Kvikmyndir

Massacre at Canyon Grande

Leikstjórn: Sergio Corbucci [undir nafninu Stanley Corbett]
Handrit: Sergio Corbucci og Albert Band
Leikarar: James Mitchum, Jill Powers, George Ardisson, Giacomo Rossi-Stuart, Andrea Giordana, Burt Nelson, Ferdinando Poggi, Eduardo Ciannelli og Milla Sannoner
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1965
Lengd: 86mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0059434
Einkunn: 1

Ágrip af söguþræði:
Þegar fyrrverandi lögreglustjórinn Wes Evans snýr heim á nýjan leik eftir rúmlega tveggja ára fjarveru, kemur í ljós að unnusta hans er búin að ganga að eiga annan mann enda flestir fyrir löngu búnir að telja hann af. Evans hafði hins vegar haldið á brott til þess eins að leita uppi þrjótana, sem myrtu föður hans þegar hann var enn barn að aldri og vildi því ekki snúa heim fyrr en þeir væru allir komnir undir græna torfu.

Helstu forkólfar bæjarins bjóða Evans þó að taka við lögreglustjórastöðunni aftur en hann afþakkar það og vill þess í stað selja eigur sínar og halda á brott. Áður en til þess kemur neyðist hann þó til að stilla til friðar milli tveggja valdamestu ættanna á svæðinu, sem berjast á banaspjótum um yfirráð yfir miklu gljúfri.

Almennt um myndina:
Hefðbundinn spaghettí-vestri með gnægð byssuskota og fleiri manndrápum en tölu verður á komið. Það er alveg með ólíkindum hvað sögupersónurnar hafa margar byssukúlur í fórum sínum hvert sem þær fara en það sést heldur vart nokkur hlaða byssurnar sínar.

Aðalleikarinn er að þessu sinni James Mitchum, sem verður að teljast alveg ótrúlega líkur föður sínum Robert Mitchum, en það reynir svo sem ekkert á leikhæfileika hans í þessari kvikmynd.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Allt snýst um mikilvægi hefndarinnar í þessum spaghettí-vestra og er hann því alveg í anda lögmálsákvæðisins um auga fyrir auga og tönn fyrir tönn. (III Mós. 24:20.) Einnig er minnst á það að þvo hendur sínar af tilteknu óhæfuverki en það vísar auðvitað til þess þegar Pílatus þvoði hendur sínar af krossfestingu Krists. (Matt. 27:24.)

Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20, Mt 27:24
Siðfræðistef: manndráp, hefnd, dauðarefsing, nauðgun
Trúarleg tákn: kross