Kvikmyndir

My Summer of Love

Leikstjórn: Pawel Pawlikowski
Handrit: Pawel Pawlikowski, byggt á skáldsögu eftir Helen Cross
Leikarar: Nathalie Press, Emily Blunt, Paddy Considine, Dean Andrews, Michelle Byrne, Paul Antony-Barber, Lynette Edwards og Kathryn Sumner
Upprunaland: Bretland
Ár: 2004
Lengd: 86mín.
Hlutföll: Sennilega um 1.85:1
Einkunn: 3

Ágrip af söguþræði:
Tvær ungar stúlkur, Mona og Tasmin, hittast að sumarlagi og takast með þeim náin kynni. Mona er lágstéttarstúlka sem býr með bróður sínum, faðirinn er fyrir löngu horfinn og móðirin látin. Tasmin er hins vegar yfirstéttarstúlka sem þarf lítið að hafa fyrir lífinu. Þær bralla mikið saman þetta sumar, prófa sig áfram í ástarmálum, prakkarast og njóta lífsins. En ekki er allt sem sýnist.

Almennt um myndina:
My Summer of Love er önnur kvikmynd pólska leikstjórans Pawels Pawlikowskis í fullri lengd, en áður hafði hann gert kvikmyndina Last Resort (2000). Þeirri mynd var víðast hvar vel tekið og var hún sýnd á fjölda kvikmyndahátíða þar sem leikstjórinn hlaut m.a. BAFTA verðlaun sem besti nýgræðingurinn árið 2001. Nýjasta kvikmynd hans hefur jafnframt fengið góðar viðtökur og honum féllu m.a. í skaut verðlaunin fyrir bestu bresku kvikmyndina á BAFTA hátíðinni árið 2005.

Myndin er prýðilega gerð, en sérstaklega má nefna þar kvikmyndatökuna í því sambandi. Þá standa aðalleikkonurnar sig nokkuð vel, en þær eru báðar tiltölulega óreyndar í kvikmyndaleik og þetta mun vera fyrsta kvikmyndin í fullri lengd sem þær hafa leikið í. Óhætt er að segja að þær Emily Blunt og Nathalie Press smellpassi í hlutverk þeirra Monu og Tasmin.

Greining á trúar- og siðferðisstefjum:
Hvað varðar trúar- og siðfræðistefin í myndinni þá má nefna nokkur atriði:1. Afstaðan til trúarbragðaStaða trúarbragða og afstaðan til þeirra er kannski fyrsta trúarstefið sem vert er að staldra við. Snemma í myndinni er vitnað til Nietzsche sem talaði um dauða Guðs. Leikstjórinn staðfesti þetta í samtali eftir myndina, en sagði það kannski helst eiga við um samfélagið sem myndin er gerð í, taldi það ekki vera almenn sannindi. Þetta virðist vera raunin í myndinni, en Phil bróðir Monu frelsast í fangelsi og er nú genginn í kristinn sértrúarhóp. Í myndinni er gert góðlátlegt grín að hópnum og báðar stúlkurnar eru mjög gagnrýnar á trúna. Þetta virtist líka virka þannig áhorfendur sem aðallega hlógu í atriðum sem snertu þennan trúarhóp.

Þeir trúuðu einstaklingar sem koma fram í myndinni tilheyra allir þessum sértrúarsöfnuði og virðast vera mjög heittrúað fólk.

Eins og áður sagði tekur bróðir Monu trú í fangelsi, en sú trú er frekar grunnhyggin, hann virðist hafa fengið köllun til þess að umbylta lífi sínu og hann verður mjög ákafur í boðskapnum. Í upphafi myndarinnar sést hann hella öllu víninu á barnum (þar sem þau Mona búa) í vaskinn. Nú skal húsinu breytt úr syndabæli í helgan stað. Barinn skal verða að musteri!

