2. árgangur 2002, Vefrit

María mey í þremur kvikmyndum – greining í ljósi djúpsálarfræðinnar

Inngangur

Seiðmagn kvikmynda felst að verulegu leyti í þeim möguleikum sem þær búa yfir til sýna það sem á sér stað í hugskoti manna. Til viðbótar hinu talaða orði með öllum sínum blæbrigðum sýna kvikmyndir svipbrigði, hreyfingar, liti og form. Kvikmyndin setur innra líf manna á svið og tengir það á margslunginn hátt við ytri veruleika og verður áhorfandinn á sinn hátt hluti af þeim veruleika sem myndin á þátt í að skapa. Þegar um góðar kvikmyndir er að ræða lifir áhorfandinn sig inn í myndina og gefst honum sjaldan tækifæri til þess að vera í stellingum hlutlauss áhorfanda. Á margslunginn hátt sýna kvikmyndir glímu einstaklingsins á hvíta tjaldinu eða skjánum við það að finna sjálfan sig, þ.e. það sem kallað er einsömunarferlið (individuation) og samsömun hans við aðra (identification). Lífið felur þetta í sér þegar það leiðir til þroska. Áhrifamáttur kvikmyndanna felst í því að þær draga áhorfendur inn í það drama sem þessi ferli eru, þeir verða þar þátttakendur. Ef þeir verða það ekki hefur kvikmyndin ekki náð tilgangi sínum.

Í þessari grein verður fjallað um einsömunar- og samsömunarferlið í þremur kvikmyndum þar sem María mey gegnir lykilhlutverki og gerð grein fyrir hlutverki hennar í persónusköpuninni og atburðarrásinni. Þetta eru kvikmyndirnar Meydrottningin Elísabet (Elizabeth: The Virgin Queen) eftir breska Pakistanann Shekhar Kapur frá 1998, Hvítur úr þrílitnum (Trzy kolory: Bialy) eftir Pólverjann Krzysztof Kieslowski frá 1994 og Sundraðir föllum vér (Musíme si pomáhat) eftir Tékkann Jan Hrebejk frá 2001. Í persónusköpun sinni leitar kvikmyndagerðarmaðurinn í sögur og hefðir með öllum sínum táknum og minnum. María móðir Jesú frá Nasaret er ekki aðeins ein af persónum Biblíunnar, þ.e. Nýja testamentisins, og lykilpersóna í trúfræði kristinnar kirkju allt frá því er kirkjunnar menn tóku að koma saman á kirkjuþingum á fjórðu og fimmtu öld eftir Krist og skilgreina megin áhersluatriði trúarinnar. Hún skipar einnig það veglegan sess í trúarheimi og menningu alþýðunnar alls staðar þar sem kristni hefur verið boðuð og kirkja stofnuð, að það verður ekki útskýrt út frá guðfræðilegum forsendum einum saman. María mey er orðin ímynd hinnar miskunnsömu, mildu móður sem græðir og verndar. Hún er ímynd syndleysis og hreinleika og í því sambandi hefur meydómur hennar orðið lykilatriði. Andstæða hennar er hóran og femme fatale konan sem dregur karlmenn á tálar með því að flíka kynþokka sínum. María mey varð fremst meðal dýrlinga kirkjunnar. Engin þeirra á sambærilega hlutdeild í guðdóminum og hún. Rómversk-kaþólsk kirkjuþing hafa lýst því yfir að hún hafi verið laus við erfðasynd ein manna. 1950 lýsti páfi því yfir í krafti embættis síns að María mey hefði verið hrifin upp til himna eftir andlát sitt. Áður höfðu menn lengi haft þetta fyrir satt, þar á meðal munkurinn og siðbótarmaðurinn Marteinn Lúther.

Reynsla og þrá hins kristna heims eftir helgun og dýrð hins kvenlega hefur beinst að Maríu mey. Frá upphafi kristni hafa menn viljað eiga og varðveita Maríu sem ímynd og tákn, ekki síst í þeim listaverkum sem kristin trú og kirkja hefur getið af sér. Hún hefur orðið hluti af tjáningu og miðlun trúarinnar, en um leið hefur hún samlagast menningunni á hverjum stað.

Greiningin sem hér fylgir á eftir byggir á þeirri forsendu að hlutverk Maríu meyjar í persónusköpun og framvindu áðurnefndra þriggja kvikmynda skýrskoti til almennra sálfræðilegra lögmála. Þetta er auk þess forsenda þess að kvikmyndirnar þrjár séu trúverðugar sem listaverk, þ.e. þær skírskoti til áhorfenda þannig að þeir „lifi sig inn í“ þær. Lýsingar og greiningar djúpsálfræðinnar á meðvituðum og ómeðvituðum breytingaferlum sálarlífsins byggja á þeim kenningum sem Sigmund Freud og Carl-Gustav Jung þróuðu með rannsóknum sínum og skrifum um gerð og starfsemi persónuleika mannsins og atferli hans. Sú sálfræði sem hér verður stuðst við á sér rætur í sálgreiningunni (psychoanalysis) og kenningum sem urðu til í framhaldi af henni, einkum svonefndri tengslasálfræði (object relations theory).

Að lifa sig inn í mynd

Kvikmyndin færir áhorfendur nær þeim persónum og atburðum sem kvikmyndirnar fjalla um en sú framsetning sem byggir eingöngu á skrifuðum eða töluðum orðum. Hún getur skapað „nýja jörð og nýjan himin“ á auðveldari hátt en leikhúsið. Hluttekningin magnast og getur orðið yfirþyrmandi. Hér skipta hópáhrifin og stemmningin í kvikmyndahúsinu, eða heima í stofu, máli. E.t.v. á kvikmyndin auðveldar með að ná sambandi við og virkja hið óræða og sálarlíf dulvitundarinnar en skrifuð og töluð orð. Hugboð, kenndir, tilfinningar og sýnir sem orð ná ekki yfir eiga sér stað í dulvitundinni og einnig í draumum og óráði. Þau lögmál sem þar gilda hafa verið nefnd frumferli sálarlífsins (primary processes). Vitræn hugsun hefur ekki náð að móta þennan efnivið á forsendum rökhugsunar og hann er því á vissan hátt handan orða og hugtaka. Þau lögmál sem liggja að baki myndun hugtaka, notkun orða og rökhugsunar nefnast afleidd hugsun (secondary processes). Siðferðiskennd manna og rökhugsun þeirra hafnar oft þeim hugsýnum og kenndum sem leyta upp í vökuvitundina en þær bærast engu að síður undir niðri án samhengis við viðurkennd viðmið og form. Rökhugsun vökuvitundarinnar hefur ekki beygt eða bælt alla orku sem í frumkenndunum (libido) býr og við vissar aðstæður ummyndast hún og sendir óræð skilaboð og óvæntar myndir upp á hvítt tjald vitundarinnar.

Kvikmyndatæknin gefur einstaka möguleika til þess að komast framhjá vörnum vökuvitundarinnar (sjálfinu) inn í ummyndunarferli dulvitundarinnar sem við í þessu samhengi getum einnig kallað annan heim eða handanheim. Þannig skapar leikstjórinn listræna brú milli áhorfenda og persóna (og leikenda) á hvíta tjaldinu. Þetta er skýringin á því að stemmningin í bíói getur orðið mögnuð og ólýsanleg og þetta á að sjálfsögðu einnig við um leikhúsið. Það er eins og eitthvað yfirnáttúrulegt gerist. Handanveruleikinn hefur stigið niður á sviðið eða honum hefur verið varpað upp á tjaldið. Flestir sem farið hafa í bíó geta sagt frá upplifun sem er þannig að það er eins og tengsl hafi myndast við annan heim. Þögn slær á gesti þegar slökkt er á sýningarvélinni og ljósin kveikt í bíósalnum. Gestirnir eru lentir á jörðina aftur og líta vandræðalega hver á annan, stundum er þeim létt en stundnum eru þeir fullir saknaðar.

Efniviður dulvitundarinnar lýtur eigin lögmálum sem djúpsálarfræðingar ráða í með aðferðum sínum. Þar ber fyrst að nefna þéttingu (condensation) og tilfærslu(tranceference) sem eru breytingaferli sem Freud fjallar um í draumaráðningabók sinni, sem er eitt af grundvallarritum sálgreiningarinnar.[1] Þétting felst í því að ákveðin atriði heildarmyndar eða atburðarásar einangrast og magnast þannig að samhengið liggur ekki lengur í augum uppi. Tilfærsla felst í því að kenndir og hugarorka sem tengist ákveðnu atriði flyst yfir á annað fyrirbæri eða mynd sem lifnar og magnast sem viðfang tilfinninganna. Þétting og tilfærsla á sér stað í dulvitundunni og heyrir því ekki undir lögmál rökhugsunar. Tilfærslan er mikilvægt fyrirbæri í sálgreiningunni þar sem hún geymir lykil að flóknum tengslum sjúklingsins við ytri veruleika. Einfalt dæmi um tilfærslu er þegar skjólstæðingurinn færir kenndir og reynslu af föður eða elskhuga yfir á lækninn. Skilningurinn á þessu ferli gefur lækninum möguleika á því að komast að rótum sálrænna vandamála og skapa nýja brú frá dulvitund sjúklingsins yfir í raunveruleikann sem getur þróast yfir í uppbyggjandi tengsl við annað fólk.

Meðal annarra ferla sem tengja hugarorku dulvitundar við vökuvitund og persónuleika mannsins og þar með umhverfið eru samsömunar- og einsömunarferlið sem áður er minnst á. Ein manneskja samsamast annarri þannig að hún finnur sig í hlutverki eða mynd hennar. Forsenda samsömunar getur verið að einstaklingurinn sé háður þeim aðila sem hann samsamast. Hann taki mið af fyrirmyndinni og skilgreini sjálfan sig út frá sjónarmiðum hennar. Fyrirmyndin getur haft eftirsóknarverða eiginleika sem verða ímynd annarra. Sá sem samsamar sig tileinkar sér sjónarmið og gildismat ímyndarinnar.

Einsömun er í stuttu máli það að finna sjálfan sig. Hún á sér stað þegar einstaklingur samþættir ólíka eiginleika, væntingar og kenndir, sem beinast að honum og bærast innra með honum og öðlast þannig heildarmynd af sjálfum sér (integration) sem sjálfstæðum einstaklingi. Hann þekkir umhverfi sitt og hlutverk annarra og tengist öðru fólki á forsendum eigin tilveru. Upphaflega skilgreinir hann sig á forsendum þeirra sem hann er háður, t.d. á forsendum foreldra. En að því kemur að hann finnur til sjálfs sín og allra þeirra möguleika sem honum standa opnir og getur þá gengið þvert á vilja annarra ef honum sýnist að það henti sér. Hann finnur sjálfan sig og velur og hafnar eftir því sem best hentar vilja hans og persónuleika. Þetta þarf ekki að þýða að tengslin við nána aðstandendur rofni heldur að þau breytast t.d. þannig að þau verða margbrotnari og sveigjanlegri.

Freud lagði ofuráherslu á föðurímyndina, sem rekja má til kenninga hans um Ödipusarduldina og mikilvægi hennar fyrir þróun persónuleikans.[2] Kynhvötin er grundvallarhreyfiafl sálarlífsins (libido) samkvæmt Freud. Þegar drengurinn kemst á visst stig í þróun kynhvatarinnar beinist hvötin ósjálfrátt að móðurinni en óskina um kynferðislega sameiningu sonarins við móðurina verður drengurinn, ef hann á að þroskast eðlilega, að bæla um leið og hann samsamast föðurnum.[3] Drengurinn finnur sjálfan sig smám saman í mynd föður síns og sleppir þá „barnalegum tengslum“ við móðurina. Tengslin við föðurinn og sektin vegna duldrar kynferðislegrar löngunar til móðurinnar færast yfir á guðsmyndina. Guð verður almáttugur faðir sem dæmir og refsar, en sé honum hlítt í einu og öllu verður hann miskunsamur og fyrirgefur.

Tengslasálfræðingar á borð við Erik H. Erikson leggja áherslu á tengsl barnsins við foreldra allt frá frumbernsku og skilningur þeirra á kynhvötinni er yfirleitt annar en hjá Sigmund Freud. Enginn þeirra lítur á hana sem alsráðandi í myndun tengsla við umhverfið. Freud hættir til að líta á einstaklinginn sem lokað kerfi lífeðlisfræðilegra frumhvata sem þróast á vissan hátt án virkra tengsla við viðföngin.[4] Tengslasálfræðingarnir og margir sálgreinendur með þeim hafa dregið fram þýðingu móðurinnar sem fyrsta viðfang hvata og þarfa barnsins og sem þá mynd sem barnið speglar sig fyrst í. Vellíðan og öryggi barnsins er algerlega háð tengslunum við móðurina eða staðgengil hennar. Réttara væri að tala um einingu en tengsl því barnið gerir ekki greinarmun á sér og móðurinni. Sumir sálfræðingar tala um að þarna sé að finna uppruna tilfinningarinnar fyrir alsælu og algleymi. Þessari tilfinning hefur verið líkt við úthafstilfinningu (ocean feeling) og paradísarástand. Það ástand reyna menn að finna eða skapa síðar á ævinni og það getur leitt til afreka á sviði trúar, lista og vísinda.

Barnið greinir sig smám saman frá móðurinni, en einsömunin fer ætíð fram í gagnvirkum tengslum við móðurina eða staðgengil hennar. Barnið aðgreinir sig frá henni en hún er samt innan seilingar. Að öðrum kosti hættir barnið sér ekki út fyrir umráðasvið hennar. Erikson heldur því fram að fyrstu tvö árin í þessum tengslum sé grunnur lagður að því hvort barnið læri að nálgast umhverfi sitt í trausti og trú á að allt sé eða verði í lagi (basic trust).[5] Upphafið að þessu trausti til tilverunnar liggur í líffræðilegum tengslum við móðurina sem nærir barnið við brjóst sér. Bent hefur verið á að börn fæðast með augasteininn þannig að þau sjái andlit móðurinnar þegar þau hvíla í örum hennar.

Jung gerir ráð fyrir ákveðinni formbyggingu í dulvitundinni. Aðalatriðið er að hún er að hluta til sameiginleg öllum mönnum (collective unconsciousness), sem býr yfir erkitýpum sem allir einstaklingar þurfa einhvern tímann að mæta og takast á við í einsömunarferlinu á þroskabraut persónuleikans.[6] Í skuggann safnast hin illu öfl saman og mynda hina neikvæðu hlið persónunnar. Hann er andlit djöfulsins innra með hverjum og einum. Sjálfið er hin heildstæða jákvæða mynd af persónuleikanum sem hver og einn verður að tileinka sér og vera sáttur við ef hann á að skynja festu sína, dýpt veruleikans og ná jafnvægi í sálarlífinu. Anima er hið kvenlega í karlinum og animus hið karllega í konunni og hver einstaklingur verður að geta horft í eigin barm og tengt þessar orkustöðvar táknum og persónum og leikendum í umhverfi sínu. Listamenn eru næmir á þessar erkitýpur og sköpunargáfa þeirra felst að miklu leyti í því að gefa þeim myndrænan búning.

Móðirin er ein af mikilvægustu erkitýpunum sem allir þurfa að finna, taka afstöðu til og tengjast, fyrst sem ósjálfstæðar verur og síðar sem sjálfstæðir einstaklingar eins og áður segir. Þroski og tengsl barnsins miðast við upphaflegt öryggi í nálægðini við móðurina. Þessi tengsl færast yfir á guðdóminn sem fær kvenlegar eigindir ekki síður en karllegar. Þetta leiðir hugann að myndinni af Maríu með Jesúbarnið í fanginu. Í öðrum trúarbrögðum en kristni má finna gyðju með ungan svein sér við brjóst, t.d. gyðjuna Isis og guðinn Hóras.

Ástir Maríu meyjar

María mey hefur í gegnum aldirnar orðið listamönnum hugleikið viðfangsefni. Í rómversk-kaþólsku kirkjunni hefur frá því á miðöldum verið tilhneyging til þess að hefja hana upp yfir aðra dýrlinga kirkjunnar og gera hana að drottningu himnanna við hlið föður, sonar og heilags anda. Hún er trúuðu fólki tengiliður milli himins og jarðar og skýin minna skáldin á ullina í vefstóli hennar, en þá líkingu má rekja allt til forns lofsöngs frá því á fimmtu öld. Hún skilur hrjáðar og hreldar sálir betur en aðrir dýrlingar, jafnvel betur en sonur hennar frelsarinn. Syndugum mönnum og lítillátum finnst oft best að leita til hennar vegna þess að hún heyrir bænir allra og skilur lítilmagnann sem Frelsarinn og dómarinn er fjarlægur. Þegar María biður son sinn konunginn um að dæma mildilega og minnir hann um leið á að hann sjálfur nærðist við brjóst hennar og naut þar verndar, getur hann vart neitað henni.

María mey hefur alltaf verið tignuð sérstaklega af munkum og nunnum, fólki sem verður að neita sér um holdlegar ástir. Hún verður hin eina og sanna ástmær, heitbundin munkum og prestum rómversku kirkjunnar. Hún hefur reynst þeim sérstaklega vel og margar kraftaverkasögur eru til af bænheyrslu hennar þegar þjónar kirkjunnar áttu í hlut. Þar segir frá því að hún græðir sjúk og skemmd talfæri prestanna og gefur þeim aftur hæfileikann til að vitna um son Guðs og predika fagnaðarboðskapinn. Ótal ástarljóð hafa verið ort til hennar og magnaðasta ástarljóð heimsbókmenntanna, Ljóðaljóðin í Gamla testamentinu, hefur verið heimfært upp á hana. Vart er nokkurt myndefni algengara í helgilist kristninnar frá upphafi og allt fram á okkar daga en María með Jesúbarnið. Á miðöldum var myndin af henni með son sinn Jesú látinn í fanginu (Pieta) algeng. Allt frá fjórðu öld hafa kristnir menn lofsungið Maríu í ljóðum og sálmum. Ófá eru þau snildarverk heimstónlistarinnar sem samin hafa verið við lofsöng Maríu sem er að finna í Lúkasarguðspjalli (1, 46-55).

