Kvikmyndir

Massacre at Fort Holman

Leikstjórn: Tonino Valerii
Handrit: Ernesto Gastaldi, Jay Lynn og Tonino Valerii, byggt á sögu eftir Howard Sandford
Leikarar: James Coburn, Bud Spencer, Telly Savalas, Reinhard Kolldehoff, Joseph Mitchell, William Spofford, Robert Burton, Guy Ranson, Allan Leroy, Ángel Álvarez, Ugo Fangareggi, Joe Pollini og Terence Hill
Upprunaland: Ítalía, Spánn, Frakkland og Þýzkaland
Ár: 1972
Lengd: 85mín.
Hlutföll: 1.33:1 (var 2.35:1)
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Í miðri borgarastyrjöldinni í Bandaríkjunum heitir Norðurríkjaherforingi hópi dauðadæmdra fanga sakaruppgjöf gegn því að þeir endurheimti svo til óvinnandi virki úr höndum Suðurríkjamanna, en alls óvíst er hvort nokkur þeirra eigi þaðan afturkvæmd.

Almennt um myndina:
Hér er í meginatriðum um að ræða stælingu á síðari heimsstyrjaldarmyndinni The Dirty Dozen (Robert Aldrich: 1967), sem segir frá hópi dauðadæmdra stríðsglæpamanna úr röðum bandamanna sem heitið er sakaruppgjöf gegn því að þeir myrði nokkra háttsetta þýzka herforingja á frönsku hóteli skömmu fyrir innrásina í Normandí en ljóst er að slík sendiför inn á yfirráðasvæði óvinarins telst ekkert annað en sjálfsvígsleiðangur. Í rauninni er ekki bara hægt að líta á sögufléttuna sem ádeilu á síður en svo flekklausa framgöngu Bandaríkjanna í síðari heimsstyrjöldinni heldur allt eins á stríðsrekstur þeirra í Víetnam á þeim tíma sem myndin var gerð. Í stað þess að svo til flekklausar hetjur væru látnar gegna skildu sinni í enn einni stríðsmyndinni voru söguhetjurnar hafðar hreinræktaðar andhetjur: Stríðsglæpamenn notaðir í þágu herja Bandamanna. Þessi framsetning þótti frumleg og naut myndin fyrir vikið töluverðra vinsælda á sínum tíma.

Enda þótt ófáir kvikmyndagerðarmenn ættu eftir að stæla stríðsmyndina The Dirty Dozen með einum eða öðrum hætti næstu árin, var samt ekki þar með sagt að ádeilan skilaði sér alltaf með jafn áhrifaríkum hætti. Oftar en ekki var þar í raun aðeins um að ræða svo til heilalausar hasarmyndir sem reyndu að nýta hvern þann efnivið sem mögulega ætti eftir að skila einhverjum peningum í kassa framleiðendanna eins og frumgerðirnar höfðu gert. Í þeim hópi er spaghettí-vestrinn Massacre at Fort Holman sem verður að teljast miðlungsframleiðsla í flesta staði þó svo að ýmsir fagmenn hafi í sjálfu sér staðið þar að baki. Leikstjórinn Tonino Valerii hafði verið aðstoðarleikstjóri Sergios Leones við gerð fyrstu mynda hans en sneri sér síðan fljótlega að gerð eigin mynda með þokkalegum árangri, einkum þó spaghettí-vestra og gulra mynda. Leikararnir eru sömuleiðis margir þekktir, einkum þeir James Coburn, Telly Savalas og Reinhard Kolldehoff, sem allir skila sínu af fagmennsku þótt enginn þeirra geti talist sérstaklega eftirminnilegur að þessu sinni. Meira að segja Bud Spencer er ágætur í hlutverki þungbrýns Norðurríkjahermanns og er hann alls ólíkur þeim gamanmyndapersónum sem hann er hvað þekktastur fyrir en sjá má, Terence Hill, aðalmótleikara hans úr ótal slíkum gamanmyndum bregða fyrir í myndinni.

Eins og svo oft með breiðtjaldsmyndir er myndramminn notaður til fulls og kemur það því hörmulega út þegar u.þ.b. helming myndflatarins vantar eins og raunin er með myndbandsspóluna sem hér er til umfjöllunar. E.t.v. myndi kvikmyndin virka betri ef hún væri gefin út í réttum hlutföllum og betri gæðum.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Fangarnir, sem er heitið sakaruppgjöf gegn því að þeir endurheimti virkið úr höndum óvinanna, höfðu allir verið dæmdir til dauða fyrir nauðganir, þjófnaði og morð nema einn þeirra, þ.e. predikari (eða prestur) sem kallaður er trúarofstækismaður og sagður verstur þeirra allra, enda dæmdur til dauða fyrir að andmæla stríðsrekstrinum og hvetja til liðhlaups, náungakærleika og friðar. Allir eru fangarnir með snöruna um hálsinn þegar þeir fá tilboðið um sjálfsvígsleiðangurinn og þiggja þeir það allir umsvifalaust nema predikarinn sem svarar með tilvitnun í Sálm 23: „Drottinn er minn hirðir.“ Þegar honum er bent á að Drottinn hafi sömuleiðis sagt að sín sé hefndin (sbr. t.d. Rm 12:19), endurtekur hann samstundis að þetta hafi Drottinn einn sagt og boðar síðan öllum ranglátum dóm Guðs. Fyrir vikið telja herforingjar Norðurríkjanna friðarsinnann heittrúaða ótækan í leiðangurinn og hengja hann hið snarasta, en nauðgararnir, þjófarnir og morðingjarnir eru sendir af stað. Bölsýni spaghetti-vestranna er því sem fyrr alls ráðandi.

Í ljósi þess hversu mjög myndin sækir innblástur til stríðsmyndarinnar The Dirty Dozen kemur ekki á óvart að einn af föngunum skuli vera heittrúaður, en í frumgerðinni lék Telly Savalas trúarbrjálæðing sem veifaði Biblíunni í allar áttir og formælti umfram allt öllum konum. Megin munurinn á persónusköpun hans og predikarans í þessu tilfelli er hins vegar sá að sá síðar nefndi er sennilega sá eini með öllum mjalla í allri myndinni, enda tekinn af lífi fyrir vikið. Allar eru sögupersónurnar meira að minna slæmar og kemur m.a. í ljós að guðhræddur bóndi sem skýtur skjólshúsi yfir leiðangursmennina hefur sjálfur nokkur mannslíf á samviskunni. Og eins og í stríðsmyndinni The Dirty Dozen villa leiðangursmennirnir á sér heimildir með því að klæðast einkennisbúningum óvinarins, en slíkt er auðvitað ekkert annað en stríðsglæpur.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Sl 23:1, Rm 12:19
Hliðstæður við texta trúarrits: 3M 24:20, Pd 3:1-11
Guðfræðistef: Drottinn, trúarofstæki, dómur Guðs, iðrun, kraftaverk
Siðfræðistef: manndráp, stríð, borgarastyrjöld, föðurlandssvik, vörn, dauðarefsing, aftaka, hefnd, friðarhyggja, gildi lífsins, ágirnd, gestrisni, stríðsglæpur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarleg embætti: predikari
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn