Kvikmyndir

Massacre Time

Leikstjórn: Lucio Fulci
Handrit: Fernando Di Leo
Leikarar: Franco Nero, George Hilton, Nino Castelnuovo, Guiseppe Addobbatti, Rina Franchetti, Lynn Shayne, Yu Tchang og Romano Puppo
Upprunaland: Ítalía
Ár: 1966
Lengd: 91mín.
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0061074
Einkunn: 2

Ágrip af söguþræði:
Gullleitarmaðurinn Tom Corbett fær skilaboð frá gömlum fjölskylduvini um að snúa heim til sín sem fyrst, en móðir hans hafði á dánarbeðinu sent hann á brott og arfleitt bróðurinn einan að landareigninni. Við heimkomuna reynist bróðirinn hins vegar áfengissjúklingur og landareignin í höndum óðalsbóndans Scotts og brjálaðs sonar hans, sem tekið hefur upp mannaveiðar í stað refaveiða og fer rænandi og ruplandi um allt byggðarlagið. Þegar gamla vinarfjölskylda bræðranna er svo myrt fyrir augum þeirra af útsendurum Scotts, taka þeir fram byssur sínar og halda á fund feðganna.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Kvikmyndin Massacre Time er ósköp hefðbundinn spaghettí-vestri en stendur þó vel fyrir sínu. Reyndar hefur hann einnig verið gefinn út undir titlunum Colt Concert, The Brute and the Beast og Django the Hunter, en á Ítalíu nefnist hann Le colt cantarono a morte e tu … tempo di massacro. Eins og í svo mörgum spaghettí-vestrum er hefndin meginþemað, en í þessu tilfelli áttar aðalsöguhetjan sig þó að lokum á því, að hlutirnir eru ekki eins einfaldir og hann hafði lengst af haldið. Ekki er samt hægt að segja að mannleg samskipti nái mikilli dýpt enda tjá menn sig mest með byssunum sínum. Hvað trúarþáttinn varðar má benda á borðbæn vinarfjölskyldunnar áður en hún verður fyrir barðinu á byssumönnum Scott-feðganna.

Siðfræðistef: hefnd, manndráp
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: borðbæn, signing