Meydómur Maríu og nafnið guðsmóðir voru hitamál þegar guðfræðingar og kirkjuleiðtogar deildu um guðlegt og mannlegt eðli Krists á 4. og 5. öld. Meydómur Maríu varð trúaratriði því að hann undirstrikaði guðlegt eðli Krists. Þetta urðu pólitískar deilur sem vörðuðu alþjóðastjórnmál. Þjóðir sem vildu skera sig úr ríkisheildinni studdu við bakið á kirkjuleiðtogum sem boðuðu sérkenningar. Keisararnir létu sig þess vegna þessi mál varða eftir að kristni varð ríkistrú og þeir áttu frumkvæði að því að efnt var til kirkjuþinga. Menn lifðu og dóu upp á meydóm Maríu og gera enn. Myndin af henni með Jesúbarnið í fanginu var því hvort tveggja stórpólitískt tákn og tákn um innri frið og trúartraust hvers kristins manns. Eins og getið var um hér að ofan í tengslum við kenningar Carls Gustavs Jung og Eriks H. Eriksonar má túlka bænir sem beint er til hennar og návist hennar sem lið í samsömun kristins manns við guðdóminn.

Í þeirri greiningu sem á eftir fer er gengið út frá því að María mey, María guðsmóðir, sé mikilvæg kvenímynd og mögnuð erkitýpa fyrir þá sem alist hafa upp í kristinni hefð, ekki síst í rómversk-kaþólsku kirkjunni.[7] Hún er ímynd móðurinnar. Fyrir konur er hún ímynd kvenlegra dyggða og fyrir karla getur hún magnast sem anima, ímynd konunnar sem þeir dá og elska. Í kvikmyndunum þremur er ekki um að ræða neina boðun Maríutrúar. María mey á einfaldlega hlutdeild í lífi þess fólks sem kemur við sögu í kvikmyndunum, óskum þess, þrám og vonum. Sem slík getur hún birst á örlagastundum bæði með beinum og óbeinum hætti.

Í stað Maríu

Hápunktur kvikmyndarinnar Meydrottningin Elísabet (Elizabeth: The Virgin Queen) er þegar drottningin unga (Cate Blanchett) samsamast hlutverki Maríu guðsmóður á örlagastundu í lífi sínu og verður Maríugervingur. Um leið finnur hún sjálfa sig í augliti styttunar af Maríu á altarinu í hallarkirkjunni. Hér er því einnig um að ræða einsömun. Hún verður fyrir einhverju sem líkist einna helst trúarlegu afturhvarfi um leið og hún gengur inn í pólitískt hlutverk sitt sem þjóðhöfðingi.[8]

Leikstjórinn gefur snemma í myndinni vísbendingar um að María guðsmóðir eigi eftir að leika lykilhlutverk í myndinni. Systir Elísabetu, María Tudor hin kaþólska, sem ríkti á undan henni, óttast að andstæðingar sínir, mótmælendurnir, ætli að steypa sér af stóli og krýna ríkisarfann Elísabeti í staðinn. Elísabet er því hneppt í varðhald og færð fyrir drottninguna sem er orðin sjúk. Dyr opnast á vegg sem er þakinn stórri mynd af Maríu með barnið. Elísabet stendur við vegginn og höfuð hennar ber við höfuð barnsins sem hvílir í örmum móður sinnar og nærist við nakið brjóst hennar. Listigarðurinn, umhverfi Maríu og barnsins, er alger andstæða hallarinnar. Fegurð náttúrunnar og litadýrð blómanna skírskotar til aldingarðsins Eden eða til Paradísar. Innileikinn í líkamlegu og andlegu sambandi móður og barns er áberandi og stingur mjög í stúf við kaldranalegt andrúmsloftið og drungann í salarkynnum hallarinnar þar sem fyrirfólk, þernur og þjónar eru öll kappklædd í einkennisbúningum sínum og hlífðarfötum.

Þær systur hafa báðar fulla ástæðu til blendinnar afstöðu til föður síns Hinriks VIII sem ýmist rak eiginkonur sínar frá sér eða lét aflífa þær. Uppeldisaðstæður þeirra hafa vafalaust skilið eftir djúp spor í sálarlífi þeirra og persónuleika. Hvorug þeirra varð þeirrar hamingju aðnjótandi að eignast barn. Mótlæti í einkalífinu, uppreisnir andstæðinganna og launráð ýmsra ráðgjafa hafa án efa aukið á öryggisleysi þeirra og þrá eftir trúnaði og vernd. Báðar beindu þær bænum sínum til Maríu guðsmóður. Báðar þurftu þær að endurnærast og styrkjast í því trúartrausti sem vaknar í sambandinu við móðurina. Fyrir Maríu Tudor var það sjálfsagt mál að beina bænum sínum til Maríu guðsmóður vegna opinberar trúarafstöðu sinnar, en fyrir Elísabeti var það allt annað en eðlilegt.

María Tudor reynir sáttaleiðina þegar þær systur mætast. Sú leið gengur út á að Elísabet lofi að banna ekki þegnunum að tigna Maríu mey og beina bænum sínum til hennar ef hún kemst til valda. Á þetta getur Elísabet ekki sæst og verðirnir fylgja henni aftur í varðhaldið. Elísabet var mótmælandi og þegar hún komst til valda tryggði hún sjálfstæði ensku biskupakirkjunnar gagnvart páfanum í Róm sem lét bannfæra hana sem trúvilling og hvatti þegnana til að steypa henni af stóli.

