Kvikmyndir

My Darling Clementine

Leikstjórn: John Ford
Handrit: Samuel G. Engel, Sam Hellman og Winston Miller, byggt á sögunni Wyatt Earp, Frontier Marshal eftir Stuart N. Lake
Leikarar: Henry Fonda, Linda Darnell, Victor Mature, Cathy Downs, Walter Brennan, Tim Holt, Ward Bond og Alan Mowbray
Upprunaland: Bandaríkin
Ár: 1946
Lengd: 97mín.
Hlutföll: 1.33:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Myndin segir frá Wyatt Earp og bræðum hans sem gerast löggæslumenn í smábænum Tombstone eftir að yngsti bróðurinn er drepinn í nágreni við bæinn. Bræðurnir eiga í stigvaxandi útistöðum við Clanton-feðga sem endar með uppgjöri við OK-réttina.

Almennt um myndina:
Goðsögnin um Wyatt Earp og uppgjör hans við Clanton-feðga við OK-réttina er vel þekkt og hluti af sagnahefð Bandaríkjamanna. Hún er byggð á raunverulegum atburðum sem áttu sér stað í bænum Tombstone í Arizona-fylki árið 1881. Sögnin hlýtur að höfða sterkt til þjóðarsálarinnar vestra, því að uppgjörið við réttina í Tombstone hefur sennilega verið kvikmyndað oftar en nokkur annar einstakur atburður í sögu bandarísku þjóðarinnar, m.a. af meistara John Ford í myndinni sem hér er til umfjöllunar.

My Darling Clementine er ekki heimildarmynd. Leikstjóranum John Ford er meira í mun að skapa trúverðugar persónur og útskýra gjörðir þeirra með mikilli hlýju en að fylgja réttri atburðarás eftir í smáatriðum. Myndin minnir jafnvel meira á melankónískt ljóð um mannleg örlög en frásögn með heilsteyptum söguþræði. Þrátt fyrir að John Ford hafi kynnst Wyatt Earp persónulega og heyrt um atburðina í Tombstone frá fyrstu hendi velur hann að einfalda söguna þannig að það eina sem eftir stendur er kjarni hennar, barátta góðs og ills eða kannski öllu heldur afhverju sú barátta er háð. Það er því persónusköpunin en ekki sagan sem knýr kvikmyndina áfram. Persónur sínar skapar John Ford með einföldu myndmáli og litlum texta. Það var einmitt einkenni á öllu höfundaverki Johns Fords að myndmálið, ekki texti, var látið segja söguna ásamt dramatískri framvindu. Hann hélt því fram að þannig væri hinn hreini tónn kvikmyndanna sleginn. (Lindsay Anderson: About John Ford, McGraw-Hill Book Company, 1981, bls. 191-210.)

Í fyrsta atriði myndarinnar kynnumst við Wyatt Earp og bræðrum hans sem eru að reka nautgripahjörð vestur á bóginn. Þeir eru komnir á lítið numið svæði þar sem frelsið ríkir eða kannski öllu heldur lögleysan, allt eftir því hvernig á það er litið. Allir myndvínklar sem teknir eru af þeim bræðrum eru neðan frá og upp. Þeir eru settir á stall. Frjálsar hetjur í Guðs eigin landi. En Adam er ekki lengi í Paradís. Á vegi bræðranna verða Clanton-feðgar. Tónlistin ein og sér nægir til þess að áhorfandinn dregur þá ályktun að feðgarnir boða ekki gott. Það á því ekki að fara fram hjá neinum hver er hetja myndarinnar og hverjir skúrkar. (Við greiningu á framvindu myndarinnar studdist ég við skýringar Scott Eyman sem fylgja með á DVD útgáfu 20th Century Fox á myndinni. Scott Eyman er höfundur bókarinnar Print the Legend : The Life and Times of John Ford.)

Í næsta atriði fylgjumst við með Earp-bræðrum undirbúa afdrifaríka bæjarferð til Tombstone. Tilgangur atriðisins er m.a. að kynna yngsta bróðirinn í hópnum. Hann á að verða eftir og gæta nautgripanna á meðan eldri bræður hans fara í kaupstaðinn. Drengurinn er sakleysið uppmálað. Til þess að undirstrika það, dregur drengurinn fram kross og sýnir bræðrum sínum. Krossinn hefur hann hefur keypt handa unnustu sinni sem bíður heima í festum. Þegar eldri bræðurnir kveðja dvelur myndavélin lengi á þeim yngsta. Það á eftir að koma í ljós að hann er að kveðja bræður sína í síðasta sinn. Með þessu skoti er engu líkara en John Ford vilji segja okkur að ef ekki væri fyrir reynslumeiri syndaseli, gæti þetta góðmenni ekki lifað lengi í þessum heimi.

