Kvikmyndir

Mies vailla menneisyyttä

Leikstjórn: Aki Kaurismäki
Handrit: Aki Kaurismäki
Leikarar: Markku Peltola, Kati Outinen, Juhani Niemelä, Kaija Pakarinen, Sakari Kuosmanen, Annikki Tähti, Anneli Sauli, Elina Salo, Outi Mäenpää, Esko Nikkari, Pertti Sveholm, Matti Wuori, Aino Seppo og Janne Hyytiäinen
Framleiðsluland: Finnland, Þýzkaland og Frakkland
Framleiðsluár: 2002
Lengd: 97
Útgáfa: VHS, pal
Hlutföll: 1.85:1
Tegund: Drama, gamanmynd
Stjörnur: 3
Umfjöllun
Ágrip af söguþræði:
„M“ missir minnið í kjölfar líkamsárásar og glatar um leið allri vitneskju sinni um sjálfan sig. Hann býr meðal utangarðsfólks í Helsinki og greinir myndin frá samskiptum hans við samborgarana og viðleitni hans til að fóta sig í samfélaginu, nafnlaus og minnislaus.

Almennt um kvikmyndina:
Þótt undirritaður hafi illu heilli ekki kynnt sér finnskar kvikmyndir fram til þessa þótti honum kvikmynd þessi sverja sig mjög í ætt við þjóðerni sitt. Andrúmsloftið er ákaflega „finnskt“ ­ ef svo má segja. Tilfinningar og samræður einkennast af stakri naumhyggju, kímnin er kaldhæðin og tónlistin angurvær blanda af finnsku tangó og ýmsum slögurum.

Umfjöllunarefni myndarinnar er sígilt í kvikmyndum og skáldskap: Samfélagið er skoðað með augum einhvers sem er utangarðs í þeirri merkingu að viðkomandi þekkir ekki leikreglur þess og samskiptaform. Oft er þar um að ræða gesti (úr öðrum samfélögum eða jafnvel öðrum heimum) sem ganga furðu lostnir um í umhverfi sem áhorfendum er kunnugt og benda um leið á galla þess, furður og mótsagnir. Í þessu tilviki er „gesturinn“ venjulegur maður sem lendir í þeim hremmingum að missa minnið og þar með allar þær forsendur sem venjulega eru teknar gefnar í daglegu lífi fólks. Þá er hún þroskasaga þar sem söguhetjunni tekst smám saman að átta sig á umhverfi sínu og sjálfri sér.

Samfélagsgagnrýni er áberandi í myndinni. Dregin er upp mynd af stéttarskiptingu og skeytingarleysi gagnvart nauðstöddum. Ópersónulegt „kerfið“ birtist e.t.v. hvað best þegar söguhetjan reynir að komast inn í samfélagið, stofna bankareikning og sækja um vinnu. Þær tilraunir eru dæmdar til að mistakast þegar hún fær í hendurnar eyðublað og getur ekki einu sinni fyllt út fyrsta reitinn: Nafn og kennitölu. Þar með lokast allar dyr.

Samborgararnir fá líka á baukinn. Eftir að söguhetjan hefur orðið fyrir líkamsárásinni í byrjun myndarinnar ranglar hún alblóðug inn á salerni lestarstöðvar, framhjá öllu því fólki sem þar stendur. Andlit þess lýsa þó hvorki hjálpsemi né samhygð, heldur viðbjóði og ótta. Hvað eftir annað varpa aðstæður mannsins ljósi á skeytingarleysið gagnvart náunganum sem setur svo sterkan svip á samfélög okkar.

Andstætt þessu stendur svo kærleikur og umhyggja einfeldninganna sem búa á jaðri samfélagins (í gámum við höfnina). Þeir una sáttir við sitt og eru ósparir á tíma sinn og takmarkað ráðstöfunarfé. Hjálpræðisherinn er að sama skapi mótvægi hins kalda kerfisbákns en meðlimir hans í myndinni verða söguhetjunni ómetanlegir. Þeir fæða hann og klæða og loks finnur hann ástina sína, Irmu, í röðum þeirra. Hjálpræðisherinn er því lykillinn að hjálpræðinu í myndinni hvernig svo sem það er skilgreint.