Þessi umbreyting virðist þó ekki rista djúpt. Undir lok myndarinnar ræðst hann að Tasmin eftir að hún hefur gert grín að trú hans og hann nemur systur sína á brott og læsir hana inni í herbergi. Þegar hún hefur ögrað honum slær hann hana og sparkar í hana liggjandi og gengur þessu næst af trúnni. Hann rekur trúbræður sína út.2. Krossinn sem trúartáknKrossinn er áberandi trúartákn í myndinni. Phil, bróðir Monu, tekur sér það fyrir hendur að smíða stóran kross sem skal reisa á hæð fyrir ofan bæinn. Tilgangurinn er að minna á Guð og trúna og lýsa yfir baráttu gegn djöflinum og öllu hans hyski, þ.e. að ná dalnum aftur á vald Guðs. Í eftirminnilegu atriði ber söfnuðurinn krossinn upp á hæðina, reisir hann og hefur helgistund. Þar biður Phil m.a. fyrir systur sinni, að hún sjái réttan veg.3. Nietzche og ofurmenniðSkömmu eftir að þær Mona og Tasmin hittast í fyrsta skipti spyr sú síðar nefnda hvort Mona þekki til þýska heimspekingsins Friedrichs Nietzsches. Það gerir hún ekki og Tasmin uppfræðir hana þá stuttlega um tvennt sem snertir hann. Annars vegar að hann hafi haldið því fram að Guð væri dauður, sem fellur vel í kramið hjá Monu sem er ósátt við að hafa misst bróður sinn í trúarlegan vitleysisgang. Hitt er hugmynd Nietzsches um ofurmennið. Sá grunur læðist að manni við áhorfið að mögulegt sé að skoða persónu Tasmin út frá þessu síðarnefnda atriði.

Hún virkar í raun sem frekar siðlaus manneskja, en gerir um leið ríkar siðferðiskröfur til annarra. Einmitt þannig hafði hún lýst ofurmenni Nietzsches. Leikstjórinn staðfesti það í samtali eftir myndina að það mætti sjá ákveðna samsvörun milli þessarar vísunar í Nietzsche og stúlkunnar enda þótt myndin sé ekki endilega hugsuð sem túlkun eða útfærsla á hugmyndinni sem slíkri. Kannski sé þetta allt eins dæmi um texta eða hugmyndir sem höfði til ungs fólks á ákveðnum aldri.4. BæninSértrúarhópurinn sem Phil tilheyrir leggur mikið upp úr bæninni og áhrifamætti hennar. Meðlimirnir biðja jafnan hátt og snjallt og lengi. Eins og áður hefur komið fram biðja þeir m.a. fyrir Monu, að hún sjái að sér. Þeirri bæn er ekki svarað með þeim hætti sem vænst hafði verið og stúlkan sýnir engin merki. Þá glata þeir að lokum Phil frá sér. Þannig virðast viðhorfið til bænarinnar almennt vera neikvætt þegar upp er staðið.5. SiðferðisstefEitt helsta siðferðisstef myndarinnar varðar framhjáhald, a.m.k. í tveimur tilvikum. Annars vegar grunar Tasmin föður sinn um að eiga í ástarsambandi við ritara sinn og tekur hún það mjög nærri sér. Hins vegar hefur Mona átt í sambandi við kvæntan mann, en því er slitið snemma í myndinni.

Ofbeldi er annað áberandi siðferðisstef. Phil, bróðir Monu, á að baki ofbeldisferil og grípur hann til þess nokkrum sinnum í myndinni, þegar vegið hefur verið að trú hans og gengið er of nærri honum. Þetta leiðir á endanum til þess að hann hafnar trúnni í lífi sínu. Þá má segja að bæði Mona og Tasmin beiti aðra andlegu ofbeldi, þær reyna t.d. að ljúga því upp á fyrrum elskhuga Monu að hann hafi nauðgað henni. Jafnframt spinnur Tasmin ljótan blekkingarvef gagnvart Monu. Á endanum leiðir þetta til þess að það slitnar upp úr sambandi stúlknanna. Í mögnuðu atriði undir lok myndarinnar svarar Mona fyrir sig með því að ráðast á Tasmin og halda henni undir vatnsyfirborði um stund, kannski ekki til að drekka henni heldur til að kenna henni lexíu: Maður fer ekki svona með annað fólk. Myndin endar á jákvæðum nótum, Mona gengur ein út í sumardaginn, allt er opið og framtíðin þarf ekki að vera svo svört.

Persónur úr trúarritum: Jesús Kristur, djöfullinn
Guðfræðistef: endurlausn, efi, sértrúarsafnaðarhyggja, bæn, andsetning
Siðfræðistef: framhjáhald, ofbeldi, sjálfsvíg, lygi, lystarstol, þjófnaður, nauðgun
Trúarbrögð: kristindómur
Trúarlegir og goðsögulegir staðir: safnaðarheimili, musteri
Trúarleg tákn: kross
Trúarlegt atferli og siðir: bæn, tungutal, andaglas
Trúarleg reynsla: andsetning