Í lok myndarinnar reiðir leikstjórinn fram lykilinn að skilningi á þeirri einstöku valdastöðu sem Elísabet ávann sér meðal þegnanna sem þjóðhöfðingi og verndari. Hún kom í staðin fyrir Maríu. Þar með varð staða hennar sem þjóðhöfðingi trúverðug. Hún tókst að ná til fólksins og sameina ólíka hagsmuni fyrir það markmið að styrkja þjóðríkið. Krýningardagur hennar 17. nóvember varð eins konar þjóðhátíðardagur Englendinga.[9]

Aðdragandinn að samsömuninni við Maríu er samsæri rómversk-kaþólskra gegn Elísabetu á fyrstu valdaárum hennar. Valdamiklir aðalsmenn við hirð hennar koma sér saman um að steypa henni af stóli með fulltingi páfans og góðum stuðningi Spánarkonungs. Það kemst upp um samsærið og hinir seku eru miskunnarlaust teknir af lífi. Elskhugi drottningarinnar, Dudley hertogi, er meðal samsærismannanna en drottningin þyrmir lífi hans til þess eins, eins og hún segir Walsingham ráðgjafa sínum, sem vill höggva hann, að minna sig á hversu hætt hún var komin.

Drottningin unga er örmagna og hugsjúk eftir þessa hryllilegu atburði og leitar skjóls í hallarkirkjunni þar sem stytta af Maríu er á altarinu. Hún er ein. Elskhuginn reyndist kvæntur og landráðamaður í þokkabót og ráðgjafar hennar eru miskunnarlausir og kaldlyndir. Hvar getur hún fengið hlýju, uppörvun, leiðbeiningu og styrk? Hvaða fyrirmynd hefur hún til að líta upp til? Faðir hennar hafði látið taka móður hennar af lífi. Hún hafði naumlega sloppið undan exi systur sinnar og frænka hennar, María Stúart Skotadrottning, hafði setið á svikráðum við hana tilbúin að hrifsa til sín drottningartign Englendinga. Ímynd sína verður hún því að sækja út fyrir ramma fjölskyldu sinnar.

Eins og áður segir samsamast Elísabet Maríu guðsmóður og gengur inn í drottningarhlutverkið sem hin upphafna meyja, sameiningartákn sem allir eiga að trúa á og lúta – sameiningartákn sem gerir þjóðina að einni heild, sterkri heild. Og það tókst. England varð að einu fremsta ríki Evrópu á 45 ára valdaferli Elísabetar. Samsömunin við Maríu mey gæti virst út í hött að því leyti að Elísabet var bæði leiðtogi og tákn mótmælenda í andstöðunni við rómversku kirkjuna og þess vegna hlaut hún að hafna Maríudýrkun og dýrlingatrú kirkjunnar. En þetta verður einmitt kjarni málsins, eins og sir Francis Walshingham ráðjafi hennar, í frábærri túlkun Geofreys Ruch, er látinn segja. „Fólkið þarf eitthvað að trúa á þegar Maríu himnadrottningu hefur verið steypt af stalli.“ Elísabet kemur í staðinn fyrir Maríu mey, tekur við valdahlutverki hennar. Fórnin sem hún verður að færa er ástin.

Bretar hafa æ síðan velt fyrir sér sögulegum heimildum og rökum fullyrðinga um meydóm Elísabetar drottningar. Það gerir einnig höfundur myndarinnar og sitt sýnist hverjum um það hvernig hann lítur á málið, en staðreyndin er sú að Elísabet fórnar jarðneskum ástum fyrir hlutverkið sem sameiningartákn. Það er henni samt ekki þrautalaust. Þegar hún hefur tekið á sig gervi meydrottningarinnar gengur hún á dreglinum upp að hásætinu, sorgmædd í einstæðingsskap sínum og elskhugi hennar fyrrverandi er aðeins einn í hópi aðdáenda hennar. Sagnfræðingar segja að hún hafi aldrei talað við hann í einrúmi eftir valdaránstilraunina, en hún var sífellt með hugann við hann og hvíslaði nafn hans á dánarbeði sínu rétt fyrir andlátið.

Opinber málverk af Elísabetu eru eins og íkonamyndir. Hún er ein á toppnum, hvorki eiginmaður eða börn skyggja á hana eða draga athyglina frá henni. Meydrottningin er ein í allri sinni dýrð og kjóllinn hennar vísar til möttulsins sem María ber og breiðir yfir þegna sína. Allir þræðir liggja til hennar og hún sér allt því að kjóllinn er, eins og sést á samtímamálverkum af henni, alsettur augum.

Meydrottningarhlutverkið sló fæturna undan öllum áformum um að England gengi inn í ríkjasamsteypu vegna hugsanlegs hjónabands hennar. Barnleysi hennar kom í veg fyrir samsærisáform andstæðinganna sem hefðu viljað gera bandalag við afkomanda hennar um krúnuna. Meydrottningarembættið styrkti einingu ríkisins og stöðu Elísabetar sem þjóðhöfðingja.[10] Hún var hvorki bundin aðstæðum eða hagsmunum fjölskyldu eða venslafólks. Meydrottningarhlutverkið styrkti myndugleika hennar sem þjóðhöfðingja og hliðstæðan við Maríu mey renndi trúarlegum stoðum undir stjórn hennar. Hún var, eins og hún sagði sjálf, gift og gefin ensku þjóðinni og þegnarnir urðu börnin hennar. Þessi nýji stíll sló í gegn. Friður, velmegun, listir og vísindi efldust undir verndandi og alsjáandi mötli Elísabetar I. Hún sameinaði ríki og kirkju og festi umburðarlyndi á þeirra tíma mælikvarða í sessi og meðalhóf (via media) varð aðalsmerki enskra stjórnmála og forsenda nútímalegrar framfarahyggju. Í nýja heiminum var stofnað fylki sem við hana er kennt og kallað Virginía. Grunnur var lagður að breska heimsveldinu sem hélt velli allt fram á 20. öld og enn sér þau spor sem það hefur sett í alþjóðastjórnmálum og menningu þjóða.

Jólaguðspjallið í Prag

Söguþráður tékknesku myndarinnar Sundraðir föllum vér (Musíme si pomáhat, eða Divided We Fall eins og hún nefnist á ensku) er ofinn úr efniviði tveggja frásagna. Annars vegar er það saga af lífi tékkneskra hjóna, Maríu og Jósefs Cízeks, og nágranna þeirra í Prag, sem hersetin er af nasistum í síðari heimsstyrjöldinni. Hin frásagan er úr Lúkasarguðspjalli þar sem segir af fæðingu Jesú í Betlehem.

