Leikstjórn: Tonino Valerii og Sergio Leone
Handrit: Ernasto Castaldi, Fulvio Morsella og Sergio Leone
Leikarar: Terence Hill, Henry Fonda, Jean Martin, Piero Lulli, Mario Brega, Leo Gordon, R.G. Armstrong, Neil Summers, Steve Kanaly, Geoffrey Lewis og Carla Mancini
Upprunaland: Ítalía, Frakkland og Þýzkaland
Ár: 1973
Hlutföll: www.imdb.com/Details?0070215
Einkunn: 2
Ágrip af söguþræði:
Stórskyttan Jack Beauregard þráir mest af öllu að setjast í helgan stein í Evrópu en ungur aðdáandi hans þvælist stöðugt fyrir honum og reynir að etja honum gegn flokki 150 byssumanna svo að hann komist á spjöld sögunnar í eitt skipti fyrir öll.
Almennt um myndina:
Enda þótt Tonino Valerii sé skráður fyrir leikstjórn spaghettí-vestrans My Name Is Nobody, átti Sergio Leone stóran þátt í gerð hans, ekki aðeins sem framleiðandi og einn af handritshöfundum, heldur fylgdist hann vandlega með öllu því sem Valerii gerði og leikstýrði jafnvel hluta myndarinnar sjálfur. Það er líka auðvelt að greina handbragð Leones í ýmsum hlutum myndarinnar, svo sem í byrjunaratriðinu í rakarastofunni, auk þess sem finna má ótal vísanir í kvikmyndir hans eins og For a Few Dollars More og Once Upon a Time in the West.
Engu að síður er My Name Is Nobody töluvert á skjön við fyrri myndir Leones, ekki síst vegna þess hversu mikil áhersla er lögð á ærslafengið skop í anda Trinity myndanna. Aðdáandinn ungi, sem kynnir sig alltaf sem ‚Enginn‘ (Nobody), er augljóslega Trinity sjálfur, enda leikur Terence Hill bæði hlutverkin eins og klæðist meira að segja sams konar fötum og Trinity.
Þegar Trinity myndirnar voru frumsýndar snemma á áttunda áratugnum, slógu þær aðsóknarmet bæði heima fyrir og um allan heim og teljast enn til söluhæstu mynda Ítala frá upphafi. Sergio Leone sveið undan vinsældum þessara mynda, enda var hann jafnan kallaður ókrýndur konungur spaghettí-vestranna, sem þær höfðu að háði og spotti. Þar sem Leone taldi sig geta gert jafn góða spaghettí-vestra gamanmyndir eins og Trinity myndirnar, fékk hann Terence Hill til liðs við sig og hóf undirbúning slíkrar myndar sjálfur. Það reyndist líka fjárhagslega skynsamlegt, enda náði My Name Is Nobody nánast sömu tekjum og vinsælasta Trinity myndin, Trinity Is Still My Name.
Skiptar skoðanir eru hins vegar um gæði kvikmyndarinnar. Steven Spielberg segir My Name Is Nobody vera uppáhalds spaghettí-vestrann sinn og kvikmyndagagnrýnandinn Leonard Maltin segir myndina stórlega vanmetna. Spaghettí-vestra sérfræðingurinn Christopher Frayling segir myndina hins vegar virka eins og annars flokks stæling á Leone-vestrunum og kvartar undan ómarkvissum stíl. Þannig sé sá hluti myndarinnar tiltölulega alvarlegur þar sem Henry Fonda kemur við sögu í hlutverki Jacks Beauragard en í hvert sinn sem Terence Hill birtist, umbreytist myndin í óheflaða gamanmynd. Undir það má taka, að helstu veikleikar myndarinnar séu ofleikur Hills og aragrúi fúlra brandara sem kryddað hafa átt hlutverk hans. Meira að segja titiltónlist Ennios Morricone er með því slakasta, sem frá honum hefur komið, þó svo að ýmsir hafi séð ástæðu til að hampa henni.
Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Sergio Leone sagði síðar að hugmyndin að kvikmyndinni væri komin úr grísku goðafræðinni, nánar til tekið úr Ódysseifskviðu Hómers þar sem kýklópinn Pólýfemus lokar Ódysseif inni í helli sínum til að eta hann. Ódysseifur reynir að tala Pólýfemus til og segist heita ‚Enginn‘, þ.e. orðrétt á ensku: „My name is nobody.“ Í spaghettí-vestranum byggir aðdáandinn ungi því að nokkru leyti á Ódysseifi en persóna Jacks Beauregard er sótt í Pólýfemus. Rétt eins og Pólýfemus er risi að vexti, er stórskyttan Beauregard risi vestursins sem allir óttast og líta upp til. Pólýfemus er ennfremur eineygður og missir að lokum sjónina en Beauregard er nærsýnn og neyðist til að bera æ sterkari gleraugu.
Aðalþema myndarinnar varðar þó tengsl spaghettí-vestranna við bandarísku vestrahefðina. Þannig er Jack Beauregard í raun holdgervingur bandarísku vestrahetjunnar, sem kominn er á leiðarenda í lok nítjándu aldarinnar og þráir það heitast að setjast í helgan stein. Henry Fonda lék ótal slíkar hetjur á blómaskeiði bandarísku vestranna og því er engin tilviljun að hann skuli hafa verið fenginn í hlutverk Beauregards. Terence Hill er hins vegar persónugervingur óheflaðrar spaghettí-vestrahetjunnar, sem lítur upp til fyrirmyndarinnar og reynir að umbreyta henni eftir eigin höfði. Að lokum viðurkennir Beauregard að aðdáandinn ungi sé ‚Einhver‘, en ekki fyrr en byssumennirnir 150 hafa verið lagðir að velli og aðdáandinn sviðsetur opinberlega dauða Beauregards í einvígi við sig. Beauregard getur því loksins haldið til Evrópu þar sem best er að vera!
Ýmsar biblíuvísanir má finna í kvikmyndinni, einkum þó í orðum Terence Hill, sem vitnar t.d. orðrétt í Matt. 26:41 og Mark. 14:38 þar sem segir: „Andinn er reiðubúinn, en holdið veikt.“ Sömuleiðis segir hann við einn byssumanninn, að allir, sem bregði sverði, muni fá högg á höfuðið. Það orðfæri minnir nokkuð á það sem Jesús Kristur sagði við lærisveina sína: „Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matt. 26:52.) Við annað tækifæri segir Hill svo þá blessaða, sem beri byrðar náunga sinna, en það er í anda þess sem Páll postuli sagði: „Berið hvers annars byrðar …“ (Gal. 6:2.)
Beinar tilvísanir í texta trúarrits: Mt. 26:41; Mk 14:38
Hliðstæður við texta trúarrits: Mt 26:52; Gl 6:2; Ódysseifskviða Hómers
Siðfræðistef: manndráp, hetjudýrkun, kynþáttahatur
Trúarbrögð: grísk goðafræði
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: kirkja
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn