga sem ræður yfir voldugu mótorhjóli og þegar hann kemst að því að María er atvinnulaus og ætlar til borgarinnar í atvinnuleit býðst hann til að skutla henni þangað og segist geta útvegað henni vinnu sem gefi mikið fé í aðra hönd. Áhugi Maríu vaknar og hún mætir til fundar við væntanlegan atvinnuveitanda sem er eiturlyfjasali. María ákveður ásamt bestu vinkonu sinni að gerast burðardýr og til þess þarf hún að geta gleypt fleiri tugi af hylkjum sem innihalda hvítt duft, heróin. Vinnuveitandinn sér um vegabréfsáritun og flugfarseðla til New York þar sem aðstoðarmenn hans bíða eftir stúlkunum og flytja þær á stað þar sem þær eru lokaðar inni býðandi þess að hylkin dýrmætu gangi niður af þeim. María er hins vegar tekin í tollinum og vörðunum grunar hver tilgangur ferðar hennar er, en þeir mega ekki taka af henni röntgenmynd til að fá sönnun þar sem hún er ófrísk og er henni þess vegna sleppt.

En ein stúlkan sem einnig er burðardýr í þessari ferð lendir í því að eitt hylkjanna spryngur og hún veikist hastarlega og deyr. Eiturlyfjasalarnir hugsa fyrst og fremst um gróðann og hafa rist hana á kvið til að ná hylkjunum og það er blóð út um allt. María og vinkona hennar flýja á náðir systur þeirrar látnu en geta ekki stunið upp því hræðilega sem kom fyrir. Það kemur þó í ljós og eftir hrakningar og særindi eru þær vinkonur á leið út í flugvél á leið heim til Kólumbíu. En í þann mund sem María kemur að útgöngudyrunum staðnæmist hún og kveður vinkonu sína. Hún skynjar það að í Nýju Jórvík er framtíðarlandið fyrir hana og son hennar. Í borginni kennir að vísu margra grasa en þar er framtíðin með alla möguleikana og heima í þorpinu er fólkið innilokað í stöðnuðu og þröngu samfélagi þar sem eina leiðin (náðin) út er að fara í aðra áhættufulla ferð með magann fullan af hvítum heróínhylkjum.

Almennt um myndina:
Enda þótt myndin sé að mestu á spænsku og beri þess öll merki að vera kolumbísk er leikstjórinn Joshua Marston í raun Bandaríkjamaður og er þetta fyrsta mynd hans í fullri lengd. Leikararnir skila hlutverkum sínum vel og það er spenna í myndinni og trúverðug flétta en í heild er hún falleg og ljúfsár um leið. Óhætt er að segja að virðingarvert viðfangsefnið eigi erindi til allra en svonefnd burðardýr alþjóðlegra glæpamanna hafa því miður orðið mjög svo algeng á síðari árum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
„Full náðar“ er nafnbót sem tengist nafni Maríu Guðsmóður, móður Jesú Krists frá Nasaret. Nafn myndarinnar gerir út á þessa vísun og einnig auglýsingamyndin þar sem María mænir upp á við og fyrir ofan hana er hönd sem heldur á litlum hvítum hlut sem þeir sem hafa horft á myndina vita að er hylki með heróíni – en sem á auglýsingamyndinni gæti vísað til oblátu sakramentisins. Höndin sem kemur að ofan skírskotar til Guðs almáttugs, sem á mörgum miðaldahelgimyndum er einmitt táknaður með hendinni sem kemur ofan úr skýjum himinsins til að gefa mönnum tákn, grípa inn í aðstæður og vísa þeim veginn.

Með dálitlum vilja og einbeitingu má finna fleiri skírskotanir í Maríu mey í þessari mynd, það er að segja til Maríu móður Jesú, en þær eru íronískar, hálfkveðnar og jafnvel háðslegar og alls ekki til þess fallnar að gleðja rómversk-kaþólskt fólk. Myndin stendur í raun og veru alveg fyrir sínu án þess að hún sé puntuð með gervum biblíulegra persóna svo sem Maríu frá Nasaret, Önnu móður hennar eða Jesúbarninu.

