Kvikmyndir

Miracle on 34th Street

Leikstjórn: Les Mayfield
Handrit: George Seaton og John Hughes, byggt á gamalli samnefndri kvikmynd frá árinu 1947 sem gerð var af George Seaton eftir sögu Valentine Davies
Leikarar: Richard Attenborough, Elizabeth Perkins, Dylan McDermott, Mara Wilson, J T Walsh, James Remar, Robert Prosky og Joss Ackland
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1994
Lengd: 114mín.
Hlutföll: 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Hin sex ára gamla Susan (Mara Wilson) á þá ósk heitasta á jólunum að eignast föður, bróður og hús. Þegar jólasveinn (Richard Attenborough) þakkargjörðarskrúðgöngu Cole´s verslunarkeðjunnar blikkar til hennar auga, ögrar hann efasemdum hennar um tilvist jólasveinsins og fyllir hjarta hennar von um að hann geti gefið henni í jólagjöf það sem hjarta hennar þráir mest. Susan sem hafði sætt sig við að draumur hennar ætti einungis heima á ljósmynd í lokuðu skríni, sér brátt að trúin ein getur látið óskir rætast.

Almennt um myndina:
Miracle on 34th Street er endurgerð samnefndrar kvikmyndar frá árinu 1947. Myndin er ein af þessum vel heppnuðu klassísku jólamyndum sem enginn má missa af að horfa á hver einustu jól bara til að minna sig á tilgang og kærleiksboðskap jólanna.

Kvikmyndatakan gerir þessa mynd klassíska eins og ætlunin var greinilega, að búa til tímalausa jólamynd sem hægt er að sýna hvert ár án þess að fólk geri athugasemd við klæðaburðinn eða margt annað sem breytist með tímanna rás. Það er mikið um flottar tökur þar sem samspil ljóss og skugga myndar ramma eins og málverk, t.d. þegar Kriss Kringle situr á geðsjúkraheimilinu þá er varpað á hann skæru ljósi og umhverfið verður svolítið dularfullt og hann situr þarna hvíthærður í hvítum fötum og líkist á vissan hátt þeirri mynd sem er algengast að mennirnir sjá fyrir sér sem Guð. Það er einhver viss dýrðarljómi yfir honum og þó svo að sorgin sé þarna allsráðandi þá er ljósið tákn um vonina um hið góða.

Handritið er ágætt en það vantar kannski meiri skerpu í það svo fullorðnir geti haft meira gaman af henni en annars er þetta hlýleg mynd sem yljar manni um hjartaræturnar og fær mann til að vilja „Trúa”. Það er þó fyrst og fremst stórleikur Richard Attenborough sem glæðir myndina töfrum sínum svo að maður trúir því að hann sé jólasveinninn frá því að hann sést fyrst í myndinni. Mara Wilson er stórskemmtileg og hún fer einkar vel með sitt hlutverk og má segja að þó flestir leikaranna komist ágætlega frá sínum hlutverkum þá sé samspil Attenborough og Wilson það sem skapar skemmtilegustu og hlýjustu atriðin.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
TrúarhugmyndinJólasveinninn kemur fólki helst fyrir sjónir sem þéttvaxinn, gráhærður og skeggjaður eldri maður sem gengur um í rauðum búning, brosandi með rauðar bollukinnar. Þessi indæli maður er þekktur fyrir að ylja börnum um hjartarætur á aðventunni með því að spyrja þau hvers þau óska sér helst í jólagjöf og vekur hjá þeim von um að ósk þeirra rætist, jafnvel ósk sem krefst kraftaverks. Jólasveinninn er því uppáhald allra barna á jólunum og hann er stór þáttur af hátíðinni í vestrænum samfélögum.

Trúna á jólasveininn má rekja til heilags Nikulásar í Mýru í Litlu Asíu á 4. öld. Heilagur Nikulás hefur verið einn af frægustu dýrlingum rómversk -kaþólsku kirkjunnar og hinnar grísk – kaþólsku. Sögnin segir að hann hafi gefið börnum gjafir og honum hefur verið eignuð hin ýmsu kraftaverk sem væntanlega er rótin af hugmyndinni um jólasveininn.