Í fyrri sögunni er sagt frá Jósef Cízek og konu hans sem greinilega hafa andúð á nasistum án þess þó að taka virkan þátt í andspyrnuhreyfingunni gegn þeim. Gamall kunningi hans, hinn þýzkættaði Horst sem gengið hefur í þjónustu nazistanna, venur komur sínar á heimili þeirra hjóna og gaukar að þeim ýmsu góðgæti sem hann hefur aðstöðu til að afla en aðra skortir. Áður en hann komst þar til metorða, hafði verið litið niður á hann og gert grín að honum, en María og Jósef höfðu alltaf komið vel fram við hann. Hann reynir nú að tæla Maríu til fylgilags við sig en það mistekst hörmulega. Samt reynist hann þeim Maríu og Jósef vel. Hjónin hafa skotið skjólshúsi yfir gyðing að nafni Davíð sem hefst við í kompu í íbúð þeirra. Horst fer brátt að gruna að þau hylmi yfir einhverju, en ákveður samt að svíkja ekki þessa vini sína. Eitt sinn kemur Jósef heim ásamt Horst og útsendara nasista. Davíð kemst ekki óséður í kompu sína en bjargar sér með því að skríða undir sæng Maríu sem liggur veik í rúminu. Horst fer að gera sér dælt við Maríu og þau sleppa með naumindum með skrekkinn. Þegar hættan er loks liðin hjá liggur hann örmagna og hreyfingarlaus í fangi hennar. Hliðstæðan við pieta-mótífið er augljós.

Þau hjónin geta ekki átt barn saman, en atvikin haga því samt þannig að María segist eiga von á barni til að forða þeim hjónum úr erfiðri klípu. En ein klípan sem lausn finnst á fæðir óðar af sér aðra og það stefnir í óefni því að Jósef reynist vera ófrjór. Komist hernámsyfirvöldin að því að þau höfðu logið að þeim, mega þau allt eins búast við dauða sínum, en embættismennirnir krefjast þess að fá orð þeirra staðfest. Davíð verður hjónunum bjarvættur í þessum erfiðu aðstæðum. Fyrir orð Jósefs ganga þau María og Davíð í eina sæng og María verður barnshafandi.

Það er erfið stund fyrir Jósef meðan á þessu stendur og hann situr og starir á myndina af Maríu mey með barnið sem prýðir vegg setustofunnar. Áður hafði hann ekki áhuga á þessari mynd og atyrti jafnvel konu sína í upphafi myndarinnar fyrir að halda að María mey gæti gert kraftaverk fyrir bæn. Mitt í örvæntingu Jósefs sjá bæði hann og áhorfendurnir hvernig María mey á myndinni ummyndast í eiginkonu hans. Hann starir á Maríumyndina og varðveitir þannig myndina af konu sinni óskaddaða á meðan hún hefur samfarir við annan mann.

María, eiginkona Jósefs Cízek, er þrátt fyrir allt syndlaus og hrein og vísunin til Maríu meyjar gerir honum (og áhorfendum myndarinnar) kleift að viðhalda myndinni af persónunni sem góðlegri og trúfastri eiginkonu. Hún saurgast ekki vegna kynmakanna við annan mann. Þvert á móti helgast þau vegna sérstakra aðstæðna, enda er bjargvætturinn af ætt og kynþætti Davíðs eins og frelsarinn sjálfur.

Hliðstæðan við jólaguðspjallið hjá Lúkasi er útfærð enn frekar. María fær joðsótt í þann mund sem Þjóðverjar eru hraktir á flótta og fer Jósef í örvæntingu sinni á stúfana að sækja lækni. Þegar enginn læknir reynist á lausu, sér hann Horst kunningja sinni í hópi föðurlandsvikara, sem andspyrnuhreyfingin hefur klófest og bjargar honum úr prísundinni með því að fullyrða að hann sé læknir með hreinan skjöld gagnvart föðurlandinu. Leiðtogum sovéska frelsishersins tekur að gruna Jósef um græsku en þá birtist Davíð, sem hafði verið í felum og tíundar hugrekki hjónanna og stuðning þeirra við sig sem gyðing. Horst gengur vonum framar að aðstoða Maríu við fæðinguna enda faðir og hafði áður stært sig af því að hafa sjálfur tekið á móti börnum sínum í fæðingu. Hann öðlast trúverðugleika sem fæðingarlæknir eða að minnsta kosti ljósmóðir. Davíð leggur jafnvel sitt lóð á vogarskálarnar til að tryggja mannorð Horsts og andspyrnuhreyfingin þyrmir honum fyrir vikið. Ef vel væri að gáð mætti finna hliðstæður fjárhirðanna og vitringanna við vöggu barnsins í hinum nærstöddu, sovésku hermönnunum og liðsmönnum andspyrnuhreyfingarinnar svo og samverkamanni nazistanna. Í gleðinni yfir fæðingu barnsins sameinast fylkingar, sem áður stríddu og bárust á banaspjótum. Friðarhöfðinginn er fæddur. Öllum þykir í lokin vænt um hver annan og friður og bjartsýni ríkir yfir borginni þótt hún sé meira og minna í rústum.

María í hvítu

Kvikmyndin Hvítur (Trzy kolory: Bialy) í þríleiknum um litina í franska fánanum fjallar um Karol, pólskan hárskera, vel færan í sínu fagi með verðlaun að baki. Hann eignast franska unnustu, Dominique að nafni, og leikur allt í lyndi hjá þeim í París þar til að sjálfu brúðkaupinu loknu. Þá fyrst missir Karol getuna og gagnast konu sinni ekki lengur í rúminu. Hún missir því áhugann á honum og þau skilja. Karol er auðmýktur, honum er kastað á dyr og hann hrökklast blankur heim til Varsjá í ferðatkoforti kunningja síns. Karol elskar samt fyrrverandi eiginkonu sína áfram og segja má að hann elski hana út af lífinu. En hann er beiskur og ákveður að hefna sín á henni þegar að hún vísar honum enn einu sinni frá og skellir á hann þegar hann hringir til hennar, bara til að fá að heyra rödd hennar.