Smám saman vex „M“ í visku og náð. Það rennur upp fyrir honum hvað hann starfaði við, hann kemst að því hvað hann heitir, hvar hann bjó og hann hittir konuna sína ­ auk núverandi eiginmanns hennar. Það rennur hins vegar upp fyrir honum að tilvera sú sem þurrkaðist burt úr minninu var ekki svo eftirsóknarverð og persónan sem horfið hafði bak við hulu gleymskunnar var meingölluð. Hann kveður konuna og bónda hennar í sátt og snýr aftur til þeirrar tilveru er hann var þrátt fyrir allt farinn að höndla ágætlega eftir brösuga byrjun.

Umfjöllun um trúar- og siðferðisstef:
Ekki þarf slyngan guðfræðing til þess að hafa upp á trúarstefjum og tilvísunum í myndinni. Hér verða þau helstu talin upp.

Upprisa
Myndin greinir frá ósvikinni upprisu. Rétt eins og Lasarus forðum rís söguhetjan úr rekkju eftir að lífið hefur fjarað út og hjartalínuritið hefur þagnað. Vafinn sárabindum stígur hann upp úr rúminu. Bindin minna á líkreifa Lasarusar en í anda hins nauma og kalda frásagnarmáta myndarinnar víkur dramatíkin, sem atburður þessi gefur sannarlega tilefni til, fyrir kaldhæðnislegri kímni. Hann gengur að speglinum vafinn þessum reifum, tekur í nefið á sér og réttir það með ógurlegu braki. Kaurismäki gætir þess jafnan að halda frásögninni í greipum hins jarðbundna og beitir gjarnan húmornum til þess arna.

Í framhjáhlaupi má geta þess að áhorfendur myndarinnar á sýningarkvöldi DEC kvörtuðu undan því að undirtónn og tvíræðni í orðalagi færu vafalaust fyrir ofan garð og neðan hjá þeim sökum slakrar finnskukunnáttu. Líklega geyma samtöl myndarinnar og jafnvel skilti og orð á götum úti margs konar skilaboð sem gætu dýpkað skilning manna á myndinni. Hvaða stafir eru það til að mynda sem standa skrifaðir á jörðina snemma í myndinni þar sem söguhetjan situr og horfir út á hafið? „GND“, „GUD“ eða eru þetta einhverjar alvanalegar merkingar á finnskum bryggjum?

Hvað um það, upprisu Lasarusar er lýst með blendnum tilfinningum í Jóhannesarguðspjalli. Systur hans og aðrir sjónarvottar kvarta undan nályktinni sem af honum stendur og útliti hans eftir nokkra legu í gröfinni. Þarna er e.t.v. verið að vekja sömu hughrif, þar sem hinn yfirnáttúrulegi atburður verður ógeðfelldur í sömu andrá. Og myndin snýst öðrum þræði um þetta vandamál: hvað hefur það í för með sér að rísa upp frá dauðum? Er það hamingja og lán eða getur það jafnvel valdið hinum upprisna vítiskvölum sem hann hefði verið ósnortinn af hefði hann mátt hvíla óhreyfður í faðmi dauðans? Hefði hann verið betur settur þar?

Ef vel er að gáð sést að söguhetjan rís upp í þrígang eftir líkamsárásina. Fyrst eftir að ódæðismennirnir eru komnir á braut, þá á spítalanum og loks í fjörunni er hann hefur „útskrifað“ sig frá spítalanum. E.t.v. er þessi þrefalda upprisa höfð til þess að undirstrika það hversu algild og fullkomin upprisa hans er.

Endurfæðing
Upprisan í myndinni leiðir hugann að öðru guðfræðilegu hugtaki sem segja má að komi í kjölfar þess að söguhetjan öðlast „nýtt líf“. Það vakti athygli hópsins sem horfði á myndina að læknirinn sagði við hjúkrunarfræðinginn eftir að hann hafði lýst söguhetjuna látna að nú þyrfti hann að fara í líkhúsið til þess að aðstoða við fæðingu. E.t.v. reynir þýðandinn með þessu súrrealíska orðalagi að fanga í íslensku einhvern finnskan orðaleik en skilaboðin voru gripin á lofti meðal okkar guðfræðinganna. Mátti eiga von á fæðingu í myndinni, endurfæðingu og fæðingarhríðum? Jú, mikil ósköp. Þjáningar hans og niðurlæging eru undanfari þess að hann öðlast nýja sjálfsmynd og nýja tilveru. Hann fæðist upp á nýtt sem nýr maður.

Endurfæðingin er sígilt lútherskt trúarstef og er sérstaklega áberandi í boðun heittrúarhópa og vakningarsafnaða (eins og Hjálpræðishersins). Í myndinni þarf „M“ að læra á nýjan leik þær leikreglur sem samfélagið krefst af þegnum sínum og þarf að vinna sig upp úr lægstu stigum þess. Hann byrjar nánast sem óskrifað blað og þegar hann fær að kynnast því hver hann raunverulega var áður en á hann var ráðist snýr hann baki við þeirri tilveru. Hann ber engan kala til nýja eiginmanns konunnar og gerir ekkert tilkall til húsins eða eignanna. Hann kýs sjálfur hið einfalda og fábrotna líf sem hann hefur átt með Irmu og gámafólkinu.

Gervi
Er „M“ Jesúgervingur? Margt rennir stoðum undir þá túlkun. „Hinn líðandi þjónn““ (sbr. Jes. 52:13-15, 53:1-12) eða Kristur píslarsögunnar koma oft í hugann þegar horft er á myndina. Söguhetjan er svo bjargarlaus þar sem hún ráfar um á milli fólks, í fyrstu með sárabindi um höfuðið og brothætt. Eftirtektarverð í þessu sambandi eru orð leigusalans er hann leigir honum, kolólöglega, gámkumbalda til búsetu. Hann segir eitthvað á þá leið að ef einhver tengi það saman að „M“ skuli búa þarna í trássi við lög og reglugerðir þá muni leigusalinn ekki vilja við hann kannast: „Og mun ég afneita þér þrisvar“segir hann í því sambandi (Mt 26:75). Sjálfur segist leigusalinn vera „svipa Guðs“ og hótar honum með hundinum Hannibal ­ en reynist svo við frekari kynni vera gæðablóð og hundspottið sauðmeinlaust með öllu.

Viðbrögð fólks við hjálparbeiðni „Ms“ leiða í ljós gæði þess og mannkosti en um leið má sjá ­ ekki síst er líður á myndina ­ hversu djúpstæð áhrif „M“ sjálfur hefur á viðmælendur sína og samferðamenn. Hann dregur fram hið góða, fyrirgefningin er allt um kring og m.a. tekur hann sér í munn orð sem minna á gullnu reglu Krists: „Elskið hvert annað eins og þið gætuð elskað ykkur sjálf.“ Þetta segir hann í einu af síðustu atriðunum er hann kveður fyrrverandi eiginkonu sína og mann hennar. Í lokin kemur í ljós að hann hefur haft gríðarmikil áhrif á alla í kringum sig.

Þær lyktir sögunnar blasa þó ekki við framan af myndinni. Fyrri hluta sögunnar ber hann merki árásarinnar. Hann er vafinn á höfði og haltrar um. Hann nýtur engrar virðingar og menn ganga ýmist yfir hann eða virða ekki viðlits. Þessi umbreyting úr skjólstæðingi í áhrifavald minnir á orð Krists um að allt það sem menn geri hans minnstu bræðrum það geri þeir honum.

Leikstjórinn gefur ýmis tilefni til túlkunar. Myndskeiðin eru fagurlega uppbyggð og víða virðist gripið til myndræns líkingarmáls þar sem himinn, haf, vegur, tré og fleira eru ráðandi á myndfletinum. Vert er að gefa gaum einu atriði þar sem Irma, unnusta hans, situr við glugga og í gluggakistunni er Maríulíkneski. Eitt andartak snýr hún höfðinu með sama hætti og er á líkneskinu svo svipur þeirra verður sá sami. Hvaða hlutverki gegnir Irma í þessu sambandi, þar sem hún er þolinmæðin og trúfestin uppmáluð? Sálmar Hjálpræðishersins fá drjúgan tíma og mega áheyrendur hlýða á boðskap þeirra um afturhvarf, synd, fyrirgefningu og miskunn Guðs. Þá er vert að gefa því gaum að sagan gerist rétt fyrir Jónsmessu sem helguð er Jóhannesi skírara. Sólin verður senn hæst á lofti og birtan allsráðandi á norðurhveli.