Hugmyndin af jólasveininum getur verið misjöfn eftir samfélögum eins og t.d hér á Íslandi höfum við 13 prakkara sem jólasveina, en algengast er talað um hinn eina sanna jólasvein eða hinn bandaríska jólasvein sem oftast gengur undir nafninu Santa Klaus eða Kris Kringle. Þessi þjóðsagnarpersóna barst frá Evrópu til Bandaríkjanna og hefur verið talað um hann sem eins konar samsuðu úr heilögum Nikulási og Jesúbarninu og þannig hefur nafnið Kris Kringle orðið til sem afbökun á þýska nafninu Christkindlein (vísindavefurinn). Árið 1804 var sögufélag New York stofnað og Nikulás valinn verndardýrlingur þess og eftir því sem leið á 19. öldina fór heilagur Nikulás að gegna æ stærra hlutverki í jólahaldi Bandaríkjamanna. Hugmyndin um Santa Claus var orðin útbreidd um aldamótin 1900 og um 1920 komin endanleg mynd á hann eins og hann kemur okkur fyrir sjónir í dag.

Trúin á jólasveininn á ýmislegt sammerkt með trúnni á Jesú Krist. Jesús er góður maður sem aumkar sig yfir þá sem minni máttar eru í samfélaginu t.d. börn. Hann gaf fólkinu mat og huggaði það, jafnvel með kraftaverkum. Jesús gaf mönnunum stærstu gjöfina, hann gaf okkur líf sitt svo við gætum öðlast eilíft líf. Jólasveinninn á eilíft líf, enginn veit aldur hans og hann getur verið mörg hundruð eða jafnvel mörg þúsund ára gamall maður. Hann býr inn í eilífðinni sem er ekki af okkar heimi en kemur inn líf okkar sem kraftaverk. Hann lifir í kærleikanum með því að gefa von og hamingju eins og Jesú sjálfur. Þannig tengist hann jólunum og boðskap jólanna sem fagnaðarerindisins um fæðingu frelsara okkar sem lá í jötu og fékk gjafir frá vitringum. Kærleikur jólasveinsins nær ekki einungis til manna heldur líka til málleysingja. Sá einstaklingur sem getur talað við dýrin hlýtur að vera af einhverri annarri tilvist en við mennirnir og þar kemur trúin inn í. Trúin á það sem við ekki þekkjum eða sjáum en treystum á að veiti okkur kærleika er eitthvað sem við getum ekki kastað vísindalegum sönnum á og um það er einmitt talað í þessari mynd þar sem jólasveinninn þarf að gangast undir rétt til að sanna tilvist sína fyrir mannkyninu rétt eins og Jesú gerði þegar hann var krossfestur og reis upp frá dauðum. Kris Kringle sannaði tilvist sína sem boðberi kærleikans og vonarinnar í hjörtum barnanna.

Boðskapur myndarinnarHinn fallegi boðskapur myndarinnar er trúin, kærleikurinn og traustið. Ekki bara kærleikur trúarinnar og traustið á tilvist jólasveinsins heldur líka á kærleika mannanna hvers til annars og þar skiptir máli að treysta hvert öðru og leyfa sér að þykja vænt hvort um annað. Í myndinni upplifir móðirin vantraust á jólasveininn og manninn sem hún elskar, henni finnst hún hafa verið svikin af jólasveininum í æsku og seinna barnsföður sínum og getur ekki leyft sér að sýna hlýju eða trúa á hlýju annarra gagnvart sér. Með boðskapi sínum breytir Kris Kringle sýn hennar á lífið og fyllir hjarta hennar hlýju og hamingju. Allir hafa orðið fyrir vonbrigðum í lífinu og margir finna sig jafnvel í sporum hinnar sex ára gömlu Susan sem á sér stóran draum og þráir ekkert heitar en að hann rætist. Það fá ekki allir óskir sínar uppfylltar, en myndin gefur manni von um að ef maður trúir nógu heitt á að kraftaverk gæti gerst þá er aldrei að vita nema maður fái ósk sína uppfyllta jafnvel með því að treysta náunganum og vera í kærleiksríku sambandi við fólkið í kringum mann því manni er allt gefið ef hamingjan býr í hjarta manns því við vitum öll að sá sem á alla hluti er ekki endilega hamingjusamur það er hins vegar sá sem hefur hlýju í hjarta sínu og býr að góðum samskiptum við persónurnar sem eru í kringum hann.

Máltakið „Trúin færir fjöll” fær í þessari mynd góðan meðbyr þar sem Litla stúlkan fær í enda myndarinnar ósk sína uppfyllta, eftir að hafa öðlast fulla trú á því að jólasveinninn væri raunverulegur, og það er ekki einungis stúlkan sem öðlast trúna á hann heldur einnig fólkið sem vildi honum allt illt í byrjun myndarinnar og hafði sig allt til við að sanna að hann væri ekki raunverulegur. Þetta fólk snérist til betri gilda í enda myndarinnar eftir að það hafði opinberað barmmerki sín sem á stóð „I belive” eða „Ég trúi”.Í þessu er sigur trúarinnar fólginn. Kris Kringle vissi örlög sín eins og Jesú vissi sín. Hann vissi að frelsið væri í nánd og þaðan gat hann látið allar óskir þeirra sem á hann trúa rætast. Ef Jesú hefði ekki sannað tilvist sína og risið frá dauðum þá væru jólin ekki haldin hátíðleg, sama á við um jólasveininn, því jólin án hans eru óhugsandi í augum barnanna.