Með sér til Póllands hefur hann styttu af konu sem hann tengir greinilega við Dominique en gæti verið af Maríu mey. Hann lætur vel að styttunni og kyssir hana áður en hann fer að sofa. Margt í myndinni skírskotar til dauða, greftrunar og upprisu, hins gamla og nýja lífs. Ferðalagið í kofortinu minnir þannig á dauða. Þegar því er rænt af færibandinu í pólsku flugstöðinni og ræningjarnir opna það á afviknum stað hjá sorphaugum, verða þeir flemtri slegnir er maðurinn rís ringlaður upp úr því. Þeir hirða af honum úrið en láta styttuna af konunni vera og hrinda honum síðan í sorpið.

Síðar í myndinni er sýnt hvar Karol speglar sig í gleri yfir málverki af Maríu mey með Jesúbarnið þar sem hann greiðir sér. Þá hefur hann nýlega gengið frá kaupsamningi sem gerir hann að auðugum manni í svartamarkaðsbraskinu í Póllandi.

En Karol er harmkvælamaður þrátt fyrir auðinn. Konan sem hann elskar er ósnertanleg. Hefndaráform hans ná á sérstæðan hátt út fyrir gröf og dauða. Auðurinn sem Karol hefur til að byrja braskið fær hann hjá kunningja sínum sem borgar honum fyrir að stytta sér aldur. Karol miðar byssunni og hleypir af án þess að hafa skot í hylkinu því að hann vill veita kunningjanum möguleika á að skipta um skoðun. Kunninginn eignast fyrir vikið nýtt líf og hættir við að deyja, en vill samt ekki að borgunin sé látin ganga til baka.

Í ýmsum auglýsingum er myndin flokkuð sem gamanmynd, fyndin og kaldhæðin – en hún er samt sem áður fyrst og fremst harmræn ástarsaga, saga um fólk sem rekst hvort á annað í leit sinni að hinni sönnu ást. Þau virðast ekki ætla að höndla hana vegna þess að á milli þeirra ríkir ekki jafnrétti, hugsjónin sem hvíti liturinn táknar í þríleik Kieslowskis. Myndin er saga af ást sem gengur ekki upp frekar en önnur náin sambönd þar sem gagnkvæma virðingu og traust skortir. Sá sem telur sig svikinn í tryggðum reynir að hefna sín, en þegar ást og hefnigirni ganga í eina sæng flýr jafnréttið út í veður og vind og atburðarásinn fer út á brautir sem enginn getur séð fyrir hvar enda.

Karol gerir erfðaskrá og sviðsetur eigið andlát með aðstoð kunningja síns, sem gerst hefur samstarfsmaður hans. Hann kaupir lík og útvegar öll viðeigandi skjöl sem sýna hver hinn látni á að hafa verið. Dominque fær síðan að vita að hún sé eini erfingi fyrrverandi eiginmanns síns. Hún mætir við jarðarförina en Karol fylgist með úr fjarska. Hann kemur Dominique svo á óvart með því að hátta ofan í rúmið í hótelherberginu hennar þegar hún kemur frá útförinni. Þá vill svo til að hann er loksins orðinn góður elskhugi þrátt fyrir, eða e.t.v. einmitt vegna þess, að hjónabandið er ekki lengur til staðar. Þegar hjónabandið er dautt og hann sjálfur sömuleiðis, þá rís loks sá hluti líkama hans sem ólíklegastur var til þess arna.

En það sem Karol kom af stað verður ekki stöðvað. Lögreglan bankar upp á eftir að hann laumast á brott og Dominique er handtekin og dæmd fyrir morðið á fyrrverandi eiginmanni sínum. Ástæðan er augljós, morðið var auðgunarbrot. Eftir þetta lifir Karol fyrir það eitt að fá að horfa á konuna sem hann elskar úr fjarlægð. En við það gerist ummyndunin. Dominique, sem e.t.v. er orðin vitskert og komin inn í annan heim, tekur á sig mynd maddonnu sem minnir bæði á Monu Lísu og Maríu mey. Fangelsisglugginn ummyndast líka og verður að viðeigandi ramma um helgimynd í steindu gleri. Dýrlingurinn ósnertanlegi myndar óræð tákn með höndum sínum – það er eins og hún setji hring á fingur. Er hún að tjá honum ást sína eftir allt saman þar sem hún sér hann úr fjarska? Við stöndum fyrir utan gluggann með Karol og skiljum angist hans. Táknin vísa e.t.v. til sambands þeirra eða sambandsleysis þar sem annað þeirra er opinberlega ekki lengur á lífi og hitt lokað inni, aðgreint frá samfélagi frjálsra manna. Þetta óræða samband fær yfir sig þá helgu nærveru sem einkennir myndirnar af Maríu mey. Hún er eilíf en um leið ósnertanleg og óyfirstíganleg eða hvað? Alla vega er hún ljúfsár harmleikur og e.t.v. einmitt þess vegna heilög.

En sögunni er ekki lokið því að Karol og Dominique bjargast úr sökkvandi skipi í lok þríleiksins, þ.e. Rauðum (Trois couleurs: Rouge) frá 1994. Þar er sýnt úr fréttum af sjóslysinu og á skjánum birtist mynd af nokkrum sem hafa bjargast, þar á meðal hjónaleysin fyrrnefndu. Þá leysast ýmsar gátur sem felast í þríleiknum, m.a. um það hvað verður um ástina í Hvítum. Gerðir Karols stjórnuðust eftir allt saman af einlægri ást sem hann réði ekki við. Hann iðrast sáran þegar hann horfir á ástina sína í fangelsinu og þetta fyrirgefur María honum. Birting Maríu í fangelsinu þýðir að bænum þeirra beggja hefur verið svarað.