Eldri bræðurnir fara til bæjarins Tombstone, þar sem lögleysan ríkir. Ford áréttar að bræðurnir eru utangátta í þessu samfélagi og vilja ekkert með það hafa, frekar en Abraham Sódómu forðum daga. „I’m just passing throw, trying to get me a relaxing little shave,“ er svar hans þegar örvæntingarfullir bæjarbúar bjóða honum stöðu fógeta í þessu róstursama samfélagi.

Þegar bræðurnir koma aftur á náttstað er búið að ræna nautgripum þeirra og myrða yngsta bróðurinn. Þetta er áhrifaríkt atriði. Við sjáum aldrei andlit bræðranna í reiði eða sorg. Í staðinn sýnir John Ford okkur nokkur drungaleg myndskeið í hellirigningu; tóma hestakerru, matarílát á borði í rigningunni og hest hins látna bróðurs með tóman hnakk. Hina eftirlifandi bræður sjáum við einungis aftanfrá. Áhorfandinn á sjálfur að upplifa sorgina og söknuðinn. Eftir heldur neikvæða kynningu á Clanton-feðgum í upphafsatriðinu er áhorfandinn viss í sinni sök. Það eru þeir sem bera ábyrgðina á þessu ódæði. Wyatt Earp ríður aftur til Tombstone, þiggur fógetastöðuna og ræður eftirlifandi bræður sína sem aðstoðarmenn. Markmiðið er skýrt. Hefnda skal leitað.

John Ford beinir nú athygli okkar frá Clanton-feðgum og óhjákvæmilegu uppgjöri þeirra við Wyatt Earp og kynnir Doc Holliday til sögunnar. Við fyrstu sýn er hann hættulegur byssumaður og fjárhættuspilari sem öllum stendur ógn af. Smátt og smátt kemur í ljós að hann er á flótta undan einhverju í fortíð sinni í hinum siðvæddu austurfylkjum Bandaríkjanna. Leið hans vestar og vestar út í auðnina er vörðuð gröfum manna sem hann hefur drepið í byssueinvígjum. Hann glímir þar að auki við berkla sem valda heiftarlegum hóstaköstum þegar verst stendur á.

Doc Holliday og Wyatt Earp virðast vera andstæður. Doc Holliday er svarti sauðurinn í fjölskyldu sinni sem er á góðri leið með að drekka sig í hel í krummaskuði í villta vestrinu. Wyatt Earp er með hærri markmið en kemst ekki frá Tombstone fyrr en hann hefur lokið ætlunarverki sínu. Báðir virka þeir utangátta. Kannski er það einmitt það sem gerir þá að vinum.

Persóna Doc Holliday fær kjöt á beinin í einu af lykilatriðum myndarinnar þegar farandleikari kemur til Tombstone. Til stendur að halda leiksýningu í menningarsnauðum smábænum. Á meðan bæjarbúar bíða spenntir eftir leikaranum í samkomuhúsinu neyða Clanton-feðgar hann til þess að sýna kúnstnir á kránni. Leikarinn velur að flytja einræðuna frægu úr Hamlet við litla hrifningu vanþakklátra Clanton-feðga. Rétt í þann mund sem þeir ákveða að nú sé nóg komið og að kannski væri skemmtilegra að sjá leikarann dansa við undirspil sexhleypu en að hlusta á Shakespeare, koma Wyatt og Doc honum til bjargar. Lesturinn heldur áfram og á áhrifaríkan máta botnar Doc Holliday eintal Hamlets þegar leikarinn strandar í textanum:

„[Hver mundi stynja þungan og móður sveitast undir lífsins oki, ef geigurinn við eitthvað eftir dauðann,]… ókannað land sem enginn ferðalangur snýr aftur frá, næði ekki að glepja viljann og láta oss fremur lúta vorri þraut en flýja á náðir hinnar sem er hulinn? Já, heilabrotin gera oss alla að gungum …“ (William Shakespeare: Hamlet, í þýðingu Helga Hálfdánarsonar, Heimskringla 1970.)

… og lengra kemst hann ekki í textanum. Hann fær heiftarlegt hóstakast og verður að draga sig í hlé. Þetta er magnað augnablik og afgerandi í persónusköpun Docs Hollidays en um leið hálfgerður fyrirboði um örlög hans. Atriðið þjónar líka öðrum tilgangi. Með því dregur John Ford upp mynd af leikara sem kemur með fegurðina með sér út í auðnina í formi eintals eftir Shakespeare. (Leikarinn er gerður hégómagjarn og næstum grátbroslegur. Ford tjáði sig oft um andúð sína á tilgerðinni sem stundum er fylgifiskur hina svokallaðra æðri lista.) Doc og Wyatt Earp skynja það báðir og sameinast um að vernda hana gegn ruddaskap Clanton-feðga.

Myndin er rúmlega hálfnuð þegar við kynnumst loks persónunni sem myndin dregur nafn sitt af, Clementine Carter. Hún er persóna úr fortíð Doc Hollidays og hefur farið um öll vesturfylki Bandaríkjanna í leit að honum áður en hún finnur hann loks í Tombstone. Þegar hún kemur til bæjarins fylgir myndavélin henni eftir inn á herbergi hans. Í ljós koma gamlar myndir af yngri og saklausari Doc og á borðinu stendur læknataska. Taskan hefur staðið óhreyfð í nokkurn tíma og verður eins og tákn um glataða mennsku hans. Þegar leiðir Docs og Clementine liggja loks saman hafnar Doc henni blákalt. Tombstone er ekki staður fyrir manneskju eins og hana. ­„The man you once knew is no more. There’s not a vestige of him left. Nothing.“ Eftir fund þeirra fer Doc á herbergið sitt. Þar horfist hann í augu við ásakandi spegilmynd sína endurspeglast í skólaskírteini sem hangir í ramma á veggnum. Hann hendir viskíglasi í skírteinið fullur af bræði og sjálfsásökun. Einfalt myndmál og áhrifaríkt. Á hliðarlínunni bíður Chihuahua, ástkona Docs í Tombstone, og vonar að Clementine taki ekki elskhuga sinn frá sér.

Lykilatriði í persónusköpun Wyatts Earps gerist á sunnudagsmorgni í Tombstone. Við heyrum kirkjuklukkurnar hringja og sjáum bæjarbúa streyma til messu. Clementine Carter fær Wyatt Earp til þess að fylgja sér. Áður hefur komið fram að Clementine hefur vakið einhverjar tilfinningar í brjósti fógetans. Mikilvægi atriðisins er undirstrikað af leikstjóranum með því að láta myndavélina hreyfast með parinu þegar það gengur til kirkju. Fram að þessu hafa öll skot verið tekin á þrífæti. Tæknin verður áhrifarík þegar hún er notuð sparlega! Þau ganga til móts við hljóm kirkjuklukknanna og sálmasöngs sem við heyrum í fjarska. Þegar klippt er á kirkjuna kemur í ljós að hún er ennþá í byggingu. Fokheldur kirkjuturninn gnæfir yfir auðninni og teygir sig mót himni. Þetta er það sem knýr Wyatt Earp áfram. Ekki hefnd hefndarinnar vegna, heldur fyrirheit um það sem koma skal þegar heiðarlegt fólk í Tombstone getur farið til kirkju á sunnudegi án þess að eiga það á hættu að verða fyrir áreiti byssumanna. Helgihaldið er einfalt í sniðum. Söfnuðurinn hefur ekki prest þannig að Guð er lofaður með heilmiklum dansleik.

Uppgjörið nálgast. Earp bræður fá loksins sannanir fyrir sekt Clanton-feðga. Sönnunargagnið er krossinn sem yngsti bróðurinn sýndi með stolti í upphafi myndarinnar. Réttlætir sigrar við OK-réttina en ekki án fórnarkostnaðar. Í valnum liggja Doc Holliday og ástkona hans, Chihuahua. Í lokaatriði myndarinnar kveður Wyatt Earp Tombstone og Clementine Carter sem hefur ákveðið að verða eftir og gerast kennslukona bæjarins og sér þannig vonandi til þess að siðmenningin fái dafnað þar. Kannski snýr Wyatt aftur til hennar. Hver veit?