Samúðin er með Maríu sem er einlæg og vill öðrum vel og hún reynir að gera rétt þótt hún hafi leiðst á glapstigu. Þegar hún reynir að hugga velgerðarkonu sína sem missti systur sína þá líkist hún hinni frægu mynd Leonardos Da Vinci af Mónu Lísu. Samsvörunin er svo sláandi að það getur vart verið annað en leikstjórinn hafi skiplagt þessa senu vís vitandi. Móna Lísa er í raun næsti bær við Maríu mey.

Barnsfaðirinn er óopinber, þ.e. honum er hvorki ætlað hlutverk í lífi Maríu né barnsins, en það er samt óþarfi að blanda heilögum anda eða Gabríel erkiengli í það dæmi. Náðin sem fyllir Maríu að innanverðu er varla annað en hylkin hvítu, rúmlega 50 að tölu. Þau gefa neytendum fyrirheit um stundarfró – himnaríki á jörðu og burðardýrinu og fjölskyldu þess efnahagslegan ábata ef vel tekst til. En spyrja má hvort náðin sé ekki einnig fólgin í því að María hreinlega nýtur náðar sem sannast af því að það er ófæddi sonurinn sem bjargar henni að lokum frá tollinum. María er því full náðar vegna þess að hún nýtur hennar, ekki bara vegna þess að hún veitir öðrum hana. Þannig má líta á Maríu sem dæmi um syndara sem nýtur þrátt fyrir allt náðar. Að María sé syndari er að vísu ekki kórrétt rómversk-kaþólsk trúfræði en hún stendur samt fyrir mannkynið sem nýtur náðar Guðs.

Sonurinn verndar því móður sína þegar í móðurkviði, því að þrátt fyrir að hafa verið tekin í tollinum er það vegna hans sem hún lendir ekki í fangelsi. Við komuna til Nýju Jórvíkur (New York) ákveður María að kaupa sér dýra læknisskoðun til að athuga líðan fóstursins og fær hún að sjá það hreyfa sig á tölvuskermi. Það er fagurt samband sem þarna myndast milli móður og barns ­ og kannski er það einmitt það sem gerir það að verkum að hún ákveður að fara ekki aftur heim til fjölskyldu sinnar heldur vera kyrr – kyrr í hinni nýju Jerúsalem þar sem tækifærin bíða sonar hennar. Hver veit nema hann rústi þar musterinu og byggi annað nýtt og betra á þremur dögum eða þar um bil.

Margar fallegar helgimyndir af Maríu meyju með barnið sýna hana í jurtagarði og í rósarunna. Sá blómagarður vísar til aldingarðsins Edens og er María þar hin nýja Eva. Ave sem merkir heill þér má lesa sem Eva afturábak. María er þannig Eva hins nýja sáttmála Nýja testamentisins. Myndin af Maríu í blómagarðinum vísar einnig til hinnar yndislegu ungu konu sem brúðguminn, ástmaðurinn, lýsir í Ljóðaljóðunum. Þar er hún einmitt í garði með ilmandi og fögrum jurtum. En María í mynd Joshua Marstons unir sér ekki í rósagarðinum, hún rífur sig lausa og það var kannski það eina sem hún gat gert til að bjarga syni sínum.

Hliðstæður við texta trúarrits: Ljóðaljóðin (Ll), Lk 1
Persónur úr trúarritum: María mey
Guðfræðistef: náð, sakramenti, frelsun, kærleikur
Siðfræðistef: burðardýr, eiturlyfjasmygl, áreitni, stollt, blekking, lygi
Trúarbrögð: rómversk-kaþólska kirkjan
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja, útfararstofa
Trúarleg tákn: rós
Trúarlegt atferli og siðir: bæn við líkkistu