Lokaorð

María mey birtist í kvikmyndunum þremur, sem hér hafa verið greindar út frá sjónarmiðum djúpsálarfræðinnar, bæði eins og af tilviljun þegar ekkert sérstakt virðist liggja við og á örlagastundu við tímamót. Myndir og styttur af Maríu mey, ýmist með eða án barnsins, sjást og vísað er til hennar í samtölum. Við nánari athugun kemur í ljós að leikstjórarnir eru með þessu að byggja upp atburðarás með stefnu á örlagastund þar sem einhver lykilpersóna samsamast henni. Í samsömunarferlinu á sér stað ummyndun og tilfærsla sem getur verið á ýmsan veg og hér kemur kvikmyndatæknin að góðum notum. María mey getur breyst í aðra persónu, t.d. Maríu Cízek í myndinni Sundraðir föllum vér þar sem Jósef horfir á málverkið af henni. Persónur myndanna geta sömuleiðis breyst í Maríu mey og orðið Maríugervingar eins og t.d. þar sem María Cízek ummyndast með Davíð í fanginu í Maríu mey á Pietu og þegar Dominique ummyndast með svipuðum hætti í lok myndarinnar Hvítur. Í kjölfar samsömunar Elísabetar I. í kvikmyndinni Meydrottningin Elísabet við Maríu mey ummyndast hún í Maríugerving

Hvort sem um er að ræða beina eða óbeina skírskotun í Maríu mey hefur innkoma hennar á sviðið áhrif á framvindu kvikmyndanna og tengist með markvissum hætti hápunkti þeirra (plottinu). Bæn sem beint er til Maríu leiðir til þess að persóna í átökum og innri baráttu öðlast nýja von, innri frið og nýja leið út úr ógöngum og vonlausri aðstöðu. Bænheyrsla hennar felur í sér kraftaverkið sem er sátt og óvænt lausn sem mildar þjáningar og eyðir hatri. Þetta eru eigindir sem tengst hafa tignun Maríu guðsmóður og tilbeiðslu kristinna manna í gegnum aldirnar. Sögurnar, sem kvikmyndirnar segja, fá dýpri merkingu og aukna dýpt. Nærvera hennar setur sögurnar í nýtt og stærra samhengi og áhorfandinn getur fengið það á tilfinninguna að hún hafi verið nálæg í atburðarásinni allt frá upphafi.

Saga mannkyns sýnir að konan sem kynvera hefur ógnað regluveldi samfélagsins sem byggist á valdastöðu karlmanna. Með því að höfða til kynhvatar karla veldur kona, sem flíkar þokka sínum, óvissu og óreiðu sem grefur undan fastmótuðu og fyrirfram gefnu samskiptamunstri og félagslegri reglu. Samfélög sem mótast af undirgefni við föðurímyndir leiða oft til misbeitingar valds og bælingar sem hindrar það að einstaklingar nái að þroskast og finna sjálfa sig. Hlutverk Maríu meyjar í þeim þremur kvikmyndum sem hér hafa verið teknar til greiningar út frá djúpsálarfræðinni benda til þess að samsömun við hana endurlífgi þorskandi og skapandi tengsl sem eiga sér upptök í sambandi ungabarns við móður. Þar reynir á hvort einstaklingurinn verður fær um að móta trúnaðartraust sem grundvallarafstöðu til lífsins og tilverunnar eða ekki. Það felst m.a. í jákvæðri sjálfsmynd og hugrekki til að takast á við krefjandi viðfangsefni og vandamál. Á þetta trúnaðartraust reynir æ ofan í æ á lífsleið hvers einstaklings og trúin er þess umkomin að styrkja þau.

Helstu stuðningsrit

Erikson, E. H. 1950: Childhood and Society (Önnur útg.) New York. W.W. Norton.

Freud, S. 1961 (1924): „The Dissolution of the Oedipus Complex.“ Standard Edition, Vol 19.

Freud, S. 1976: The Interpretation of Deams. Penguin Books. (Kom fyrst út á þýsku árið 1900: Die Traumdeutung)

Freud, S. 1990: Undir oki siðmenningar. Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag. (Kom fyrst út á þýsku árið 1930: (Das Unbehagen in der Kultur)

Freud, S. 1993: Blekking trúarinnar. Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag. (Kom fyrst út á þýsku árið 1927: Die Zukunft einer Illision)

Guntrip, H. 1956: Mental Pain and the Cure of Souls. London. Independent Press.

Jung, C. G. 1966a: „The Relations Between the Ego and the Unconscious.” Collected Works, Vol. 7.

Jung, C.G. 1966b: „On the Psychology of the Unconscious.“ Collected Works, Vol. 7.

MacGaffrey, Wallace 1993: Elizabeth I. London. Arnold.

Marsh, Clive & Ortiz, Gaye 1997: Explorations in Theology and Film. Blackwell Publishers.

Neale, J. E. 1971: The Age of Catherine de Medici and Essays in Elizabethan History. London. Jonathan Cape.

Pétur Pétursson 2001: „Tvöfalt líf Veróniku í ljósi djúpsálarfræðinnar”(Ritstj. Bjarni R. Sigurvinsson o.fl. ) Guð á hvíta tjaldinu. Trúar- og biblíustef í kvikmyndum.Reykjavík. Háskólaútgáfan.

Pétur Pétursson 2002: „Nokkur Maríustef í bókmenntum og myndlist.” Merki krossins. 1.-2. hefti.

Sigurjón Björnsson 1983: Sálkönnun og sállækningar. Reykjavík. Hið íslenska bókmenntafélag.

Wulff, David M. 1997. Psychology of Religion. Classical and Contemporary. New York. John Wiley & Sons.

Tilvísanir

[1] Freud 1976 (1900): 381-384 og 422-445

[2] Í grískri goðsögu segir frá Ödipusi konungi sem óafvitandi drap föður sinn og kvæntist móður sinni.

[3] Freud 1961(1924): 171-179.

[4] Wulff 1997: 329-330.

[5] Erikson 1950: 64-153.

[6] Jung 1966a: 173-174 og 1966b: 69-95.

[7] Sýna má fram á að ímynd Maríu sé enn lifandi í trúarlífi og alþýðumenningu meðal mótmælenda þótt hún birtist þar stundum í ýmsum felumyndum. Pétur Pétursson 2002.

[8] Guntrip heldur því fram að fyrir trúrlega reynslu af því tagi sem hér um ræðir nái einstaklingurinn tengingu við almættið (The Ultimate) um leið og það gefi honum þrek til að mynda virk tengsl við umhverfi sitt.

[9] Neale 1971: 121.

[10] Neale 1971: 206.