Fjallræðan
Þær aukapersónur sem stærstan sess skipa í myndinni fengu undirritaðan oft og einatt til þess að leiða hugann að hugtakinu „Fjallræðufólk“ sem Halldór Laxness notaði yfir margar af sínum þekktustu sögupersónum. Hann velti tíðum vöngum yfir því hvernig þeir myndu spjara sig í sem lifðu eftir þeim orðum Krists að menn ættu að líta til fugla himins og lilja vallanna sem sá hvorki né spinna en þó prýðir faðirinn þau með fegurra skarti en Salómon í allri sinni dýrð. Fólkið í gámunum og í Hjálpræðishernum er þessu marki brennt. Það virðist ekki þjakað af áhyggjum og stressi yfir hverfulum lífsgæðum heldur lifir það áhyggjulaust en fullt umhyggju undir himni skaparans, rétt eins og fuglar himins og liljur vallarins.

Miskunnsami Samverjinn
Loks ber að fara fáum orðum um siðaboðskap myndarinnar. Miskunnsami Samverjinn kom okkur guðfræðingunum sem sáum myndina einatt í hugann. Skeytingarleysi kallast á við umhyggju. Kæruleysið mætir kærleikanum hvað eftir annað í myndinni. Í fyrstu er „M“ í hlutverki þess sem barinn var niður í dæmisögunni og leitar ásjár þeirra sem mæta honum á leið sinni. Viðbrögðin verða ekki betri en raunin varð með prestinn og levítann í sögunni. Fátæklingarnir koma honum hins vegar til hjálpar. Seinna í myndinni er það „M“ sjálfur sem gengur á undan með góðu fordæmi. Hann reisir fólk við og kemur því út úr sjálfheldu og kreppu.

Að lokum
Í mynd þessari úir allt og grúir af trúarlegum tilvísunum. Hvort leikstjórinn skellihlæi að þessu öllu saman eins og leikstjórar Matrix myndanna gera að sögn skal ósagt látið um. Margt kann að vera sett fram í kaldhæðni með sama hætti og þegar Halldór Laxness lék sér með biblíulegar tilvísanir. Jafnan bera þó efnistökin með sér að höfundur bera mikla hlýju í garð hins trúarlega bakgrunns. Þótt einfeldningar og hjálpræðishermenn séu svolítið kómískir í sakleysi sínu er umhyggjan í garð þessara persóna ósvikin. Fyrirgefning og virðing fyrir mönnum og dýrum skín í gegnum myndina og sú mannlega reisn sem hverfur ekki þótt önnur veraldargæði séu víðsfjarri er rauður þráður sem lifir myndina á enda.

Lykilorð
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Biblían, Mt 26:75, Órannsakanlegir vegir Guðs
Hliðstæður við texta í trúarritum: Jes. 52:13-15, 53:1-12, Mt 5:3-10, Mt 6:25-34, Lk 10:30-35
Persónur úr trúarritum: Satan, Guð, Jesús, María, Jóhannes skírari
Guðfræðistef: Synd, fyrirgefning, upprisa, endurfæðing, afturhvarf, hjálpræði, heilagleiki, líknarstarf, græðgi, dauðasynd, dómur, sakleysi, miskunn
Siðfræðistef: ofbeldi
Trúarbrögð: Hjálpræðisherinn
Goðsögulegir staðir og helgistaðir: kirkja, kirkjuturn, Hjálpræðishersverslun
Trúarleg tákn: Maríumynd, Hjálpræðishersbúningur
Trúarembætti: Hjálpræðishermaður
Trúarlegt atferli: sálmasöngur, boðun fagnaðarerindisins, hljóðfæraleikur
Túarlegar hátíðir og sögulegir atburðir: Jónsmessa
Trúarleg reynsla: endurfæðing, afturhvarf