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Í myndinni eru tvær áberandi beinar vísanir í texta Biblíunnar. Þegar leiðir Wyatts og Docs Hollidays liggja saman í fyrsta sinn á krá í Tombstone, eiga þeir eftirfarandi samtal:

Doc: „Plan on staying here long?“
Wyatt: „A while.“
Doc: „Till you catch the rustlers that killed your brother?“
Wyatt: „That’s the general idea.“
Doc: „What’s the specific idea?“
Wyatt: „I don’t follow you quite.“
Doc: „You haven’t taken into your head to deliver us from all evil?“
Wyatt: „I hadn´t thought of it quite like that, but it ain’t a bad idea.“

Þarna er að sjálfsögðu um að ræða vísun í faðirvorið úr fjallræðu Jesú í Matteusarguðspjalli, 6. kapitula, 9.-13. versi. Í lok myndarinnar, eftir uppgjörið við réttina, segir Wyatt Earp við Clanton gamla: „I ain’t gonna kill you. I hope you live a hundred years … feel just a little what my pa’s gonna feel. Now get out of town! Start wanderin’!“ Þarna er vísað í söguna um Kain og Abel í 1. Mósebók, 4 kapitula, 12 vers: „Landflótta og flakkandi skalt þú vera á jörðinni.“ Þrátt fyrir að þessar vísanir gegni ekki afgerandi hlutverki í framvindu myndarinnar eru þær engu að síður forvitnilegar fyrir þá sem velta fyrir sér áhrifasögu trúartexta. Vægi þessara tilvísana felst í því hvernig þær eru tengdar Wyatt Earp, hetjunni sem kemur á lögum og reglu í siðlausu samfélagi þar sem hið illa hefur fengið að þrýfast. Earp verður eins og fulltrúi Guðs á svæðinu, gefið er í skyn að hann komi til með að frelsa bæjarbúa frá illu og undir lokin þegar hann hefur lagt bófagengið að velli kemur hann fram eins og Guð sjálfur í syndafallssögunni þegar hann úthýsir morðingjanum úr mannlegu samfélagi eins og Kain í stað þess að taka hann af lífi. Eina ástæðan fyrir því að Clanton gamli er að lokum felldur er sá að hann tekur Kain sér ekki til fyrirmyndar heldur grípur til byssunar og því þarf að skjóta hann í sjálfsvörn.

Það er líka forvitnilegt að velta fyrir sér hliðstæðu persónu Docs Hollidays við persónu týnda sonarins sem sagt er frá í Lúkasarguðspjalli 15. kafla, 11-32. versi. Doc, líkt og týndi sonurinn, hefur sóað féi sínu í fjarlægu landi og brennt brýr að baki sér. Hliðstæðan verður skýr þegar hann kemur til sjálfs sín um stund, eftir að hafa neyðst til að taka fram læknatöskuna að nýju til þess að fjarlægja byssukúlu úr ástkonu sinni, Chihuahua, sem hafði orðið fyrir skoti eins Clanton-bræðranna. Eftir aðgerðina verður hljóðlát umbreyting á persónu Docs. Til marks um það finnst bæjarbúum nú rétt að kalla hann Doctor í stað Doc. Við söguna um týnda soninn bætir John Ford tragískum eftirmála. Chihuahua deyr skömmu eftir aðgerðina og nýfengin mennska Docs með henni. Það verður til þess að hann ákveður að taka þátt í uppgjöri Wyatt Earps og Clanton-feðga við OK-réttina og lætur þar líf sitt. Umbreytingin á persónu Docs, sem jafnvel mætti kalla endurlausn, nær að ljá lífi hans gildi og gerir dauða hans því áhrifameiri fyrir þá sem eftir lifa.

Það væri verðugt rannsóknarefni að velta því fyrir sér afhverju goðsögnin um Wyatt Earp höfðar jafn sterkt og raun ber vitni til þjóðarsálarinnar bandarísku. Sennilega er það vegna þess að í henni er sterkt siðfræðilegt stef sem kristallast í átökum þeim sem áttu sér stað við mótun þjóðarinnar. Goðsögnin fjallar um hvernig villta vestrið var tamið. Í henni takast á frelsi óbyggðanna annars vegar og hins vegar viðleitni mannsins til þess að siðvæða umhverfi sitt. Þannig væri það mjög áhugavert að skoða goðsögnina um Wyatt Earp og þær kvikmyndir sem um hann hafa verið gerðar út frá hugmyndum um þjóðríkistrúarhugtakið (civil religion) í trúarlífsfélagsfræðinni. Hugtakið þjóðríkistrú í þessu samhengi er notað yfir sameiginlega söguskoðun eða jafnvel goðsögu sem þjóðir koma sér saman um, oft ómeðvitað, til þess að styrkja sameiginlega vitund.

En líkt og sögur Gamla testamentisins verða meira en saga þjóðar fyrir botni Miðjarðarhafsins fyrir óralöngu nær vestrinn My Darling Clementine að verða meira en tilbrigði við stef í goðsögu sem bandaríska þjóðin segir um tilurð sína. John Ford segir okkur sögu af Paradísarástandi í hinu dásamlega sköpunarverki Guðs í Monument Valley í Arizona þar sem myndin er tekin. Hann kynnir syndina til sögunnar og sýnir okkur hvernig hún tengist ekki góðri sköpun Guðs heldur manninum sjálfum og birtist síðan í því samfélagi sem hann mótar. Ford sýnir okkur hvernig hinn réttláti en reikandi Wyatt Earp neyðist til þess að taka afstöðu eftir að Clanton-feðgar drepa bróður hans. Þó það sem knýr hann til hefnda sé fyrst og fremst tilvistarlegs eðlis, hafa gjörðir hans jafnframt samfélagslegt markmið. Það kemur ágætlega fram í atriðinu við gröf bróðursins þegar Wyatt Earp segir: – „We’re gonna be around here for a while. Can’t tell, maybe when we leave this country, young kids like you will be able to grow up and live safe.“ Clementine verður táknmynd hins góða í syndabælinu Tombstone. Þegar Wyatt Earp dansar við hana í hálfbyggðri kirkju í miðri eyðimörkinni verður það fyrirheit um samfélag þar sem sakleysið og fegurðin eru ekki fótum troðin. Það verður þess virði fyrir synduga menn, líkt og Wyatt og Doc, að berjast fyrir betri heimi og gera hann lífvænlegri fyrir komandi kynslóðir.

Eins og áður er sagt er John Ford óhræddur við að draga fram með skýrum hætti þann sannleik sem að hans mati leynist í atburðum sem raunverulega áttu sér stað. Það er forvitnilegt að bera mynd hans saman við nýlega kvikmynd um sama efni, nefnilega Wyatt Earp eftir Lawrence Kasdan (1994). Kasdan kýs í takt við tíðarandann að hefja leitina að hinum sögulega Wyatt Earp. Hann eyðir 191 mínútu í að reyna að draga upp „trúverðuga“ mynd af Wyatt og samferðamönnum hans. Útkoman er hins vegar hrein hörmung. Í leitinni að hinum sögulega Wyatt Earp hittir kvikmyndagerðarmaðurinn nefnilega einungis fyrir sína eigin kynslóð. Wyatt verður í meðförum hans póst-módernískur eiginhagsmunaseggur og myndin hreinlega gufar upp í tilgangslausum hefndarmorðum og mannvonsku. Þetta vekur ýmsar spurningar. Ætli textafræðingar framtíðarinnar eigi eftir að taka meiri mark á útgáfu Lawrence Kasdans á ævi Wyatts Earps heldur en útgáfu Johns Fords? Vissulega er framvinda atburðanna sagnfræðilega nákvæmari í mynd Lawrence Kasdans. John Ford endurraðar t.d. atburðum án þess að hika. Hjá honum deyr Doc Holliday í skotbardaganum við OK-réttina, en ekki á berklahæli í Kaliforníu-fylki eins og hinn raunverulegi Doc. En getur verið að Ford nái betur en Kasdan að fanga einhvern mikilvægan sannleik sem fólst í þessum atburði? Er það kannski þess vegna sem mynd Lawrence Kasdans virkar á mann sem hallærislegt barn síns tíma einungis 10 árum eftir gerð hennar meðan mynd Johns Fords stenst fyllilega tímans tönn þrátt fyrir háan aldur? Sennilega er það framsetning Fords á hinni sígildu goðsögu sem snertir frekar við áhorfandanum en trúverðug (sic) framsetning Kasdans sem þegar er orðin gamaldags.

Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt 6:9-13, 1M 4-12
Hliðstæður við texta trúarrits: Lk 15:11-32 (Týndi sonurinn)
Guðfræðistef: endurlausn
Siðfræðistef: morð, hefnd
Trúarbrögð: kristni, þjóðríkistrú (civil religion)
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: messa