Trúar- og siðferðisstefEina vísun myndarinnar er í raun og veru píslarganga Jesú Krists. Jólasveinninn þarf að ganga í gegnum réttarhöld til að sanna tilvist sína. Við réttarhöldin mætir hann mörgum efamönnum sem hafa reynt að nota vísindin til að finna sönnur á heimi hans og tilvist en vísindin náðu ekki inn á það svið. Fólk skiptist algerlega í tvo hópa: Trúaða og trúlausa. Í lok myndarinnar sigrar trúin þegar þeir sem hafa verið trúlausir í gegnum myndina og látið blindast af vísindum og efnishyggju opinbera trú sína. Táknin sem þar eru notuð eru barmmerki (I belive) og dollaraseðill ( In God we trust). Fólkið safnast saman a götum úti og er orðið einhuga í trúnni.

Spurningin um hvað sér raunverulegt og hvað sé það ekki kemur skýrt fram í myndinni. Er jólasveinninn raunverulegur? Er raunhæft að hann geti talað við dýrin og flogið í kringum jörðina á einni nóttu og sett gjafir í alla sokka? Getur hann gert kraftaverk með því að láta allar óskir rætast? Ef hann getur gert kraftaverk er hann þá mannlegur eða er hann af einhverjum allt öðrum toga en við? Þessar spurningar fara oft í gegnum huga fólks þegar það efast um trúna á sjálfan Guð. Trúin felur í sér traust, kærleika og von og sigur hennar felst í því að fólk haldi þeim siðferðislegu gildum sem hún hefur sett mönnunum og geti leitt þá í að lifa í kærleika hver með öðrum því það gefur okkur mátt til að sigrast á öllu og öðlast það sem okkur er mikilvægast, hamingju.

Efinn er tekin fyrir og sést það best þegar við skoðum hvaða hug móðirin ber til jólasveinsins og hvaða viðhorf hún hefur kennt dóttur sinni gagnvart honum og jólunum. Hún fer ekki með borðbæn og hún kennir henni að jólasveinninn sé leikari. Skoðun hennar mótaðist þegar hún var sjálf lítil stelpa og fór að efast um tilvist jólasveinsins og fékk ekkert í sokkinn þau jólin og sannfærðist þá um að hann væri ekki raunverulegur. Hún treystir ekki á trúna á Guð því henni finnst hún hafa verið svikin í lífinu t.d. af barnsföður sínum og hafi ekki hlotið neina hjálp frá Guði. Traust hennar á sinn eigin mátt er algert og hún hefur komið sér í góða stöðu hjá fyririrtækinu sem hún vinnur hjá en á kostnað allrar hamingju, einnig hamingju dóttur sinnar sem þráir ekkert eins mikið og föður, hús og bróður.

Siferðisstefin eru mörg en koma helst völdum og peningum við. Efnishyggjan er allsráðandi og fólk svífst engskins til að öðlast peninga og völd jafnvel með því að ljúga og koma rangr sök á saklausann gamlann mann. Hrokinn og öfundin glampar í augum þeirra mann sem ætla að kollvarpa þessum boðbera kærleiks og friðar á jólum. Þar má kanski finna samstöðu við gyðingana sem vildu láta krossfesta Jesú, sem svo snérust til trúar eins og þeir sem vildu láta læsa Kriss Kringle inni á hæli.

Hliðstæður við texta trúarrits: Kærleiksboðorðið
Persónur úr trúarritum: Guð, Jesús
Guðfræðistef: Trú, von og kærleikur
Siðfræðistef: Peningar, svik, öfund, hroki, lygi
Trúarbrögð: Kristin trú
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: Kirkja
Trúarleg tákn: Dollaraseðillinn „In God we trust“, Barmmerki „I belive“, trúarjátning, Biblían
Trúarleg embætti: Prestur, jólasveinninn
Trúarlegt atferli og siðir: Vísun í píslargönguna, hjónavígsla
Trúarlegar hátíðir, sögulegir atburðir: Þakkargjörðarhátíðin, Aðventan, Aðfangadagur, jóladagur
Trúarleg reynsla: Kraftaverk, bæn, bænasvar